Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Háskóli Íslands í Eyjum
Stofnun útibús Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum er stórkostlegur áfangi fyrir okkur í því marmiði að styrkja stöðu Vestmannaeyja og sjávarútvegsins í framtíðinni. Það kostaði snörp átök á Alþingi að ná okkar marki, en málið komst í höfn og samstarfsamningur Vestmannaeyjabæjar og Háskóla Íslands, sem Guðjón Hjörleifsson bæjarstjóri og Sveinbjörn Björnsson háskólarektor skrifuðu undir, er kominn í gang, en formaður háskólaráðsins í Eyjum er prófessor Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstöðumaður Raunvísindastofnunar Háskólans.
Aðilar samstarfsverkefnisins hafa fest kaup á efri hæðum Hvítahússins og þar verða undir sama þaki og í samnýtingu Háskóla Íslands, Hafró og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Sérstakur starfsmaður Háskóla Íslands verður ráðinn að Háskólans munu sinna þar rannsóknum og námskeiðum, m.a. líffræðideild, verkfræðideild, félagsfræðideild, viðskipta- og hagfræðideild og Náttúrugripasafn Vestmannaeyja er einnig hluti af dæminu, enda verður staða fiskifræðiprófessors við Háskólann tengd Náttúrugripasafninu og Háskólanum í Eyjum.
Þá verður einnig sérstök deild við stofnunina er lýtur að öryggismálum sjómanna og þannig mætti lengi telja, því að ótal verkefni eru framundan með mögulegri tengingu við Framhaldsskólann og Stýrimannaskólann, margs konar rannsóknarverkefni, stór og smá. Að tilhlutan sjávarútvegsráðherra hefur verið keyptur bátur sem samstarfsverkefnið hefur aðgang að.
M.a. er ákveðið að árlega verði í Eyjum ráðstefna alþjóðlegra vísindamanna um sjávarútveg og fiskveiðar og árlegur sjávarútvegsdagur með kynningu á helstu nýjungum eða markverðum þáttum í sjávarútvegi og þannig mætti lengi telja því það er mikill hugur í mönnum að nýta það tækifæri sem gefst með beinu samstarfi og virkjun Háskóla Íslands á sviði sjávarútvegs.
Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands hefur umsjón með starfinu í Vestmannaeyjum.
Á. J.