„Blik 1967/Byggðarsafn Vestmannaeyja“: Munur á milli breytinga
m (Verndaði „Blik 1967/Byggðarsafn Vestmannaeyja“ [edit=sysop:move=sysop]) |
m (Changed protection level for "Blik 1967/Byggðarsafn Vestmannaeyja" [edit=autoconfirmed:move=autoconfirmed]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 4. september 2008 kl. 08:21
Byggðarsafn Vestmannaeyja Þróunarsaga þess er nú 35 ára
Í ár eru liðin 35 ár síðan fyrstu hlutirnir voru lagðir til geymslu handa Byggðarsafni Vestmannaeyja. Þá var safnið, - þessi menningarhugsjón, einungis draumsýn, sem var óralangt framundan, fjærst í útsæ framtíðarinnar. Árin liðu og færðu mér ávallt fleiri, og fleiri hluti, sem safngildi höfðu, ýmist menningarlegt eða með tilliti til atvinnulífs og afkomu Eyjafólks. Fyrstu 20 árin reyndust nemendur mínir mér mestu og beztu hjálparhellurnar í þessu starfi, alltaf boðnir og búnir til þess að hjálpa, hlaupa undir bagga, sækja muni, láta mig vita um gamla muni, sem líklegir væru til þess að hafa safngildi og falir. Við lögðum munina til geymslu á loftinu í íbúðarhúsi okkar Háagarði. Síðan fluttum við þá með okkur á loftið í Goðsteini, þegar við fluttum þangað 1947. Eftir að Gagnfræðaskólábyggingin komst undir þak, fékkst mikið og gott geymslurými á háalofti þeirrar byggingar. Þar voru munir Byggðarsafnsins síðan geymdir að meginhluta í 12 ár. Vissulega væri það órétt að geta þess ekki hér, hversu Eyjabúar brugðust jafnan vel við þessu starfi, sýndu áhuga og skilning á söguminjum Eyjanna og nauðsyn (þess að halda þeim við lýði, geyma þá seinni kynslóðum, þar sem munirnir segja ljósara en allt annað sögu þess fólks, sem hér hefur lifað og starfað undanfarnar tíðir.
Ljósmyndasafnið
Árið 1950 (15. nóv.) lézt Kjartan Guðmundsson ljósmyndari frá Hörgsholti. Hann rak hér ljósmyndastofu áratugum saman. Erfingjar hans gáfu Vestmannakaupstað allt ljósmyndaplötusafn hans, 15-20 þúsund plötur. Plötusafn þetta lét bæjarstjórn afhenda Byggðarsafni kaupstaðarins til varðveizlu. En meira þurfti hér að gera en geyma plötusafnið. Því aðeins gat það öðlazt sögulegt og menningarlegt gildi og orðið vísir að vestmanneyiskri mannfræði, að myndirnar yrðu skýrðar og skráðar og gjörðar þannig aðgengilegar fólki, sem þar vildi leita eftir myndum af skyldmennum sínum, vinum eða venzlamönnum. Hér þurftu þeir um að véla, sem mannglöggir væru og báru kennsl á sem allra flesta, er hér höfðu dvalizt og starfað á undanförnum áratugum. Þá varð að kveðja hér til starfa þá einstaklinga, sem líklegir voru til að vita deili á sem allra flestu fólki hér undanfarna áratugi. Þá var það, sem ég leitaði til bæjarstjórnar kaupstaðarins og bað hana að kjósa 5 manna nefnd, byggðarsafnsnefnd, til þess að vinna í sameiningu að viðgangi Byggðarsafnsins og inna alveg sérstaklega af hendi skýringarstarfið við myndaplöturnar.
Bæjarstjórn brást vel við málaleitan þessari. Samkomulag fékkst um það, að bæjarstjórn kysi 3 menn í nefnd þessa og síðan kysi Vestmannaeyingafélagið 2 menn úr sínum hópi, þar sem við höfðum augastað á vissum mönnum þar til starfans, - vissum þá bæði fórnfúsa, áhugasama um sögu Eyjanna og minnuga á margt það fólk, sem hér hafði dvalizt á undanförnum áratugum. Bæjarstjórn kaus þessa menn: Guðjón Seheving, Oddgeir Kristjánsson og undirritaðan. Vestmannaeyingafélagið kaus úr sínum hópi þá Árna Árnason og Eyjólf Gíslason. Enn get ég hlegið að fyrirbrigði, sem kom fram hjá ofstækisfullum andstæðingi mínum í bæjarstjórn, þegar við þremenningarnir vorum kosnir í byggðarsafnsnefndina: Hann lagði það til, að ég yrði ekki kosinn í byggðarsafnsnefnd þessa, - fram hjá mér yrði gjörsamlega gengið. Þá hló mér hugur í brjósti eins og fyrri daginn, þegar þessir menn ,,leika listir sínar" gagnvart mér og mínu starfi. Sú tillaga fékk ekki byr hjá meiri hluta bæjarstjórnar. Og svo var tekið til óspilltra málanna við að undirbúa skýringarstarfið við ljósmyndirnar.
Byggðarsafnsnefndin réði Hörð ljósmyndara Sigurgeirsson til þess að gera myndalappa af vissri tölu af plötunum hvert ár. Honum var greitt fyrir það starf með árlegu framlagi bæjarsjóðs til þessa verks. Það fékk ljósmyndarinn óskert hvert ár. Framlagið nam kr. 5000,00 á ári árin 1953-56 (alls kr. 20.000,00) og kr. 15.000,00 á ári árin 1957-1964 (allt kr. 120.000,00). Þessar kr. 140.000,00 greiddum við fyrir myndalappana. Á veturna öll þessi ár sátum við svo þrír, Árni, Eyjólfur og undirritaður og kepptumst við að skýra myndir og skrifa skýringarnar við þær. Að sjálfsögðu unnum við þetta verk að kveldinu, svo að það hafði enga truflun í för með sér á dagleg skyldustörf okkar. Þær myndir, sem við gátum ekki skýrt sjálfir, hvern vetur, geymdum við til vors og héldum sýningu á þeim í Gagnfræðaskólanum um leið og sú stofnun hélt sína árlegu vorsýningu á handavinnu nemenda, teikningum o. fl.
Eyjabúar sýndu mikinn áhuga á myndasýningum byggðarsafnsnefndarinnar og margar og mikilvægar skýringar fengum við á sýningunum í Gagnfræðaskólahúsinu. Með öllu þessu starfi hefur nú byggðarsafnsnefnd í fórum sínum á að gizka 13 -14 þúsund ljósmyndir skýrðar. Enn er þó mikið hjá henni af óskýrðum myndum. Nú hefur byggðarsafnsnefnd látið prenta spjaldskrá handa ljósmyndasafninu og hafið skráningu myndanna. Á s. l. ári voru fyrstu 2000 myndirnar skráðar og þrír járnskápar keyptir til þess að geyma hinar skráðu myndir.
Filmusafn Jóhanns Þorsteinssonar
Á s. l. ári færði Jóhann Þorsteinsson, Strembugötu 4 hér í bæ, Byggðarsafni Vestmannaeyja að gjöf filmusafn sitt, 3000-4000 myndir. Þarna er að finna fjölmargar mjög markverðar myndir af bátum Eyjabúa á s. l. 20 árum og svo merkum mönnum og konum, sem hér hafa lifað og starfað á undanförnum síðustu áratugunum. Myndir eftir filmum þessum hafa þegar verið gerðar og skýringarstarfið mun hefjast innan skamms. Þarna er um markverð söguleg verðmæti að ræða, og kunnum við Jóhanni Þorsteinssyni alúðarþakkir fyrir gjöf þessa, sem sannar okkur skilning hans á hinu mikilvæga menningar- og fræðslugildi myndasafna og hlýhug hans til safnsins.
Vestmannaeyjablöðin
Segja má, að blaðaútgáfa hefjist hér í Eyjum með hinu handskrifaða og (eða) fjölritaða blaði Valdimars kaupmanns Ottesens, er hann hóf útgáfu á sumarið 1917. Á öðrum stað hér í ritinu birti ég nú heildarskrá yfir öll blöð og alla bæklinga, sem komið hafa út hér s. l. hálfa öld, en í haust eru 50 ár liðin, síðan Gísli J. Johnsen, kaupmaður, flutti elztu Félagsprentsmiðjuna hingað til Eyja og hóf útgáfu blaðs síns, Skeggja. Árið 1956 hóf ég fyrir alvöru að safna öllum þeim blöðum og bæklingum, sem Eyjabúar í einhverri mynd hafa gefið hér út frá upphafi. Margir Eyjabúar brugðust vel við þessu starfi mér til hjálpar eins og fyrri daginn og létu mér í té gömul blöð, sem þeir áttu í fórum sínum. Nú eru blöð þessi bundin inn í fallegt band og gyllt á kili, svo að þau eru með sanni sagt eiguleg Byggðarsafninu og verða með tíma ómetanleg fræðslulind um flesta þætti byggðarsögunnar hér á þessum miklu framfaratímum, sem hér hafa ríkt s. l. aldarhelming. Í bandinu á blöðum þessum geymast þeir fjármunir, sem vorsýningar Gagnfræðaskólans hér um árabil gáfu af sér. Þar eru þeir vissulega vel geymdir. En bandið á öll þessi blöð og bæklinga hefur kostað býsna mikið fé eins og reikningar Byggðarsafnsnefndar sanna, en þeir eru allir færðir og geymdir frá upphafi starfsins. Nú eigum við 150 bindi Vestmannaeyjablaða.
Gamlar bækur
Mikill fjöldi gamalla bóka hefur Byggðarsafninu áskotnazt á undan förnum árum. Þar kennir margra grasa. Allt það safn er óskráð enn. Þarna eru t. d. um merkar útgáfur að ræða af guðsorðabókum, svo sem prédikunum, sálmabókum og Passíusálmunum. Þarna finnast nokkrar bækur frá 18. öld t. d. og fyrstu útgáfur sumra merkra bóka frá seinni áratugum. Fátt sannar betur hugsunarhátt Eyjabúa gagnvart byggðarsafnsstarfinu og skilning þeirra á menningarlegu gildi þess en að fela því að varðveita gömlu bækurnar sínar, sem ef til vill færu ella á ,,öskuhaugana" eftir þeirra dag.
Verzlunarbækurnar
Byggðarsafn Vestmannaeyja stendur í mikilli þakkarskuld við Einar Sigurðsson, frystihússeiganda, fyrir þá hugulsemi að senda safninu allar verzlunarbækur Austurbúðarinnar, er hann keypti Danska-Garð og stofnaði þar til hins mikla og mikilvæga atvinnureksturs síns. Enn er eftir að skrá alla þá miklu bókagjöf, sem geymir mikinn fróðleik um viðskipti og verðlag hér frá því Brydarnir keyptu verzlunaraðstöðuna og verzlunarhúsin 1844. Margar aðrar verzlunarbækur hafa borizt Byggðarsafninu, svo sem bækur kaupfélagsins Fram og Verzlunar Brynjólfs Sigfússonar.
Bygggðarsafnið opnað almenningi
Hinn 12. júlí 1964 verður að teljast merkisdagur í sögu byggðarsafns starfsins hér. Þann dag var safnið opnað almenningi á 3. hæð Sparisjóðsbyggingarinnar við Bárugötu. Þetta hefur reynzt Byggðarsafninu mikið happaframtak, og miklar þakkir allra Eyjabúa á Sparisjóðurinn og stjórn hans skildar fyrir þennan velvilja til Byggðarsafnsins og byggðarlagsins. Á fyrra ári lét svo stjórn Sparisjóðsins í té alla 3. hæð byggingarinnar Byggðarsafninu til afnota. Byggðarsafnið hefur sjálft staðið straum af þeim kostnaði, er leitt hefur að því að standsetja húsrými þetta, einangra útveggi og margt og margt annað, sem gera hefur þurft þar. Og alltaf hefur Byggðarsafninu áskotnazt fé til framkvæmdanna, þó að bæjarsjóður léti aldrei einn eyri af mörkum þessu starfi til stuðnings og framdráttar fyrr en eftir að Byggðarsafnið var opnað almenningi og hugur hans knúði valdamenn til framtaks og dáða. Þá veitti bæjarstjórn Byggðarsafninu framlag kr. 100.000,00. Þess styrks hefur það notið í tvö ár til ómetanlegs stuðnings þessu málefni.
Safnahús verði byggt í Eyjum
Allir Eyjabúar vænta þess fastlega, að bæjarstjórn hefjist nú handa um byggingu veglegs safnahúss hér í bænum. Bókasafn bæjarins nýtur ekki tilveru sinnar og bæjarbúar ekki þess sökum húsnæðisvandræðanna þar. Vísir að listasafni hefur bæjarstjórn nú fest kaup á. Hvar skal það geymast? Hvað skal gert við Byggðarsafnið, ef þeir menn komast til valda í sparisjóðsstjórn, sem vilja ekki lengur láta Sparisjóð Vestmannaeyja fórna fjármunum sínum til lána á húsnæði handa Byggðarsafninu, en það gerir Sparisjóðurinn nú vissulega? Enginn einstaklingur mundi leigja þessa húshæð í hjartastað bæjarins fyrir einar 2000 krónur á mánuði. Þá má minna á, að hér í Eyjum geymast á tveim stöðum náttúrusöfn, sem eru ef til vill hin merkilegustu í öllu landinu. Hve lengi skulu þau tvískipt?
4. nóv. 1965 Til bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum. Háttvirtu bæjar fulltrúar.
Þegar ég fyrir fáum árum gerði mér ferð til Vestmannaeyja til að líta á og kynnast þeim vísi að Byggðarsafni Eyjanna, sem þar hafði þá verið unnið að um árabil af nokkrum áhugasömum mönnum, þá varð mér strax ljóst, að þar var þá margt samankomið, sem stórþakkarvert var að vernda frá eyðileggingu. Hitt blöskraði mér að sjá, við hve óviðunandi skilyrði þessir munir voru geymdir, undir eldfimri súð í húsi Gagnfræðaskólans, þar sem ógerningur væri að bjarga nokkrum hlut þaðan, ef eldur kæmi upp í byggingunni. Þegar ég nú kom aftur til Vestmannaeyja 22. okt. s. l, sá ég, að hér var mikil breyting á orðin í rétta átt, safngripirnir komnir í ný og betri húsakynni, þar sem fólki gefst tækifæri til að skoða þá safngripi, sem þar komast fyrir. Má það þó frekar kalla geymslustað en safnhús. Þarna er þó þegar orðið alltof þröngt um munina, en í þrengslunum má þó glöggt sjá hinn góða árangur af starfi þeirra manna, sem frá byrjun og til þessa dags hafa unnið að vexti safnsins og viðgangi. Byggðarsafn fyrir Vestmannaeyjar hlýtur að verða með nokkuð öðrum svip heldur en önnur byggðasöfn hér á landi. Því veldur sérstaða Vestmannaeyja. Atvinnu- og lifnaðarhættir hlutu að verða þar talsvert ólíkir því, sem er uppi á landinu. Í Eyjunum er lifað við landbúnað og sjósókn og farið í björg til fuglaveiða. Að öllu er unnið hörðum höndum með frumstæðum tækjum, þangað til véltækni tímans tók við um síðustu aldamót. Smátt og smátt hvarf það gamla í gleymsku og verkfærin gömlu, sem áður voru lífsnauðsyn fólksins, fengu víða að fúna og grotna niður, þegar nýrra og fullkomnara kom til sögunnar. Greindir og fróðir, gamlir Vestmannaeyingar hafa að vísu skráð margt merkilegt frá ungdæmi þeirra og eiga mikla þökk skilið fyrir það. En gömlu verkfærin og hlutirnir, sem notaðir voru úti sem inni, í lífsbaráttu fyrri kynslóða, standa ofar allri frásögn, því að það eru sjálfar frumheimildirnar. Það er hlutverk byggðasafnanna að vernda þær og geyma fyrir komandi kynslóðir. Þegar komið er inn í Byggðarsafn Vestmannaeyja, þar sem það nú er geymt í húsi Sparisjóðsins, verður manni undir eins ljóst, að þar er um fleiri söfn eða deildir að ræða. Fyrst nefni ég þjóðminjadeild, allt sem viðkemur heimilishaldi og landbúnaði Eyjaskeggja. Þá er sjóminjadeildin, allt tilheyrandi fiskveiðunum. Því næst er náttúrufræðideild, fuglar og fiskar og steinar. Ennfremur mikið og merkilegt safn skelja. Þar að auki eru þar skápar fullir af verzlunarbókum, sem ná yfir talsvert á aðra öld, sem hafa að geyma feikna fróðleik um verzlun og viðskipti íbúa Eyjanna og bænda úr næstu sýslum, sem lengi verzluðu þar. Að síðustu vil ég minna á hið mikla safn ljósmynda af fólki í Eyjum og nærsveitum, plötusafn Kjartans heitins Guðmundssonar, víst um 20 þúsund talsins. Í því eru m. a. ljósmyndir Kjartans af Kötlugosinu 1918. Mun hann vera eini ljósmyndarinn, sem tók myndir af því og jökulhlaupinu. En nú sem stendur, eru eldfjallarannsóknir ofarlega á baugi í þessum landshluta. Nú þegar hafa verið skrásett á 9. hundrað muna í Byggðarsafni Eyjanna, en mjög margt hefur borizt, sem enn er ekki komið á skrá. Mikið og gott verk hefur verið unnið við að gera safnmunina sýningarhæfa.
Ég vil hér minna á ummæli Kristjáns Eldjárns um byggðasöfn í afmælisriti Þjóðminjasafnsins 1963: ,,Byggðasafnahreyfingin hefur þegar gert feiknmikið gagn og áreiðanlega borgið miklum verðmætum frá glötun". Mega Vestmannaeyingar taka nokkuð af þeim ummælum til sín vegna Byggðarsafns Eyjanna. Af því, sem ég hefi hér talið upp í Byggðarsafninu, má öllum vera ljóst, að slík menningarverðmæti rúmast ekki öll í einni stofu, þó nokkuð stór sé. Það þarf að gera þessi gögn aðgengileg, til þess að þau nái tilgangi sínum: Að kynna nútímafólki líf og athafnir liðinna kynslóða, sögu byggðanna og menningu. En til þess að það geti orðið, þarf safnið að eignast hæfileg húsakynni, til þess að sem flestir munir þess fái notið sín og sem flestir notið þeirra.
Vestmannaeyjar eru og hafa lengi verið einhver mesti útgerðarbær á okkar landi og þar eru árlega dregin geysileg verðmæti úr sjó. Velmegun íbúanna dylst ekki fyrir augum aðkomumannsins. Því vildi ég óska, að menning þeirra og víðsýni standi í réttu hlutfalli við efnahag, því að þá ætti Vestmannaeyingum að veitast auðvelt að byggja sæmileg húsakynni yfir Byggðarsafn sitt. Um það málefni ættu stjórnmálaflokkarnir allir að geta sameinast, því að það er gjörsamlega ópólitískt, - það er mál allra Eyjabúa. En mest ríður á, að fulltrúar fólksins, sem það hefur valið í bæjarstjórn, séu þeir menn- ingarfrömuðir, að þeir taki málið að sér og stýri því í örugga höfn. Fyrir það mundu þeir bæði hljóta þökk núlifandi manna og komandi kynslóða.
Virðingarfyllst,
Ragnar Ásgeirsson (sign)
Náttúrugripasafn Eyjabúa
Sérstök deild í Byggðarsafni Vestmannaeyja er náttúrugripasafn Eyjabúa. Það safn á fleiri tegundir fiska en nokkurt annað náttúrugripasafn í landinu eða um 90 tegundir. Flestir eru fiskarnir settir upp að þýzkri og sænskri fyrirmynd, steyptir í gifs og klæddir í roð sitt, sem hefur þá verið gert ólífrænt. Þannig virðast fiskarnir geymast vel og lengi. Nokkrar fiskategundir eru geymdar í formalíni. Stærsti fiskur safnsins er túnfiskur, 270 sm. langur. Sumar fiskategundir safnsins hafa aldrei sézt fyrr hér á landi.
Þetta náttúrugripasafn á nú um 80% allra skeljategunda, sem fundizt hafa við Ísland og yfir 70% af íslenzkum kuðungum. Fyrir nokkrum árum voru þessi dýr svo að segja ókunn almenningi á þessu landi. Aðeins örfáar algengustu tegundirnar þekktar. Eyjabúar hafa sjálfir lagt fram fé úr eigin vasa til þess að efla vöxt og viðgang þessa safns.
Ragnar ráðunautur Ásgeirsson, bróðir forsetans okkar, hefur um árabil ferðast um landið og aðstoðað þá menn, sem unnið hafa að stofnun og skipulagningu byggðasafna. Hinnmikli áhugi hans og góðvild til þessa starfs hefur skapað honum einskonar sjálfkjör á þessu sviði.
Á s. l. ári heimsótti Ragnar ráðunautur Byggðarsafn Vestmannaeyja okkur til mikillar ánægju og nota við starfið. Eftir dvöl sína hér skrifaði ráðunauturinn bæjarstjórn Vestmannaeyja bréf það, er hér birtist og ég óska að Blik geymi fyrir okkur.
Vm. 30.11 1966.
Þ. Þ. V.
Gjafir úr Náttúrugripasafns Eyjabúa á árunum 1965 og 1966 Kr.
- Ólafur Ólafsson útgerðarmaður og frú, Seyðisfirði 10.000,00
- Fiskideild Vestmannaeyja 10.000,00
- Sigurður Þórðarson, útgerðarmaður 1.000,00
- Hannes Hansson, fyrrverandi útgerðarmaður 1.000,00
- Kaupfélag Vestmannaeyja 10.000,00
- Benedikt Ragnarsson 632,00
- Jón Hjaltason 1.000,00
- Vignir Þorsteinsson 200,00
- Guðmundur Ólafsson frá Oddhól 200,00
- Þorsteinn Sigurðsson, Blátindi 1.000,00
- Frú Dagný Ingimundardóttir 300,00
- Séra Þorsteinn L. Jónsson 200,00
- J. N 200,00
- Sigurður Sveinbjarnarsson 200,00
- Skipasmíðastöð Vestmannaeyja 1.200,00
- Verzlunin Klettur 200,00
- Páll Helgason 1.100,00
- Karl Jónsson 200,00
- Smiður hf 500,00
- Litla bílabúðin 200,00
- Ingólfur Sigurmundsson 450,00
- Vigfús Sigurðsson 500,00
- Almenn fjársöfnun, minni upphæðir 20.750,00
- Gjafir samtals 61.032,00
Gjafir færðar Byggðarsafni Vestmannaeyja á árunum 1965 og 1966
- Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja 50.000,00
- Ísfélag Vestmanaeyja 15.000,00
- Vinnslustöðin 15.000,00
- Gjafir samtals 80.000,00
Fyrir þessar rausnarlegu gjafir þakkar byggðarsafnsnefndin alúðlega.
Persónulega ber mér að þakka af alúð þessar gjafir Eyjabúa til náttúrufræðideildar Byggðarsafnsins. Þær hafa vissulega verið mér aukin hvatning til meira starfs fyrir málefni þetta. Sjón er nú sögu ríkari um það, hversu. fjölþætt safnið er nú orðið og í rauninni markvert á ýmsa lund. Síðasti fiskurinn, sem safnið eignaðist, er túnfiskur um 270 sm á lengd. Gefandi: Ármann Friðriksson skipstjóri frá Látrum í Eyjum. Allt þetta gjafafé hefur orðið mér afl þeirra hluta, sem gera þurfti. Sjóminjasafnið og fiskadeildin er nú til sýnis í sérstökum sal á 3. hæð Sparisjóðsbyggingarinnar.
Áfram skulum við halda að settu marki!