„Blik 1967/Frumherjar - Merkir ættliðir III.“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 11: | Lína 11: | ||
Þegar hér er komið þessum málum, var enginn í Eyjum, sem kunni að leika á orgelið. Þá var að velja ungan mann til þess að læra á það, og ráða hann síðan organista við Landakirkju. - Séra Brynjólfi Jónssyni var það brátt ljóst, að enginn ungur maður í Eyjum var ákjósanlegri til þessa náms og starfs en Sigfús Árnason, einn af meðhjálparasonunum á Vilborgarstöðum, sökum meðfæddra hæfileika, prúðmennsku og mennilegrar framkomu og þokka, sem hæfði bezt slíkri þjónustu í þágu kirkjunnar og kristilegra athafna.<br> | Þegar hér er komið þessum málum, var enginn í Eyjum, sem kunni að leika á orgelið. Þá var að velja ungan mann til þess að læra á það, og ráða hann síðan organista við Landakirkju. - Séra Brynjólfi Jónssyni var það brátt ljóst, að enginn ungur maður í Eyjum var ákjósanlegri til þessa náms og starfs en Sigfús Árnason, einn af meðhjálparasonunum á Vilborgarstöðum, sökum meðfæddra hæfileika, prúðmennsku og mennilegrar framkomu og þokka, sem hæfði bezt slíkri þjónustu í þágu kirkjunnar og kristilegra athafna.<br> | ||
[[Mynd:Blik 1967 16-1.jpg|thumb|200px|Sigfús Árnason organisti, (í næturvarðarbúningi 1917).]] | |||
[[Mynd:Blik 1967 16-2.jpg|thumb|200px|Jónína K.N. Brynjólfsdóttir húsfreyja á Vestri-Löndum.]] | |||
Haustið 1878 mun Sigfús hafa hafið hljómlistarnámið í Reykjavík. En ekki komizt svo langt á þeirri braut, að hann þá þegar treysti sér til þess að spila í Landakirkju. Þetta haust mun Sigfús hafa keypt sér stórt og vandað orgel, sem hann kom með heim til Eyja fyrir jólin þ. á. Þá gat hann æft og þjálfað sig heima í listinni.<br> | Haustið 1878 mun Sigfús hafa hafið hljómlistarnámið í Reykjavík. En ekki komizt svo langt á þeirri braut, að hann þá þegar treysti sér til þess að spila í Landakirkju. Þetta haust mun Sigfús hafa keypt sér stórt og vandað orgel, sem hann kom með heim til Eyja fyrir jólin þ. á. Þá gat hann æft og þjálfað sig heima í listinni.<br> | ||
Loks vorið 1879 afréð Sigfús Árnason að láta til skarar skríða og hefja orgelspilið í kirkjunni. Á hvítasunnudag það ár lék hann í fyrsta sinn á orgelið undir sálmasöngnum. Hafði hann þá æft nokkurn söngflokk, sem söng við guðsþjónustu þann dag og þótti takast vel og giftusamlega. Safnaðarfólkið dáði þá þegar þetta starf og þessa nýung og lauk miklu lofsorði á þetta framtak hins vinsæla prests og sálusorgara og svo organistann sinn, sem þá var á 23. aldursárinu.<br> | Loks vorið 1879 afréð Sigfús Árnason að láta til skarar skríða og hefja orgelspilið í kirkjunni. Á hvítasunnudag það ár lék hann í fyrsta sinn á orgelið undir sálmasöngnum. Hafði hann þá æft nokkurn söngflokk, sem söng við guðsþjónustu þann dag og þótti takast vel og giftusamlega. Safnaðarfólkið dáði þá þegar þetta starf og þessa nýung og lauk miklu lofsorði á þetta framtak hins vinsæla prests og sálusorgara og svo organistann sinn, sem þá var á 23. aldursárinu.<br> |
Útgáfa síðunnar 12. júlí 2007 kl. 11:51
Ekki duldist meðhjálparahjónunum á Vilborgarstöðum, Árna Einarssyni og Guðfinnu Jónsdóttur Austmann, gildi fræðslu og þekkingar, eins og ég hefi drepið á fyrr í greinarkorni þessu. Þess vegna gerðu þau sitt ítrasta til að veita börnum sínum bóklega fræðslu, eftir því sem þá voru tök á.
Er börn þeirra voru að vaxa úr grasi, var enginn barnaskóli starfandi í Vestmannaeyjum. Því síður unglingaskóli. En fræðslustofnanir eða fræðslulindir áttu Eyjabúar samt. Þær voru heimili sýslumannshjónanna Bjarna E. Magnússonar og konu hans Hildar Bjarnadóttur Thorarensen, og svo prestshjónanna að Ofanleiti, séra Brynjólfs Jónssonar og konu hans Ragnheiðar Jónsdóttur. Um árabil tók sýslumaður unglinga inn á heimili sitt og kenndi þeim bókleg fræði án alls endurgjalds. (Sjá Blik 1962). Það gerði presturinn einnig (Blik 1963).
Eftir því sem sonum meðhjálparahjónanna á Vilborgarstöðum óx vit og þroski, var þeim komið „í læri“ til þessara embættismanna, eftir að öllum undirbúningi fyrir fermingu lauk heima, svo sem nám í lestri, skrift, kristnum fræðum og einföldustu meðferðum talna. Þeim kennslustörfum voru hjónin sjálf vel vaxin.
Eftir fermingu var Sigfúsi Árnasyni komið „í læri“ hjá Bjarna sýslumanni Magnússyni. Það var síðasta árið, sem sýslumaður var búsettur í Vestmannaeyjum eða gegndi þar embætti. Síðan nam Sigfús um skeið hjá séra Brynjólfi sóknarpresti að Ofanleiti. Þar mun hann hafa fengið nokkra undirstöðu í dönsku t. d. og ef til vill fleiri tungumálum.
Eins og aðrir uppvaxandi drengir í Eyjum á þeim árum og fyrr og síðar, meðan opnu skipin eða bátarnir voru notaðir, hóf Sigfús Árnason snemma að stunda sjóinn á juli, þ. e. vor- og sumarbáti foreldra sinna, og svo á vetrarvertíðum með föður sínum á átt-æringnum Auróru. Sigfús var einn af hásetunum á Auróru, er hún stundaði hákarlaveiðarnar árið 1875. Þá var hann 19 ára gamall. Formaður var Sigfús Árnason um skeið á vetrarvertíð eða -vertíðum. Á búskaparárum sínum á Löndum var hann meðeigandi í Auróru með föður sínum og Kristínu húsfreyju, föðursystur sinni í Nýjabæ og Engilbert Engilbertssyni í Jómsborg. Öll áttu þau jafnmikið í skipi þessu eða 1/4 hluta hvert þeirra.
Vorið 1878 fluttist fyrsta orgelið til Vestmannaeyja. Árið áður hafði séra Brynjólfur að Ofanleiti vakið máls á því í söfnuðinum, hversu nauðsynlegt og áhrifaríkt það væri að bæta sönginn í Landakirkju. Þess voru dæmi, að þar væru sömu menn forsöngvarar áratugum saman og eins, þátt þeir að meira eða minna leyti væru búnir að missa röddina sakir aldurs. Prestur veigraði sér við að tjá þeim óhæfnina, ef þeir fundu hana ekki sjálfir. Séra Brynjólfur Jónsson var betur settur í þessum efnum en margur annar sóknarpresturinn þar hafði verið sökum þess, hversu mikill og gáður söngmaður hann var sjálfur. Oft hélt hann sjálfur uppi messusöngnum, svo að hvergi skeikaði.
Þegar hér var komið sögu, eru orgel í kirkjum á Íslandi ekki óþekkt fyrirbrigði. Í Reykjavík til dæmis mun fyrsta orgelið hafa verið notað við messusöng í þjóðkirkjunni árið 1840. Séra Brynjólfur Jónsson vildi ekki að Landakirkjusöfnuður yrði lengur eftirbátur annarra safnaða sér á landi í þeim efnum. Þess vegna efndi hann til almennra samskota í byggðarlaginu vorið 1877 til þess að afla fjár til orgelkaupanna. Þannig söfnuðust honum 30 krónur, sem var þó nokkurt fé á þeim tíma. Hann taldi sig geta fengið keypt sæmilegt orgel í kirkjuna fyrir 130 krónur. Þess vegna skrifaði prestur yfirvöldunum og æskti þess, að alþingi legði af mörkum úr landssjóði 100 krónur til orgelkaupanna, þar sem Landakirkja með öllu og öllu var eign landssjóðs. Aldrei mun prestur hafa fengið framlag þetta. En vorið eftir (1878) kom eitt af verzlunarskipum Brydeverzlunar til Eyja „færandi hendi“. Það flutti með sér gjöf til Landakirkju. Það var býsna laglegt orgel, sem J. P. T. Bryde, einokunarkaupmaðurinn danski í Eyjum (1879-1910) sendi kirkjunni að gjöf.
Þegar hér er komið þessum málum, var enginn í Eyjum, sem kunni að leika á orgelið. Þá var að velja ungan mann til þess að læra á það, og ráða hann síðan organista við Landakirkju. - Séra Brynjólfi Jónssyni var það brátt ljóst, að enginn ungur maður í Eyjum var ákjósanlegri til þessa náms og starfs en Sigfús Árnason, einn af meðhjálparasonunum á Vilborgarstöðum, sökum meðfæddra hæfileika, prúðmennsku og mennilegrar framkomu og þokka, sem hæfði bezt slíkri þjónustu í þágu kirkjunnar og kristilegra athafna.
Haustið 1878 mun Sigfús hafa hafið hljómlistarnámið í Reykjavík. En ekki komizt svo langt á þeirri braut, að hann þá þegar treysti sér til þess að spila í Landakirkju. Þetta haust mun Sigfús hafa keypt sér stórt og vandað orgel, sem hann kom með heim til Eyja fyrir jólin þ. á. Þá gat hann æft og þjálfað sig heima í listinni.
Loks vorið 1879 afréð Sigfús Árnason að láta til skarar skríða og hefja orgelspilið í kirkjunni. Á hvítasunnudag það ár lék hann í fyrsta sinn á orgelið undir sálmasöngnum. Hafði hann þá æft nokkurn söngflokk, sem söng við guðsþjónustu þann dag og þótti takast vel og giftusamlega. Safnaðarfólkið dáði þá þegar þetta starf og þessa nýung og lauk miklu lofsorði á þetta framtak hins vinsæla prests og sálusorgara og svo organistann sinn, sem þá var á 23. aldursárinu.
Orgel þetta, sem nú er geymt í Byggðarsafni Vestmannaeyja, var notað í Landakirkju fram á árið 1896. Þá þótti það ekki lengur fullnægja þeim kröfum, sem gerðar voru þá um kirkjuorgel. Leigðu þá ráðandi menn kirkjunnar orgel organistans.
Síðan var orgelið hans notað í kirkjunni til ársins 1904 að Sigfús Árnason sagði af sér organleikarastarfinu. Þá höfðu verið fest kaup á nýju orgeli handa kirkjunni með ráði organistans. Það reyndist síðar gallað, og tjáir Brynjólfur sonur hans föður sínum það í bréfi, eftir að hann tók við organistastarfinu. Kaupa þurfti nýtt orgel eftir stuttan tíma.
Kirkjusjóður greiddi Sigfúsi organista 20 krónur árlega leigu fyrir orgellánið frá 1896-1904. Það var einasta greiðslan, sem organistinn fékk þau 25 ár, sem hann hafði starfið á hendi í Landakirkju. Annað verður naumast ályktað, en að allt þetta geysimikla starf organistans hafi þótt sjálfsagt fórnarstarf í þágu
safnaðarins, og hver sá talinn hólpinn og sæll, sem var því vaxinn að geta innt slíkt fórnarstarf af hendi.¹
Prestshjónin á Ofanleiti, séra Brynjólfur og madama Ragnheiður, áttu vel gerðar og laglegar dætur. Ein þeirra hét Jónína Kristín Nikólína. Hún var fædd 14. apríl 1856 og því vel gjafvaxta, þegar hér er komið sögu. Þau Jónína prestsdóttir og Sigfús organisti felldu hugi saman og heitbundust svo sem átt hafði sér stað með Einar Árnason bróður hans og Rósu, elztu dóttur prests hjónanna (sjá Blik 1963).
Það sem vekur mér nokkra furðu er það, að prestsdóttirin og organistinn létu ekki lýsa með sér í kirkju, svo sem venja var, heldur fengu þau konunglegt leyfi til giftingarinnar, Þar sem konungur gjörir „vitterligt: At Vi, efter derom allerunderdanigst gjort Ansögning og Begjæring, aller naadigst have bevilget og tilladt, saa og hermed bevilge og tillade: at Organist Sigfús Árnason og Jomfru
Jónína Kristín Nikólína Brynjólfsdatter, begge af Vestmannöerne inden Sönderamtet paa vort Land Ísland, maae udan foregaaende Lysning fra Prædikestolen, hjemme i Huset sammenvies af hvilken Præst de det begjære og dertil kunne formaae...
Givet i Vor kongelige Residentstad Kjöbenhavn den 12 te Mai 1882 Under vort kongelige Segl
- Efter hans kongelige Majestæts
- allernaadigste Befaling
- P. M. V.
- Oddgeir Stephensen
- allernaadigste Befaling
- Udleveret af Amtmanden over
- Íslands Sönderamt
- Reykjavik d. 12. Mai 1882
- Bergur Thorberg.
Leyfisbréf þetta kostaði kr. 33,66. Það voru töluverðir peningar í þá daga.
Svo var þá efnt til dýrðlegrar brúðkaupsveizlu að Ofanleiti. Brúðurin lét vinkonu sína, frú Aagaard sýslumannsfrú að Uppsölum, skauta sér, áður en hún gekk til vígslunnar. Það var 10. júní 1882, sem séra Brynjólfur sóknarprestur að Ofanleiti gifti Jónínu dóttur sína og organistann sinn, Sigfús Árnason. Þau þóttu sérstaklega glæsileg hjón, sem framtíðin brosti við, og myndirnar hér af þeim bera þess nokkurt vitni.
Hjónin Sveinn Þórðarson, beykir og mormóni, og Helga Árnadóttir bjuggu um árabil í tómthúsinu Vestri-Löndum. Árið 1878 fluttu hjón þessi burt úr Eyjum og alla leiðina vestur til Utah í Ameríku, mormónanýlendunnar nafnkunnu. Við brottför þeirra úr Eyjum keypti Jóhann Jörgen á Vilborgarstöðum, þá 31 árs að aldri, Vestri-Lönd og hugðist hefja búskap þar með unnustu sinni Sigríði Árnadóttur frá
Oddstöðum. Þó leigði hann tómthúsið fyrst um sinn óvandabundnu fólki eða næstu 2-3 árin.
Þegar Sigfús Árnason, hálfbróðir Jóhanns Jörgens, gifti sig, fékk hann inni í Vestri-Löndum, tók á leigu tómthúsið.
Árið 1886 varð það að ráði, að Jóhann Jörgen seldi hjónunum Sigfúsi og Jónínu Vestri-Lönd. Söluverðið var 500 krónur með ,,hjáliggjandi útihúsum og umgirtum kálgarði.” Kaupsamningurinn er dagsettur 19. febr. 1886. Við samningsgjörðina greiddu þau hjón í peningum 150 krónur og eftirstöðvarnar skyldu þau greiða á næstu 7 árum eða 50 krónur á ári. En vetrarvertíðin 1886. gaf Sigfúsi Árnasyni mikið í aðra hönd, og svo hlutu þau hjón dálítinn arf eftir séra Brynjólf, föður Jónínu húsfreyju, svo að þau greiddu eftirstöðvar kaupverðsins í apríllokin þá um vorið (1886).
Þegar á fyrsta búskapar- og hjúskaparári sínu á Vestri-Löndum héldu hjónin Sigfús og Jónína þrjú hjú, vinnumann og tvær vinnukonur.
Árið eftir giftinguna fæddist ungu hjónunum fyrsta barnið. Það var einkarefnilegt stúlkubarn, sem var skírt Ragnheiður Stefanía. Allt lék í lyndi fyrir þeim og hamingjan brosti við þeim.
Þessi mætu hjón bjuggu á VestriLöndum athafnasömu lífi. Þau ráku útgerð, ræktuðu land og gerðu að túni og höfðu nokkurn kvikfénað. Sjálfur var Sigfús Árnason formaður framan af athafnaárunum.
Árið 1891, 8. marz, undirritaði Aagaard sýslumaður þeim hjónum til handa byggingarbréf fyrir jörðinni Eystri-Oddstöðum. Þau nytjuðu síðan nokkurn hluta þeirrar jarðar og hlunnindi hennar, enda þótt þau byggju framvegis á Vestri-Löndum. Að öðru leyti leigðu þau Eystri-Oddstaði frá sér.
Ekki er ófróðlegt upptak þessa byggingarbréfs fyrir okkur, sem fjær stöndum öllum jarðarafnotum hér í Eyjum. Fyrstu ákvæði byggingarbréfsins hljóða þannig:
„Michael Marius Ludovico Aagaard umboðsmaður yfir þjóðjörðum á Vestmannaeyjum og sýslumaður sama staðar gjörir kunnugt: að ég byggi Sigfúsi Árnasyni þjóðjörðina Eystri-Oddstaði, sem fóðrar 1 kú og 1 hest, auk hlunninda, til að mynda hagagöngu í Ellerey (á að vera Elliðaey) fyrir 15 og á Heimaey fyrir 12 fjár, einnig fuglatekju á báðum þessum stöðum og í Stórhöfða, Hellisey og Súlnaskeri móts við þá, er þar eiga hlut í til ábúðar og leiguliðanota frá næstkomandi fardögum með þessum skilmálum:
1.
Hann skal gjalda hvert ár fyrir lok júnímánaðar í ákveðna landskuld af jörðinni 170 fiska í peningum eftir meðalverði allra meðalverða í þeirri verðlagsskrá, sem ræður á réttum gjalddaga.
Alls er byggingarbréf þetta í 13 greinum og sannar okkur, hversu smáar voru jarðir hér á Heimaey og fleyttu fram litlum bústofni. Allar voru þær jafnar að stærð, en margur bóndinn jók bústofn sinn á jörðunum með aukinni ræktun lands.
Öll haust, eftir að Sigfús Árnason gerðist organisti við Landakirkju, æfði hann kirkjukórinn af áhuga og samvizkusemi. Oftast æfði hann kórinn í sjálfri kirkjunni. En síðar fékk hann til afnota barnaskólahúsið Dvergastein (Heimagata 7). Þau afnot hans af barnaskólahúsinu hefjast með bréfi, sem organistinn skrifaði sýslumanni haustið 1888. Leyfi ég mér að birta. það bréf hér lesendum mínum til fróðleiks og glöggvunar á áhuga organistans og skyldurækni við kirkju sína og kirkjusöng.
- „Hér með leyfi ég mér að biðja hina heiðruðu sýslunefnd Vestmannaeyja að ljá mér til söngkennslu kennslustofu Barnaskólans tvisvar í viku til byrjunar næstkomandi vetrarvertíðar.
- Eins og nefndinni er kunnugt, eru í hinni nýjustu sálmabók vorri fjöldamörg lög (60-70), sem eru að öllu leyti ókunn, og er því stór þörf á að kenna þessi lög. En af því hentugt húsrúm er hvergi til að fá, þá sný ég mér til hinnar heiðruðu nefndar í þessu efni, og vona ég að nefndin verði við þessari beiðni minni. Ég skal taka það fram, að ég mun haga kennslustundum mínum þannig, að þær ekki komi í bága við aðra þá, sem brúka ofannefnt herbergi skólans.
- Löndum, 18. september 1888
- Virðingarfyllst,
- Sigfús Árnason
- Til oddvita sýslunefndarinnar í Vestmannaeyjum.“
M. M. L. Aagaard sýslumaður brást vel við þessari beiðni organistans og kom því til leiðar, að organistinn fékk kennslustofuna í Barnaskólahúsinu til afnota. Þar hafði síðan organistinn söngæfingar um nokkur ár og svo lánaði sýslumaður honum þinghús Eyjanna þess á milli.
Að sjálfsögðu litu ráðandi menn byggðarlagsins með þeim góðvilja og skilningi á þessi menningarstörf Sigfúsar Árnasonar, að hann þurfti enga leigu að greiða fyrir afnot húsanna.
Árið 1893 var Sigfús organisti Árnason kjörinn þingmaður Vestmannaeyinga. Við þingkosningar þá voru 72 á kjörskrá í kauptúninu og umhverfi þess og Sigfús Árnason fékk 19 atkvæði við kosningarnar. Það atkvæðamagn tryggði honum Þingsætið. Hann féll frá þingsetu árið eftir fyrir Valtý Guðmundssyni.
Tilvísanir
¹ Ekki vitum við, hver fyrstur keypti orgelið Brydesnaut af Landakirkju. En við í Byggðarsafnsnefnd Vestmannaeyja fundum það með góðra manna hjálp suður á Grímsstaðaholti í Reykjavík árið 1958. Þar hafði sextug kona átt það í 48 ár. Faðir hennar hafði keypt þetta notaða orgel handa henni, er hún var 12 ára gömul.