„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Spánarferð Sigurðar Ingimundarsonar“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
 
Lína 2: Lína 2:
<big><big>'''Spánarferð'''</big></big><br>
<big><big>'''Spánarferð'''</big></big><br>


''Sigurðar Ingimundarsonar''<br>
<big>''Sigurðar Ingimundarsonar''</big><br>





Núverandi breyting frá og með 17. maí 2019 kl. 14:37

Spánarferð

Sigurðar Ingimundarsonar


Haraldur Guðnason bókavörður.

Í MINNINGABÓK Torfa Halldórssonar skipstjóra, hinni síðari, er kafli, sem heitir M/b Oddur og Siggi Munda. Þar segir frá Spánarferð Sigurðar Ingimundarsonar, árið 1955.
Fyrir nokkrum árum festi ég á blað nokkrar minningar Sigurðar Ingimundarsonar frá langri ævi og stundum stormasamri. Ég spurði hann um Spánarferðina, sem varð ævintýraferð, þó með tvísýnum endi um skeið. - Skipverji á Oddi, Einar heitinn Jóelsson frá Sælundi í Eyjum, sagði mér ferðasöguna í stórum dráttum. Hann sagði vel frá. Úr þessum þrem þáttum er frásögn sú spunnin, sem hér fer á eftir.
Torfi Halldórsson tók við skipstjórn á Oddi um áramótin 1955. Oddur var um 250 tonna skip. Hann var í strandsiglingum, en fór nokkrar ferðir til útlanda, oftast með fiskimjöl, en flutti salt eða sement heim.
Aðaleigandi Odds var Helgi Benediktsson, kaupmaður og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Hinn eigandinn var Guðmundur H. Oddsson, áður skipstjóri á Oddi.
Torfi segir í bók sinni, að Oddur hafi verið smíðaður í Noregi úr furu, „og var þá allvel viðaður, en seinna kom upp í honum hinn svokallaði þurrafúi,. er þannig lýsir sér, að bitar, bönd og aðrir viðir virðast vera heilir og sterkir, en ef stungið er hníf eða öðru oddhvössu í bita er allt eins og grautur innra.
Oddur var afburða sjóskip, en ef um mikinn mótvind var að ræða kom upp í honum allmikill leki, svo oft þurfti Oddur að fara í slipp að endaðri ferð, og það kom fyrir, að fara varð í höfn í Færeyjum á útleið, ef við hrepptum vont veður - og þá til þess að láta hampþétta.“ Torfi segir, að hann minnist þess ekki, að neitt sögulegt hafi skeð á Oddi þessi ár, er hann var skipstjóri, nema ef vera skyldi Spánarferðin í ágústmánuði 1955.
Oddur var í utanlandssiglingum þetta ár. Í þessari ferð var Oddur með 1500 tunnur af hrognum til Bilbao á Spáni. Þá átti að halda til Rotterdam og taka þar kartöflufarm, en þá var skortur á þeirri vöru sem oftar.
Skipið kom við í Eyjum á útleið. Helgi bað Torfa skipstjóra að lofa gömlum formanni að fara með út. Hann langaði mikið að sjá sig um í heiminum. Maðurinn var Sigurður Ingimundarson, fyrrum formaður og harðsækinn aflamaður. Torfi taldi engin tormerki á, að Sigurður fengi far, væri hann andlega og líkamlega heilbrigður. Taldi Helgi að svo mundi vera.

Það var lagt upp frá Vestmannaeyjahöfn seint í júlí í ágætu veðri. Skipverjar voru flestir úr Eyjum, en tveir eða þrír úr Reykjavík. Að áliðnum degi fyrir brottför rakst Torfi skipstjóri á gamlan mann, sem sat á kistu uppi á bátaþilfari, Hann handlék flösku - líklega með brennivínslögg. Torfi segir frá:
„Ég tók manninn tali og sagðist hann vera á leið til Spánar með þessu skipi, og spurði hann mig hvort ég væri skipstjórinn og játti ég því.
Þessi maður var hinn kunni formaður, Sigurður Ingimundarson, oft kallaður Siggi Munda.
Sigurður hafði verið skipstjóri fjölda ára, sóti fast og aflað mikið. Nú var hann kominn á áttræðisaldur og hættur sjóferðum.
Við töluðum saman um stund og sagði hann mér, að hann gæti stýrt skipinu, ef á þyrfti að halda, því væri hann vanur, og bar ég engar brigður á það. - Slitum við svo talinu ...

Aldrei stýrði Siggi Munda, en hann var uppi fyrir allar aldir og mjög skrafhreifinn, og þótti mér gaman að spjalla við hann. Sagði hann mér margar sögur frá reisu sinni um veraldarhafið. Ævinlega var Siggi Munda að horfa kring um sig, og varð mér það fljótt ljóst, að þar fór maður, er var með óskerta athyglisgáfu þótt honum væri farið að förlast minni.

Ég hef alla mína ævi haft ágæta sjón, og mér fannst ég ekki vera farinn að tapa henni þá, enda tæplega sextugur, en það segi ég með sanni að Siggi Munda hafði „fálkaaugu“, og sá skip og land við Írlandsströnd á undan öllum öðrum -þótt gamall væri. Sú mikla sjón er sjaldgæf.“
Stefnan var vestanvert við Írland. Þetta var róleg ferð og tíðindalaus. Þegar komið var í Biskayaflóann lágu skipverjar í sólbaði á frívaktinni, en iðraði þess síðar, því að sumir sólbrunnu illa.
Sigurður spjallaði margt við háseta og skipstjóra. Hafði hann meðal annars orð á því, að sér þætti slælega sóttur sjór þar syðra, í slíkri himinblíðu; ekki nokkurn bát að sjá.
Oddur var kominn að Spánarströndum um miðnætti. Framundan fiskimannaþorpi einu, ekki langt frá Bilbao, var blásið í eimpípu skipsins, En enginn bátur kom til móts við Oddsverja.
Í birtingu kom karl út til þeirra á bátshorni sínu. Einhverjir reyndu að tala við karlinn á ensku, en það bar ekki árangur. Hann benti austur með landi og sagði: Rio, Rio, hvað sem hann meinti með því; kannski nafn á þorpi.
Í þessu bar að fiskibát á leið til lands. Var haldið af stað í kjölfar hans. Áður en langur tími leið var komið inn í hafnarmynni Bilbaos. Þá vildi svo illa til, að þeir á Oddi fóru framhjá lóðsbátnum í ógáti, en hann hélt þá á eftir þeim. Var engu líkara en Oddur væri að lóðsa hann inn, en ekki öfugt.
Farið var eftir fljótinu Nervion, en það mun láta nærri, að 9 sjómílur séu frá fljótsmynninu til borgarinnar. Bilbao er í Baskalandi, mikil siglingamiðstöð og iðnaðarborg. Fátt er um ný hús, flest er þarna gamaldags og frumstætt.
Glöggt er gests augað. Fátæktin blasti við hvarvetna. Þess varð og vart, að einræði ríkti og stjórnað var með hervaldi.
as Nú kom til sögunnar skipamiðlarinn, Norðmaður, er hafði búið lengi á Spáni og tók sér nafnið Juan Jentoft. Hann útvegaði skipverjum landgönguleyfi og vasapeninga. Helgi hafði beðið Torfa að láta Sigurð hafa eitthvað af skotsilfri, er út kæmi. Hann fékk 700 peseta, sem var ekki mikið fé, því pesetinn jafngilti þá 42 aurum.
Uppskipun hófst klukkan 10 um morguninn. Hervörður var á bryggjunni; enginn óviðkomandi fékk að fara um borð í Odd. Þeir sem leggja leið sína um hafnarhverfin eru sumir linfrómir. enda hagur þeirra óbeysinn. Uppskipunin gekk greiðlega. Var henni lokið klukkan sex síðdegis. Hugðu menn gott til að líta inn í skemmtistaði borgarinnar.
Sigurður vildi sem aðrir skoða lífið í Spáníá Hann var uppábúinn, í evjotsfötum bláum, með kaskeiti á höfði. Torfi skipstjóri hafði beðið Eyjamenn að sjá um, að Sigurður yrði i fylgd með þeim. Var hann beðinn að fara ekki einn inn í borgina, því vera kynni, að hann fyndi skipið ekki aftur. Hét hann góðu um það.
Þeir félagar gengu nú í eitt vertshús í Bilbao Það var gamalt hús og ærið hrörlegt; hefur kannski öðrum þræði verið hús þar sem ekki einvörðungu var veitt þjónusta til matar og drykkjar.
Einhverja hressingu fengu skipverjar í þessu vertshúsi, en dvöldu þar ekki lengi. Héldu þeir þá áfram för sinni um borgina; var Spánverji í för með þeim félögum sem sérlegur leiðsögumaður. Merkilegt þótti þeim félögum að sjá innfædda flytja vín í skinnbelgjum, sem var raðað á vagna sem hestar drógu.
Næst var skoðuð kirkja, allíburðarmikil. Að því búnu var farið í skemmtihús sem heitir El Catto. Utan á húsið málaður köttur hvítur, sem setti upp kryppu. Ekki var hljómsveit í Kettinum, bara glymskrattamúsík.
Skipverjar flestir gistu í hóteli um nóttina, en innfæddur maður tók sér varðstöðu um borð í Oddi. Um kvöldið pöntuðu skipverjar hinn fínasta spánska rétt sem á boðstólum var, einhvers konar pönnukökur með kjötkássu ofan á.
Áhafnarmenn Odds dreifðust nokkuð um kvöldið, en allt í einu urðu menn þess áskynja. að Sigurður Ingimundarson var horfinn - hafði orðið viðskila við þá félaga. Héldu sumir, að hann hefði farið um borð í Odd og lagst til hvíldar. En svo var ekki.
Torfi bað skipverja að svipast um í kránum við höfnina, en þær eru margar. Datt honum í hug, að Sigurður hefði ranglað þangað til að fá sér Spánarvín, en leitin bar engan árangur. Þá um kvöldið tilkynnti Torfi skipstjóri miðlaranum, að einn af áhófninni væri týndur.
Miðlarinn tók þessu rólega, þetta væri ekki óvanalegt. Hann sagði, að venja væri, að menn kæmu í leitirnar einhvern tíma næturinnar. En ef svo yrði ekki, mundi hann tilkynna lögreglunni hvarfið.
Um hádegið daginn eftir var Sigurður ókominn. Skipstjóra og skipverjum varð þá allórótt.
Skipamiðlarinn sagði, að lögreglan leitaði Sigurðar. Þá væri búið að senda út tilkynningu um, að mannsins væri saknað og lýsingu á honum í úrvarpinu.
Torfi var hræddur um, að Sigurður hefði verið drepinn og líkinu fleygt í fljótið, en miðlarinn taldi það ólíklegt. Miðlarinn sagði, að samkvæmt spönskum lögum mætti skip ekki leggja úr höfn fyrr en sólarhringur væri liðinn frá losun, væri skipverji horfinn. Þótti nú illt í efni, en menn vonuðu enn hið bezta.
En meðan beðið var leiddu góðir menn skipstjórann inn í eitt vínblöndunarhús; þar stóð til boða að bragða á hinum aðskiljanlegustu tegundum spánskra vína, en fyrst var boðið upp á Spiritus Goncentratus, pó blönduðum. Þótti Torfa drykkurinn göróttur, en dreypti á nokkrum tegundum léttra vína - annars hefði getað farið svo, að hann hefði ekki komist útúr höndluninni og týnst eins og Sigurður. En þá kom honum í hug, að ýmsir góðkunningjar heima á Fróni væru þurfandi fyrir brjóstbirtu, og pantaði 32 kassa, 384 flöskur - á fimmtán krónur flöskuna. Það væri kærleiksverk að hressa sál þeirra.
Allan næsta dag var legið í Bilbao. Var þess beðið með eftirvæntingu hvort Sigurður kæmi í leitirnar eður ei. Skipstjóri notaði tímann til að skoða sig um í borginni, oft í fylgd miðlarans. Er á leið styrktist sá grunur skipstjóra, að Sigurður hefði verið myrtur og varpað í höfnina. Var um það rætt, að halda úr höfn, er fresturinn væri liðinn, og gera þær ráðstafanir, að Sigurður kæmi heim í flugvél ef hann fyndist á lífi.
Klukkan 12 á hádegi var ákveðið að halda til olíuhafnar, sem var ekki langt frá hafnarmynninu. Var oft löng bið eftir olíu. Fóru áhyggjur Oddsmanna vaxandi eftir því, sem lengra leið frá hvarfi Sigurðar.
Það dróst í tímann til klukkan 2 að farið væri frá hafnarbakkanum. Ekki var lokið við að taka olíuna fyrr en klukkan 10 um kvöldið. Átti nú að bíða uns sólarhringur væri liðinn frá því leit var hafin að Sigurði.
Tvo vélbáta sáu þeir á Oddi með norsku lagi. Um borð í öðrum bátnum störfuðu menn að þvi að útbúa síldarrétt. Þeir steiktu síldina á rist í heilu lagi, sporðrenndu síðan og drukku rauðvín með. Ekki virtist vera neinn sérlegur kokkur um borð, heldur steikti hver handa sér.
Næst er þar til að taka, að nokkru eftir miðnætti rennur gljáfægð drossía að skipshliðinni og nemur staðar. Út úr henni snarast Sigurður Ingimundarson. Var hann glaður og reifur; með koníaksflösku í pússi sínu.
Torfi skipstjóri var nú vakinn með þessum góðu tíðindum. Var honum sagt, að bílstjórinn biði eftir greiðslu. Torfi bað vaktmann að grennslast eftir því hvort Sigurður ætti fyrir farinu. Sigurður hafði þá greitt bílstjóranum 160 peseta fyrir ökuferðina og átti samt drjúgan afgang.
Varð nú fagnaðarfundur sem nærri má geta. „Voruð þið farnir að bíða, strákar?“ spurði Sigurður.
Sigurður var óklökkur yfir útivistinni; hefur varla þótt hún umtalsverð; undir hlýjum suðrænum himni. Þá voru þær meiri karlmennskuraun, útilegurnar heima í Eyjum fyrr á árum.
Torfi skipstjóri gerði nú Sigurði orð að finna sig í svefnklefa.
Hann bauð Sigurð velkominn og spurði, hvort ekki mætti bjóða honum koníakslögg áður en hann segði sögu sína. Þáði Sigurður það góða boð með þökkum.
Torfi spurði þá Sigurð hvar hann hefði alið manninn þessa tæpa tvo sólarhringa, en þótti nokkuð skorta á skýr svör.
Nú er þess að geta, að skipstjóra og heimildarmann minn ber ekki að öllu saman um það, hvenær Sigurður hvarf. Torfi telur, að hann hafi horfið skömmu eftir að skipverjar fengu peningaskammt sinn, en Einar sagði, að Sigurður hefði verið með þeim skipverjum fram á kvöldið. En þetta skiptir ekki miklu máli.
Torfi segir svo frá þessu samtali þeirra Sigurðar:
„Ég spurði hann, hvort hann hefði fengið nokkuð að borða eða drekka. Jú, hann kvaðst hafa fengið nóg að drekka - hann hafði haldið sig mest á sömu sjoppunni. Og er hann benti sjoppueiganda á það, að hann væri svangur, með því að láta fingur í munn sér, lét hann honum í té meira vín.
„Hvar svafstu?" spurði ég. „Ég svaf í kompu og létu þeir mig hafa teppi ofan á mig.“
„Þeir hafa þá ekki tekið af þér alla peningana?" spurði ég.
„Nei, nei, ég lét veitingamanninn taka úr buddunni minni, og var hann mér ákaflega góður.“
Sá ég að það var rétt hjá Sigga, því hann átti eftir af þeim sjö hundruð pesetum, er hann fékk í upphafi, nálægt þrjú hundruð peseta.
Ég spurði hann, hvernig hann hefði komizt um borð. Sagðist hann hafa hitt tvo af sínum gömlu hásetum, er höfðu róið hjá sér á Norðfirði eystra fyrir þrjátíu árum, er hann var formaður fyrir Ingvar Pálmason alþingismann. Þessir drengir hefðu allt viljað fyrir sig gera.“
Sagan um háseta Sigurðar, er hann hitti þarna útí Spáníá, var sögð heima á Eyjum. Skrásetjari þessa þáttar spurði Sigurð nokkrum árum síðar, hvort hann teldi sig hafa hitt þessa gömlu háseta sína þar úti í Bilbao.

Nei, einhverjir hefðu fundið upp á þessu til að gera ævintýrið sögulegra.

Glóandi hraun og vikuraska steypist yfir nýbyggð íbúðarhús og mylur þau til grunna.

Sigurður var formaður hjá Ingvari Pálmasyni nokkur sumur, en fyrir nær fimmtíu árum.
Einar Jóelsson sagði, að Sigurður hefði að eigin sögn ekki vitað fyrr en hann, með einhverjum hætti, var orðinn viðskila þeim félögum. Hann hélt, að hann mundi finna staðinn aftur, þar sem þeir voru saman síðast. Hefur líklega gengið í öfuga átt. Var að lokum allþreyttur að ganga um borgina, hélt þá kyrru fyrir að mestu, lagðist fyrir á bekk úti og svaf. Sigurður reyndi að koma Spánverjum í skilning um, að hann vildi halda til hafnarinnar, en þeir urðu engu nær, svo Sigurður lét fyrirberast þar sem hann var kominn. Loks fann lögreglan hann og sendi bíl með hann til olíuhafnarinnar þar sem Oddur lá.
Í fyrstu var í ráði að halda af stað strax, er Sigurður kom, en svo var ákveðið að bíða birtu, Enska útvarpið hafði spáð miklu eldingabelti við Spán. Það var stórfengleg sjón, sögðu skipverjar, að horfa á þessa flugeldasýningu himinsins.
Var nú haldið áleiðis til Rotterdam til þess að taka kartöflufarminn. Þeir hrepptu mótvind þó nokkurn. Kom þá leki að Oddi. Var hann tekinn í slipp til viðgerðar í þrjá daga. Skipverjar notuðu tímann til að skoða sig um í hafnarborginni, nema Sigurður. Hann ætlaði ekki að láta það henda sig að týnast í hinu blauta Hollandi.
Ferðin heim frá Hollandi var tíðindalaus með öllu.
Til Vestmannaeyja var komið daginn fyrir þjóðhátíð í Herjólfsdal.


Búslóðum skipað um borð í eldgosinu.

SKEYTI

Á sjómannadaginn 1974 fengu Eyjasjómenn skeyti, sem var langt að komið eða frá Honululu á Hawaiieyjum, í miðju Kyrrahafi. Var þetta kveðja frá Árna Johnsen blaðamanni m. fl., sem brátt verður kallaður hinn víðförli, en Árni mundi samt eftir Eyjunum sínum. Skeytið hljóðaði þannig:
Sjómannadagsráð Vestmannaeyja (lceland). Til hamingju með daginn Eyjasjómenn og konur, góða skemmtun eða Aloha eins og stelpurnar segja í huladansinum hér í Honululu á Hawaii. Kveðja.

Árni Johnsen.