„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Sigurður Georgsson fiskikóngur“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 34: | Lína 34: | ||
'''Sigurgeir Jónsson''' | '''Sigurgeir Jónsson''' | ||
[[Mynd:Screen Shot 2017-08-23 at 09.04.16.png|500px|center|thumb|Áhöfnin á Suðurey VE, talið frá v.: Brynjar Stefánsson 1. vélstjóri, Sigurður Georgsson skipstjóri, Kjartan Óskarsson 2. vélstjóri, Sigurjón Ingvarsson, Guðmundur Erlingsson 2. stýrimaður, Jóhann Pálsson, Tómas Ísfeld matsveinn, Atli Sverrisson, Sigmundur R. Karlsson, Ólafur Ólason, Stefán Einarsson stýrimaður]] | [[Mynd:Screen Shot 2017-08-23 at 09.04.16.png|500px|center|thumb|Áhöfnin á Suðurey VE, talið frá v.: Brynjar Stefánsson 1. vélstjóri, Sigurður Georgsson skipstjóri, Kjartan Óskarsson 2. vélstjóri, Sigurjón Ingvarsson, Guðmundur Erlingsson 2. stýrimaður, Jóhann Pálsson, Tómas Ísfeld matsveinn, Atli Sverrisson, Sigmundur R. Karlsson, Ólafur Ólason, Stefán Einarsson stýrimaður]] | ||
{{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} | {{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} |
Útgáfa síðunnar 4. júní 2019 kl. 14:59
Fiskikóngur Vestmannaeyja, vertíðina 1984, er Sigurður Georgsson skipstjóri á Suðurey VE 500. Sigurður er Vestmannaeyingur, sonur þeirra Georgs Skæringssonar og Sigurbáru Sigurðardóttur. Sigurður býr að Höfðavegi 9 ásamt konu sinni Fríðu Einarsdóttur og fimm börnum þeirra.
Skrifari tók á þeim hjónum hús hinn 12. maí síðastliðinn og rabbaði við fiskikónginn.
Hvenær hófst þú sjómennsku?
Það var árið 1956 með Einari Runólfssyni á Sídon. Svo hélt þetta áfram og árið 1960 lauk ég hinu minna fiskimannaprófi. Svo dreif ég í því árið 1980 að klára þetta og settist í annað stig Stýrimannaskólans hér og lauk námi þar. Menn eiga að hafa réttindin í lagi.
Nú hefur þér gengið einstaklega vel í vetur. Kominn með tæp 1400 tonn og allt útlit fyrir að þið farið vel yfir 1400 tonnin eins og horfir. Hvað veldur þessum mikla afla?
Ég hef verið heppinn. Eg hef verið mikið á sömu stöðum í vetur, fram að páskum var ég með netin í kantinum út af Portlandi og núna seinni partinn á Víkinni í Reynisdýpinu og út af Alviðru. Þetta hefur gengið alveg ljómandi vel, aflinn góður og töluvert af þorski í honum. Ég reikna með að halda út eitthvað fram yfir þann fimmtánda, það er bara ekki hægt að taka upp úr svona góðu fiskiríi eins og verið hefur. ekki undir fimmtán tonnum á dag.
Hvernig hefur matið verið hjá ykkur í vetur?
Það hefur verið mjög gott. Þetta 85, 90 og 100 prósent. Það er trúlega því að þakka að við höfum ísað mjög vel.
Hver er þín skoðun á kvótakerfinu?
Ég er alfarið á móti því. Ég vil frekar hafa ákveðin stopp á veiðum en hafa frjálst fiskirí meðan á því stendur. Ég var um tíma ekki sammála fiskifræðingunum en í dag held ég að þeir hafi talsvert til síns máls, það liggur svona við að maður sé að verða hálfhræddur um stöðuna. Þó virðist mér ekki ástæða til svartsýni, alla vega er ég ekki svartsýnn á framtíðina, við höfum fengið heilmikinn þorsk í vetur, þótt maður sé að sjálfsögðu hálfuggandi yfir þeim tölum sem fiskifræðingar hafa lagt á borðið að undanförnu. Það er náttúrulega ekki hægt að ganga framhjá þeim.
Hvað tekur við hjá ykkur eftir vertíð?
Við förum á troll. Það er ekki vitað í dag hvort það verður upp á eigin spýtur eða tveggja báta troll. Það er mjög skemmtilegt að vera á tveggja báta trolli, svona næstum því eins gott og á netum.
Hvernig er vertíðin búin að vera?
Þetta er einhver sú erfiðasta vertíð sem ég man eftir og á ég þá við veðráttuna. Ég man aldrei eftir öðrum eins stórviðrum og verið hafa í vetur.
Nú hafa orðið miklar breytingar síðan þú hófst að stunda sjó. Hverjar eru helstu breytingarnar á netunum?
Ég held að flotteinninn sé mesta byltingin og náttúrulega blýteinninn líka. Þetta léttir alveg rosalega vinnuna hjá mannskapnum.
Dráttarkarlinn er mjög góður líka, hann hefur minnkað slysahættuna mikið.
Hvernig skip er Suðurey?
Þetta er afskaplega góður og lipur bátur á netum. Hann er heldur lítill fyrir trollið. En útgerðin er með eindæmum góð. Ég er búinn að vera hjá þessari útgerð frá 1957, þá var ég með Magga á Felli á Tý og síðan er ég búinn að vera skipstjóri á fimm bátum hjá útgerðinni. Þetta er góð útgerð, mér líkar einstaklega vel þarna, það skortir aldrei neitt. Þá má líka geta strákanna sem eru um borð hjá mér, þetta er einvalalið og sumir búnir að vera með mér í áravís allt upp í 14 ár. Maður fiskar ekki svona nema með góðum mönnum.
Hvað hafið þið verið með af netum í vetur?
10 trossur, 15 neta eins og leyft er. Það hefur verið talsverður netaaustur á vertíðinni, líklega einar 12 til 1300 slöngur.
Virðast þér kjör sjómanna vera svipuð og var til að mynda fyrir 10 árum?
Nei, því fer víðs fjarri. Ég gæti giskað á að hluturinn hefði lækkað um það bil einn þriðja frá því sem var. Þetta er að sjálfsögðu slæmt og á alls ekki nokkurn rétt á sér. Þessir menn eiga allt annað og betra skilið.
Hvað gerir Sigurður Georgsson í frístundum sínum í landi?
Það er nú svona sitt af hverju, til dæmis þykir honum gaman að skemmta sér með góðu fólki. En upp á síðkastið hef ég verið að dunda mér með honum föður mínum í fjárbúskap og hef afskaplega gaman af því. Ég á víst einar átta eða níu rollur og hef alveg sérstaklega gaman af þessu. Þetta virðist vera einhver sérstök árátta hjá okkur skipperunum í flotanum að halda fé, við erum orðnir velflestir í þessu.
Svona að lokum. Hvernig líst þér á útlitið í sjávarútvegi?
Ég er bjartsýnismaður og vil vera bjartsýnn. Það verður náttúrulega að taka það með í reikninginn að það eru blikur á lofti og tölur eru okkur ekki hagstæðar. En ég vil ekki vera svartsýnn, þessi vertíð er búin að vera afbragðsgóð hjá okkur og ég horfi björtum augum fram á veginn.
Sigurgeir Jónsson