„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Þjóðsaga sunnan frá Svartahafi“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 7: | Lína 7: | ||
Þrátt fyrir það, sem um hafði verið bætt, gat ég þó skilið söknuð manna vegna þeirrar, sem horfið hafði, þegar ég hafði skoðað mig um og heyrt málavexti.<br> | Þrátt fyrir það, sem um hafði verið bætt, gat ég þó skilið söknuð manna vegna þeirrar, sem horfið hafði, þegar ég hafði skoðað mig um og heyrt málavexti.<br> | ||
Við vorum nokkrir Íslendingar á ferð suður á Krímskaga sumarið 1958. Við dvöldum fáeina daga í borginni Jalta, sem er á landsuðurströnd Krímskagans. Þaðan fórum við margar smáferðir til ýmissa staða þar í nágrenninu, bæði á landi og einnig siglandi sjóleiðina með ströndinni.<br> | Við vorum nokkrir Íslendingar á ferð suður á Krímskaga sumarið 1958. Við dvöldum fáeina daga í borginni Jalta, sem er á landsuðurströnd Krímskagans. Þaðan fórum við margar smáferðir til ýmissa staða þar í nágrenninu, bæði á landi og einnig siglandi sjóleiðina með ströndinni.<br> | ||
[[Mynd:En á meðan hún lætur renna í ílátið.png|500px|thumb|En á meðan hún lætur renna í ílátið sitt gægist ræningi fram af klettunum þarna uppi.]] | |||
[[Mynd:Hafmeyjan skilar syni sínum upp á fjörustein ættlands síns.png|300px|thumb|Hafmeyjan skilar syni sínum upp á fjörustein ættlands síns.]] | |||
Á einni af ferðum okkar var komið í lítið þorp á ströndinni, spölkorn sunnan við Jalta. Á þessum slóðum er skammt milli fjalls og fjöru og byggðin raunar í bratta niður af fjallsrótuni, en aðalþorpsgatan er á lágum fjörukambi og svolítið klettarið ofan við götuna.<br> | Á einni af ferðum okkar var komið í lítið þorp á ströndinni, spölkorn sunnan við Jalta. Á þessum slóðum er skammt milli fjalls og fjöru og byggðin raunar í bratta niður af fjallsrótuni, en aðalþorpsgatan er á lágum fjörukambi og svolítið klettarið ofan við götuna.<br> | ||
Í klettabeltinu ofan götunnar sprettur á einum stað vatn fram í lítilli bunu. Þetta var fyrir eina tíð aðalvatnsból þorpsins og þangað sóttu þorpsbúar vatn í ílát sín, könnur og krúsir.<br> | Í klettabeltinu ofan götunnar sprettur á einum stað vatn fram í lítilli bunu. Þetta var fyrir eina tíð aðalvatnsból þorpsins og þangað sóttu þorpsbúar vatn í ílát sín, könnur og krúsir.<br> |
Núverandi breyting frá og með 20. júní 2016 kl. 12:16
Sjaldan skeður það á okkar landi, að upp sé reist höggmynd á almannafæri, svo að ekki hefjist um fegurð hennar eða listgildi harðar og illvígar deilur. Í þeim deilum ber ævinlega mest á þeim röddunum, sem kveða upp áfellisdóma um verkið og róma ólistfengi þess eða ljótleik.
Þess eru líka dæmi, að hinn endanlegi úrskurður framtakssamra gagnrýnenda okkar hefur verið kveðinn upp með dýnamíti. Þannig fékk Hafmeyjan, sem setzt var að í Reykjavíkurtjörn að fljúga í ótal pörtum í loft upp fyrir skemmstu, hrakin af stalli sínum af óblíðum gagnrýnendum. Síðan er sæti hafgúunnar í þeirri tjörn autt og vitnar um óbætt skemmdarverk.
Varla verður þó sagt að almennur harmur sé kveðinn eftir dömu þá, sem þarna fór forgörðum, og um margar höggmyndir okkar, sem upp eru settar á fjölförnum stöðum til minja eða skrauts, mundi gegna svipuðu máli, ef þær væru týndar og tröllum gefnar einhvern morguninn, þegar menn kæmu á fætur.
En eitt sinn hef ég þó komið þar, sem menn töluðu af viðkvæmni um sprengda hafmeyju. Þó var önnur komin á klett hennar og þótti mér sú sóma sér hið bezta. Hún var að vísu verulega frábrugðin okkar hafmeyjum, hafði til dæmis engan sporð né heldur samvaxna fætur, aðeins myndarleg uggabörð utan á fótleggjum, enda er hafgúuhugmyndin með sínum hætti í landi hverju.
Þrátt fyrir það, sem um hafði verið bætt, gat ég þó skilið söknuð manna vegna þeirrar, sem horfið hafði, þegar ég hafði skoðað mig um og heyrt málavexti.
Við vorum nokkrir Íslendingar á ferð suður á Krímskaga sumarið 1958. Við dvöldum fáeina daga í borginni Jalta, sem er á landsuðurströnd Krímskagans. Þaðan fórum við margar smáferðir til ýmissa staða þar í nágrenninu, bæði á landi og einnig siglandi sjóleiðina með ströndinni.
Á einni af ferðum okkar var komið í lítið þorp á ströndinni, spölkorn sunnan við Jalta. Á þessum slóðum er skammt milli fjalls og fjöru og byggðin raunar í bratta niður af fjallsrótuni, en aðalþorpsgatan er á lágum fjörukambi og svolítið klettarið ofan við götuna.
Í klettabeltinu ofan götunnar sprettur á einum stað vatn fram í lítilli bunu. Þetta var fyrir eina tíð aðalvatnsból þorpsins og þangað sóttu þorpsbúar vatn í ílát sín, könnur og krúsir.
Þegar við litum að lind þessari var þar margt manna, er fór og kom, en ekki voru það vatnsberar heldur ferðamenn að skoða staðinn eins og við.
Eftir að hafa horft á fólksstraum þennan um hríð, varð maður þess var, að eitthvað voru tvær persónur hópsins frábrugðnar öðru fólki, þótt lítt veitti maður því athygli í upphafi. Bæði var búningur þeirra nokkuð eldri í sniði en annarra nærstaddra. og svo kom hitt þó upp um þau, þegar til lengdar lét, að þau ein allra hreyfðu sig ekki. Þetta voru karl og kona og var konan að sækja vatn í brúsa sinn, en karlinn var uppi á klettabríkinni og gægðist fram af henni til konunnar.
Þetta voru tvær höggmyndir, og að mínum smekk fortakslaust þær listrænustu, sem ég hef nokkru sinni séð. Þær féllu svo vel að umhverfi sínu og voru svo lifandi, að fljótt á litið greindi maður þær ekki frá lifandi fólki.
Nú rigndi spurningunum yfir leiðsögumanninn: Hvers vegna eru þessar myndir hér og hvað eiga þær að tákna?
Og nú var gamall þorpsbúi kvaddur til að segja okkur frá, en túlkur okkar endursagði jafnharðan frásögn hans:
Það er gömul saga héðan úr þorpinu, sem er tilefni þessara mynda.
Einu sinni var ung kona, sem þótti bæði fögur og gjörvuleg og það var talið að hún bæri af öllum öðrum ungum konum hér um slóðir. Hún var heitbundin manni og þau höfðu ákveðið brúðkaup sitt.
Kvöldið fyrir hinn ákveðna brúðkaupsdag fór hún, eins og vant var út að brunninum, til að sækja vatn. — Og þarna getið þið séð hana renna vatnskrúsinni sinni undir bununa.
En á meðan hún er að láta renna í ílátið sitt gægist ræningi, sem legið hefur í leyni við brunninn fram af klettunum þarna uppi. — eins og þið sjáið.
Hann sér auðvitað á augabragði, að þetta er óvenjulega falleg kona, en það var einmitt það, sem ræningjar þeirrar tíðar sóttust mest eftir. Fallegar konur var alltaf hægt að selja Tyrkjasoldáni, hérna hinum megin við hafið, og nú benti sögumaður okkar út yfir léttgárað Svartahafið, rétt eins og við gætum komið auga á tyrknesku ströndina. En þótt Svartahafið spenni ekki uni víðáttur svipaðar og stóru úthöfin, þá verður þó aldrei séð yfir það og ekki nálægt því.
Áður en varði hafði ræninginn og flokkur hans, sem nú var kallaður fram úr felustöðum, gripið ungu konuna, hélt sögumaðurinn áfram og er þar nú skemmst af að segja, að þeir drógu hana til skips síns og sigldu með hana í ánauðina.
Soldáninn varð jafnan glaður við hverja nýja konu, sem honum var færð, en þessi kona varð þó fremur en nokkur önnur gimsteinn í kvennabúri hans og um hana snerist hugur soldáns fremur en um nokkra aðra konu.
Ekki varð konan þó soldáninum eftirlátari en nauðir rak til og hugði hún jafnan á undankomu, og hinu úkrainska þorpi sínu á Krímskagaströndinni gleymdi hún aldrei.
En svo fann hún það, þegar stundir liðu fram, að hún átti barns von. Þá magnaðist harmur hennar yfir örlögum þeim er henni voru sköpuð og það fannst henni með öllu óbærileg hugsun, að leggja óvinum þjóðar sinnar til son.
Þegar barn hennar var aðeins komið á legg, tókst henni, af því að hún gat heillað alla verði og starfslið með fegurð sinni og þokka, að sleppa úr kvennabúrinu. En hún átti ekki margar leiðir til undankomu og því lagðist hún til sunds í átt til heimabyggðar sinnar og skeytti því engu, þótt slíkt sund væri öllum mennskum verum margfaldlega um megn.
Soldáninn saknaði fljótt sonar síns og móður hans, konunnar, sem hann sízt vildi missa úr búri sínu. Hann kallaði því spekinga sína og galdrameistara fyrir sig og skipaði þeim að beita nú kunnáttu sinni til að stöðva flótta konunnar, svo að aftur mætti færa hana á þann stað, sem soldáni þótti hæfa.
Þeir skutu á fundi með sér, en allir reyndust þeir hafa samúð með hinni burthlaupnu konu, og ákváðu þeir að beita kunnáttunni fremur til að bjarga henni en til þess að hindra flóttann. En þeir sáu ekki nema eitt ráð til að hún og barnið gætu haldið lífi á svo löngu sundi. Þeir breyttu henni í hafgúu.
Eftir það varð henni sundið létt og hún skilaði barni sínu hér á land, en sjálf varð hún að gera hafið að sínum samastað og mátti aldrei framar á landi búa.
— Myndhöggvarinn okkar gerði líka fallega mynd af því, þegar hún skilaði barninu upp á ströndina. Það var þarna við þennan stein, sagði sögumaðurinn og benti á dálítinn stein í flæðarmálinu. Og það var mikið rétt, þar var mynd af konu með ugga á fótum og barn í fangi, skríðandi upp á fjörusteininn.
En þetta er ekki myndin hans, sagði sá gamli. Þeir þýzku sprengdu þá mynd í stríðinu. — Það var falleg mynd. Þessi var látin þarna í staðinn fyrir hana, en það hefur ekki tekizt að gæða hana lífi.
Og svo varð þögn.
Það var rétt hjá sögumanni okkar, að þessi landtökumynd var hvergi nærri með því lífi, sem hinar við brunninn höfðu.
Ég held að allir, er þessari frásögn hlýddu, hafi harmað þá sprengingu, sem tortímdi hafgúunni sem við aldrei höfðum séð.
En sú skrásetning þjóðsögunnar, sem myndlistarmennirnir þarna höfðu framkvæmt einmitt á vettvangi sögunnar sjálfrar, hafði óumdeilanlega gætt hina gömlu sögn nýju, sterku lífi og auðgað umhverfið að fegurð.
Og það er ég sannfærður um, að enda þótt hafmeyjan, sem nú er á steininum í flæðarmáli litla Krímskagaþorpsins standist ekki allar listrænar kröfur, er menn gera þar um slóðir, þá heillar þessi sérstæða tjáning gömlu þjóðsögunnar hugi gesta og heimamanna svo, að í listgagnrýninni dettur mönnum sízt af öllu tundur í hug. Þeir hafa þegar vonda reynslu af sprengingum á Krímskaganum.
K.G.