Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Bergur VE 44 sekkur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 12:34 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. júní 2016 kl. 12:34 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Bergur VE-44 sekkur


Fimmtudaginn 6. desember 1962 var m/b Bergur VE 44 á síldveiðum út af Snæfellsnesi. Síðdegis þennan dag fékkst gott kast eða ca. 800 tunnur. Suðaustan kaldi var og kröpp alda. Eftir að búið var að háfa og gera sjóklárt, var stefnan sett inn með Snæfellsnesi að sunnan áleiðis til Reykjavíkur. Á þessari stefnu var siglt í gegnum síldveiðiflotann, sem var þarna á veiðum. Korteri til hálftíma eftir að siglt hafði verið frá síldveiðiflotanum eða kl. 8 e. h., skall kröpp kvika á bátinn með þeim afleiðingum, að stjórnborðssíðan keyrðist í kaf og rétti báturinn sig ekki eftir það. Var skipshöfn þá sagt að yfirgefa skipið og fara í gúmmíbát, sem var staðsettur á stýrishúsþaki. Skipverjar voru fljótir til þar sem enginn var kominn niður í lúkar, en þeir voru aftur í matsal að borða.
Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst fljótlega að blása gúmmíbátinn upp, en varla mun hann hafa verið uppblásinn er allir voru komnir í hann og má segja að Bergur hafi horfið í djúpið um leið. Áður hafði skipstjóra tekizt að senda út neyðarkall til nærstaddra báta.
Ekki þurftu skipverjar að hrekjast lengi í gúmmíbátnum, því nærstaddir bátar voru þegar byrjaðir að leita þeirra, og um tuttugu mínútum seinna var öll skipshöfn m/b Bergs komin um borð í vélbátinn Halkion VE-205.
Enn einu sinni hafa gúmmíbátarnir sýnt yfirburði, er sjóslys ber að höndum. Óhætt er að segja, að öðrum bjargtækjum yrði ekki við komið í þessu tilfelli, báturinn sökk á tveim til þremur mínútum, og því ekki tími til að ná í bjargbelti, hvað þá að setja út trébát.
Vélbáturinn Bergur var 77 tonn að stærð, einn af þeim bátum, sem var smíðaður á nýsköpunarárunum eftir stríðið. Hann var þá keyptur til Seyðisfjarðar og hét Ásþór. Árið 1954 keyptu Magnús heitinn Bergsson og Kristinn Pálsson bátinn, og var honum þá gefið nafnið Bergur.

Hinn sokkni bátur, Bergur VE44, og skipstjórinn Kristinn Pálsson.
Skipbrotsmenn um borð í Halkion.