Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Skólaslit Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. janúar 2017 kl. 12:01 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. janúar 2017 kl. 12:01 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Skólaslit Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum




Á s.l. sumri var Stýrimannaskólinn fluttur úr Iðnskólahúsinu við Vesturveg í Gagnfræðaskólahúsið við Dalaveg. Þetta var gert að ósk bæjaryfirvalda, en með tilkomu nýja Hamarsskólans breyttist skipting nemenda í byggðinni í það skólahúsnæði sem fyrir var.
Við kunnum alltaf vel við okkur á gamla staðnum og það gerum við líka á þeim nýja. Skólinn er á efstu hæð vesturálmu og hefur auk þess turnherbergi hússins fyrir tækjastofu. Á hæðunum fyrir neðan okkur eru 8. og 9. bekkur grunnskólans.
Samstarf við skólastjórann þar, Ragnar Óskarsson hefur verið gott og húsvörðurinn Hjörleifur Guðnason og ræstingakonurnar hans hafa reynst okkur mikið vel. Þessum aðilum þakka ég ánægjulegt samstarf þetta fyrsta skólaár á nýja staðnum og vona að framhaldið verði með sama hætti.
Eins og áður hefur skólinn starfað í tveimur stigum. Starfið hefur verið hefðbundið, þó er farið að áfanga kennsluna meira en áður. Lokið var við nokkur fög í desember og síðan tekist á við ný eftir áramót. Nemendum og kennurum hefur líkað þetta vel.
Eins og áður hafa stofnanir og skip verið heimsótt og siglt var með varðskipinu Tý í tvo sólarhringa til siglingafræðikannana. Nemendur tóku þátt í tilraunum um borð í b/v Vestmannaey, þar sem reyndur var nýr björgunarbúnaður Sigmunds. Er það rani eða göng, sem ætluð eru til þess að koma skipbrotsmönnum af borðháum skipum í gúmmíbjörgunarbáta.
Fyrir næsta skólaár mun skólinn verða búinn að eignast samlíki (similator) fyrir loran. Tæki þetta hefur nú þegar verið greitt og von er á því bráðlega. Skólanum verður mikill fengur að því og þess vegna lítum við björtum augum til framtíðarinnar.
Á s.l. vori lét Óskar Matthíasson skipstjóri og útgerðarmaður, að eigin ósk, af störfum sem formaður skólanefndar. Í þessu blaði vil ég þakka Óskari fyrir dugnað og ákveðni í störfum fyrir skólann. Hann var í þessu starfi sami atorkumaðurinn og hann var á sjónum alla tíð. Óskar skilar allsstaðar toppárangri, hvort sem það er við skipstjórn, útgerð eða stjórnarformennsku í skólanefnd Stýrimannaskólans. Við söknum hans og þökkum honum vel unnin störf og vonum að hann líti til okkar eins og áður fyrr.
Menntamálaráðherra skipaði annan dugnaðarforkinn og aflakónginn, Hilmar Rósmundsson í stað Óskars. Sannarlega var það happ fyrir okkur að svo tókst til. Hilmar og Óskar eiga það sameiginlegt að allt sem þeir taka sér fyrir hendur blessast. Aðrir í skólanefnd eru: Einar Guðmundsson og Þórður Rafn Sigurðsson fulltrúar s.s. Verðandi, Þorsteinn Sigurðsson fulltrúi Útvegsbændafélagsins og Jóhann Norðfjörð fulltrúi nemenda.
Prófum 1. stigs lauk 29. apríl s.l. Hæstur varð Sigurgeir Pétursson Vopnafirði með meðaleinkunn 8,59. Annar Einar Sigþórsson Vestmannaeyjum með meðaleinkunn 8,38 og þriðji Óskar Kristinsson Strandasýslu með meðaleinkunn 7,31. 12 nemendur útskrifuðust úr 2. stigi. Hæstur varð Hafþór Theódórsson Vestmannaeyjum með meðaleinkunn 8,71. Annar varð Jóhann Norðfjörð Vestmannaeyjum með meðaleinkunn 8,38 og þriðji varð Þórir Matthíasson frá Dalvík með meðaleinkunn 8,24.
Hafþór Theódórsson fékk í verðlaun fyrir hæstu einkunn, veglegt baromet frá Sigurði Einarssyni útgerðarmanni, einnig fékk hann bókaverðlaun frá Rotaryklúbbi Vestmannaeyja fyrir hæstu einkunn í íslensku. Allir nemendur fengu að gjöf frá skólanum veggplatta með merki skólans. Minningarsjóður Steingríms heitins Arnars fyrrverandi kennara og prófdómara við skólann kostaði gerð þessa platta.
Þrír nýir kennarar störfuðu við skólann í vetur. Það voru þeir Baldur Böðvarsson, Bjarni Jónasson og Sighvatur Bjarnason.
Prófdómarar eru: Angantýr Elíasson, Sævald Elíasson, Áslaug Tryggvadóttir og Jón R. Þorsteinsson. Á skólaslitum barst áheit í Steingrímssjóð kr. 4000,- frá N.N.
Friðrik Ásmundsson, skólastjóri.