Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Minning látinna

Á sjómannadag er það venja að mínnast í þessu blaði nokkrum orðum þeirra sem horfið hafa yfir móðuna miklu, manna sem starfað hafa að sjómennsku eða verið á annan hátt tengdir sjónum.

Við höfum þurft að færa okkar fórnir á þessari vertíð eins og oft áður. Í vetur drukknaði ungur maður á m.b. Gjafari, ný sestur að hér í bænum. Og í apríllok spurðust þau hörmulegu tíðindi að Jökultindur hefði farist og með honum þrír menn. Þá hafa önnur byggðarlög orðið að færa fórnir vegna sjóslysa. Í aftakaveðri á Vestfjörðum fórust sex sjómenn af rækjubátum í vetur er leið og ungur togarasjómaður lést af völdum slyss í sama veðri.

Það má segja að nokkur munur sé að minnast látinna, þegar ungir menn falla frá, menn sem eiga lífið fyrir sér og aftur á móti þegar við kveðjum þá sem skilað hafa löngum og farsælum ævidegi og hafa búið sig undir hinsta kallið. Þar er munur á en sá munur hverfur þegar við hugsum um þær minningar sem við eigum. Þær minningar fölna ekki hvort sem ungir eða aldnir eiga í hlut.

Og í dag minnumst við fallinna samherja, manna sem hver um sig setti svip sinn á samtíðina. Sjómannadagsblaðið sendir öllum ástvinum hinna látnu samúðarkveðjur. Hér verður minnst í fáum orðum helstu atriða í lífshlaupi þeirra sem kvatt hafa okkur. Ég vil færa Kjartani Erni Sigurbjörnssyni ómetanlega aðstoð við samantekt þessa þáttar og bið honum og öðrum sem veitt hafa mér lið við hann Guðs blessunar. Þá vil ég einnig færa Eyjólfi Gíslasyni þakkir fyrir þrjár minningargreinar sem hann hefur sent blaðinu.

Ritstj.


Jón Rafnsson.
F. 6. mars 1899. d. 28. feb. 1980.

Jón var fæddur að Vindheimum í Norðfirði, sonur hjónanna Guðrúnar Gísladóttur og Rafns J. Símonarsonar. Ungur að aldri byrjaði hann að stunda sjó og var lengst af vélstjóri. Hingað til Eyja flyst hann skömmu eftir 1920 og átti heima hér til 1940. Jón er einkum kunnur fyrir sín miklu afskipti af verkalýðsmálum hérlendis. Ungur að árum varð hann formaður verkalýðsfélags á Norðfirði og hér í Eyjum var hann einn af forgöngumönnum um stofnun Sjómannafélags Vestmannaeyja. Þá var hann formaður Verkamannafélagsins Drífanda um skeið. Hann var ásamt Ísleifi Högnasyni, mági sínum, hvatamaður að byggingu Alþýðuhússins hér. Í bæjarstjórn sat hann um fjögurra ára skeið og var nokkur ár varabæjarfulltrúi. Þá kom hann mjög við sögu blaðaútgáfu, sá m.a. um útgáfu á Eyjablaðinu um tíma. Jón var mjög vel ritfær og eru nokkrar bækur eftir hann sem gefnar hafa verið út. Má þar nefna Vor í verum, Austan fyrir tjald og Rósarímur. Jón ferðaðist víða um land ásamt öðrum forkólfum verkalýðsstéttarinnar til að stofna ný verkalýðsfélög og má óhikað telja hann einn af frumherjum verkalýðsbaráttunnar á Íslandi. Hann var skemmtilegur í viðkynningu, hressilegur og glaðlyndur enda vinmargur. Hann var slyngur áróðursmaður og harður af sér í baráttunni. Til Reykjavíkur fluttist hann 1940 og stundaði þar ýmis störf, var m.a. framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands um sex ára skeið og síðan starfsmaður fulltrúa-ráðs verkalýðsfélaganna. Þá var hann um tíma ritstjóri Vinnunnar og verkalýðsins. Húsvarðar og skrifstofustörf stundaði hann alllengi. Hann var einn hvatamaður að stofnun SÍBS og starfaði mikið í bindindishreyfingunni. Hann var jarðsettur í Reykjavík 6. mars sl.

Ólafur Ragnar Jónsson Brekastíg 12
F. 11. ágúst 1903. D. 4. nóv. 1979.

Ólafur var fæddur í Reykjavík sonur hjónanna Hugborgar Ólafsdóttur og Jóns Niku-lássonar. Á tíunda aldursári flyst hann hingað til Eyja og er alinn upp hjá Ingibjörgu Hjörleifsdóttur og Þorsteini Ólafssyni á Kirkjubæ. Ólafur byrjaði ungur sína sjómennsku, um fermingu byrjar hann að róa með Erlendi á Gilsbakka og þá á opnu skipi. Sjómennska varð síðan aðalstarf Ólafs allt til fertugs og var raunar ekki lokið þá, því að þá réðst hann til starfa á grafskipið Vestmannaey og starfaði þar allt fram að gosi. Ólafur kvæntist árið 1926 Jónínu Pétursdóttur frá Blómsturvöllum á Eyrarbakka og bjuggu þau fyrst að Heimagötu 30 en 1928 fluttu þau að Brekastíg 12 og var heimili þeirra þar upp frá því. Þau hjón eignuðust tvær dætur, Elínu sem er búsett í Reykjavík og Helgu sem býr hér í Eyjum.

Ólafur var annálaður fyrir dugnað og góða reglusemi á öllum hlutum, enda hefur það verið aðalsmerki þeirra sem verið hafa um borð í dýpkunarskipinu Vestmannaey að hafa góða reglu á hlutunum og allt sem snyrtilegast í kringum sig. Síðustu ár ævinnar átti Ólafur við vanheilsu að stríða og dvaldi lengi á sjúkrahúsi.Hann lést í nóvember á síðasta ári.

Eggert Ólafsson Skipasmiður
F. 7. mars 1924 D. 12. apríl 1980.

Hann fæddist að Þorvaldseyri á Eyrarbakka sonur hjónanna Jennýjar Jensdóttur og Ólafs Bjarnasonar verkstjóra þar.

Eggert ólst upp á heimili sínu og var alla tíð mikill Eyrbekkingur. Hingað til Eyja fluttist hann 1943 þegar hann rær hér á vertíð og alkominn er hann hingað í árslok 1944.

Ári seinna eða 13. maí 1945 kvænist hann Helgu Ólafsdóttur og var heimili þeirra í 14 ár að Flötum 14 en árið 1970 fluttu þau hjón í nýtt hús að Illugagötu 75. Eggerts er ekki minnst hér í blaðinu fyrir störf sín við sjómennsku enda stundaði hann sjó aðeins eitt ár. En störf hans í sambandi við skipasmíði og þjónustu við bátaflotann hafa reist honum þann bautastein að orð verða þar lítils megnug um að tala. Allt hans starf við skipasmíðar hér í Vestmannaeyjum verður seint að verðleikum metið. Eggert var einstaklega vandaður maður til orða og æðis. Hann var heiðarlegur í allri framkomu og vænti þess sama af öðrum.

Hann gat verið skapheitur og sagði sína meiningu umbúðalaust þegar svo bar við. En hann var heilindamaður og vildi öllum hjálpa ef eitthvað lá við.

Eggert valdist snemma til virðingarstarfa, hann var alla tíð jafnaðarmaður og vann sínum flokki vel. Hann var oft kjörinn til nefndarstarfa fyrir bæjarfélagið og annaðist þau störf af kostgæfni. Um 12 ára skeið var hann formaður Iðnaðarmannafélagsins og segir það eitt sína sögu. Þá var hann virkur meðlimur í Berklavörn og síðustu árin sat hann í sóknarnefnd Landakirkju.

Eggert var dugandi og drífandi maður, störf hans við skipasmíðar og þjónustu við flotann hafa þegar skipað honum í þann sess sem nægir til að verða nafn í sögu Eyjanna. Hinu skulu við ekki heldur gleyma að Eggert Ólafsson var maður mikilla kosta, styrkur og áreiðanlegur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur, maður sem þekkti hag byggðartagsins og hagaði sínu lífi samkvæmt því.

Grímur Gíslason
F. 20. 4. 1908 D. 31. 3. 1980.

Hann var fæddur að Bugum í Stokkseyrarhreppi sonur hjónanna Sigríðar M. Jóns¬dóttur og Gísla Gíslasonar bónda og sjómanns.

Lífsbaráttan hófst snemma hjá Grími svipað og hjá öðrum ungmanninum á þeim tíma og var hörð og óvægin.

Leið hans lá á sjóinn og stundaði hann fyrst sjó bæði á skútum og toturum. En hingað til Eyja kom hann árið 1918 þá kominn á ákvörðunarstað. Hér var hans starfsvettvangur og hér eyddi hann sínu lífshlaupi. Árið 1925 lét hann í félagi við aðra smíða bátinn Kristbjörgu og var hann formaður á þeim báti allt til ársins 1952 að undanskildum þremur árum.

Kristbjörg var happafleyta og Grímur farsæll skipstjóri.

Árið 1952 hætti Grímur sjómennsku og hóf vinnu í Vinnslustöðinni en hann var einn af stofnendum og eigendum þess fyrirtækis. Þar starfaði hann allt til ársins 1972 þá kominn á áttræðisaldur.

Grímur kvæntist 1921 Guðbjörgu Magnúsdóttir frá Felli í Vestmannaeyjum og eignuðust þau fjögur böm sem öll eru búsett hér í Eyjum utan eitt sem býr í Reykjavík. Þau Grímur og Guðbjörg slitu samvistum og bjó hann eftir það á heimili dóttur sinnar og tengdasonar Önnu og Guðjóns Magnússonar og var heimili hans þar upp frá því. Grímur var einstaklega hress og kátur félagi og áhugasamur í öllu því sem hann lét sig varða. Sérstaklega var hann áhugasamur í öllu því sem varðaði íþróttir og þá sérstaklega knattspyrnu og fáir voru þeir leikirnir sem hann lét sig vanta á völlinn.

Grímur var einn af stofnendum Skipstjóra og stýrimannafél. Verðanda og vann þar mikið og gott starf.

Hann var heilsuhraustur alla ævi, dugnaðarmaður að hverju sem hann gekk. Hann fylgdist vel með höfuðatvinnuvegi okkar og alla daga var hann á vakki niðri við höfn til að fylgjast með fiskiríi og fastur liður á netaverkstæðinu hjá sínum mönnum. Þannig minnumst við hans.

Sævar Jensson frá Reykjavík
F. 1. feb. 1949. D. 7. mars 1980.

Sævar var fæddur í Reykjavík og ólst þar upp að mestu leyti. Að skólagöngu lokinni stundaði hann ýmis störf en um 19 ára aldur hófst sjómennskan hans. Fyrst stundaði hann sjó frá heimsbyggð sinni Reykjavík en leiðin lá víðar og sjó stundaði hann síðan næstu árin víðs vegar, bæði suður með sjó og frá verstöðvum hér við Suðurland. Á síðasta ári fluttist hann hingað til Vestmannaeyja og byrjaði að róa héðan. Honum líkaði dvölin vel í Eyjum og hafði hug á að setjast hér að. Á liðinni vertíð réðst hann um borð í m/b Gjafar og það varð hans síðasta úthald í þessu lífi. Hann féll útbyrðis og drukknaði er báturinn var að netaveiðum hinn 7. mars sl. Skipsfélagar Sævars heitins báru honum gott orð fyrir dugnað og kraft. Þá þótti hann góður félagi þeim sem kynntust honum, var vinur vina sinna.

Fjölskylda Sævars á um sárt að binda eftir þennan vetur, því fleiri ástvinir hafa horfið af slysförum bak við dauðansdyr. Þótt orð séu lítils megnug, vill Sjómannadagsblaðið votta aðstandendum sína dýpstu samúð með þeirri von að tíminn muni græða þau sár sem þessi vetur hefur valdið.

Sigurður Sigurjónsson Túngötu 15
F. 20. apríl 1908 - D. 16. júlí 1979

Sigurður var fæddur að Skálum í Vopnafirði, sonur hjónanna Ólafar B. Sveinsdóttur og Sigurjóns Gunnlaugssonar útvegsbónda. Sigurður ólst upp í föðurgarði og 10 ára að aldri byrjaði hann sína sjómennsku er hann hóf róðra með föður sínum. 16 ára að aldri fer hann til Norðfjarðar og dvelst þar um tveggja ára skeið, en þá liggur leiðin til Vestmannaeyja og hér er starfsvettvangur hans upp frá því. Sjómennska var hans aðalstarf alla ævi og lengst af var hann hér vélstjóri. Sigurður var eftirsóttur sem vélstjóri, annálaður fyrirsnyrtimennsku. Niður í vélarrúm til Sigga gátu menn ævinlega farið óhræddir í sparigallanum, það var aldrei hætta á að óhreinka sig. Hann var um árabil í skiprúmi með okkar bestu aflamönnum og hlaut hvarvetna gott orð.

Sigurður varð vélstjóri á Lóðsinum þegar hann kom hingað 1961 og gegndi því starfi allt til ársins 1978 þegar hann lét af störfum. Sigurður var mikill félagsmálamaður, hreinskilinn og fylginn sér. Hann var formaður Vélstjórafélags Vestmannaeyja um margra ára skeið og vann alla tíð ötullega að málefnum vélstjórastéttarinnar. Eftir að hann tók við vélstjórn á Lóðsinum var hann félagi í Starfsmannafélagi Vestmannaeyjabæjar og lét einnig mikið að til sín taka á þeim vettvangi. Hann var formaður þess félags frá 1964 til 1976 og naut alla tíð óskoraðs trausts félaga sinna þar.

Sigurður var tvíkvæntur. Með fyrri konu sinni Aðalheiði Árnadóttur eignaðist hann þrjú börn og eru tvö þeirra búsett hér í Eyjum, en elsta barn þeirra fórst á unga aldri af slysförum. Þau Sigurður og Aðalheiður slitu samvistum. Seinni konu sinni Aðalheiði Jónsdóttur kvæntist Sigurður 1941 og eignuðust þau fimm börn sem öll eru uppkomin. Þau slitu samvistum 1975. Líf Sigurðar var ekki alltaf dans á rósum og hann átti við erfiðleika að stríða eins og flestir aðrir. En við minnumst hans í dag sem trausts og glaðlynds félaga sem ævinlega var gott að leita til.

Haukur Gíslason Héðinshöfða
F. 29. september 1935 - D. 2. mars 1980

Hann var fæddur hér í Vestmannaeyjum í Héðinshöfða við Hásteinsveg, sonur hjónanna Ásdísar Guðmundsdóttur og Gísla Gíslasonar, næst elstur 15 systkina. Ævinlega var hann kenndur við æskuheimili sitt eins og öll hans systkini, en tíu þeirra eru eftirlifandi.

Haukur ólst upp svipað og aðrir piltar hér, en heimilið var mannmargt og snemma þurfti að taka til hendinni. Hann byrjaði til sjós 16 ára gamall, fór fljótlega á vélstjóranámskeið hér og starfaði upp frá því sem vélstjóri á bátum héðan. Lengst af var hann með Arnoddi frá Gjábakka á Suðureynni. Haukur þótti afbragðs vélstjóri, samviskusamur og áreiðanlegur og mjög vel liðinn af félögum sínum.

Haukur kvæntist 1962 Valborgu Guðmundsdóttur og eignuðust þau tvær dætur, en Valborg átti dóttur áður sem Haukur gekk í föðurstað. Þau byggðu hús að Bröttugötu 17 og bjuggu þar, þar til þau slitu samvistum 1974.

Haukur fékk að reyna bæði meðlæti og mótlæti í lífi sínu. Hann var ósérhlífinn, góður drengur og tilfinninganæmur, sem of snemma var kallaður héðan.


Sigurður Óskar Guðmundsson Viðey
F. 25. mars 1922 - D. 27. janúar 1980

Sigurður var fæddur í Viðey hér í Vestmannaeyjum, sonur Guðmundar Einarssonar útvegsbónda og konu hans Pálínu Jónsdóttur. Sigurður ólst upp í Viðey og þar var heimili hans alla tíð. Barnahópurinn var stór í Viðey, 11 alsystkini, þrjár hálfsystur og uppeldisbróðir. Sigurður byrjaði sjómennsku á unga aldri, en síðan hóf hann störf í Fiskiðjunni og var starfsmaður þar allt til síðasta dags. Hann hlaut orð sem traustur og áreiðanlegur starfsmaður, hverju sem hann snerti á.

Sigurður var enginn hávaðamaður, var dulur og fáskiptinn að eðlisfari, en glettinn og góður félagi þegar því var að skipta. Hann var traustur og hjálpfús og vildi öllum vel, bæði í orði og verki.

Eftir gos var hann einn eftir af systkinahópnum hér í Eyjum. En svo ríkar voru Vestmannaeyjar í huga hans að héðan gat hann ekki hugsað sér að flytja. Fiskiðjan var hans starfsvettvangur og fyrirtækið þurfti á honum að halda.

Sigurður var ókvæntur og barnlaus, en þurfti ekki að kvíða einsemd. Hann hélt nánu sambandi við systkini sín uppi á landi og sömuleiðis við ættingja sína og kunningja hér í Eyjum. Hann var maður hógvær og látlaus í allri framkomu og þannig munum við minnast hans.

Benedikt Jörgenssen Hraunbúðum
F. 6. júní 1898 - D. 11. júh 1979

Benedikt eða Bensi eins og hann oftast var kallaður, var Austfirðingur, fæddur á Eskifirði, sonur hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Jörgens Benediktssonar. Hingað til Vestmannaeyja flutti hann árið 1930 ásamt konu sinni Aðalbjörgu Þorkelsdóttur, sem lést 1965. Hér var starfsvettvangur Bennsa alla tíð síðan. Fyrstu ár sín hér stundaði hann sjó, en fór síðan í land og vann sem verkamaður lengst af. Hann þótti lipur verkmaður, léttur í lund og spaugsyrði lágu honum oft á tungu. Eru mörg skemmtileg tilsvör eftir honum höfð, þótt ekki verði þau tíunduð hér. Síðustu ár sín var Bensi vistmaður að Hraunbúðum og undi þar hag sínum vel. Hann var kvikur í spori og á hverjum degi mátti sjá hann skokka í gönguferð með stafinn í hendi og vindilstúfinn uppi í sér, síbrosandi og kátan. Með honum er genginn einn þeirra manna sem lítið fór fyrir í lífinu, en skilur eftir skemmtilega endurminningu í hugum okkar.

Lúðvík Jóhannsson Höfðavegi 13
F. 23. nóvember 1913 - D. 13. október 1979.

Hann var fæddur að Skálum á Langanesi og voru foreldrar hans María Friðriksdóttir og Jóhann Stefánsson bóndi þar. Systkinahópurinn var stór, þau hjón áttu 17 börn og eru 10 þeirra á lífi í dag. Lúðvík byrjaði því snemma að draga björg í bú og barn að aldri réri hann með föður sínum og þá ekki aðeins sér til skemmtunar. Lífsbaráttan hófst hjá honum áður en hann sleit bamsskónum og var óslitin upp frá því. Hann bjó að Skálum allt til ársins 1955 er hann flutti til Þórshafnar og var Lúðvík síðasti ábúandinn að Skálum á Langanesi. Þar hóf hann sambúð með ekkju með þrjú böm, Jóhönnu Hansen og gekk börnum hennar í föðurstað.

Á Þórshöfn bjuggu þau Lúðvík og Jóhanna frá 1955 til 1963 og þar var sjómennska aðalstarf Lúðvíks eins og raunar alla hans tíð. Og þegar þau flytja til Vestmannaeyja 1968 er það á sjónum sem hann haslar sér völl. Hann féll hvarvetna gott orð til sjós sem harðduglegur verkmaður og einstakur í viðmóti og umgengni. Heimili þeirra Jóhönnu hér í Vestmannaeyjum var fyrst í Heiðabæ, en frá árinu 1975 að Höfðavegi 13. Lúðvík kunni alltaf vel við sig hér í Eyjum, enda nóg að starfa fyrir atorkumann sem hann. En síðasta æviárið tóku kraftarnir að dvína og sitt síðasta æviskeið dvaldi hann á sjúkrahúsum, bæði hér og á Vífilstöðum þar sem hann lést 13. október s.l.

Ágúst Úlfarsson Melstað
F. 9. júrií 1896 - D. 5. október 1979 Ágúst var fæddur að Fljótsdal í Fljótshlíð, sonur hjónanna Guðlaugar Brynjólfsdóttur og Úlfars Jónssonar bónda þar. Systkinin í Fljótsdal voru 15 og hefur lífsbaráttan verið hörð á svo mannmörgu heimili. Ágúst þurfti snemma að fara að taka til hendi til hjálpar og veganestið sem hann fær að heiman entist honum alla tíð síðan, dugnaður og samviskusemi. Strax og hann hafði aldur og þroska til, fer hann á vertíð með búsetu að Melstað. Þar var húsráðandi Sigrún Jónsdóttir, ekkja Sig¬urðar Hermannssonar formanns og útvegsmanns sem drukknaði á besta aldri. Sigrún var traust og vel gerð kona sem var ákveðin að koma börnum sínum til manns, þrátt fyrir áföll í lífinu. Þau Ágúst felldu hugi saman og 1926 gengu þau í hjónaband. Ágúst gekk börnum Sigrúnar í föðurstað og á hjónaband þeirra bar aldrei skugga. Þau bjuggu að Melstað allt fram að gosi, en þegar aftur var komið heim var degi tekið að halla í lífi þeirra. Sigrún átti við vanheilsu að stríða og dvaldi á sjúkrahúsi fram að andláti 1978.

Fyrstu ár sín hér í Eyjum var Ágúst útvegsbóndi, fullur atorku og áhuga. Bóndaeðlið var ríkt í honum, hann var mikill ræktunarmaður og vann óhemju mikið starf að jarðrækt. En upp úr 1935 snýr hann sér að smíðum og stundaði þær sem aðalstarf síðan. Í því starfi sem öðrum var vandvirkni og samviskusemi ríkjandi.

Þau hjón eignuðust tvö börn, Ástu Guðlaugu sem lést á fysta ári og Sigurð Þóri sem lést 1975. Síðustu æviár sín bjó Ágúst að Hraunbúðum. Þar sinnti hann hugðarefnum sínum, bókarlestri og ættfræði. Þótt hann ætti þess ekki kost í æsku að sinna skólanámi, kom það honum ekki að sök í lífinu, hann var einn þeirra sjálfmenntuðu manna sem margir langskólagengnir mættu taka sér til fyrirmyndar, víðlesinn og fjölfróður um flesta hluti, en hógvær og stilltur í allri framkomu.


Sigurbjörn Sigfinnsson frá Sólhlíð 26
F. 9. des. 1911 D. 22. sept. 1979

Sigurbjörn eða Bubbi eins og hann oftast var kallaður var fæddur í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Sigfinns Árnasonar og Júlíu Sigurðardóttur. En ungur að aldri var hann sendur í fóstur til móðurafa síns og ömmu, Sigurðar Eyjólfssonar og Sigurbjargar Guðmundsdóttur undir Eyjafjöllum og þar ólst hann upp. En römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, segir einhvers staðar og líkt og svo margir sveitungar hans gerðu á þessum árum fór hann á vertíðir hér í Eyjum. 16 ára gamall kemur hann hingað á vertíð og var þá með Ólafi Ingileifssyni. Hann byrjaði síðan formennsku 24 ára og er þá vertíð með Karl. Síðan komu fleiri bátar sem Bubbi var formaður á, þar á meðal Ásdís, Veiga, Ágústa, Hugrún og Hilmir sem hann var oft kenndur við og loks Ófeigur III.

Hann fluttist alkominn hingað til Eyja 1939 og kvæntist sama ár Guðrúnu Gísladóttur frá Skála undir Eyjafjöllum. Þau hjón bjuggu lengst af í húsinu númer 26 við Sólhlíð. Þau eignuðust eina dóttur, Sigríði sem búsett er í Reykjavík.

Bubbi fékk það orð að hann væri traustur og áreiðanlegur skipstjórnarmaður enda farnaðist honum vel alla sína formannstíð. Hann var rólyndur að eðlisfari en kappsfullur fiskimaður og skilaði ávallt vel sínu. Þau hjónin fluttu héðan eins og aðrir Eyjabúar í jarðeldunum 1973 og áttu hingað ekki afturkvæmt. Þau bjuggu í Reykjavík og Guðrún, sem lifir mann sinn, býr nú þar hjá dóttur sinni.

Þorvaldur Waagfjörð Hásteinsvegi 34
F. 3. júní 1952 D. 16. sept. 1979

Þorvaldur var sonur hjónanna Bertu Grímsdóttur og Jóns Waagfjörð, bakarameistara, Garðhúsum hér í bæ og ólst þar upp. Hann lauk skyldunámi frá Barna- og Gagnfræðaskóla hér en langar setur á skólabekk áttu ekki við Þorvald, hann var maður athafna og aðgerða og kunni betur við að finna sjálfur út úr hlutunum en láta aðra segja sér þá. 16 ára gamall byrjaði hann sína sjómennsku með Hjálmari heitnum frá Enda á Erlingi og hlaut þar gott vegarnesti að leggja með af stað út í lífið. Sjómennskan átti vel við Þorvald og næstu árin stundaði hann víða sjó, bæði á bátum og togurum og gat sér gott orð fyrir dugnað í starfi. Oftast var hann háseti en gat einnig brugðið sér í hlutverk matsveins eða vélstjóra og alla tíð átti vel við hann að handfjatla vélar og vélarhluti, þótt engin hefði hann réttindi til slíkra verka.

Hann kvæntist árið 1975 Sigríði Tómasdóttur og eignuðust þau einn son en Þorvaldur átti eina dóttur áður. Þau Sigríður slitu samvistum en bjuggu lengst af að Hásteinsvegi 34. Og svo gerðist það sem við dauðlegir menn eigum svo erfitt með að skilja og sætta okkur við. Ungur maður með lífið framundan er skyndilega og fyrirvaralaust kallaður burt. Þorvaldur lést af slysförum sl. haust og fór útför hans fram frá Garðakirkju í september.

Einar Sigurðsson Ingólfshvoli
F. 24. mars 1918. D. 8. feb. 1980.

Einar var fæddur að Þinghól í Hvolhreppi, Rangárvallarsýslu sonur Sigurðar Sveinssonar bónda þar og konu hans Jóhönnu Jónsdóttur. Hann ólst upp í föðurhúsum en kemur fyrst til Vestmannaeyja 19 ára gamall og vann eitt ár í slippnum hér. En tvítugur að aldri ræður hann sig í skiprúm á Sævar með Binna í Gröf og átti þeirra samvera eftir að endast lengi. Einar var framan af háseti með Binna en fór á mótornámskeið sem hér var haldið og var eftir það vélstjóri hjá Binna lengst af á Gullborginni. Um tíma dvaldi hann í Reykjavík og var þann tíma vélstjóri á Jóni Valgeiri með Magnúsi Grímssyni. En leiðin lá aftur til Eyja og enn á ný til Binna. Og samtals var Einar hjá Binna á Gullborginni í 27 ár. Það segir meira en mörg orð, hvernig maður Einar var. Hann hlaut alls staðar mjög gott orð sem traustur og úrræðagóður vélstjóri og þótti að auki hraustmenni til allra verka.

Einar kvæntist 9. desember 1943 eftirlifandi konu sinni Rannveigu Konráðsdóttur frá ísafirði og eignuðust þau fimm börn. Lengst af bjuggu þau í húsinu Ingólfshvoli við Landagötu sem fór undir hraun í gosinu. Þau hjón settust að í Reykjavík eftir gos og keyptu íbúð við Hverfisgötuna. Einar hóf fljótlega að starfa þar hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni og sinnti störfum sínum þar af ekki minni alúð en vélinni í Gullborginni. Þar vann hann allt til þess er kallið kom.

Einar þótti einstakur maður í viðkynningu, kátur og spaugsamur og hjálpsamur með afbrigðum. Honum féll illa aðgerðarleysi og féll sjaldan verk úr hendi. Hann lést í Reykjavík í febrúar sl.

Kristján Björnsson Frá Kirkjulandi
F. 4. nóv. 1916. D. 1. okt. 1979.

Kristján var fæddur að Kirkjulandi, sonur hjónanna Björns Finnbogasonar og Láru Guðjónsdóttur. Heimilið að Kirkjulandi var vel þekkt myndarheimili og þar ólst Kristján upp með systkinum sínum. Snemma kom í ljós að hugurinn beindist að sjónum og tók hann snemma að stunda sjó. Varð hann fljótt eftirsóttur sjómaður og þó sérstaklega sem beitumaður. En hugur Kristjáns beindist einnig fljótt að útgerð og lengst verður hans minnst hér fyrir útgerðarrekstur. Hann stofnaði útgerðarfyrirtækið Eyrúnu ásamt bræðrum sínum, Ólafi og Steingrími og fleirum og keyptu þeir tvo Svíþjóðarbáta sem hlutu nafnið Hugrún og Sigrún og gerðu þá út í nokkur ár.

Kristján kvæntist 1939 Petrónellu Ársælsdóttur frá Fögrubrekku og byggðu þau húsið að Helgafellsbraut 1. Þau eignuðust fjögur börn. Um tíma vann Kristján sem slippstjóri í Skipasmíðastöðinni hjá tengdaföður sínum og mágum og einnig átti hann hlut í útgerð með þeim aðilum um tíma.

1960 hætti Kristján afskiptum af útgerð hér í Vestmannaeyjum og fluttist suður, fyrst til Hafnarfjarðar en síðar til Reykjavíkur og vann þar sem birgðavörður í Kassagerð Reykjavíkur. Hlaut hann þar sem annars staðar gott orð enda var hann alla tíð hamhleypa til allra verka. Kristján lést í Reykjavík í október á síðasta ári.

Reynir Frímann Másson Birkihlíð 7
F. 29. jan. 1933 D. 19. júní 1979

Þótt Reynir heitinn hafi aldrei stundað sjó, var hann svo nátengdur sjómönnum og þá sérstaklega matsveinastéttinni að hans er minnst hér fáeinum orðum í Sjómannadagsblaðinu. Hann var fæddur hér í Eyjum, sonur hjónanna Indíönu Sturludóttur og Más Frímannssonar. Æskuheimili hans var í Valhöll við Strandveg og starfsvettvangur hans í húsinu hinum megin við götuna á Tanganum, en þar hóf hann störf 14 ára gamall og var aldrei nefndur annað en Reynir á Tanganum. Hann sinnti starfi sínu af lífi og sál, og var lipur og greiðvikinn, glettinn og gamansamur og oft gustaði í kringum hann. Frá árinu 1961 gegndi hann starfi verslunarstjóra á Tanganum. Frá öndverðu hefur megnið af bátakosti verið keypt á Tanganum og var það lengst af starf Reynis að sjá um þann þátt. Það var aldrei töluð nein tæpitunga á Tanganum yfir kostinum og þar sögðu menn meiningu sína umbúðalaust þegar svo bar við. En ég hygg að flestir minnist samskiptanna við Tangann og Reyni með hlýju og trúlega hefðu ekki allir látið bjóða sér upp á það sem oft varð hlutskipti hans að rífa sig upp úr rúminu um miðjar nætur til að afgreiða kost í bát sem var seinn fyrir. En Reyni var lipurð og hjálpsemi í blóð borin og sem verslunarmaður var hann réttur maður á réttum stað. Reynir var kvæntur Helgu Tómasdóttur og áttu þau fjögur börn.

Oddur Sigurðsson Dal
F. 25. maí 1911 - D. 19. nóvember 1979

Hann var sonur hjónanna í Skuld, Ingunnar Jónsdóttur og Sigurðar Oddssonar og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Ungur að árum hóf Oddur sjómennsku og rúmlega tvítugur tekur hann við formennsku. Við stjórnvölinn stóð hann svo í meira en þrjá áratugi, farsæll í starfi og vel látinn af öllum sem með honum voru. Það þótti gott veganesti ungum mönnum að hefja sína sjómennsku hjá Oddi í Dal. Árið 1968 hætti hann til sjós og vann síðan við ýmis störf í landi, lengst af hjá Skipaafgreiðslu Hafnarsjóðs og síðan hjá Friðrik Óskarssyni sem verkstjóri.

Oddur var mikill elju og atorkumaður, hvort sem var til sjós eða lands. Hann var snyrtimenni við alla vinnu og alúð og hlýleiki var honum í blóð borin. Hann vann að félagsmálum sinnar stéttar meðan hann stundaði sjó og var einn af stofnendum Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda. Oddur kvæntist árið 1934, Magneu Lovísu Magnúsdóttur frá Dal og var heimili þeirra þar alla tíð. Þau eignuðust þrjá syni og eru tveir þeirra búsettir á höfuöborgarsvæðinu, en elsti sonurinn. Sigurður, lést af slysförum 1968.

Oddur var Vestmannaeyingur í húð og hár, hér vildi hann lifa og starfa og hvergi annars staðar. Hann unni þjóðlegum háttum og þar bar úteyjalífið hæst. Í Suðurey átti hann margar góðar stundir og eiga félagar hans þar margar góðar minningar frá liðnum dögum.

Jón Sigurðsson frá Múla
F. 12. feb. 1900 D. 24. jan. 1980

Jón Sigurðsson var fæddur að Miklaholti í Snæfellsnessýslu 12. febrúar árið 1900, þar sem foreldrar hans bjuggu þá, en þau hjón fluttu alfarin til Ameríku árið 1902. Jón var þá tekinn í fóstur til föðurafa síns og alnafna og Kristínar föðursystur sinnar að Syðstu-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum.

Jón kom ungur drengur til Eyja með Kristínu fóstru sinni til Jónasar Jónssonar á Múla, en þau giftust stuttu síðar og var Kristín seinni kona Jónasar. Hjá þeim hjónum ólst Jón upp og var hjá þeim fram til um tvítugsaldur. Af eldri Vestmannaeyingum var Jón ætíð kenndur við sitt æskuheimili Múla.

Eins og flestir drengir, sem ólust upp í Eyjum á fyrstu árum aldarinnar fór Jón mjög ungur að vinna við vertíðarstörf, fiskaðgerð og línubeitningu. Hann fór á hverju sumri til 16 ára aldurs í sveit til föðursystur sinnar og frændfólks undir Eyjafjöllum.

Jón var sjómaður í 20 ár og byrjaði hann að róa hjá Illuga Hjörtþórssyni á m/b Skarphéðni Ve 145, sem var tæp 9 tonn að stærð, þar næst var hann nokkrar vertíðir með Árna Finnbogasyni á m/b Helgu, sem var rúm 11 tonn að stærð. Haustið 1923 keypti Jón 1/3 hluta í m/b Gammi Ve 174, sem var 8.33 tonn að stærð og átti þann hlut í bátnum í 14 ár, þar til báturinn sökk fyrir vestan Eyjar í aprílmánuði 1937. Eftir að Jón eignaðist hlut í Gamminum vann hann allar vertíðar við þann bát. Hann beitti þá oftast á línuvertíðum, en réri á netin.

Eftir vertíðina 1937 hætti Jón sjómennsku og vann þá við fiskaðgerð á vertíðum og nokkrar vertíðir var hann verkstjóri við saltfiskverkun og gerðist hann þá matsmaður á saltfiski, þurrum og blautum og það starf hafði hann á hendi meðan heilsa og kraftar entust honum, fram fyrir sjötugsaldur.

Á stríðsárunum, þegar mest allurfiskur frá Eyjum var fluttur ísvarinn út til Englands var Jón oft lestarstjóri og sá þá um ísun á fiskinum í lestum flutningaskipanna.

Jón var góður verkmaður og sívinnandi. Á árunum 1930 til 40 vann hann einn að túnræktun úr hraunlandi með handverkfærum einum og bjó sér þar grasgefið og fallegt tún um 3 dagsláttur að stærð.

Jón var greindur maður og fróður og minni hans var öruggt og aðdáunarvert. Enginn mundi eins vel og hann sjóslysasögu Eyjanna á fyrstu tugum aldarinnar og eru margar þeirra skráðar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja.

Um nokkur ár var það tómstundaiðja Jóns að teikna upp alla mótorbáta Eyjamanna frá þeim fyrstu árið 1906. Myndirnar voru svo birtar í Sjómannablaðinu Víkingi ásamt stuttum æviágripum og mynd af hverjum bátsformanni. Það hefur verið mikið verk af fá upplýsingar og myndir af hverjum formanni, því að ekki voru þeir allir Vestmannaeyingar. Þessar myndir byrjuðu að koma út í Víkingi 9. tbl. 1962 og komu svo út í hverju blaði næstu 6 árin.

Jón var giftur góðri konu, Karólínu Sigurðardóttir og lifir hún mann sinn. Þau hjón eignuðust fimm börn.

E. G.

Jónas Sigurðsson frá Skuld
F. 29. mars 1907 D. 4. janúar 1980

Jónas Sigurðsson var fæddur að Helluvaði í Rangárvallarsýslu 29. mars 1907 og fluttist á öðru ári með foreldrum sínum, þeim Ingunni Jónsdóttur og Sigurði Oddssyni, til Vestmannaeyja. Jónas ólst upp hjá foreldrum sínum í Skuld við Vestmannabraut, sem var stórt og glæsilegt timburhús. Það var tvíbýlishús og byggðu þeir það saman Sigurður Oddsson og Stefán Bjömsson skömmu eftir að þau Ingunn og Sigurður fluttust til Eyja, eða um 1910. Þeir Stefán og Sigurður voru sveitungar, báðir Landeyingar, og þá nýfluttir til Vestmannaeyja og orðnir for-menn og bátseigendur.

Jónas var síðan alla ævi kenndur við æskuheimili sitt Skuld. Jónas var elstur sinna systkina, sem voru ellefu og urðu þau öll mikið myndar- og manndómsfólk.

Jónas var efnilegur drengur og í hópi leikfélaga var hann strax dáður fyrir léttleika og kjark. Hann var ekki gamall eða hár í lofti þegar hann fór að klífa hátt upp eftir símastaurum og upp eftir mastursstöngum í bátum, og gátu margir eldri leikfélagar hans ekki leikið þetta eftir. Þá varð hann og þeirra alfræknastur í Fiskhellaspranginu. Þegar hann hafði aldur og þroska til varð hann líka mikill og góður sigmaður og munu allir eldri Vestmannaeyingar og fleiri minnast Þjóðhátíðarsiga hans fram af Fiskhellahánefi og á Molda. Mér telst svo til, að Jónas hafi sigið á 24 Þjóðhátíðum, og það kom fyrir að sigið var tvisvar sömu Þjóðhátíðina. Auk þess seig hann nokkrum sinnum fyrir innlent og útlent skemmtiferðarfólk og eitt sinn seig hann fyrir forseta íslands, Ásgeir Ásgeirsson og hans föruneyti. Það mun ekki fjarri sanni að áætla að Jónas hafi sigið um 40 sinnum til að skemmta fólki í Herjólfsdal.

Jónas fór nokkur sumur í Bjarnarey til svartfuglaeggja, en Álsey var hans uppáhaldseyja og þar lá hann við til lundaveiða í nær 40 sumur. Hannes heitinn lóðs sagði mér, að enga tvo menn hefði hann séð jafn líka og Jónas í Skuld og Jón Þorgeirsson á Oddstöðum, sem var langafi Jónasar í móðurætt, en Jón Þorgeirsson var um langt árabil talinn vera almesti fjallamaður í Eyjum og um tugi ára var hann forystumaður við uppgönguna á Súlnasker.

Á yngri árum var Jónas góður og fjölhæfur íþróttamaður og tók mikinn þátt í íþróttum. Hann fór ungur að vinna og afla í heimilið og 16 ára fór hann að beita og róa á netavertíðinni, sem fullgildur maður báti föður síns Baldri Ve 155, sem var 10,42 tonn að stærð og var hann á honum í tvær vertíðir. Þá réðist hann sjómaður á stærri bát, Mínervu Ve 241, nítján tonna bát, sem Einar Jónsson í Háagarði var formaður með. Hann var með Einari í tvær vetrarvertíðir og eitt sumar var hann stýrimaður á Mínervu á síldveiðum við Norðurland.

Jónas tók hið minna fiskimannapróf í Eyjum árið 1925. Hann byrjaði síðan formennsku vertíðina 1927 með m/b Skógafoss Ve 236, sem var rúm 13 tonn að stærð og var með hann í 9 vertíðir. Þar næst var hann með m/b Skíðblanir Ve 287, sem var rúm 16 tonn að stærð.

Vertíðina 1938 var Jónas fiskilóðs á þorsknetaveiðum á færeyskri skútu, sem Eggert Jónsson frá Nautabúi gerði út, var það fyrsta vertíðin af þremur, sem Eggert gerði út skútur. Jónas var þessar þrjár vertíðar á sömu skútunni, Kyrjarsteinur frá Fuglafirði og var hann í miklu afhaldi hjá sínum skipstjóra og skipsfélögum. Jónas var tvö sumur formaður með lítinn mótorbát á Siglufirði á línuveiðum, þá var hann og fáein sumur á síldveiðum við norðurland. Síðasti báturinn sem Jónas var formaður með var Gulltoppur Ve 321, vertíðina 1942, en ekki var hann þó þar með afhuga sjónum eða úr sambandi við sína fyrri starfsfélaga, sjómennina.

Í ársbyrjun 1943 réðist Jónas næturhlustvörður á Símstöð Vestmannaeyja til að fylgjast sem best með ferðum og störfum bátaflotans og annarra skipa, því að nú voru allir bátar í eyjum komnir með talstöðvar. Hlustvörslu var komið í framkvæmd fyrir tillögur og áskoranir frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi, sem fékk Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja til liðs við sig og urðu félögin að bera allan kostnað af hlustvörslunni fyrstu árin.

Á þessu fyrsta ári, 1943, var komið á tilkynningarskyldu allra Vestmannaeyjabáta, sem ekki voru komnir í höfn kl. 7 á kvöldin úr hverjum fiskiróðri. Á línuvertíðinni var það föst regla hjá mörgum Eyjaformönnum að tala við Jónas, þegar búið var að leggja línuna og segja honum frá sínum ferðum og næstu báta og þannig fylgdist hann oftast með öllum bátaflotanum.

Eftir 18 ára starf hætti Jónas starfi næturvarðar og réðist þá húsvörður við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og gegndi því starfi til dánardægurs.

Jónas í Skuld var glaðsinna og góður félagi og mátti með sanni segja að hann var allra hugljúfi og kunningi og var ég einn þeirra, því að eftir útilegunóttina 12. febrúar 1928 vorum við góðir vinir. Þá löngu nótt höfðum við samflot, en urðum báðir að standa við stýrið alla nóttina, til að tapa ekki hvor af öðrum og verja bátana árekstri, því að lítið og ekkert sást fyrir sjóroki og snjókomu.

Jónas var kvæntur góðri konu, Guðrúnu Ingvarsdóttur og lifir hún mann sinn. Þau hjónin eignuðust fimm börn, sem öll eru hið mesta myndarfólk.

E. G.

Haukur Böðvarsson
F. 18. sept. 1949. d 25. feb. 1980.

Með fáum orðum langar mig að minnast míns gamla nemanda og vinar Hauks Böðvarssonar, sem fóst með m/b Eiríki Finnssyni í ofviðrinu mikla, sem gekk yfir Vestfirði hinn 25. febrúar sl.

Haukur Böðvarsson var fæddur á Ísafirði 18. september 1949. Hann var sonur hjónanna Iðunnar Eiríksdóttur og Böðvars Sveinbjörnssonar á Ísafirði.

Enn stendur mér einkar ljóst fyrir hugskotssjónum, þegar Haukur mætti til náms í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum haustið 1967. Hann var þá aðeins 18 ára gamall, naumlega með tilskilin siglingatíma og leit út fyrir að vera enn yngri. Haukur bauð af sér góðan þokka og fékk herbergi á heimavist að Breiðabliki. Þegar leið á vetur kom í ljós að Haukur var mikið og gott mannsefni. Hann var samviskusamur og stundaði námið af alúð. Hann varð vinsæll meðal félaga sinna, þó að hann léti aldrei sinn hlut í leik né starfi og var í miklu uppáhaldi hjá kennurum skólans fyrir ástundun og góða framkomu.

Haukur lauk 1. bekk með ágætum árangri, en ég man eftir að, þegar ég færði í tal við hann um vorið, að gott og nauðsynlegt væri fyrir hann að auka verulega þekkingu sína, þá var hann þessu mjög sammála. Það sem þá lifði vertíðar komst hann í gott skiprúm til Friðriks Ásmundssonar á m/b Mars og hrósaði Friðrik honum fyrir einstaka snerpu og áhuga á sjónum.

Haukur var svo til sjós næsta árið og kom sem fullþroska og harðnaður sjómaður í 2. bekk. Haukur lauk fiskimannaprófi 2. stigs með prýðisárangri vorið 1970 og hlaut verðlaun fyrir góða ástundun og framfarir í námi. Hann hélt síðan vestur í átthaga sína og varð þar fljótlega skipstjóri og atkvæðamikill og annálaður sjósóknari og kalla Vestfirðingar ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Félagar hans þar vestra lýsa Hauk sem einstökum áhugamanni í starfi sínu á sjónum og að hann hafi átt fáa sína líka hvað það snerti. Þetta er vel mælt.

Haukur var skipstjóri með Guðnýju og Víking III á línuveiðum og var þá alltaf í röð þeirra aflahæstu eða hæstur línubáta á Ísafirði. Hann sótti stíft og man ég vel eftir sjónvarpsmynd af klakabrynjuðum báti að koma að bryggju á Ísafirði, var þar Haukur að koma að landi úr erfiðri sjóferð.

Árið 1975 hóf Haukur rækjuveiðar með m/b Morgunstjörnu og ári síðar hóf hann útgerð og eignaðist lítinn rækjubát, sem hann skírði í höfuð á afa sínum Eiríki Finnssyni, sem var þekktur maður á ísafirði á sinni tíð. Upp frá því stundaði Haukur rækjuveiðar meiri hluta ársins og hafði fest kaup á stærri rækjubát, er kallið kom, hinn 25. febrúar. Bátur þessi var stærri og betur búinn en sá, sem Haukur fórst með í mannskaðaveðrinu mikla. Hafði Haukur hug á að fara á djúprækjuveiðar á því skipi.

Haukur sló aldrei slöku við. Milli rækjuúthalda fór hann á aðrar veiðar og önnur mið. Síðast þegar ég sá hann, en það var suður í Grindavík vorið 1979, þá stóð hann þar á bryggjunni með áhöfn sinni á Eiríki Finnssyni í bætingu á botnvörpu. Þetta var í húmi vornætur, norðangarri og úfinn sjór úti fyrir. Þar var þá enn sami góði drengurinn og forðum gekk hikandi skrefum upp stíginn heim að Breiðabliki. En nú var hann í sínu rétta formi. Mynd hans þetta vorkvöld verður mér sterk í huga, sæbarinn með seltu í skeggi og í rauðum hvörmum, flaksandi ljóst hárið, á klofháum stígvélum og á fullri ferð með nálina í grænu neti. Þetta var fullhuga sjómaður, sem ætlaði að komast á veiðar eins fljótt og auðið var. Ungur maður fullur hreysti og áhuga á starfi sínu.

Hann var samt jafn hlýr og alúðlegur og hann var alltaf. Við töluðum um að hittast með félögum hans frá 1. bekk nokkru síðar í Reykjavík. Hann var ekki viss, en næsta vor, þá myndum við áreiðanlega hittast. Eftir veru hans í Eyjum áttu þær sterka taug í Hauk. En svona er lífið. Nú er Haukur horfinn ásamt fleiri góðum vinum, sem voru saman á Breiðabliki forðum daga.

Á liðnum vetri minntust við Steingrímur Arnar stundum á Hauk og örlög hans. Jafnframt því sem þessar línur er kveðja mín til Hauks Böðvarssonar eru þær kveðja frá Steingrími og samkennurum okkar. Mikill mannsskaði er að slíkum dugnaðarmanni sem Haukur Böðvarsson var. Hann var aðeins rúmlega þrítugur og lífið fullt af fyrirheitum.

Haukur var ókvæntur. Móðir hans var látin fyrir nokkrum árum síðan. Eftirlifandi föður hans, systkinum og öðrum vandamönnum eru sendar innilegustu samúðarkveðjur.

G.Á.E.

Guðjón Tómasson frá Gerði
F. 30. júlí 1897 D. 10. des. 1979

Guðjón Tómasson var fæddur að Saurum í Snæfellsnessýslu 30. júlí 1897, þar sem foreldrar hans, hjónin Margrét Jónsdóttir og Tómas Jónsson bjuggu þá. Þau voru bæði fædd og uppalin í Mýrdal og fluttu fljótlega aftur á sínar æskuslóðir.

Tómas faðir Guðjóns var mikill dugnaðar sjómaður. Hann réri nokkrar vertíðir í Eyjum hjá miklum aflamönnum eins og Þorsteini í Laufási á Unni I, mági sínum Sigurði Ingimundarsyni í Skjaldbreið á m/b Vestmannaey og með Friðrik Svipmundssyni á tólfæringnum Ísafold, en á því skipi kynntist Guðjón Gerðisfeðgum, Guðlaugi og Stefáni. Það leiddi síðan til þess, að Guðjón var tekinn í fóstur til þeirra Gerðishjóna, Margrétar Eyjólfsdóttur og Guðlaugs Jónssonar. Guðjón kom til þeirra hjóna sumarið 1903. Þau Gerðisthjón tóku ástfóstri við Guðjón sem sinn eigin son og arfleiddu hann jafnt og sínum börnum. Guðjón launaði þeim líka vel uppeldið með því að vinna þeim fram að þrítugs aldri og fór hann ekki frá þeim fyrr en hann stofnaði sitt eigið heimili 34 ára að aldri.

Sumarið 1910 byrjaði Guðjón að róa á smáferju með Jakobi Tranberg og var með honum í 3 sumur. Veiðarfærið var handfæri og hásetarnir voru oftast 3 drengir, 12 til 16 ára gamlir. Ekki var róið nema í logni og blíðviðri og þá á grynnstu mið, en á þeim árum var þar oft nægur stútungur og ein og ein stórlúða. Margir Eyjadrengir byrjuðu sínar fyrstu sjóferðir með Koba og urðu margir þeirra síðar formenn og miklir sjósóknarar og áberandi fiskimenn. Kobi gamli var þá vanur að segja: „Hann lærði hjá mér". Guðjón fór tvö sumur austur á firði og réri á smáskektu, tveggja manna fari, við annan mann á Eskifirði. Þeir stunduðu innanfjarðar fiskirí með línu og var aflinn annað sumarið 28 skippund af þurrkuðum saltfiski, en hitt 36 skippund og þótti þetta góður afli (1 skpd.=160 kg.).

Um fermingaraldur fór Guðjón að beita sem þriðji maður á m/b Halkion VE 140, sem var 8.75 tonn að stærð en formaður var Stefán í Gerði. Vertíðina 1916 byrjaði Guðjón sjóróðra á þeim báti með Stefáni. Guðjón þótti fljótlega liðtækur háseti og á annarri vertíð hans á Halkion var Guðjón talinn með greiðari línulagningarmönnum í Eyjum, en það þótti eitt versta verkið í hverri sjóferð, því að hvern öngul varð að tína berhentur út úr hverju bjóði hvernig sem viðraði. En nú hafði Guðjón hæsta hásetakaup, sem þá var í Vestmannaeyjum og höfðu það ekki nema fáeinir úrvals góður hásetar. Þetta var „mótorista"-kaup, fjórir strengir af línu og allt sem á þá kom og tuttugasti partur af netafiski. Guðjón var með Stefáni á tveimur Halkionum, þar til hann byrjaði sína löngu formannstíð árið 1923, en Guðjón lauk hinu minna fiskimannsprófi í Eyjum í desember 1922.

Guðjón hóf sína formennsku vertíðina 1923 með m/b Ingólf Arnarson VE 187, sem var mældur 11,17 tonn. Það var góður bátur og happafleyta, sem Guðjón fiskaði vel á. Hnn var með Ingólf til vertíðarloka 1929, en þá var báturinn seldur austur á Hornafjörð. Eigendur Ingólfs keyptu þá Enok II, af Þórði á Bergi. Bátur þessi var 20 tonn að stærð og skírðu eigendur bátinn sama nafni og hinn fyrri, Ingólf Arnarson VE 187. utdráttardagur Guðjóns á Ingólfi II var 24. janúar 1930. Þann dag fórst m/b Ari með allri áhöfn. Guðjón var með Ingólf II í tvær vertíðir og fiskaði mikið, en þá seldu eigendur bátinn og hættu útgerð. Því næst réðst Guðjón fyrir m/b Fylki VE 14, sem var 42 tonn að stærð og var Fylkir þá stærsti og glæsilegasti bátur Eyjaflotans. Páll Scheving átti þá Fylki og gerði hann út. Guðjón var fiskikóngur Eyjanna eina vertíð á Fylki.

Vertíðina 1938 réðst Guðjón fiskilóðs á færeyskar skútur og var næstu 3 vertíðir fiskilóðs á skútunum Viðey, Skálanesi og Lilju. Þetta voru allt þrímastraðar skútur og glæsileg skip, sem Eggert Jónsson frá Nautabúi gerði út á þorskveiðar.

Stuttu eftir 1940 keypti Guðjón ásamt fleirum m/b Birgi VE 74 og var með hann í nokkur ár. Síðasti bátur, sem Guðjón var formaður með á þorsknetaveiðum var Bjarmi, sem Stefán í Gerði átti að hálfu og var hann með þann bát tvær eða þrjár vertíðar.

Guðjón var í nokkur sumur skipstjóri með síldveiðibáta við norðurland, voru það bátarnir Fylkir, Hilmir, Ágústa og Sídon, en ekki gekk honum eins vel að ná í síldina og þorskinn. Þá var Guðjón stýrimaður og skipstjóri á m/b Skógafossi Ve 320, 50-60 tonna báti, sem var í flutningum á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um nokkur ár, frá 1950-1960. Síðast hafði Guðjón skipstjórn á Víkingi Ve 133 og stundaði þá dragnótaveiðar, var það árið 1965. Eftir það var hann einhvern tíma á Skuldinni með Begga frá Hlíðardal og var viðloðandi sjóinn meira og minna fram yfir sjötugt.

Guðjón Tómasson var skipstjóri í yfir 40 ár, en sjómennsku stundaði hann hátt á sjötta áratug og má það kallast vel að verið. Hann var hörku sjómaður og mikill stjórnari í vonskuveðrum, þegar á reyndi. Guðjón sótti sjóinn mjög fast á sínum fyrri formannsárum og var þá mikill fiskimaður.

Þegar Guðjón hætti á sjónum, fór hann að vinna við þorskanet hjá Willum Andersen og vann með honum fram að áttræðu og lauk þar með sinni löngu starfsævi.

Guðjón var góður bjargveiðimaður, lipur og léttur fjallamaður, kjarkmikill en aðgætinn, og góður lundaveiðimaður.

Hann kvæntist Aðalheiði Jónsdóttur Sverrissonar hinn 3. október 1931. Guðjón missti konu sína eftir tæplega 15 ára samveru. Þau hjón eignuðust þrjú börn, Birnu, Sólveigu og Tómas.

Árið 1951 flutti Guðjón til Birnu dóttur sinnar og Magnúsar tengdasonar og dvaldi hann á þeirra heimili fram yfir áttrætt. í stuttan tíma dvaldi hann á elliheimilinu Hraunbúðum og fór þaðan á sjúkrahúsið, þar sem hann andaðist 10. desember 1979. Strax á bernskuárum urðum við góðir vinir og hélst það til hans æviloka.

E. G.

Þeir fórust með Jökultindi SI 200

Hinn 23. apríl s.l. fórst vélbáturinn Jökultindur SI 200 norðvestur af Eyjum og með honum þriggja manna áhöfn.

Þeir sem fórust: Guðmundur Einar Guðjónsson kafari og sjókortagerðarmaður, Bogahlíð 18 Reykjavík. Guðmundur var fæddur 23.3. 1931. Hann hafði unnið mikið að köfunarstörfum hér við Eyjar.
Magnús Rafn Guðmundsson, sonur Guðmundar, Bogahlíð 18 Reykjavík var fæddur 7.12. 1959. Hann hafði unnið að hafnarstörfum með föður sínum.
Kári Valur Pálsson, Brekkugerði 12, Reykjavík, var fæddur 21.12. 1959. Hann hafði verið með þeim feðgum við netaveiðar á Jökultindi.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja sendir aðstandendum hinna látnu sínar dýpstu samúðarkveðjur.