Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Hugleiðingar vegna sjómannadagsins

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. júní 2016 kl. 09:02 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. júní 2016 kl. 09:02 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
SÉRA ÞORSTEINN L. JÓNSSON:


Hugleiðingar vegna sjómannadagsins


Sjór og sjómennska eru nátengd sögu og daglegu lífi þessarar þjóðar. Hefðu forfeður okkar aldrei hætt sér út á opið og víðáttumikið hafið, væri þetta land okkar ekki byggt Íslendingum, og e. t. v. í dag aðeins útsker eitt með bækistöðvar flugvéla og framvarða einhverra stórvelda.
Öll hin merkilega saga þjóðarinnar væri þá hreinn óskapnaður. Sömuleiðis er alveg víst, að ekkert okkar hefðum fæðzt inn í þennan heim sem menn og þátttakendur daglegrar lífsbaráttu.
Það má einnig segja, að þessi þjóð hafi lengst af verið bændaþjóð, sem jafnframt sótti á hafið til að færa björg í bú. Og það er í rauninni ekki lengra síðan en 30-40 ár, sem ungir menn bjuggust að heiman að fornum sið til að fara á vertíð, - fara í verið - hver með sinn skrínukost, til langdvalar á vetrarvertíð hér syðra, við Faxaflóa, Breiðafjörð og fyrir Suðurlandi.
Þetta setti svip sinn á daglegt líf þjóðarinnar og afkomu. Og það var ekki lítið búsílag, sem hinir hraustu og framsæknu bændasynir sóttu í greipar Ægis og fluttu heim með sér í þá daga, að ógleymdum mörgum nýjungum í hugsun og háttum, sem færði óhjákvæmilega nýtt fjör inn í háttbundið líf fjallabóndans, sem í megindráttum var eins frá degi til dags.
En allt er breytingunni háð. Og þótt segja megi, að ekki hafi verið til nein regluleg sjómannastétt áður fyrri,er nú svo komið að hún er ótvírætt til. Og það sem eftirtektarverðara er, hún stendur undir megin framleiðslu þjóðarbúsins, sem er að meginhluta myntíótur utanríkisviðskipta okkar, og á þá líka bróðurpartinn að því ad koma fótum undir áður óþekkta velsæld þjóðarinnar, eins og hún er í dag.

Séra Þorsteinn L. Jónsson.

Þessi orð mega ekki skiljast sem vanmat á starfi og framleiðslu sveitabóndans, enda sæti það sízt á mér. Án sveitabóndans væri sjávarútvegur svipur hjá sjón, því að landbúnaðurinn hefur brauðfætt okkur fram á þennan dag. Ef hans missti við, myndi þá líka koma stór eyða í viðskiptadálka okkar út á við, sem héldi niðri lífskröfum okkar til fæðis og klæðis.
Ég vil taka fram, að ég er í senn bæjarmaður og sveitamaður. Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík, en frá fyrstu bernsku minni var ég þó í föstum tengslum við sveitina. Ég unni henni sem mínum öðrum æskustöðvum, í uppvextinum naut ég þar mikils góðs, kynntist þar m. a. hinum formföstu, stílhreinu og reglubundnu siðum íslenzks sveitalífs, trú og siðgæði eins og við þekkjum það bezt, sem komin erum á miðjan aldur eða meira: Hið einfalda, óbrotna líf, - hin hjartanlega og auðmjúka tjáning og þakklæti til forsjónarinnar, hið ærlega og ósérplægna starf myrkranna á milli, þegar allir gerðu sér að góðu hið ósveigjanlega lífsviðhorf, sem mat hvert handtak til munnbita, vakti sífellt yfir, að ekki tangur né tetur, hvorki af ætu né óætu, færi í súginn.
Ég segi: Gerðu sér að góðu. Þetta er ekki allskostar rétt, því að fólkið, sem þá lifði við þessi kjör, skar upp margskonar gæði lífsins sér til lífsyndis og lífsfyllingar, átti andlegt jafnvægi og markmið, oft meira en er að finna í velsældinni, og þegar menn vildu gera sér einhvern dagamun, nutu þeir þess betur sem slíkt var fátíðara og daglegur kostur í mat og drykk óbreyttari.
Engan þekki ég samt, sem vildi óska þjóðinni aftur til þeirra lífskjara í atvinnuháttum og launamálum. Nei, enginn óvitlaus myndi aftur vilja hverfa til þeirra tíma, þegar fárra kosta var völ til að ryðja sér brautir til nýrrar og sjálfstæðrar framsóknar, efnalega og andlega. Ef sá lífróður, sem jafnan var á eigin spýtur, skyldi endast og duga, var það afburðamönnum einum hent og dugði oft ekki til.
Nú bíða tækifærin við hvert fótmál svo að segja. Konur jafnt sem karlar hafa um margt að velja. Menn eru ekki dæmdir sem oft áður til ævilangs umkomuleysis fyrir fátækt eða ferlegan örlagagaldur. Fólk á sér ávallt viðreisnarvon, ef vilji og heilsa leyfir.
Nú kynni einhver að spyrja: Hefurðu gleymt í tilefni hvers þú ert að skrifa? Og víst man ég það. Þetta er bara eðlilegt innskot út frá því. Sveitamenningin er nefnilega hinn sterki og merkilegi grundvöllur að lífi og starfi nútímans.
En ég sagði fyrr: Ég er einnig bæjarmaður. Bæjarlífið hafði einnig sterk ítök í mér, og ég ann bæjarlífinu á engan hátt minna, fullyrði m. a. s. að mér sé jafnan þannig innanbrjósts að vilja gera þessu tvennu jafn hátt undir höfði. En viðhorfin eru vissulega í mörgu ólík. Þrátt fyrir það eiga þau samt einn kláran samnefnara, sem er og verður þessi: Íslenzka þjóðarsál, er skilur og finnur til með líkum hætti. Ég man vel í tilefni hvers ég er að skrifa. Það er rétt, það er vegna sjómannadagsins. Og hví skyldi ég ekki gera mér grein fyrir því?
Faðir minn var fæddur og uppalinn í sveit. Sem elzti sonur barnmargra, fátækra foreldra fór hann í vinnumennsku, er hann hafði aldur til. Húsbændur hans sendu hann í verið hverja vertíð sem sitt hjú og hirtu vertíðarkaupið hans eins og þá var siður. Um aldamótin komst hann í iðnnám í Reykjavík. Á þeim árum voru kjör iðnaðarmanna, sjómanna og verkamanna miklu lakari en þau eru nú. Á hverri vertíð fór faðir minn til sjóróðra suður til Grindavíkur, af því að lítið var að gera í iðngrein hans síðari hluta vetrar. Þar reri hann á opnum árabátum og aflaði jafnan vel.
Árið sem ég fermdist var síðasta vertíðarárið hans. Það leiðir þá af líkum, að ég er alinn upp við kjör sjómannsins og verkamannsins og þessar stéttir umgekkst ég öll mín uppvaxtarár. Marga átti ég líka vini meðal sjómanna, og hefur sú vinátta enzt vel. Í byrjun og í lok hverrar vertíðar var vinnustofa föður míns samkomustaður margra vertíðarmanna, og voru það einkum tveir aflamenn úr Grindavík, sem notuðu hana sem einskonar ráðningarstofu á tímabili.
Ég vandi mikið komur mínar í togara og fiskiskútur og svamlaði mikið á sjónum ásamt öðrum jafnöldrum mínum í léttibátum, sem við fengum lánaða, en þá lágu flestir togaranna úti á höfn. Þetta varð til þess, að mig langaði ákaft til þess um eitt skeið að leggja fyrir mig sjómennsku, en það sem forðaði bæði mér og stéttinni frá því, var einfaldlega það, að enginn vildi taka mig um borð hjá sér. Eftir að ég hafði jafnað mig eftir þau vonbrigði, hef ég sannast að segja aldrei harmað það að svona fór. En eftir að ég komst að raun um, að ég er eiginlega mjög sjóhraustur, líður m. a. s. hvergi betur en á sjó, þá hefur mér oft verið sú spurn í huga, hvort sjómennskan hefði ekki orðið ævistarf mitt, hefði einhver verið svo vitur að ráða mig til sín, þegar mig dreymdi heitast um hafið. Og þá fann ég, að það er fátt, sem seiðir eins og heillar eða vekur hjá manni jafn sterka útþrá eins og einmitt hafið.
E. t. v. munt þú, sem lest línur þessar, segja með sjálfum þér: Sei, sei. Ekki vantar hann karlaraupið, flibbamanninn. Hann heldur víst, að ekki sé meira en rétt að segja að taka til höndum í frosti og kulda á úfnum fiskimiðum. - Og sennilega er þetta rétt athugað. Það má vel vera, að mín sjómennska og minn dugnaður á sjó hefði aldrei orðið meiri en í mesta lagi að vera sjóhraustur og matlystugur, og það er satt, það þarf meira til en það. En það er þá heldur ekki af því að ég er hér að skrifa fyrir sjómannablað á sjálfan sjómannadaginn, að ég legg áherzlu á, að það þarf vitanlega meira til en það, heldur einfaldlega af því, að þetta er grundvallarstaðreynd sjómennskunnar.
Í því sambandi er vissulega nærtækt og næsta eðlilegt dæmið að minnast á litlu, opnu árabátana, sem frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á daga feðra okkar og mæðra sóttu út á miðin í misjöfnum veðraham og fluttu björg í bú.
Þau litlu fley höfðu engin þægindi innanborðs, né vélar, sem unnu margra manna verk eins og nú er á hinum stóru, fullkomnu þilskipum. Þá voru það mannshendurnar einar, sem verkin unnu. Það var í sannleika sagt, hin vakandi önd og hin vinnandi hönd, sem í hjartanlegri bæn til Guðs lyfti hinum stóru Grettistökum sjósóknanna.
Það var þá jafnframt frumskilyrðið fyrir gæfu og gengi litla bátsins að hafa valinn mann í hverju rúmi. Og hver sá formaður, sem var svo heppinn að hafa enga liðleskju innanborðs varð bæði fengsæll og öruggari í vondum veðrum.
Að hafa valinn mann í hverju rúmi, þ. e. að hvert sæti skipi maður, sem óhætt er að treysta, maður, sem hefur tekið að sér ákveðin verk, sem hann síðan leysir af hendi án hiks eða undanbragða. Honum er treyst. Hann hefur tekið á sig ábyrgð, sem líf liggur við að hann bregðist ekki. Það á yfirleitt ekki að þurfa að segja honum fyrir verkum. Hann veit vilja formannsins. Hann segir sér þetta sjálfur og er á þann hátt eins og önnur hönd yfirboðara síns.
Þar sem er valinn maður í hverju rúmi, þar vinnur hver sitt verk af fyllstu getu. Þar eru samtaka hendur í starfi, sem vinnst eðlilega og markvíst.
Það er eins og starfið verði leikur, vinnugleðin eykst. Hver og einn neytir krafta sinna til hins ýtrasta og uppsker hin æðstu laun: meðvitundina um að hafa reynzt MAÐUR. Ekkert skapar jafn mikla innri hamingju og það að vita sig hafa gert skyldu sína í þjónustu lífsins. Sjómannsstarfið er vissulega meira en rétt að vera laus við sjóveiki, enda hafa margir okkar beztu sjósóknara aldrei getað losnað við hana að fullu. Sjómannsstarfið gerir miklar kröfur til mannanna, ósveigjanlegar kröfur um úrvalsmenn að þreki og dugnaði, að áræði og æðruleysi, menn, sem óhætt er að byggja á í veðrum og volki á hættunnar stund.
Svona var það og svona er það enn. Og þótt þægindin og öryggið sé nú margfalt meira en áður, er krafan til sjómannsins enn hin sama: að hann sé valinn maður. Það er kallað til átaka. Sómi hans er í veði ef hann bregst. Það fylgir starfinu sá andi að vilja vera ábyrgur gerða sinna.
Af þessu og mörgu öðru samfagnar þjóðin sjómannastéttinni í dag. Í þann fögnuð er ofin viðurkenning og þakklæti ásamt ódulinni virðingu. Hvað sem menn kunna að segja um hvern einstakan, lof eða last, dylst það ekki að íslenzkir sjómenn hafa hafizt svo til vegs með starfi sínu að vera metnir meðal beztu sjómanna heimsins. Og sjómenn góðir! Þjóðin þakkar störf ykkar, fórnir ykkar og gjöfular hendur. Hún biður ykkur blessunar í nútíð og framtíð og skylduliði ykkar, því að hennar hagur er hamingja ykkar.
Guð gefi sjómönnum okkar blessun og farsæld.

M.b Ófeigur II að síldveiðum með blakkarbúnaði.