Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. febrúar 2017 kl. 12:43 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. febrúar 2017 kl. 12:43 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
MINNING LÁTINNA



Andrés Hannesson
F. 1. júní 1924 - D. 20. október 2003
Andrés Hannesson, fæddur í Eyvakoti á Eyrarbakka 1. júní 1924, dáinn 20. október 2003 Foreldrar: Jóhanna Bernharðsdóttir, fædd að Keldnakoti í Stokkseyrarhreppi l.október 1896, dáin 27. september 1970 og Hannes Andrésson, fæddur á Skúmsstöðum á Eyrarbakka 22. september 1892, dáinn 1. mars 1972. Þau voru gefin saman af séra Gísla Skúlasyni hinn 1. nóvember 1919. Systkini Andrésar eru: Gunnlaug f. 17.9.1920, Guðrún Fanney f. 2. 3. 1922, Bernharður f. 6. 11. 1925, Jórunn Ásta f. 3. 4. 1928, Hannes f. 5. 11. 1930, Haraldur Ármann f. 1.1 1932, Svanlaug f. 20.4. 1933, d. 31.1 2003, og Garðar f. 18.2. 1935.
Andrés hóf sjómennsku 14 ára frá Þorlákshöfn. Fór á vetrarvertíð til Vestmannaeyja 1942 og ílentist þar. Kvæntist Guðleifu Vigfúsdóttur frá Holti í Vestmannaeyjum 31. 12. 1947 en höfðu búið hjá Valgerði móður hennar frá vordögum 1944. Þau byggðu sér myndarlegt hús að Birkihlíð 3 í Eyjum og fluttu í það fyrir jólin 1947 og áttu heima þar til 1965 að þau flytja til Reykjavíkur. Synir þeirra eru: Vigfús Valur f. 20.2 1945 og Hannes f. 29. 11. 1946. Hannes fórst með vélbátnum Þráni 5. 11. 1968. Börn Vigfúsar Vals eru: Andrea Heidi, Hanna og Magnús Helgi. Andrés undi sér ekki í höfuðborgarglaumnum og byggðu þau sér einbýlishús að Setbergi 15 í Þorlákshöfn sem þau fluttu í 1971 og þar bjó hann til dauðadags. Meðan þau áttu heima í Reykjavík stundaði Andrés sjóinn frá Þorlákshöfn og eftir það. Hann hafði öðlast vélstjórnarréttindi árið 1945 og tók síðar svokallað pungapróf skipstjórnarmanna. Hann var einstakt snyrtimenni. Vélarrúmin hans þóttu bera af fyrir snyrtimennsku eins og annað sem hann kom nálægt. Í Eyjum var hann vélstjóri lengst af hjá góðum, aflasælum skipstjórum. Árið 1955 lét hann smíða fyrir sig, á Siglufirði, 6 tonna trillu. sem hét Valur VE 279, eins og aðrir bátar hans sem á eftir komu en þeir urðu 4. Á langri viðburðaríkri sjómannsævi lenti hann tvisvar í þeirri miklu lífsreynslu að bátar, sem hann var á, sukku skyndilega. Annar, Valur 29 tonn, var keyrður niður 10. mars 1965. Var það síðast báturinn hans. Hinn var Gautur AR í ágúst 1977. Mannbjörg varð í báðum þessum sjósköðum. Andrés var mjög aflasæll formaður þó vetrarvertíðin 1958 standi þar upp úr en þá fiskaði hann 699 tonn af slægðum fiski á 15 tonna bát og það á handfæri. Þegar hann kom í land eftir 46 ára sjómennsku, gerðist hann hafnarvörður og starfsmaður á hafnarvoginni í Landshöfninni í Þorlákshöfn og vann við það til loka starfsævinnar. Andrés var sæmdur heiðursmerki Sjómanna-agsráðs Þorlákshafnar á sjómannadaginn 1989.

Haraldur Hannesson.


Bergur Elías Guðjónsson, útgerðarmaður
F. 10. júní 1913 - D. 7. júní 2003.
Elli Bergur, eins og hann var alltaf kallaður, lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 7. júní 2003 en hann fæddist í Vestmannaeyjum 10. júní 1913.
Foreldrar Ella voru Margrét Símonardóttir, f. 1891 d. 1920 og Guðjón P. Valdason, f. 1893 d. 1989. Seinni kona Guðjóns og fóstra Ella var Guðbjörg Þorsteinsdóttir, f. 1895 d. 1991. Alsystur hans voru Ragnhildur og Klara sem báðar eru látnar. Hálfsystkini hans eru Þorsteinn og Bergrós sem létust ung og Marteinn og Ósk sem lifa bróður sinn. Elli kvæntist 15. maí 1937 Guðrúnu Ágústsdóttur frá Hróarsholti í Flóa, f. 29.01.1916. Börn þeirra eru: 1. Ágúst f. 19.09.1937, kvæntur Stefaníu Guðmundsdóttur, f. 16.01.1941. Börn þeirra eru Bergur Elías og Sigurbjörg. 2. Margrét Klara, f. 13.08.1941, gift Birgi Símonarsyni, f. 16.09.1940 og þeirra börn eru Elva Björk. Jóhanna og Rúnar Þór. 3. Kristín, f. 08.12.1945, gift Kristmanni Karlssyni f. 06.06.1945 og heita börn þeirra Guðrún, Betsý og Elísa.
Elli Bergur hóf ungur sjómennsku með föður sínum á Skíðblani en vegna sjóveiki fór hann fljótt í land. Þegar Guðjón varð skipstjóri á Kap VE 272 hjá Kjartani Guðmundssyni útgerðarmanni og ljósmyndara, sá Elli Bergur um útgerðina. Aflinn var unninn í salt í Geirseyri sem Kjartan átti. Ásamt þeirri vinnu sá Elli Bergur um öll veiðarfæri og beitningu á línuvertíðinni. Árið 1951 keyptu þeir feðgar, Guðjón og Elli Bergur ásamt Magnúsi Bergssyni, bát og hús og Elli Bergur hélt áfram að sjá um verkun aflans og veiðarfærin. Árið 1955 fengu þeir félagar nýsmíðaða Kap VE 272, 52 tonn, frá Danmörku og sú gamla var seld. Þessa nýju Kap áttu þeir í 10 ár. Árið 1964 keyptu þeir 100 tonna stálbát, Halkion, sem fékk nafnið Kap II VE 4 og áttu hana til 1971. Þá hættu þeir feðgarnir útgerð nema óbeint í gegnum Ísfélagið. Eftir að Guðjón hætti skipstjórn 1961, tók Ágúst, sonur Ella Bergs, við af afa sínum og var hjá þeim þar til þeir hættu. Magnús Bergsson var einnig útgerðarmaður Bergs VE 44 ásamt Kristni Pálssyni skipstjóra, tengdasyni sínum. Saman byggðu þessar útgerðir nýja Geirseyri ofan við Básaskersbryggjuna, stórt og myndarlegt hús. Í nokkur ár sameinaðist útgerð þeirra félaga útgerð Tómasar Guðjónssonar í Höfn um verkun afla báta þeirra og var Elli Bergur verkstjórinn. Þegar nokkrar útgerðir, m.a. þessar tvær, eignuðust Ísfélagið árið 1957, varð Elli Bergur verkstjóri þar í saltfiskinum og hætti ekki fyrr en hann varð 76 ára.
Kynni mín af honum voru fyrst er ég, strákur, kom reglulega með föður mínum niður á Gömlu-Geirseyri þar sem Elli var við afskurð neta. Hann sá um afskurð af Kap og Berg á þessum árum ásamt því að beita og hafa eftirlit með beitningunni. Þar var fróðlegt spjall um sjóinn og einnig spurði hann frétta: „Hvernig gengur í Reykjavíkinni, heldur þú að þetta nám gagnist þér við að færa bókhaldið fyrir Kap Ve.“ Hjá honum var alltaf stutt í gamansemina og stríðnina og alltaf var talað tæpitungulaust um hlutina. Sem hluthafi í Ísfélaginu var hann alltaf útgerðarmaður. Elli var elsti hluthafi Ísfélagsins þegar hann lést en hann kom inn sem hluthafi og útgerðarmaður á Kap Ve auk þess sem hann var starfsmaður Ísfélagsins um árabil. Elli var mikil Ísfélagsmaður og fylgdist vel með því sem var að gerast í Ísfélaginu.
Elli Bergur var maður sem setti svip sinn á samfélagið og er sárt saknað.
Fjölskyldu Ella Bergs votta ég samúð við fráfall mikils sómamanns og vinar.

Magnús Kristinsson


Garðar Sigurðsson
F. 20. nóv. 1933 - D. 19. mars 2004.
Garðar Sigurðsson, stýrimaður, síðar alþingismaður, var fæddur í Reykjavík 20. nóv. 1933. Foreldrar hans voru Klara Tryggvadóttir og eiginmaður hennar, Sigurður Hjálmarsson bifreiðasmiður. Garðar fluttist barn að aldri með móður sinni til Vestmannaeyja og ólst upp með henni og síðari manni hennar, Hallgrími Júlíussyni skipstjóra, sem hann leit á og taldi föður sinn. Hallgrímur, sem var ættaður úr Bolungarvík, fórst í Helgaslysinu við Faxasker í ársbyrjun 1950 og má nærri geta hvílíkt áfall sá hörmulegi atburður hefur verið Garðari sem þá var uppi á landi fyrsta vetur sinn í menntaskóla.
Garðari gekk vel við nám, var bráðskarpur og duglegur eins og fleiri systkini hans. Hann fór fyrst með félaga sínum og jafnaldra, Eyjólfi Pálssyni, í menntaskólann á Laugarvatni, en lauk stúdentsprófí frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953. Hann innritaðist í verkfræði í Háskóla Íslands, en hætti eftir tvö ár, þá orðinn fjölskyldumaður. Fjárhagurinn var þröngur og Garðar fór til sjós. Hann kenndi svo við Gagnfræðaskólann á Neskaupstað 1957-1960 og eftir það við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1961-1962 og 1963-1971. Hann var settur skólastjóri hans veturinn 1969-1970 í leyfi Eyjólfs Pálssonar.
Garðar var ungur þegar hann fór fyrst til sjós. Það var á Helga með Hallgrími, sumarúthald og hann 14 eða 15 ára. Hann var öll sumur, meðan hann var í skóla, á sjó. Á Guðrúnu var hann 1950 með Óskari Eyjólfssyni sem sagði um Garðar að hann hefði verið „frískur og duglegur“. Tvö sumur var hann með Sigurbirni Sigfinnssyni („Bubba“, föðurbróður Bergþóru), 1951 á Veigu og 1952 á Hugrúnu. Hann var svo tvær vertíðir í Eyjum, 1961 og 1963, m.a. með Helga Bergvinssyni á Stíganda, og á ýmsum bátum yfir sumar eða í afleysingum, t.d. með Þórði Rafn á Jóni Stefánssyni, á Frá með Oskari Þórarinssyni, á Gullbergi með Guðjóni Pálssyni, Mars með Grétari Skaftasyni, Hringver og Kóp, Ófeigi, Vestmannaey o.fl. Meðan hann var í háskólanum fór hann í leyfum túra á togurum, m.a. oft á Karlsefni með Halldóri Ingimarssyni, líka á Keflvíkingi með Ásmundi Friðrikssyni. Öllum ber saman um að Garðar hafi verið harðduglegur sjómaður og góður vinnufélagi; vildi helst aldrei tala um pólitík úti á sjó! Ef stund var milli stríða þá spilaði hann (bridge) eða tefldi skák, stundum blindskák.
Garðar lauk stýrimannaprófi utan skóla í Reykjavík árið 1962 og var eftir það jafnan stýrimaður á þeim bátum sem hann var á.
Garðar varð ungur róttækur í skoðunum, harður sósíalisti. Hann hafði þó ekki bein afskipti af stjórnmálum fyrr en hann var kjörinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja árið 1966 fyrir Alþýðubandalagið með Sigurði Stefánssyni þegar meiri hluti sjálfstæðismanna féll eftir langt stjórnartímabil. Eftir fráfall Sigurðar árið eftir varð Garðar forustumaður Alþýðubandalagsins. Hann gat jafnan treyst á fylgi margra sjómanna og æskufólks sem hann hafði kennt, auk annarra sem að jafnaði studdu flokkinn. Þeim gekk vel, Garðari og Hafsteini Stefánssyni, í bæjarstjórnarkosningunum 1970 og urðu stærsti flokkurinn í meirihlutasamstarfi vinstri manna, en 1974 var hann á sameiginlegum lista með framsóknarmönnum; gekk þá verr og meirihlutasamstarfið slitnaði eftir árið.Mjög dró þá úr afskiptum Garðars af bæjarmálum á vettvangi bæjarstjórnar en hann sótti þó einstaka fundi eftir því sem við var komið út kjörtímabilið, til 1978. Alls sat hann 72 bæjarstjórnarfundi, og á árunum 1968-1978 sat hann 124 bæjarráðsfundi.
Við alþingiskosningarnar í júní 1971 var Garðar í 1. sæti á lista Alþýðubandalagsins í Suðurlandskjördæmi og hlaut glæsilega kosningu þótt fyrri forustumaður Alþýðubandalagsins til margra ára, Karl Guðjónsson, væri í framboði fyrir Alþýðuflokkinn í þessum kosningum. Garðar sat samfellt á þingi 1971-1987. Hann naut álits á Alþingi fyrir þekkingu sína og reynslu af sjávarútvegsmálum og lét sig þau mestu skipta á þingi. Hann þótti öflugur talsmaður síns flokks en var þó sjálfstæður í málflutningi, snjall ræðumaður, og orðheppinn.
Erfiðasta viðfangsefni Garðars, meðan hann var alþingismaður og bæjarfulltrúi, hefur efalaust verði eldgosið 1973 og afleiðingar þess. Hann sat í fyrstu stjórn Viðlagasjóðs sem átti að bæta það tjón sem varð á eignum Vestmanneyinga og til að hefja uppbyggingu að nýju. Margt varð líka mótdrægt, átök innan flokks hans, bæði á þingi og í kjördæminu, erfiðleikar Útvegsbankans þar sem hann var í bankaráði og svo þrálát veikindi hans sjálfs í baki. Allt stuðlaði þetta að því að hann hætti þingmennsku 1987. Hann fór þá á ný á sjó, var hjá veiðieftirliti sjávarútvegsráðuneytisins, en fór í land eftir þrjú ár og varð síðar starfsmaður Landsbanka Íslands, við birgðaeftirlit. Þar vann hann þar til hann lét af störfum sökum heilsubrests, aðeins sextugur að aldri. Sjúkdómur hans var sérstaklega þungbær, lamaði hægt og sígandi líkamlega og sálarlega krafta hans uns hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 19. mars sl.
Garðar eignaðist tvö börn með fyrri konu sinni. Um 1960 kynntist hann Bergþóru Óskarsdóttur á Neskaupstað. Þau giftu sig 1962 og eignuðust fjórar dætur. Bergþóra á ættir að rekja til Eyja. Faðir hennar var Óskar Sigfinnsson, harðduglegur, heppinn og fiskinn sjómaður, en hann var fæddur í Eyjum, sonur Júlíu í Dvergasteini og fyrri manns hennar sem fórst ungur með mótorbátnum Víkingi. Óskar fór þá austur á land í fóstur. Garðar og Bergþóra bjuggu í Eyjum þangað til hann var kjörinn á þing, fyrst á Faxastíg 33, í sambýli við móður hans, en þau byggðu sér svo hús við Hrauntún 3 sem Garðar teiknaði sjálfur. Bergþóra reyndist Garðari frábærlega vel í langvinnum veikindum hans síðustu ár.
Það var alltaf líf og fjör í kringum Garðar Sigurðsson meðan hann hélt heilsu. Hann var spaugsamur, mikil eftirherma og æringi. Hann gat verið nokkuð óvæginn við pólitíska andstæðinga sína í ræðu og riti en þeim ber saman um að hann hafi verið drengur góður þegar á reyndi, réttsýnn og heiðarlegur.
Við, sem yngri erum, munum Garðar fyrst og fremst sem kennara, góðan kennara, hressilegan og skemmtilegan, hjálpsaman, en hann var ekkert að vanda okkur kveðjurnar þegar þurfti að siða okkur til. Við bárum mikla virðingu fyrir honum, gáfum hans, snerpu og víðtækum fróðleik. Hann var glæsilegur á velli, friður og hraustur, a.m.k. var hann hraustlegur að sjá. Við tókum marga snerruna í tímum um heimsmálin og mál heimabyggðarinnar. Ekki var skafið utan af hlutunum en allt var það í góðu og er ákaflega skemmtilegt í minningunni.

Helgi Bernódusson.


Hannes Tómasson
F. 17. júní 1913 - D. 14. október 2003
Hannes Guðjón Tómasson fæddist á Miðhúsum í Vestmannaeyjum 17. júní 1913 en var ætíð kenndur við Höfn. Hann lést á Elliheimilinu Grund 14. október 2003. Foreldrar hans voru Tómas Maríus Guðjónsson f. 13. 1. 1887, d. 14.6. 1958, útgerðarmaður, og kona hans Hjörtrós Hannesdóttir frá Miðhúsum f. 20.2. 1888, d. 26.3 1926. Seinni kona Tómasar var Sigríður Magnúsdóttir f. 4. 10. 1899, d. 18.9. 1968. Albræður Hannesar eru Martin f. 17. 6. 1915, d. 1. 1. 1976 og Jóhannes f. 13. 3. 1921. Hálfsystkini Hannesar eru Guðjón f. 29. 9. 1925, d. 2. 12. 1977, Magnea Rósa, f. 20. 9. 1928, Gerður Erla f. 21. 2. 1933 og Bragi f. 4. 3. 1939, d. 2. 8. 2002.
H. 31. ágúst 1944 kvæntist Hannes Kristínu Jónsdóttur f. 3. apríl. 1919, frá Hraungerði á Hellissandi. Hún lést á Landspítalanum víð Hringbraut 14. júni 2002. Foreldrar hennar voru Jón Valdimar Jóhannesson sjómaður f. 21.9. 1873, d. 15.6. 1959 og Hildur Sigurðardóttir f. 14. 4. 1895, d. 24. 2. 1962, bæði frá Hellissandi. Hannes og Kristín eignuðust 2 syni 1) Sverrir skipstjóri f. 13. 8. 1944, starfar nú sem flutningastjóri hjá Samskipum, kvæntur Helgu Vallý Björgvinsdóttur f. 20. 9. 1945 og eiga þau 2 börn, Hannes verkfræðing og Sigurlaugu flugfreyju, maki hennar er Halldór Hafsteinsson viðskiptafræðingur, 2) Tómas vinnur hjá Þrótti.
Sjómennskan var Hannesi í blóð borin, móðurafi hans var Hannes lóðs í Vestmannaeyjum. Var Hannes fyrst í siglingum á norsku skipi, Bisp, frá Haugasundi í 3 ár, þar til síðari heimstyrjöldin braust út. Þá fór hann í Stýrimannaskólann í Reykjavík. Að því loknu varð hann stýrimaður á Kötlu. Einnig leysti hann af á Sæfellinu í Vestmannaeyjum og á Vatnajökli. Lengst af starfaði Hannes sem stýrimaður og síðar skipstjóri á skipum Sambandsins. Árið 1962 kom Hannes í land og fór að vinna hjá Skeljungi við að lesta og losa olíuskip. Vann hann þar síðan við hin ýmsu störf .þar til hann hætti árið 1999, 86 ára.
Þetta allt varstu vinur búinn að afreka þegar okkar kynni hófust. Langar mig að bæta fáeinum línum við þennan formála Hannes minn. Hér kveð ég kæran vin til margra ára. Það var kvöld, síminn hringdi, Eddi Malla var á línunni og tilkynnti að Hannes vinur minn hefði fengið heilablóðfall þá um daginn og útlitið ekki gott. Tveimur tímum síðar var hringt, það var Eddi að tilkynna mér lát vinar míns. Þarna var mínum rétt lýst. Málið klárað. Það var nú svo, að ég beið eftir símtali þetta kvöld. Beið eftir andlátsfregn af föður mínum blessuðum, sem kom klukkan 4 um nóttina. Það að þú hefðir kvatt var einhvern veginn ekki inni í myndinni. Talaði við þig nokkrum dögum áður og þú varst hress og ánægður með Eyjaferðina. Talað var um að hittast um næstu mánaðamót. Ég yrði þá á ferðinni og þú hafðir orð á því að það væri enn til wisky frá níræðisafmælinu. Því miður verður ekki af þessu spjalli, það bíður betri tíma. Við hittumst fyrst á aðalfundi Ísfélags Vestmannaeyja, þú hluthafi, ég skipstjóri á Bergey, árið 1984. Boðið var upp á mat og drykk, og lentum við hvor á móti öðrum við langborð. Fjörið var svo mikið hjá okkur að hinn endinn var allur kominn á okkar enda eins og þú orðaðir það. Þá ákváðum við að þú kæmir með okkur í næstu veiðiferð og þa hófst vinátta sem stóð fram á síðasta dag. Það leið ekki vika án þess að við töluðum saman í síma og oftar en ekki þrisvar til fjórum sinnum sömu vikuna. Þú þurftir að fylgjast með öllu og vita gang mála. Hvar við værum og hvort einhver afli væri. Eg skráði þig fyrst á sjó hjá mér í júní 1984 og síðan á hverju ári eftir það, fyrst á Bergey, síðan Jón Vídalín til 2001. Það ár komst þú tvisvar, í júní og ágúst 88 ára gamall. Það slær enginn út. Það var líf og fjör þegar þú mættir. Aldrei nein lognmolla. Það var spilað og sagðar sögur úr siglingunum. Stundum kom sérstakt bros og þá grunaði menn að farið væri að krydda en allt var það í léttum húmor, sem fylgdi þér alltaf. Lífsgleðin skein af þér. Það var aldrei neitt vol. Lífið var til þess að lifa því sagðir þú.
Já, Hannes minn, þær voru skemmtilegar veiðiferðirnar og margs að minnast og af mörgu að taka ef tína ætti til. T.d. þegar við á Bergey vorum á Reykjanesgrunni og síminn hringdi. Þú svaraðir, spurt var eftir mér, þú sagðir að ég væri upptekinn við að veiða lax, og það sem var verra, vélstjórinn væri frammi á bakka að skjóta rjúpur. Þá var hlegið.
Það var Hannesi mikið áfall þegar Kristín kona hans, lést skyndilega fyrir rúmu ári og hélt ég um tíma að Hannes myndi ekki ná sér á strik aftur en svo fór nú samt. Þegar hann komst á Elliheimilið Grund voru honum allir vegir færir. „Eins og 5 stjörnu hótel“, sagði vinurinn sáttur við sig.
Ég og hún Kolla mín þökkum þér vinur, samveruna, símtölin sem voru ófá þessi ár. Eg veit að þér hefur verið vel tekið við hliðið og ég tel víst að þú hafir skotið einhverju að Lykla-Pétri ef ég þekki þig rétt en frétti af því seinna.
Kæri vinur, Guð geymi þig, og hafðu þökk fyrir allt.

Sverrir og Kolla.


Ágúst Ólafson frá Gíslholti
F. 1. ágúst 1927 - D. 29. júlí 2003
Ágúst Ólafson fæddist l. ágúst 1927. Hann lést þann 29. júlí sl. á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.
Gústi var sonur þeirra hjóna Ólafs Vigfússonar og Kristínar Jónsdóttur frá Gíslholti. Systkini hans voru Vigfús (látinn), Kristný, Jóna (látin), Sigríður og Guðjón. Einnig ólst upp með honum sonur Jónu, Jón Olafur.
Eftirlifandi eiginkona hans er Nanna Guðjónsdóttir. Börn þeirra eru Jóhann Grétar, Jóna Kristín, Ágústa Salbjörg, Jenný, Ólafur Gísli, og Jón Eysteinn. Eignuðust þau alls 17 barnabörn og 7 barnabarnabörn.
Gústi stundaði sjóinn sem ungur maður. Hann byrjaði að beita á Skúla Fógeta VE 16 ára gamall, réri síðan vetrarvertíðina á Skúla með pabba sínum Óla Fúsa frá Gíslholti og síðan með Markúsi á Ármóti á sama báti. Einnig var hann á Hilmi VE með Eyva á Bessa og síðar á Eyjaberginu með Jóni Guðjónssyni þar sem hann var annar vélstjóri . Var á þeim árum oft fiskað í og siglt til Englands eða Þýskalands. Í einni siglingunni varð Gústi fyrir því óláni að falla af bryggjunni niður á dekk og slasaðist hann töluvert, braut á sér hnéskelina á öðrum fæti og átti hann í þeim meiðslum nánast það sem eftir var.
Varð Gústi eftir þetta að hætta til sjós og snéri sér að smíðavinnu í landi. Lærði hann húsasmíði og vann við uppbyggingu margra húsa hér í bænum. Gústi var liðtækur smiður. Ég man eftir því þegar við strákarnir fórum á Austurveginn að hitta Gústa til að biðja hann um að smíða handa okkur boga og örvar. Hann var mjög barngóður maður hann Gústi og því boðinn og búinn til að hjálpa okkur við bogasmíðina. Smíðaði hann bogana úr eik og örvarnar líka. Man ég eftir einum boganum sem hann smíðaði fyrir Óla bróður minn, hann var mikil listasmíð. Þegar Gústi prófaði bogann á veröndinni á Austurveginum, skaut hann örinni lang leiðina niður að Þurrkhúsi sem var niðri á Urðum. Þeir, sem muna eftir staðháttum fyrir gos, gera sér kannski grein fyrir fjarlægðinni. Við bræðurnir vorum öfundaðir af vinunum vegna boganna frá Gústa.
Gústi var á þessum tíma með smíðaverkstæði í kjallaranum á Austurveginum og man ég eftir stýrishúsinu á Barðann VE 319 sem hann smíðaði fyrir afa.
Eins og fram hefur komið, var hann Gústi afar barngóður maður, það var fastur liður þegar við vorum litlir peyjarnir að þegar lundapysjutíminn rann upp, var Gústi alltaf tilbúinn að fara á veiðar með okkur krökkunum. Þegar skyggja tók, hélt hersingin af stað og auðvitað labbandi eins og ávallt í þá daga. Voru það við frændurnir ásamt Laufásfrændum og fleiri krökkum sem héldu niður á bryggju í pysjuleit. Ég man að Gústi var alltaf með gamla íþróttatösku í hendinni sem hann lét pysjurnar í en við kxakkarnir með kassa. Gústi passaði alltaf upp á það að yngstu krakkarnir hans sem ekki voru með okkur, fengju sínar pysjur. Við krakkarnir furðuðum okkur oft á því hvers konar sjón Gústi væri með því hann var alltaf fyrstur til að koma auga á pysjurnar.
Gústi festi síðar kaup á trillu, frambyggðri c.a. 4-5 tonn að stærð sem hann skýrði Rán VE. og var hann eftir það oft kenndur við hana. Gústi var til margra ára sókningsmaður í úteyjar á Ráninni. Hann þekkti úteyjarlífið vel og vissi að það þurfti að þjónusta þá sem voru úti í eyju. Hann hafði ásamt kunningjum sínum Gunnari Stefánssyni, Bárði Auðunssyni og Skúla Theodórssyni byggt veiðikofa í Suðurey á þeim stað sem núverandi kofi stendur. Eftir að Gústi meiddist á hné hætti hann að stunda úteyjarlífið en snéri sér að þjónusta eyjarnar.
Þær voru margar svaðilfarirnar sem Gústi fór í eyjarnar. Kynntist ég þeim eftir að ég hóf að stunda veiðar í Suðurey. Ekki var nú Ránin alltaf í stakasta lagi en það skipti ekki öllu því ef Gústi var búinn að ákveða að koma út að sækja þá kom hann út . Einhverju sinni kom Gústi í Suðurey að sækja menn og fugl og þá einu sinni sem oftar einn um borð. Þegar við létum fuglinn síga, tókum við eftir því að Gústi raðaði pokunum á allt dekkið en setti þá ekki í hrúgu aftast eins og hann var vanur. Þegar því lauk hélt hann austur fyrir eyju til að sækja okkur og skyldi farið niður að austan þar sem vestanátt var og því ófært á hefðbundna steðjanum. Þegar við komum niður að steðja, sáum við hvar Gústi hringsólaði alltaf framhjá okkur og kallaði eitthvað um leið. Skildum vil loks hvað hann var að segja. Hann var að segja að bakkið væri bilað og við yrðum því að stökka þegar hann sigldi fram hjá steðjanum. Þar kom skýringin á hvers vegna hann hafði raðað pokunum um allt dekk. Við urðum bara að láta vaða þegar hann færi fram hjá. Svona var Gústi. þetta var ekki svo nauið hjá honum. Gústi átti það til æsa sig ef menn voru ekki nógu snöggir að stökkva upp á steðjann á réttu lagi. Eitt sinn er Gústi var að koma manni í land í Suðurey, manni sem var ávallt frekar ragur við steðjann þegar urgaði vel á honum og hafði ekki þorað að stökkva í tvígang og Gústi því þurft að gera 3. tilraun og farið að fjúka í hann. Þegar hann var að nálgast steðjann öskraði hann út um gluggann: „Stökktu maður stökktu“, og manngreyið varð skíthrætt við Gústa og stökk en beint í sjóinn því rúðurnar í Ráninni voru orðnar dálítið mattar þannig að Gústi misreiknaði fjarlægðina.
Gústi sótti stíft til fiskjar á Ráninni og eru til margar sögurnar af honum þar sem hann þrjóskaðist við að fara í land uns veður var orðið rúmlega vitlaust og hann síðastur trillukarla í land og þá jafnvel í fylgd stærri skipa.
Gústa þótti sárt að hætta að snudda í trilluútgerðinni þegar heilsunni tók að hraka því Ránin var hans líf og yndi fyrir utan fjölskylduna sem átti hug hans allan.
Blessuð sé minningin um Gústa frá Gílsholti.

Hallgrímur Tryggvason.