„Tveir formenn í Reynishöfn“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 16: | Lína 16: | ||
Nú er Pétursey orðin einhver dýrmætasti safngripur okkar í Byggðasafninu í Skógum, sem er sameign Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Gefin þangað af Jóni Halldórssyni í fyllilega sjófæru ástandi, meira að segja fylgdu árarnar og bera sumar þess vitni að oft hefur verið búið að taka þær föstum tökum.<br> | Nú er Pétursey orðin einhver dýrmætasti safngripur okkar í Byggðasafninu í Skógum, sem er sameign Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Gefin þangað af Jóni Halldórssyni í fyllilega sjófæru ástandi, meira að segja fylgdu árarnar og bera sumar þess vitni að oft hefur verið búið að taka þær föstum tökum.<br> | ||
Þrjú áhersluorð notaði Jón Gíslason mikið, þau hljóðuðu svo „Alveghreint laxmaður“ og „Handónýtt“. Gárungarnir töldu að tvö þau fyrri hefði hann átt til að nota þó kvenmaður ætti í hlut. En hvað um það, Jón var alveg hreint ágætur.<br> | Þrjú áhersluorð notaði Jón Gíslason mikið, þau hljóðuðu svo „Alveghreint laxmaður“ og „Handónýtt“. Gárungarnir töldu að tvö þau fyrri hefði hann átt til að nota þó kvenmaður ætti í hlut. En hvað um það, Jón var alveg hreint ágætur.<br> | ||
<big>'''Einar á Reyni'''</big><br> | <big>'''Einar á Reyni'''</big><br> |
Útgáfa síðunnar 15. febrúar 2019 kl. 14:42
Jón í Norður Götum
Jón Gíslason, fæddur 26.9.1858, dáinn 27.6. 1945 var bóndi í Norður Götum. Foreldrar, Gísli Einarsson f.1827 og Sigríður Tómasdóttir f. 1830 á Ásólfsskála V-Eyjafjöllum. Foreldrar Gísla voru Einar Jóhannsson, hreppstjóri Þórisholti og kona hans Ragnhildur Jónsdóttir.
Fyrri kona Jóns var Tala Hjaltadóttir (Einarssonar Jóhannssonar). Börn þeirra, Hjalti f. 1896 og Sigríður f. 1895. Barn Jóns með Halldóru Jónsdóttur, Torfhildur 1900.
Síðari kona Jóns var Vilborg Ásgrímsdóttir, þeim var engra barna auðið.
Jón var maður stór og áberandi á mannamótum, þykkur undir hönd, herðabreiður og áberandi kraftalegur og teinréttur fram á síðustu ár. Nokkuð stórskorinn, en ekki ófríður. Tillitið gat verið hýrt og glettnislegt. Ekki dró úr svipmótinu miklar og loðnar augabrúnir og mjög þétt og stundum mikið alskegg, sem orðið var alhvítt er leið á ævina. Jón þótti mikill afkastamaður við vinnu, eftirsóttur vegghleðslumaður og í því betra skapi, sem steinarnir voru stærri, sem til hleðslunnar voru notaðir.
Jón fékkst allmikið við smíðar og vel hagur bæði á tré og járn, en ekki þótti hann nostra mikið við smíðagripi, en leggja meira uppúr að hlutir væru traustir og afköstin góð. Smiðja hans var betur búin að tækjum en almennt gerðist t.d. stórt skrúfstykki og stór og þungur steðji, sem fékk mörg og þung högg, því oft kom það fyrir ef slá þurfti efnismikið járn að slaghamrinum var hent út í horn en sleggjan þrifin í staðinn og fékk þá járnið og steðjinn ómjúkar aðréttingar, því ekki var það á allra færi að einhenda sleggju Jóns. Vel undi Jón sér í smiðjunni og kvað þá stundum rímur og var þá ekki vafi á er í hlað var komið, hvar Jón væri að finna, því röddin var sterk og undirspilið ósvikin hamarshögg, sem endurómuðu frá hinum efnismikla steðja Jóns.
Ekki hef ég getað fengið fulla vissu fyrir því, hvenær Jón tók við formennsku á áttæringnum „Svan“ af Finnboga Einarssyni, föðurbróður sínum. Svan var haldið úti í Reynishöfn, vestan við Reynisfjall. Formennsku á Svan hætti hann fljótlega eftir 1930.
Það mátti segja að Svanur væri ættarskip. Einar Jóhannsson, hreppstjóri, lét upphaflega smíða hann og var sjálfur formaður þar til Finnbogi sonur hans tók við, þegar svo Jón hætti, tók sonarsonur Finnboga, Finnbogi Einarsson, við formennsku. Nú hafa þeir Svanur og stjórnendur hans lokið sínum hlutverkum að afla saðningar margra svangra maga og við tínum óðum tölunni, sem veltum vænum vertíðarþorski inn yfir borðstokk þessa happaskips.
Aldrei fór ég í fiskiróður á „Svan“ meðan Jón var með hann, því tvær fyrstu vertíðirnar sem ég reri úr Reynishöfn, reri ég á „Frið“ hjá Einari Brandssyni, síðan var ég fjórar vertíðir í Vestmannaeyjum. Fór svo aftur að vera heima vertíðina 1933 og reri þá á nokkuð stórum sexæringi, sem sonur Einars Brandssonar var með, en með honum hafði ég oft róið á vorin. Þá var Finnbogi orðinn formaður á Svan svo ég kynntist Jóni ekki sem fiskimanni, en mér var sagt að hann hafi verið kátur og léttur þegar vel aflaðist, en þolinmæði hefði verið mjög lítil að sitja lengi í tregfiski og svo var það þessar tvær vertíðir, sem ég reri á Frið. Alltaf var Jón lentur löngu á undan okkur ef reitingsdráttur var og alltaf mun hann hafa verið með lægri vertíðarhlut en Einar á Frið og mestur var sá munur að sögn kunnugra, ef tregfiski var mest af vertíðinni. Rólyndir menn sem með honum reru voru oft óánægðir með þetta háttalag Jóns einkum í góðu sjóveðri. Oftast hefði þá setan endað með því að Jón hætti að fá nokkurt bein sjálfur og þegar svo hafði gengið nokkra kippi að hann varð ekki var, þótt aðrir væru að slíta upp fisk og fisk, stóð hann upp úr formannssætinu, leit yfir skipið og fljótlega barst hin kröftuga rödd formanns til allra háseta, „Jæja piltar, hankið þið nú upp, ég hef enga þolinmæði að sitja yfir þessum fjanda“. En stundum „mig er farið að grútsyfja yfir þessu kögglakroppi.“
Þarna kom fram sú skapgerð Jóns að geta aldrei sætt sig við annað, en að það sem gera átti, væri unnið í áhlaupavinnu, hvort sem hann sjálfur eða aðrir áttu í hlut og verkinu lokið á sem skemmstum tíma, en þegar það var búið, kunni hann vel að meta það að slappa af og annaðhvort að ræða við menn eða líta í blað eða bók.
Þótt Jón hætti fiskiformennsku hélt hann áfram formennsku á uppskipunarskipinu „Pétursey“ eign Valdimars Halldórs Jónssonar í Vík og hélt hann því áfram, þar til sjóflutningar á vörum að og frá Vík lögðust af 1940, samkvæmt frásögn Jóns Halldórssonar, bónda og kaupmanns í Suður Vík. Í grein er hann reit í tímaritið „Goðastein“ kom síðasta skipið, sem flutti vörur að og frá Vík, haustið 1940, var það vélbáturinn Hilmir VE.
„Þorgeir goði“ úr Vestmannaeyjum, sem síðast kom að sækja kjöt til Víkur 1938, hefur margar kjöttunnur flutt þaðan og oft voru þeir Sighvatur (Bjarnason) og Jón Gíslason búnir að ræðast við yfir borðstokka skipa sinna, meðan tunnurnar voru hífðar uppúr Péturseynni.
Þegar ég byrjaði að vinna við upp- og út-skipun í Vík, varð stutt í það að Jón bæði mig að koma til sín á Péturseyna. Ég mun þá hafa verið 17 ára og þóttist víst fær í flestan sjó. Eftir það var ég oftast hjá Jóni og kynntist þá formennsku hans og það verð ég að segja að ég dáðist oft að karlmennsku hans og hversu skjótur hann var að átta sig á aðstæðum, ásamt lagni hans við það að fá háseta sína til að leggja sig fram, ef átöku þurfti við. Jón var þá kominn af léttasta skeiði. Þegar sæmilega gekk, var hann léttur í skapi og sagði þá marga skemmtilega setninguna, en ef eitthvað fór úrskeiðis fyrir handvöm eða gáleysi, var það ekki vani hans að skamma menn, en sendi þeim er honum þótti hafa af sér brotið, frekar neyðarlegt skeyti, sem gátu orðið hinum hásetunum hlátursefni. Aldrei var Jón kátari, en ef vondur sjór var, en allt gekk að óskum. Hann var ábyggilega mikill kjarkmaður, en all aðgætinn ef honum þótti sjór athugaverður, en í öllu góðu þótti hann nokkur dröslari og eiga til að bleyta vöru í uppskipun, frekar en ástæður gæfu tilefni til. En það er aftur á móti spurning hvort þá hafi ætíð verið tekið með í reikninginn, hversu ágjöful Pétursey var, þegar hún var orðin mikið hlaðin.
Nú er Pétursey orðin einhver dýrmætasti safngripur okkar í Byggðasafninu í Skógum, sem er sameign Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Gefin þangað af Jóni Halldórssyni í fyllilega sjófæru ástandi, meira að segja fylgdu árarnar og bera sumar þess vitni að oft hefur verið búið að taka þær föstum tökum.
Þrjú áhersluorð notaði Jón Gíslason mikið, þau hljóðuðu svo „Alveghreint laxmaður“ og „Handónýtt“. Gárungarnir töldu að tvö þau fyrri hefði hann átt til að nota þó kvenmaður ætti í hlut. En hvað um það, Jón var alveg hreint ágætur.
Einar á Reyni
Einar Brandsson, fæddur í Reynishjálegu 18.3.1858, dáinn á Reyni 24.2.1933. Faðir Brandur Einarsson, bóndi og koparsmiður, Reynishjálegu Eiríkssonar Ólafssonar, Jónssonar Ytri Ásum. Móðir, Kristín Einarsdóttir. Foreldrar hennar, Einar Jóhannsson, hreppstjóri Þórisholti og Ragnhildur Jónsdóttir, kona hans. Einar var Eyfellingur að uppruna.
Kona Einars Brandssonar var Sigríður Brynjólfsdóttir, Guðmundssonar, bónda á Litlu Heiði. Kona Brynjólfs var Þorgerður Jónsdóttir, ljósmóðir.
Einar og Sigríður byrjuðu búskap í Reynisdal, en fluttu fljótlega að Norður Reyni og þegar Suður Reynir losnaði, sameinaði Einar jarðirnar og hefur Reynirinn verið einbýlisjörð síðan. Einar og Sigríður eignuðust 4 syni og 3 dætur, sem allt varð hið mannvænlegasta myndarfólk.
Einar Brandsson var góðlega meðalmaður á hæð, frekar grannholda, eftir að ég man eftir honum. Léttur í spori og gat verið snöggur í hreyfingum, virtist þó hæglátur og rólyndur. Þótti jafnvel vera seinlátur. Dagfarsgóður í umgengni og gat verið mjög skemmtilegur í viðræðum. Félagshyggjumaður og starfaði allmikið í félagsmálum sveitar sinnar ásamt ýmsum trúnaðarstörfum, sem honum voru falin. Hann var alltíður gestur á heimili foreldra minna og þótti þá jafnan auðfúsugestur. Faðir minn og hann þurftu oft drjúgt að ræða um félagsmál og stjórnmál, en þar voru þeir vel sammála. því báðir voru mjög áhugasamir framsóknarmenn, sem töldu „Íhaldsflokkinn“, sem þá bar enn sitt rétta nafn, vera dragbít á allar félagslegar framfarir.
Á yngri árum hafði Einar þótt afburða góður göngumaður og í fjallamennsku þótti lítt vera hægt að gera upp á milli þeirra frænda, Eldeyjar-Hjalta og hans og mikið afrek þótti það, er Einar kleif uppá „Háabæli“ í Reynisdröngum. Hann var, sem best er vitað, fyrsti maður er þangað sótti björg í bú, bæði egg og langvíu. Oft fór hann einnig með háfinn sinn til fýlaveiða í Reynisfjall að vetrinum til. Sú veiði var mikið stunduð í Reynishverfi allt fram undir 1930. Eftir bestu heimildum virtist fýlaveiði í háf, hafa hafist í Vík og Reynishverfi nálægt 1860, en lundaveiði allmiklu fyrr.
Árið 1884, þegar Einar var að verða 26 ára, tók hann við formennsku á áttæringnum „Frið“, sem þá var stærsta vertíðarskipið, sem til var í Mýrdal. Skipið var smíðað af Sveini Einarssyni, bónda og hagleiksmanni, á Giljum. Jón Árnason, bóndi Suður Hvammi, lét smíða Frið undir sig og átti mestan hluta skipsins, en varð svo ekki formaður á honum nema eina vertíð, því um vorið flutti hann búferlum að Eyjarhóli, suðvestur undir Pétursey. Nokkuð af hlut sínum í Frið seldi hann um vorið og var Einar einn þeirra er hlut keyptu í skipinu, en um veturinn hafði hann róið hjá Jóni og fallið vel við hvoru tveggja. Sama mun hafa gilt um Jón, því fyrir áeggjan hans var Einar fenginn til formennsku á „Frið“, þó ýmsum þætti hann of ungur að taka við vertíðarskipi. Ekki virtist það hafa háð formennsku Einars þó aldurinn væri ekki hærri, því happasöm varð hans formannstíð og aldrei heyrði ég þess getið að eitthvað yrði að hjá áhöfn hans. Einar var þó síst slakari við sjósóknina, en aðrir formenn hér um slóðir og venjan mun hafa verið að hann lenti síðastur skipa í Reynishöfn. Hann þekkti orðið vel kosti skips síns og galla, því alllöng urðu þeirra samskipti eða um 46 vertíðir og formaður á því nema þá fyrstu.
Aflasælir reyndust þeir Einar og „Friður“, því fyrstu vertíð Friðs varð aflahlutur mestur á honum og ekki liggja fyrir heimildir um annað en að svo hafi verið meðan honum var róið til fiska. Svo enduðu samskipti Friðs og Einars, að báðir hættu sjósókn samtímis og orðaði Einar það svo sumarið eftir að hann hætti formennsku, er hann kom í heimsókn til foreldra minna og móðir mín (en þau voru systkinabörn) spurði hann hvort það væri rétt að hann væri hættur formennsku. „Ojá, við erum báðir orðnir gamlir og lúnir og eigum best heima á þurrlendinu“. Og það gekk fram, því einu sinni átti að róa Frið veturinn eftir, en þá fengu þeir „uppslátt“ og bullandi „kæfu“ og ekkert varð af róðri og aldrei var hann settur að sjó framar.
Það mun hafa verið svo að flestir sem urðu hásetar hjá Einari, báru jafnan hlýjan hug til hans og gagnkvæmt traust og hlýhugur hafi vaxið til þeirra eftir því sem samskipa vertíðum þeirra fjölgaði.
Faðir minn, Einar Þorsteinsson, reri um 20 vertíðir hjá nafna sínum og skrifaði hann oftast hjá sér hver vertíðarhluturinn hafi verið að fiskatölu, en því miður hafði vasabók sú sem það var skrifað í lent í slæmri geymslu, ég fann hana á botni í kofortshandraði og þá orðin svo fúin á þeirri hlið sem aflatölur voru, að lítt varð lesin og allra síst ártöl. Mesta fiskatala, sem læsileg var, reyndist vera 673 fiskar, svo margir fiskar hafa komið á land úr „Frið“ þá vertíð, þar sem áhöfn hans var undantekningalítið 17 til 19 menn. Það var talið alveg lágmark að tveir menn væru um hverja ári og formaður að auki, svo voru oftast l til 2 unglingar með sem hálfdrættingar, en þeir voru ekki taldir með fullri hásetatölu.
Þetta er lítil og fátækleg lýsing á ævi formanns, sem búinn er að halda um stjórnvöl á sama afla- og happaskipi í hálfan fimmta áratug, við hina brimasömu strönd Mýrdalsins, en á rösklega hálfri öld vill margt gleymast og lítt hægt að afla heimilda, en fá orð rétt sagnfræðilega, betri en mörg vafasöm. Læt því hér staðar numið.
Hilmir Högnason:
Brynjólfur bátasmiður
Hjá Binna má bæði finna
broslegt og hlægilegt.
Minna hann sýnist sinna,
því, sem er leiðinlegt.
Brynjólfur er í sjúkranuddi hjá Fanneyju og hittast þeir skáldbræður þar stundum og gerði Hilmir eftirfarandi í orðastað Brynjólfs:
Sem barn ég velti vöngum
vita þurfti flest.
Hjá Fanney ligg nú löngum
og líður einna best.