„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Á síld fyrir 30 árum“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 46: | Lína 46: | ||
'''Uppáklæddur í löndun'''<br> | '''Uppáklæddur í löndun'''<br> | ||
[[Mynd:Siglt út frá Siglufirði Sdbl. 1990.jpg|miðja|thumb|Siglt út frá Siglufirði. Nótabáturinn aftaní.]] | |||
Þegar nokkuð var liðið á sumarið henti mig það óhapp að löndunargallinn minn slitnaði aftan úr á útstími. Þetta var svo sem ekki neitt óbætanlegt tjón enda lökustu fötin valin í löndun. Að auki var ég ágætlega fataður og nóg af görmum í sjópokanum til að spandera í annan galla. Þar á meðal voru gömul spariföt sem ég hafði hugsað mér að nota sem vinnufatnað, gott ef þetta voru ekki fermingarfötin mín. Og næst þegar haldið var inn til löndunar, ákvað ég að klæða mig upp á , fór í fötin, bæði jakka og buxur, hvíta skyrtu og endaði svo á að setja á mig bindi. Þannig klæddur hoppaði ég síðan niður í lest til að landa síld í grút.<br> | Þegar nokkuð var liðið á sumarið henti mig það óhapp að löndunargallinn minn slitnaði aftan úr á útstími. Þetta var svo sem ekki neitt óbætanlegt tjón enda lökustu fötin valin í löndun. Að auki var ég ágætlega fataður og nóg af görmum í sjópokanum til að spandera í annan galla. Þar á meðal voru gömul spariföt sem ég hafði hugsað mér að nota sem vinnufatnað, gott ef þetta voru ekki fermingarfötin mín. Og næst þegar haldið var inn til löndunar, ákvað ég að klæða mig upp á , fór í fötin, bæði jakka og buxur, hvíta skyrtu og endaði svo á að setja á mig bindi. Þannig klæddur hoppaði ég síðan niður í lest til að landa síld í grút.<br> | ||
Siglfirðinga setti hljóða við þennan atburð, þetta höfðu þeir ekki séð áður að menn klæddu sig sérstaklega upp á til að landa í grút.<br> | Siglfirðinga setti hljóða við þennan atburð, þetta höfðu þeir ekki séð áður að menn klæddu sig sérstaklega upp á til að landa í grút.<br> | ||
Lína 66: | Lína 66: | ||
'''Danirnir skildu hvorugur annan'''<br> | '''Danirnir skildu hvorugur annan'''<br> | ||
[[Mynd:Verið velkomnir heim 2 Sdbl. 1990.jpg|thumb]] | |||
Eins og áður er sagt voru tveir Danir um borð hjá okkur. Annar hefur nokkuð komið við sögu áður, sá var frá Fjóni og hét Flemming, hafði búið nokkur ár á Hornafirði. Hinn var Jóti, Holgeir að nafni, fílhraustur og duglegur en gat verið nokkuð uppstökkur. Hann hafði sömuleiðis verið búsettur hér á landi í nokkur ár. Það merkilega við þá tvo var að þeir virtust báðir vera búnir að týna niður móðurmálinu og voru einu mennirnir um borð sem áttu í erfiðleikum með að skilja hvor annan. Báðir töluðu þeir einhvern blending af dönsku og íslensku, annar með jóskum hreim en hinn á syngjandi fjónsku. Og ævinlega skyldu þeir vera að agnúast hvor út í annan. Greinilegur hrepparígur milli þeirra og lítil vinsemd. Hvorugur tók annars málstað og báðir leituðu þeir frekar í félagsskap okkar íslendinganna. Þetta þótti mér furðulegt og þykir enn. Annars voru þetta báðir ágætisdrengir, hvor á sinn hátt og ekkert undan þeim að kvarta.<br> | Eins og áður er sagt voru tveir Danir um borð hjá okkur. Annar hefur nokkuð komið við sögu áður, sá var frá Fjóni og hét Flemming, hafði búið nokkur ár á Hornafirði. Hinn var Jóti, Holgeir að nafni, fílhraustur og duglegur en gat verið nokkuð uppstökkur. Hann hafði sömuleiðis verið búsettur hér á landi í nokkur ár. Það merkilega við þá tvo var að þeir virtust báðir vera búnir að týna niður móðurmálinu og voru einu mennirnir um borð sem áttu í erfiðleikum með að skilja hvor annan. Báðir töluðu þeir einhvern blending af dönsku og íslensku, annar með jóskum hreim en hinn á syngjandi fjónsku. Og ævinlega skyldu þeir vera að agnúast hvor út í annan. Greinilegur hrepparígur milli þeirra og lítil vinsemd. Hvorugur tók annars málstað og báðir leituðu þeir frekar í félagsskap okkar íslendinganna. Þetta þótti mér furðulegt og þykir enn. Annars voru þetta báðir ágætisdrengir, hvor á sinn hátt og ekkert undan þeim að kvarta.<br> | ||
Núverandi breyting frá og með 15. mars 2019 kl. 13:33
Á síld fyrir 30 árum
Sennilega er flestum minnisstætt fyrsta úthaldið eða þegar þeir fóru í fyrsta sinn á sjó. Þeim sem þetta ritar er svo að minnsta kosti farið, fyrsta úthaldið gleymist seint. Ég byrjaði mína sjómennsku 16 ára gamall, þ.e.a.s. alvöru sjómennsku. Ég tel nefnilega ekki með róðrana sem við pabbi heitinn fórum úr Klaufinni enda leit ég meira á þær sjóferðir sem skemmtilega tómstundaiðju heldur en vinnu. En 16 ára ákvað ég sem sagt að prófa sjómennsku. Ég hafði útskrifast sem gagnfræðingur þennan vetur öndverðan og starfað á skrifstofu um þriggja mánaða skeið. Það starf leiddist mér skelfilega auk þess sem mér þóttu launin heldur lúsarleg og hugði því á annað betra.
Beðið um pláss.
Þetta var árið 1959 og á þeim tíma fóru flestir vertíðarbátar héðan til síldveiða fyrir Norðurlandi yfir sumarið. Margir unglingurinn hóf sinn sjómennskuferil á síld og þá oftlega upp á hálfan hlut. Ég sigtaði út þá báta sem ég vissi að voru að ferðbúa sig til síldveiða, vomaði á bryggjunum, hálfbanginn óvaningur, hvort maður ætti að þora að spyrjast fyrir um pláss. En það var að hrökkva eða stökkva.
Við Friðarhafnarbryggjuna lá grænmálaður bátur, stór og mikill að mér fannst og hét Faxi. Ég vissi að hann átti að fara á síld og vissi líka hver skipstjórinn var, ungur maður, Haukur Jóhannsson. Hann var ásamt stýrimanninum að dytta að einhverju smálegu um borð. Lengi vel vokaði ég á bryggjunni en hleypti svo í mig kjarki, hoppaði um borð, eins fagmannlega og mér var unnt, og spurði hvort hann vantaði mann á síld. Haukur leit upp frá vinnunni, horfði drykklanga stund bláum augum á þennan ungling sem stóð fyrir framan hann og spurði síðan:
"Ertu vanur "
Ég taldi ekki rétt að íþyngja honum með sögum af sjóróðrum úr Klaufinni og sagði því eins og var að ég hefði aldrei á sjó verið.
"Nú einhvern tímann verða menn að byrja," sagði Haukur og þar með vaknaði vonarneisti í brjóstinu.
Ég sagði honum frá ætterninu í stuttu máli og hann virtist hinn ánægðasti með að hafa ráðið til sín son hans Jóns í Þorlaugargerði. Sagði mér síðan að mæta til vinnu daginn eftir þar sem stefnt væri að því að halda norður eftir þrjá daga, á fimmtudaginn næsta.
Heldur kotroskinn klifraði sjómaðurinn ungi upp á bryggjuna eftir þessi orðaskipti. Fyrst lá leiðin í slippinn þar sem pabbi gamli fékk fyrstur manna að vita tíðindin, sonurinn ætlaði sér til sjós. Ekki man ég betur en honum hafi líkað þessi ákvöröun vel. Og því næst voru kunningjarnir leitaðir uppi og þeim sagðar fréttir. Vart þarf að taka fram að sögumaðurinn var býsna rogginn yfir ráðningunni. Einhver úr kunningjahópnum spurði hvort ég væri ráðinn upp á heilan eða hálfan hlut og þá vandaðist nú málið því mér hafði gjörsamlega láðst að inna Hauk eftir því. Innst inni vonaðist ég eftir heilum hlut, það var ólíkt karlmannlegra, en hins vegar hefði ég ekkert sagt yfir hálfum hlut og tekið því með jafnaðargeði.
Svo var munstrað
Næstu dagar fóru í málningarvinnu og aðra skveringu en á fimmtudag var munstrað uppi á Tindastóli. Það þótti mér einkar hátíðleg stund og ekki varð ánægjan minni þegar ég sá að ég var færður inn í skráningarbækur sem fullgildur háseti upp á heilan hlut. Að vísu vissi ég að meira yrði af mér krafist en var ákveðinn í að standa mig. Það eina sem ég óttaðist, var sjóveikin en henni hafði ég fengið að kynnast í sjóferðum úr Klaufinni. Skipsfélagar mínir sem munstraðir voru þarna um leið og ég voru þessir:
Haukur Jóhannsson skipstjóri, Magnús Stefánsson stýrimaður (oft nefndur Maggi maður), Einar Erlingsson vélstjóri frá Reykjavík, Holger Nilsen 2. vélstjóri, danskur að ætt, Ásgeir Einarsson matsveinn frá Reykjavík, rak lengi Vitabar við Vitastíg og hásetarnir Karl Vilmundarson frá Eyjum en búsettur í Reykjavík, Guðmundur Kristjánsson frá Reykjavík, Gylfi Einarsson frá Eyjum (Gylfi á Flötum), Flemming Kaj Larsen, danskur piltur, búsettur á Hornafirði, Sigurgeir Jónsson (sá sem þetta ritar) og loks bróðir skipstjórans Garðar Jóhannsson sem ráðinn var upp á hálfan hlut.
Þetta var hinn 25. júni og mér er minnistætt að Haukur sagði íbygginn við skráninguna að ég yrði að skipa kokknum að hafa veislumat daginn eftir. Ég átti nefnilega afmæli þann dag.
Sjóveikur strax á fyrstu vakt.
Klukkan átta um kvöldið þennan fimmtudag voru síðan landfestar leystar og lagt úr höfn með nótabátinn í eftirdragi. Ekki átti þó að halda beint á miðin heldur var förinni heitið til Reykjavíkur þar sem stilla átti kompásinn. Hann var eitt fárra siglingatækja um borð, að vísu var dýptarmælir líka og auk þess handknúið asdik og miðunarstöð en þar með upp talið svo að full þörf var á að hafa kompásinn í lagi.
Vöktum var skipt niður og eins og venjan var, stóðu hásetarnir tveggja tíma stímvaktir. Ég átti vakt frá kl. 10 til 12 um kvöldið og tók við af Dananum Flemming. Haukur var uppi og setti mig inn í hlutverkið sem aðallega var í því fólgið að stýra og halda strikinu. Hann varð ánægður þegar í ljós kom að nýi hásetinn kunni á kompás. En ekki tókst þeim sama háseta ýkja vel að halda skipinu á réttum kúrs. Að auki bættist við að nú tók hásetinn að verða þvalur á höndunum, hálfmáttlaus, ekki laust við að ógleði sækti að honum. Ekki voru liðnar nema fimmtán mínútur af vaktinni þegar hann hljóp frá stýrinu, út á brúarvæng og skilaði aftur kótelettunum sem verið höfðu í kvöldmat.
Haukur fylgdist brosandi með þessum aðförum, sendi síðan hásetann inn í kortaklefa og sagði honum að leggjast á bekkinn og jafna sig. Mikið feikn varð hásetinn því feginn. Þarna í kortaklefanum tóku efasendirnar að gera vart við sig. Þvílík vitleysa að vera að þvælast þetta á sjó. Hefði nú ekki verið betra að reyna að komast í bæjarvinnuna eða bara í flökun. Á þessari stundu dauðsá ég eftir öllu saman. En það var of seint í rassinn gripið, héðan í frá yrði ekki aftur snúið, ekki nema ég yrði rekinn vegna sjóveiki. En Haukur kapteinn var ekkert á því að láta hásetann liggja sér til óbóta á bekknum og eftir hálftíma skipaði hann honum aftur að stýra. Nokkrar ferðir voru farnar til viðbótar út á brúarvænginn áður en vaktinni lauk og hægt var að skríða í kojuna.
Haldið upp á afmæli í Reykjavík.
Til Reykjavíkur var komið að morgni og kompásinn réttur. Þar sem eitthvað smávegis var í ólagi í vél, var ákveðið að fresta brottför þar til um kvöldmat. Kokkurinn bauð upp á "frikasse" í tilefni afmælisins og síðan röltu hásetar í land að skoða sig um. Nú þótti þeim félögum mínum einstakt tækifæri til að halda upp á daginn þar sem nýliðinn átti afmæli og var haldið beina leið í Lindargöturíkið þar sem þeir versluðu eitthvað. Að sjálfsögðu tók afmælisbarnið ekki þátt í þeirri verslun, hafði ekki aldur til þess. En félögunum fannst sautján ára aldur aldeilis nógu hár til að bragða á því sem keypt var og því voru flestir skrallhálfir þegar haldið var frá bryggju þetta síðdegi. Ég átti ekki vakt fyrr en um nóttina en vaknaði þá með hálfu verri sjóveiki en fyrr, ekki hafði þetta sumbl í Reykjavík haft bætandi áhrif á líðanina. Þarna um nóttina strengdi ég tvenn heit, að fara aldrei framar til sjós og bragða aldrei áfengi framar. Hvorugt var það heitið haldið.
Ferðin norður gekk áfallalaust nema hvað sjóveikin hrelldi mig sífellt. Raunar gekk á því allt sumarið og ekki nema í blíðasta og besta veðri sem ég ekki var ælandi um allt skip. Þessi leiðindarpesti átti eftir að hrella mig nær hvern dag í heilt ár til viðbótar, þá allt í einu hvarf hún og hefur ekki gert vart við sig síðan. En það er önnur saga sem ekki verður rakin hér.
Svo hófst ævintýrið
Fyrsta kastið var tekið norður af Skaga ef ég man rétt. Raunar pældu menn lítið í kennileitum á þessum árum, þ.e.a.s. hásetarnir, fyrir mér var bara verið úti á sjó og landslagið þótti mér keimlíkt, hvort sem verið var að veiðum fyrir norðan land eða austan. Öll síldveiðiskip á þessum árum voru með nótabát, sum raunar enn með tvo snurpubáta eins og tíðkaðist um fjölmörg ár. En það var ekki fyrr en ári seinna sem byrjað var að kasta nótinni frá sjálfu skipinu eins og nú tíðkast. Þegar komið var á miðin var nótabáturinn dreginn að síðunni og reknetakapallinn, sem notaður var sem dráttartóg, vandlega hringaður niður á dekkið. Svo var gert klárt fyrir að kasta. Eitt af fyrstu verkum mínum um borð var að fara með húkkvírinn fram á hvalbak þar sem hann skyldi klár til húkkunar í snurpuvírinn þegar kastað yrði. Sem betur fór, þótti þeim vönu um borð réttara að athuga hvernig verkið væri af hendi leyst og þá kom í ljós að hásetinn hafði stungið vírnum undir rekkverkið á hvalbaknum. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum, hefði þetta ekki verið leiðrétt. En hásetinn fékk snuprur fyrir þann hálfvitahátt að sjá ekki svona nokkuð.
Á þessum árum var aðallega kastað á vaðandi síld, þó höfðu frumherjar á borð við Eggert Gíslason náð árangri með asdiki og voru slík tæki um borð í allmörgum skipum þetta sumar. En megnið af þeirri síld sem við fengum, var vaðandi. Ég held að við höfum tekið eitt eða tvö búmmköst áður en við fengum síld. Það var kannski ágætt fyrir óvaninginn að æfast í handtökunum við nótadráttinn áður en alvaran sjálf tæki við. Nótin var dregin á höndum inn í bátinn og allur mannskapurinn við það verk að undanskildum vélstjóra sem sá um að sleppa snurpuhringjum og matsveini sem ekki kom á dekk.
Annar vélstjóri dró blýteininn og skipstjórin ásamt einum háseta dró korkið. Hinir voru í garninu. Þetta var svo sem ekki sérstök átakavinna, alla vega ekki í garninu, enda næturnar á þessum árum ekki önnur eins ferlíki og nú á dögum. Helst var að þeir sem drógu teinana fengju að taka á enda voru yfirleitt hraustustu mennirnir valdir til þess verks. Ef síld var í nótinni þurfti að þurrka vel að henni áður en byrjað var að háfa hana um borð. Að háfa síld er eitthvert skemmtilegasta verk sem um getur til sjós, þ.e.a.s. ef græjurnar eru í lagi. Fljótlega gáfumst við upp á að nota trollspilið til þess þar sem það var einkar þunglamalegt í vöfum. Með blakkaútbúnaði var línuspilið notað við háfun og gekk þá mun betur.
Við fórum með fyrsta aflann inn á Siglufjörð og það var æfintýri líkast að koma þangað. Söltun í fullum gangi á öllum plönum, salt- og kryddlykt í loftinu. Hluti af okkar afla fór í salt, hinu var landað í bræðslu. Og inniveran var stutt þetta sinnið, haldið beint út á ný.
Hreinlæti ekki í hávegum haft
Ekki var hreinlætisaðstaðan merkileg um borð í skipum á þessum árum. Að vísu var salerni um borð í Faxa en það átti til að stíflast og þá varð að notast við fötu eða lunninguna. Og þvottaaðstaða var einungis vaskurinn í eldhúsinu og kokknum var ekkert sérlega vel við að menn væru að sniglast þar.
Menn notuðu tækifærið og fóru í bað á sjómannaheimilinu á Siglufirði þegar legið var inni en annars slepptu menn baði. Og sumir þvoðu sér ekki allt sumarið. Löndunargallinn, sem oft var illa þefjandi af grút eftir löndun, var þveginn þannig að hann var smurður með grænsápu, hnýtt utan um hann spotta og hann svo hengdur aftan í skipið á útstíminu. Fyrir kom að spottinn slitnaði og þá máttu menn koma sér upp nýjum löndunargalla.
Sitthvað skemmtilegt átti sér oft stað í sambandi við þrifnaðarmál. Algengt var fyrrum að menn kæmu lúsugir til baka frá síldveiðum en slíkt sluppum við blessunarlega við þetta sumarið. Ég minnist þess til að mynda eitt sinnið þegar við höfðum verið úti í rúma viku og landlega var framundan að allir í lúkarnum tóku sig til og þvoðu sér um hárið með grænsápu. Það þætti sennilega ekki góður metall nú á dögum enda lyktin ekkert sérstaklega skemmtileg af þeirri sápu. Það hefur líklega verið í sama skiptið að við vorum að leggjast að bryggju á Siglufirði og var nokkuð hátt niður á bryggjuna. Magnús stýrimaður stökk niður til að taka á móti spottanum en var ekki sérlega vel skóaður til slíkra hluta, á heilmiklum tréklossum. Enda vöðlaði hann undir sér annan fótinn í stökkinu og sneri sig um ökklann. Fóturinn bólgnaði og úr varð að hann haltraði upp eftir á fund læknis. Eitthvað var hann skömmustulegur þegar hann kom til baka og var hann að sjálfsögðu inntur eftir hvað gerst hefði. Eftir nokkurt japl og jaml tókst okkur að toga það út úr honum að lækninum hefði hreint ekkert litist á fótinn. Ekki voru það þó meiðslin sem lækninum ofbauð, heldur hvað maðurinn var grútskítugur á fótunum. Hafði sá hinn sami læknir sagt við Magnús að hann væri ráðinn til læknisstarfa en ekki fótþvotta og neitaði að hlúa að honum fyrr en Magnús væri búinn að skrúbba af sér mesta skítinn.
Uppáklæddur í löndun
Þegar nokkuð var liðið á sumarið henti mig það óhapp að löndunargallinn minn slitnaði aftan úr á útstími. Þetta var svo sem ekki neitt óbætanlegt tjón enda lökustu fötin valin í löndun. Að auki var ég ágætlega fataður og nóg af görmum í sjópokanum til að spandera í annan galla. Þar á meðal voru gömul spariföt sem ég hafði hugsað mér að nota sem vinnufatnað, gott ef þetta voru ekki fermingarfötin mín. Og næst þegar haldið var inn til löndunar, ákvað ég að klæða mig upp á , fór í fötin, bæði jakka og buxur, hvíta skyrtu og endaði svo á að setja á mig bindi. Þannig klæddur hoppaði ég síðan niður í lest til að landa síld í grút.
Siglfirðinga setti hljóða við þennan atburð, þetta höfðu þeir ekki séð áður að menn klæddu sig sérstaklega upp á til að landa í grút.
Þær voru indælar andvökunæturnar ....
Ýmislegt gerðu menn sér til dægrastyttingar þegar legið var í landi. Nánast töldu menn það skyldu sína að koma við á sjómannaheimilinu til að baða sig og fá mjólk og heimabakaðar kökur. Hvorugt var að hafa um borð. Bíóferðir voru einnig vinsælar og fjölskyldumenn stóðu í biðröðum á símstöðinni til að hringja heim. Oft var mikil örtröð á símstöðinni þegar allur flotinn var í landi. Þeir sem voru óþolinmóðir báðu um hraðsamtöl og þeir óþolinmóðustu um forgangshraðsamtöl. Slík símtöl voru tekin fram fyrir öll hin og endaði þetta yfirleitt með því að allur hópurinn á símstöðinni átti pantað símtal með forgangs¬hraði. Að sjálfsögðu gekk ekkert fljótar að afgreiða símtölin með þessu móti, eini munurinn var sá að allir greiddu talsvert hærra gjald fyrir símtalið, biðin varð hin sama.
Einhverju sinni lágum við einskipa inni á Siglufirði í einmuna blíðu vegna bilunar. Við fórum þrír saman í bíó um kvöldið, ég, Gylfi og Flemming hinn danski. Eftir bíó röltum við um bæinn í blíðunni og þótti of snemmt að taka á okkur náðir. Þá datt einhverjum okkar til hugar að fá "lánuð" reiðhjól og hjóla upp í Siglufjarðarskarð. Við vorum ekkert að tvínóna við hlutina, fundum fljótlega reiðskjóta sem voru ólæstir inni á lóðum, enda Siglfirðingar ekki vanir því að hlutir væru teknir ófrjálsri hendi. Síðan hjóluðum við sem leið liggur inn með firðinum og lögðum á brattann. Fljótlega máttum við þó stíga af baki og leiða hjólin upp brekkurnar en hugðum gott til glóðarinnar að geta rennt okkur niður í bakaleiðinni. Þegar við vorum komnir góðan spöl upp skarðið heyrðum við í bíl á eftir okkur og brátt kom hann í ljós. Heldur brá okkur þegar í ljós kom að þarna var lögregla staðarins komin og átti erindi við okkur. Einhver hafði séð til okkar og kært hjólstuldinn. Bæði hjólum og mönnum var stungið inn í bíl og ekið til baka niður á Siglufjörð. Það voru heldur lúpulegir menn sem stigu út úr bílnum og var stungið í steininn.
Árla morguns vorum við teknir til yfirheyrslu af fógeta sem vandaði okkur ekki kveðjurnar og las yfir okkur langan pistil. Við Gylfi sögðum fátt en Flemming hinn danski hélt uppi málþófi, vitnaði í dönsk lög þar sem reiðhjólaeigendur væru sektaðir fyrir að hafa ekki lása á hjólum sínum. Var á honum helst að skilja að höfuðsökudólgarnir í þessu máli væru unglingar á Siglufirði sem hefðu hjól sín ólæst um nætur. Ekki lét Einar bæjarfógeti ótíndan Dana vaða ofan í sig, beindi máli sínu að Flemming og ýjaði að brottvísun úr landi. Þá sljákkaði heldur í Dönum. Þegar Einar fógeti hafði lesið nóg yfir okkur að honum fannst, tilkynnti hann okkur að við slyppum með sekt upp á hundrað krónur fyrir tiltækið og þótti okkur það vel sloppið. Síðan klappaði hann á kollinn á okkur og sagðist vona að við bættum ráð okkar og svona nokkuð kæmi ekki fyrir aftur. Það gekk líka eftir, síðan hef ég aldrei átt í útistöðum við lögregluyfirvöld á Siglufirði. Haukur kom á stöðina og borgaði okkur út. Að sjálfsögðu átti hann að líta þetta alvarlegum augum en ég gat ekki betur séð en brosviprur væru í munnvikjunum þegar hann teymdi okkur út af stöðinni. Og aldrei var minnst á þetta meira. Góður maður Haukur.
Táragasballið fræga
Að sjálfsögðu var farið á böll á Sigló og þau voru oftlega skrautleg. Þó líklega ekkert eins og það sem nú verður lýst. Einhverja helgina í júlí var stærstur hluti flotans í landlegu inni á Sigló. Dansleikur átti að vera á Hótel Höfn um kvöldið og héldum við þangað snemma kvólds og keyptum okkur inn.
Fljótlega var uppselt og komust færri inn en vildu. Safnaðist mikill mannfjöldi fyrir utandyra og var þar allróstusamt. Við sem inni vorum höfðum ekki af því nokkrar áhyggjur skemmtum okkur prýðilega. En allt í einu þar sem ég sit við borð þarna inni, fer mér að súrna í augum og finn að ég held reykjarlykt. Ég var greinilega ekki einn um að halda þetta, því einhver æpti upp að kviknað væri í húsinu. Og þar með trylltist allt. Hver um annan þveran rauk upp og fram og út úr húsinu. Ég hef oft furðað mig á því að enginn skyldi troðast þarna undir. En sumir voru ekkert á því að láta einhvern eld skemma fyrir sér ballið og héldu áfram að skemmta sér eins og ekkert hefði í skorist. Hér var þó ekki um neinn eldsvoða að ræða, heldur allt annað sem upp á hafði komið. Mannfjöldinn fyrir utan hafði ítrekað reynt að komast inn í húsið og einhverjir höfðu brotið stóra rúðu í anddyrinu. Þá var kallað í lögregluna sem kom á staðinn en leist lítið á að dreifa slíkum mannfjölda, enda fáliðaðir.
Til að dreifa fólkinu tóku þeir á það ráð að kasta táragassprengju inn í hópinn. Það hafði í för með sér að mannskapurinn dreifðist en hluta af táragasinu lagði inn í danssalinn og olli að sjálfsögðu uppnámi. Þessi dansleikur leystist upp í einhvern mesta darraðardans sem ég hef orðið vitni að. Menn gengu berserksgang inni í salnum, mölvuðu og brutu allt sem fyrir varð, húsgögn, ljósakrónur og hljóðfæri. Ég hafði verið í hópi þeirra fyrstu sem flýðu húsið en þegar mesti gauragangurinn var um garð genginn fór ég inn til að sækja kápu fyrir vinkonu mína. Og aðkoman var heldur svarraleg og fátt sem minnti á að fyrir stundu hefði þarna verið prúðbúið fólk að skemmta sér. Nánast allt var brotið sem hægt var að brjóta og rétt eins og loftárás hefði verið gerð á staðinn. Þessi dansleikur var lengi í minnum hafður, forsíðufregnir í blöðum sögðu frá honum og enn þann dag í dag minnast menn á táragasballið á Siglufirði.
Yfirleitt fóru þó dansleikir betur fram en þessi þótt oft væri slegist hraustlega. Fyrir kom að sló í brýnu milli íslendinga og Norðmanna en þó ekkert miðað við það sem áður hafði stundum verið þegar nánast ríkti styrjaldarástand milli þessara tveggja þjóða er þær hittust á Siglufirði.
Danirnir skildu hvorugur annan
Eins og áður er sagt voru tveir Danir um borð hjá okkur. Annar hefur nokkuð komið við sögu áður, sá var frá Fjóni og hét Flemming, hafði búið nokkur ár á Hornafirði. Hinn var Jóti, Holgeir að nafni, fílhraustur og duglegur en gat verið nokkuð uppstökkur. Hann hafði sömuleiðis verið búsettur hér á landi í nokkur ár. Það merkilega við þá tvo var að þeir virtust báðir vera búnir að týna niður móðurmálinu og voru einu mennirnir um borð sem áttu í erfiðleikum með að skilja hvor annan. Báðir töluðu þeir einhvern blending af dönsku og íslensku, annar með jóskum hreim en hinn á syngjandi fjónsku. Og ævinlega skyldu þeir vera að agnúast hvor út í annan. Greinilegur hrepparígur milli þeirra og lítil vinsemd. Hvorugur tók annars málstað og báðir leituðu þeir frekar í félagsskap okkar íslendinganna. Þetta þótti mér furðulegt og þykir enn. Annars voru þetta báðir ágætisdrengir, hvor á sinn hátt og ekkert undan þeim að kvarta.
Og svo var haldið heim
Ekki urðum við efnaðir menn á honum Faxa þetta sumar, ekki sett nein aflamet en útkoman samt alveg þokkaleg. Mig minnir að við höfum fengið um 3000 mál sem var víst í meðallagi. Aðallega lönduðum við á Siglufirði og Raufar-höfn en minna fyrir austan. Þegar upp var staðið var ég mun ánægðari með þénustuna mína þarna en ég hafði verið með skrifstofulaunin um veturinn.
Svo kom að því að halda heim í ágústmánuði. Við héldum slútt á Siglufirði áður en farið var þaðan og þar með fauk annað heitið sem gefið hafði verið í upphafi ferðarinnar um bindindissemi. Síðan sigldum við vestur fyrir og skiluðum Reykvíkingunum heim. Og frá Reykjavík sigldum við aðeins fimm til Eyja. Á stíminu heim dunduðum við okkur við að þrífa skipið og rétt vestan við Þrídranga hófst einhver mesti vatnsslagur sem ég hef tekið þátt í. Menn gengu berserksgang um allt skip með vatnsfötur og gusuðu hver á annan. Þeir sem voru í koju voru vaktir upp með einni fötu af vatni og síðan var haldið áfram þar til ekki var þurr þráður á nokkrum manni um borð. Holgeir danski hélt sér lengi vel þurrum og það var ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að koma með spúlslönguna að hann fékk sinn skammt.
Þessum vatnsslag lauk ekki fyrr en við Eiðið, þá slíðruðu menn slöngur og fötur, klæddust þurrum og hreinum fatnaði og voru stroknir og fínir þegar lagst var að bryggju.
Það var hreykinn ungur maður sem stökk upp á bryggjuna, búinn að hljóta eldskírnina í sjomennskunni, kláraði úthaldið án þess að gefast upp. Oft munaði þó litlu, sérstaklega þegar sjóveikin var að gera út af við hann og oft var hann búinn að heita því að fara aldrei nokkurn tíma framar á sjó. Síðan eru liðin rúm þrjátíu ár og mörg úthöld að baki, bæði á síld og öðrum veiðiskap.
Og satt að segja hef ég aldrei iðrast þess að hafa farið á sjóinn, þótt stundum hafi blásið á móti eru þó björtu hliðarnar mun fleiri. Og það er svo merkilegt að yfirleitt man maður betur eftir því skemmtilega til sjós heldur en hinu.