Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Magnús Jóhannsson frá Hafnarnesi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. júní 2016 kl. 11:55 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. júní 2016 kl. 11:55 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Magnús Jóhannsson frá Hafnarnesi


Magnús Jóhannsson frá Hafnarnesi.

Sjómannadagsblað Vestmannaeyja vill hér með kynna lesendum sínum Magnús Jóhannsson frá Hafnarnesi og sýnishorn af ritsmíðum hans. Magnús er einn þeirra fáu, sem gefur sér tíma til að skrifa og setja saman sögu að afloknu dagsverki; í frístundum sem eru ekki of margar sjómanni og verkamanni.
Magnús frá Hafnarnesi skrifar gjarnan sögur frá sjávarþorpinu. Sögur og myndir frá starfi og kjörum alþýðumannsins. Söguhetjur hans eru sjómenn og verkamenn, beitningamaðurinn í skúrnum, landmennirnir. Bregður hann oft upp prýðilegum myndum og eru sögur hans skemmtilegar aflestrar.
Magnús Jóhannsson er fæddur í Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð 1921. Hann kom fyrst á vertíð til Vestmannaeyja 1943 og hefur dvalið hér að mestu samfleytt síðan.
Uppáhaldshöfundar Magnúsar eru Laxness, Hemingway og Ólafur Jóhann Sigurðsson, og þess skal getið og ekki ómerkilegt, að Magnús segir, að fyrsta hvatning sín og brýning til ritstarfa hafi verið Ási í Bæ. Hefur Magnús sennilega meiri svip af Ása en öðrum rithöfundum.
Magnús hefur gefið út smásagnasafnið „Vegamót“ árið 1955, og nú í vor kom út skáldsagan „Heimur í fingurbjörg“. Fjallar saga þessi um upphaf verkalýðsbaráttu í sjávarþorpi á Austfjörðum og fram á þennan tíma. Er það saga um hina stígandi spennu í þjóðfélaginu með hjartasjúkdóm sem endastöð.
Í nýútkomnu tímariti Máls og menningar birtist sagan „Tíu á Höfðanum“. Eru þar skemmtilegar lýsingar á vertíðarlífinu í Eyjum.
Nokkuð hefur Magnús fengizt við að ríma, en ekkert af því hefur birzt.
Við óskum Magnúsi frá Hafnarnesi alls hins bezta á rithöfundaferli hans, en hann hefur nú þegar lagt fram eigi ómerkan skerf til bókmennta okkar og alþýðumenningar, og er greinilega vaxandi höfundur, sem stendur föstum fótum meðal sjómanna og verkamanna í útgerðarbæ.