Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/Sjómannadagurinn 1989

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. mars 2019 kl. 14:57 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. mars 2019 kl. 14:57 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Þórarinn Siggeirsson:

Sjómannadagurinn 1989

Við minnisvarðan

Sjómannadagurinn 1989 hófst á hefðbundinn hátt á laugardag með því að liðugir Eyjapeyjar léku listir sínar í Spröngunni. Síðan var hátíðahöldunum fram haldið niðri við Friðarhöfn og byrjað á sýningaratriði á sjóskíðum. Því næst spreyttu menn sig á tunnuhlaupi og var góð þátttaka í því. Þar fór Sigurður Gíslason með sigur af hólmi hjá körlum og Ásta Guðmundsdóttir í kvennaflokki. Í kappróðrinum kepptu 15 sveitir. Fyrst kepptu sveitir frá Jötni og Verðanda, var það hörð keppni og lyktaði með naumum sigri Jötuns. Því næst létu konurnar til sín taka. Saman kepptu í riðli sveitir frá Vinnslustöð, Hraðfrysti-stöð og ísfélagi. Þá sigruðu Vinnslustöðvarkonur. Í næsta riðli kepptu kvennasveit Fiskiðjunnar, unglingasveit BV og unglingasveit HSV. Þar sigraði Fiskiðjan. Síðan reyndu með sér áhafnir skipa og var þátttaka fremur dræm. Aðeins tvær áhafnir kepptu, af Gjafari og Klakk. Gjafarsmenn höfðu betur. Næst kepptu Félag ungra leikmanna og Tanginn og höfðu ungu mennirnir betur. Í síðasta riðli kepptu svo Pokahnútar, Piparsveinar og karlasveit Fiskiðjunnar en hún var eina stöðvasveitin skipuð körlum. Þennan riðil unnu Piparsveinar. Besti tími dagsins mældist hjá Jötni. Síðasta grein dagsins var koddaslagur þar sem þátttakendur voru fjórir. Sigurvegari í þeirri grein var Hilmar Kristjánsson. Að vanda var keppt um marga bikara í kappróðrinum og fylgir hér með hverjir hlutu þá, ásamt tíma sveitarinnar:

Sjómannafélagsbikarinn:
Jötunn, stýrim. Ástþór Jónsson, tími 2.03.
Stöðvabikar kvenna:
Fiskiðjan, stýrim. Hanna Guðmundsd. tími 2.25.
Stöðvabikar karla:
Fiskiðjan, stýrim. Valdimar Guðmunds. Tími 2.34.
Áhafnabikarinn:
Gjafar, stýrim. Guðni Ólafsson, tími 2.10.
Muninsbikarinn:
Piparsveinar, stýrim. Georg Þ.Kristjáns. tími 2.08.
Bikar fyrir fallegasta áralag:
Kvennasveit Fiskiðju, stýrim. Hanna Guðm
Tímabikar karla:
Jötunn, stýrim. Ástþór Jónsson, tími 2.03
Tímabikar kvenna:
Kvennasv. Fiskiðju, stýrim. Hanna G. t. 2.25

Þetta er liðin tíð á sjómannadegi. Verðlaunaveitingar fyrir aflabrögð heyra nú sögunni til á tímum kvótaskiptingar. Þessi mynd er 20 ára gömul, tekin á sjómannadag 1970 og sýnir Pál heitinn Þorbjörnsson óska tveimur aflamönnum, feðgunum Óskari Matthíassyni og Sigurjóni syni, til hamingju með verðlaunagripi sína.

Þyrla frá Varnaliðinu kom í heimsókn og var hún til sýnis á Básaskersbryggju. Voru margir sem lögðu leið sína þangað til að skoða þetta volduga tæki. Síðan sýndi áhöfn hennar björgun úr sjó. Var stórkostlegt að sjá hvað hægt er að gera með tækjum sem þessum. Að lokinni þeirri sýningu var dagskráin tæmd þennan daginn.

Borðhald var í þremur samkomuhúsum um kvöldið og þar hélt Árni Johnsen uppi stemmingu með léttum söng eins og honum einum er lagið. Er menn höfðu etið sig metta, hófust dansleikir í húsunum þremur. Í Hallarlundi sá hljómsveitin Centaur um músíkina, á Skansinum lét Hljómsveit Stefáns P. gamminn geisa og í Alþýðuhúsinu skemmti hljómsveitin Hluthafar. Mikið líf var í tuskunum í öllum húsum og er líða tók á nótt fór fólk á rölt milli húsa eins og vera ber.
En fleiri eru til en fullorðið fólk, unglingarnir vilja líka skemmta sér og fyrir þá var dansleikur í OZ.

Á sunnudag hófst dagskráin að vanda við minnismerkið á Stakkó. Lúðrasveit Vestm. lék nokkur lög en síðan setti Sveinn Valgeirsson hátíðina. Þá var haldið til messu í Landakirkju þar sem sr. Bragi Skúlason messaði. Eftir messu var drukknaðra og hrapaðra minnst og sá Einar J. Gíslason um þá athöfn eins og í fjöldamörg undanfarin ár.

Skemmtunin á Stakkó hófst með leik lúðrasveitarinnar en síðan afhenti Einar J. Gíslason verðlaun. Þá kom Bjössi bolla og skemmti börnunum sem vel kunnu að meta þennan gest.
Ræðu dagsins flutti að þessu sinni Grímur Gíslason. Að því loknu voru einstakir menn heiðraðir svo og áhafnir. Sveinbjörn Jónsson fékk viðurkenningu fyrir björgun á Sigurjóni Konráðssyni frá drukknun í Vestmannaeyjahöfn, 13. október 1988. Þá var áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur heiðruð fyrir björgun á áhöfn Nönnu VE sem sökk úti af Reynisdrongum. Einnig heiðruðu slysavarnarkonur þá Þórunnarmenn fyrir björgunina og sá Októvía Andersen um þann þátt. Sigurjón skipstjóri á Þórunni afhenti sínum mönnum skjöld af þessu tilefni. Sett var íslandsmet í aflabrögðum á árinu og var það að sjálfsögðu Þórunn Sveinsdóttir sem það gerði. Var áhöfninni afhentur skjöldur í tilefni þess. Tveir voru heiðraðir fyrir vel unnin störf í þágu sjómannastéttarinnar, þeir Sigurður Auðunsson og Varnek Nikulasson.
Þorsteinn Árnason afhenti eigendum Baldurs VE viðurkenningu fyrir góða umhirðu og öryggismál um borð. Alla tíð hefur allt verið í lagi þar þegar skoðun hefur farið fram. Þessi viðurkenning var veitt af Siglingamálastofnun Ríkisins. Georg Þór Kristjánsson, í nafni Kiwanisklúbbsins, afhenti Björgunarfélagi Vestm. og Hjálparsveit skáta sitt hvorar 100 þúsund krónurnar sem verja á til björgunarmála sjómanna. Að öllu þessu loknu skemmtu Árni Johnsen og co. með efni sem þeir nefndu: "Úr sjópoka Ása í Bæ." Hljómsveitin Stertimenn slógu svo botninn í skemmtunina á Stakkó. Um kvöldið var borðhald og dansleikur í Hallarlundi og þar með lauk þessari vel heppnuðu sjómannadagshelgi.

Þessi mynd er tekin um borð í Lóðsinum í apríl 1964. Ekki hefur okkur tekist að grafast fyrir um tilefnið en eflaust eru einhverjir sem kannast við það. En þessir eru á myndinni talið frá vinstri: Sigurjón Valdason frá Sandgeri, látinn. Einar Sveinn Jóhannesson, skipstjóri á Lóðsinum. Jón Ísak Sigurðsson, lóðs frá Látrum. Sigurður Kristinsson frá Löndum. Bergur Loftsson, Hjalteyri, látinn. Kristinn Sigurðsson frá Skjaldbreið, látinn. Sigurður Sigurjónsson, vélstjóri á Lóðsinum, látinn. Skúli Theódórsson, fjallarmaður. Eggert Ólafsson, skipasmiður, látinn. Magnús Pétursson frá Kirkjubæ. Ólafur Ólafsson frá Hvanneyri, látinn. Guðni Runólfsson frá Steini, látinn

Um þessa helgi var haldin sýning á báta- og skipalíkönum að Kirkjuvegi 19 og gaf þar að líta marga listasmíð. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja kom út að vanda undir ritstjórn Sigurgeirs Jónssonar frá Þorlaugargerði.

Sjómannadagsráð bar hitann og þungann af þessari dagskrá og undirbúningí en í ráðinu voru að þessu sinni Gylfi Harðarson, formaður: Erlingur Einarsson, gjaldkeri: Þórarinn Siggeirsson, ritari og Magnús Jónsson varagjaldkeri.