Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Fyrsta vakt mín sem vélstjóri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. febrúar 2019 kl. 14:00 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. febrúar 2019 kl. 14:00 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Sigmar Þ. Sveinbjörnsson:

Fyrsta vakt mín sem vélstjóri


Sitthvað hefur verið ritað um Binna í Gröf og Gullborgina og þá í flestum tilfellum um hans miklu aflasœld. Minna hefur verið fjallað um mannskapinn á dekki og því síður þá sem sinna skyldustörfum í vélarrúmi. Hér kemur grein eftir Sigmar Þór Sveinbjörnsson, stýrimann á Herjólfi, er hann sem ungur piltur réðst sem annar vélstjóri á Gullborgina 1968.

Kampakátar kempur tendra eld í rettu. Óskar í Ríkinu og Binni í Gröf.
Gullborgin RE 38. Takið eftir nótinni uppi á bátadekki.

Það var árið 1968 að ég réði mig sem vélstjóra á m.b. Gullborgu RE 38.
Skipstjóri var Binni í Gröf og vélstjóri Einar Sigurðsson, sem var með Binna til fjölda ára. Báturinn var búinn til síldveiða með nót.
Ég hafði þá nýlega lokið vélstjórnarnámskeiði Fiskifélags Íslands, sem haldið var hér í Eyjum að Breiðabliki. Þetta námskeið gaf mér vélstjóraréttindi allt að 400 hestöflum. Það væri synd að segja að ég hafi ekki haft áhuga á starfinu og öllu því sem viðkemur vélum. Fannst reyndar ég vera búinn að læra það mikið um vélar að ég væri nú fær í flestan sjó.
Um þetta leyti var Gullborgin orðin hrörleg og illa útlítandi (seinna var hún endurbyggð). Vægast sagt voru mannaíbúðir vart mönnum bjóðandi, svo ógeðsleg var slagvatnslyktin þegar báturinn fór að velta. Sem dæmi má nefna að svo hriplekt var þilfarið að ef rigndi eða smá pus kom inn yfir bátinn á siglingu móti slæmu veðri, lak niður í mannaíbúðir. Svo ekki læki í efri kojur, var segl neglt fyrir ofan þær og þannig var lekanum veitt út í síðu svo sængurfötin blotnuðu ekki.
Þá var ekki óalgengt að bekkirnir við matborðið klipu mann all óþyrmilega í afturendann, sérstaklega þegar voru brælur. Skýringin á þessu var að nótin var í nótakassa aftur á bátadekki fyrir ofan kokkhúsið. Í veltingi liðaðist þetta sitt á hvað með braki og brestum. Minnisstætt er mér að á kabyssurörinu hjá Magga kokki (Magnúsi Sigurðssyni) var samsetning, sem gekk upp og niður í rörið um eina tommu á veltunni. Oft var hlegið dátt að þessu.
Ég sagði eitt sinn við Binna, að mér finndist braka ískyggilega mikið í bátnum, en hann svaraði að bragði að þetta væru traustabrestir, sem ekki heyrðust nema í góðum bátum. Svei mér þá, ég held að hann hafi meint þetta. Minnistæðast frá þessari vertíð er mín fyrsta vakt sem vélstjóri og við fengum fullfermi af síld. Binni kastaði austarlega í Bugtinni og fengum við strax gott kast. þegar búið var að þurrka að, var byrjað að háfa og er nokkuð var komið í lestina fór Einar vélstjóri niður í vél. Stuttu síðar var skellettinu á vélarhúsinu skotið upp og Einar öskrar: „Binni, slökktu á kastararnum, ég þarf að lensa'". Um borð voru rafmagnslensur, en rafmagnið ekki meira en það að ekki nægði bæði fyrir lensur og ljóskastara.
Það gekk vel að fá í „Gonnuna", eins og Einar kallaði bátinn oftast, og við fengum 1100 tunnur í tveimur köstum. Þegar lagt var af stað til lands var byrjað að bræla, og báturinn siginn með þennan afla.
Einar hafði á útleiðinni kennt mér á vélina, lensurnar og fleira, hvar ég ætti að smyrja og hvernig ætti að fylgjast með mælum. Þá sýndi hann mér rafgeymakompuna. Þegar ég kem afturí, eftir að búið var að gera sjóklárt á dekkinu, er Einar að koma uppúr vélarhúsi. Hann segir að nú eigi ég að taka fyrstu vakt, en ég þurfi ekki að fara strax niður, því hann sé nýbúinn að lensa og smyrja og þurfi því ekki að fara niður fyrr en eftir hálftíma. Hann segir mér að fá mér kaffi, sem ég og geri. Það var gott að fá kaffi og brauð hjá honum Magga eftir svona törn. Nokkru síðar fer Einar í koju, en minnir mig á að vekja sig ef eitthvað yrði athugavert á vaktinni. Einar hafði koju frammí lúkar á Gullborgu.
Nokkru síðar fer ég niður í vélarrúm að huga að vélinni og athuga hvort einhver sjór væri kominn í bátinn. Ég byrjaði á því að fara afturí. Þar sem rafgeymarnir voru, og athuga þá eins og góðum vélstjóra sæmir. Rafgeymakompan var út við síðu frekar ofarlega. Þegar ég opna þar inn bregður mér heldur en ekki í brún, þegar ég sé sjó leka þar inn um síðuna — þó nokkur leki að mér fannst.

Einar vélstjóri
Greinarhöfundur sem annar vélstjóri.

Ég hljóp upp úr vélarrúmi og í stýrishúsið til Binna og sagði honum all óðamála, að töluvert mikill leki væri inn í bátinn í rafgeymakompunni. Ekki gat ég séð á Binna, að honum brygði mikið við þessi tíðindi, en sagði við mig eitthvað á þá leið, að ég skyldi láta Einar vélstjóra kíkja á þetta.
Ég hljóp því næst fram í lúkar, þar sem Einar lá steinsofandi í koju sinni. Vakti ég hann og sagði að mikill leki væri kominn að bátnum. Það læki inn í bátinn aftur í geymakompu og að hann yrði að koma og kíkja á þetta. Einar hentist fram úr kojunni og í stígvélin sín, en spyr um leið hvort þetta sé mikill leki. ,,Já, töluverður", segi ég. Alla vega verður þú að kíkja á þetta. Hljóp ég síðan aftur í vélarhús og Einar fast á hæla mér. Þegar við komum niður að geymakompu, bendi ég honum á lekann, sem mér þótti heldur hafa aukist. „Þarna er hann", segi ég töluvert æstur.
Einar lítur á lekann og síðan á mig og segir sallarólegur: ,,Er þetta nú allur lekinn?". „Já". segi ég, „finnst þér þetta ekki töluvert mikið? - Það lak hér ekkert í morgun". Einar leit á mig hálfgerðum vorkunnaraugum og segir, að mér fannst hálffúll: „Að vísu lak hér ekkert í morgun, það veit ég, en það er nú einu sinni þannig, að þegar komið er í „Gonnuna" sígur hún og það fer að leka á ýmsum stöðum og það oft meira en þetta. Við köllum þetta vart meira en rottupiss".
Að svo mæltu fór Einar upp, en sagði um leið við mig, að ég mætti ekki vekja sig nema eitthvað umtalsvert kæmi uppá. Ég sat eftir hálf skömmustulegur, en fór svo að smyrja vélina og lensa „rottupissið".
Vaktin gekk vel og tíðindalaust eftir þetta og siglingin heim til Vestmannaeyja. Þar með lauk mínum fyrsta túr sem vélstjóra.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson.