„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/Lyfseðill Simpsons læknis“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: <big><big><center>Lyfseðill Simpsons læknis</center></big></big><br> Læknirinn heyrði hávaða og reis úr rekkju. Hann gekk berfættur í náttfötunum inn í dagstofuna. Hann f...) |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 34: | Lína 34: | ||
''Tveir vinir.''<br> | ''Tveir vinir.''<br> | ||
{{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} |
Útgáfa síðunnar 10. febrúar 2017 kl. 13:52
Læknirinn heyrði hávaða og reis úr rekkju. Hann gekk berfættur í náttfötunum inn í dagstofuna. Hann fór sér hægt, því hann þóttist vita, að innbrotsþjófur væri á ferðinni. Læknirinn hafði daginn áður keypt demantshring handa unnustu sinni, er hann ætlaði að gefa henni í afmælisgjöf, og þjófar komast oftast á snoðir um, hvar herfang er að fá.
Jú, það var rétt ályktað. Er læknirinn kveikti, sá hann stóran illúðlegan mann standa á gólfinu með skammbyssu á lofti. Þjófurinn hafði þegar stungið hringnum í vasann. Hendur glæpamannsins voru stórar og sterklegar. Allur var maðurinn hinn ferlegasti. Þó var andlitið ógeðslegast. Húðin var blá og hrukkur neðan við augun, sem voru blóðhlaupin.
Það var auðséð, að þetta var drykkjumaður. Hann var undir áhrifum víns að þessu sinni. Læknirinn, sem var fíngerður og ekki sterkur, hafði ekkert að gera með að fara í handalögmál við þessa ófreskju, er líktist górilluapa.
Simpson læknir sá, að þessi maður var ekkert lamb að leika sér við. Honum yrði ekki meira fyrir að drepa mann en að hvolfa í sig úr einu staupi. Honum virtist þjófurinn blóðþyrstur.
Læknirinn mælti: „Fyrirgefið. Ég er læknir og hef áhuga á veikindum.“ Hann lagfærði gleraugun á nefinu mjög rólega.
„Þér hafið ef til vill séð á dyraplötunni, að ég er læknir. — Nei, fyrirgefið, auðvitað ekki. Þér hafið komið inn um gluggann. En ég sé það á yður, að þér eigið stundum erfitt með andardrátt.“
„Já,“ hreytti glæpamaðurinn út úr sér.
„Og þegar þér eruð að sofna, er eins og ætli að líða yfir yður. Þér vaknið annað slagið, glaðvaknið, en dettið svo máttlaus út af. Er þetta ekki rétt?“
,,Jú.“ Þjófurinn horfði með áhuga á lækninn.
„Stundum, er þér hafið drukkið of mikið, fáið þér ónot í fingurna.“
„Já, það er rétt, en er þetta hættulegt?“
Simpson læknir brosti vingjarnlega. „Við læknar erum gætnir með fullyrðingar. Við vitum, að hættulegt er, að sjúklingar missi kjarkinn. Allt þarf að rannsakast, áður en dómur er upp kveðinn. Má ég taka á slagæðinni?“<br
Þjófurinn leit á lækninn tortryggnum augum. Hann rétti fram vinstri höndina, en í þeirri hægri hélt hann á skammbyssunni og miðaði á Simpson lækni.
„Hvernig er ég?“ spurði þjófurinn með áhuga.
„Jæja,“ svaraði læknirinn og yppti öxlum. „Ekki sem verstur, eftir kringumstæðunum.“
„Kringumstæðunum? át mannskepnan eftir. Hið bláa andlit hans fölnaði. „Er ég mikið veikur? Hve langt á ég eftir ólifað?“
Læknirinn svaraði: „Kæri vinur. Þér skuluð ekki missa kjarkinn. Ekki á morgun, heldur hinn daginn, losnar eitt rúm á heilsuhæli mínu. Það er eins manns herbergi, sólríkt. Þér skuluð fá það ókeypis og ókeypis læknishjálp gegn einu skilyrði.“
„Ha, ha, ha! Ég á vitanlega að skila hringnum.“
„Hringnum?“ sagði læknirinn, eins og úti á þekju. „Nei. Skilyrðið er það, að ég fái leyfi til þess að kryfja lík yðar og sundra því eins og mér bezt hentar.“
„Líkið af mér?“ Glæpamaðurinn varð óttasleginn.
„Já, það er sjaldgæft að hitta mann með svo greinilegum einkennum og þér hafið. Vísindin og læknastéttin verða að nota þetta tækifæri. Ég er viss um, að aðstoðarlæknar mínir verða hrifnir. Ég vil greiða yður fyrir þetta leyfi. Hvað segið þér um að fá 50 pund?“
„Kærar þakkir,“ svaraði glæpamaðurinn. Hann var að missa kjarkinn.
„Fimmtíu pund. Það er ágætt.“
Læknirinn mælti: „Peningarnir eru í skúffunni hægra megin í skrifborðinu. Þeir eru í sömu skúffunni og hringurinn var í. Gerið svo vel og takið frá, meðan ég fæ mér sæti og skrifa lyfseðil.“
Læknirinn settist og skrifaði langan lyfseðil. Að því búnu mælti hann:
„Kæri vinur. Ég geri allt fyrir yður, sem í mínu valdi stendur. Æxlið á yður er því miður ólæknandi. En andarteppuna og fylgikvilla hennar munu meðul þau, er ég skaffa yður, lækna. Farið inn í einhverja lyfjabúð, sem hefur næturvakt. Eftir tíu mínútur frá því er þér takið inn meðalið munuð þér finna bata.“
Í sex mánuði var dólgur þessi hafður í gæzluvarðhaldi og „útvatnaður“, á meðan safnað var sönnunargögnum fyrir glæpum hans.
Lyfseðillinn gerði sitt gagn. Hann var með nokkuð óvenjulegum hætti. Glæpamaðurinn fékk fyrst vitneskju um það, hve sniðugur læknirinn var, er dómurinn féll í máli hans.
Lyfseðillinn var skrifaður á frönsku-skotinni latínu. Hann hljóðaði svo:
Sæktu strax 0,02, pol. 0,003 iti 3,5. Hættulegur 5,00. Símaðu leynilega 10,00. Lögregluna. 20 lögregluþjóna. Simpson læknir.
Glæpamaðurinn fékk makleg málagjöld.
Tveir vinir.