„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Um vélskólafræðslu í Eyjum“: Munur á milli breytinga
Karibjarna2 (spjall | framlög) Ekkert breytingarágrip |
Karibjarna2 (spjall | framlög) Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 1: | Lína 1: | ||
<big><center>'''Kristján Jóhannesson'''</center></big><br><br> | <big><center>'''[[Kristján Jóhannesson]]'''</center></big><br><br> | ||
<big><big><big><center>'''Um vélstjórafræðslu í Eyjum'''</center></big></big></big><br> | <big><big><big><center>'''Um vélstjórafræðslu í Eyjum'''</center></big></big></big><br> |
Útgáfa síðunnar 16. janúar 2017 kl. 16:47
Þegar ritstjóri blaðsins bað mig að skrifa um starfsemi Vélskólans í vetur sagði ég honum að það væri nú frekar lítið um að skrifa því að enginn nemandi væri í skólanum. Það tók hann töluverðan tíma að meðtaka þetta — sem von er. Þetta er frekar ömurleg staðreynd í mesta útgerðarbæ landsins. Að vísu voru fyrir áramót í skólanum fjórir nemendur, sem voru að læra fög sem þeir gátu tekið hér áður en þeir héldu til Reykjavíkur í þriðja stig Vélskólans þar.
Þar sem er ekki mikið um skólastarfið að segja í vetur ætla ég að skrifa um ýmis mál sem tengjast því beint og óbeint. Það má segja að eins og nú er komið málum í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum þá sé það svipað og við fiskveiðarnar, sem sagt kvóti. Það má ekki kenna nema ákveðið hámark kennslufjölda og það hámark er stöðugt verið að lækka, reyndar hafa komið fyrirskipanir um það frá menntamálaráðuneytinu. Við verðum samt að vona að okkar menn verði duglegir að berjast fyrir framhaldsskólamálum hér í Vestmannaeyjum.
En hversvegna koma ekki nemendur í Vélskólann í Vestmannaeyjum?
Í mörg ár hef ég og fleiri farið í níundu bekki Gagnfræðskólans til þess að kynna framhaldsnám hér í Vestmannaeyjum. Þetta hefur yfirleitt verið gert í apríl, þegar vænta má að flestir unglingar séu farnir að hugsa alvarlega um það hvað þeir eigi að taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að kynna vélstjóranámið og þess vegna ættu allir hér í Vestmannaeyjum að vita um skólann. Hér hefur skólinn líka starfað síðan 1968 og fyndist mér það einkennileg afsökun ef einhver segði mér það að hann hefði ætlað að fara í vélskóla, en ekki vitað að hann væri hér í Vestmannaeyjum.
Nei. Það eru einhverjar aðrar ástæður fyrir minnkandi aðsókn að Vélskólanum hér og annars staðar.
Um vorið 1981 voru útbúin auglýsingaspjöld um vélstjórnarnámskeið hér í Eyjum og send út um land og sérstök áhersla þó lögð á að kynna skólann fyrir Hornfirðingum og Austfirðingum, en það bar engan árangur.
Nú er verið að útbúa lítinn kynningarpésa og á að dreifa honum í vor.
Í fyrra, fyrir um það bil ári, var þeim, sem voru með undanþágu til vélstjórnar, skrifað bréf og upplýsingar um skólann fylgdu með. Alls voru send um 70 bréf, en lítil voru viðbrögðin.
Því hefur verið borið við að Vélskólinn sé orðinn of langur. Það tekur nú þrjá vetur að ljúka fyrsta og öðru stigi. Ég er sammála því að fyrsta stig ætti ekki að vera lengra en einn vetur. Það ætti að duga til þess að menn öðluðust rétt til þess að verða vélstjórar á minni bátunum. Ég vil taka það fram að nemendur útskrifast ekki út úr skólanum með full starfsréttindi. Til þess að öðlast full starfsréttindi þurfa menn að starfa sem undirvélstjórar ákveðinn tíma.
Þegar flókin kerfi, stýrikerfi og rafmagnssjálfvirknibúnaður og annað því líkt, eru komin um borð í skip, þá krefst það meiri menntunar og það tekur sinn tíma að læra. Það hlýtur líka að vera ódýrara fyrir útgerðina að menn fái að læra undirstöðuatriðin í skóla heldur en að þeir læri þau um borð í skipinu þar sem mistök geta kostað mikið. Útgerðarmenn ættu að gera meira af því að krefjast menntaðra starfskrafta. Menntunin er að vísu ekki lausn á öllu, en eykur verulega líkur fyrir því að menn verði hæfari til starfa.
Ég vil nota tækifærið hér til þess að mótmæla því sem fulltrúi L.Í.Ú. sagði í umræðuþætti um menntunarmál sjómanna í sjónvarpinu nú í marsmánuði. Ef það er nóg að hafa „smurolíu í æðum" og fara á hálfsmánaðar námskeið til þess að verða fullgildur vélstjóri þá hlýtur það að duga til þess að verða lögfræðingur að vera talinn réttsýnn og fara á jafnvel heilsmánaðar námskeið. Reyndar þarf ég ekki að vera að færa neinar sannanir fyrir því að það borgi sig að fara í skóla, það er löngu búið að því og almennt viðurkennt.
En getur maður orðið vélstjóri án þess að fara í skóla og læra til starfsins?
Já. Það er nefnilega hægt! Það er hægt að fá undanþágu til þess að vera vélstjóri, meira að segja án þess að hafa nokkur réttindi, og vélstjórafélagið mælir með þessu. Þó stendur í lögunum um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenskum skipum að það megi veita undanþágu ef menn hafi ekki nægjanleg vélstjórnarréttindi. Sem sagt menn verða að hafa að minnsta kosti fyrsta stigs réttindi til þess að undanþágan sé lögleg. Þegar svona er staðið að framkvæmd laganna þá er varla von til þess að menn fari að eyða bæði peningum og tíma í það að fara í skóla.
Í viðbót við þetta kemur að undanþágumenn fá sama kaup og þeir sem aflað hafa sér réttinda til starfsins. Ekki er mér heldur kunnugt um það að tryggingafélögin skipti sér neitt af þessu. Þó væri eðlilegt að það væri borgað hærra iðgjald af tryggingu eftir því sem áhættan er meiri.
Ég vil heldur ekki slíta menntunina úr sambandi við öryggismálin. Sérstaklega á það við um fyrirbyggjandi aðgerðir. Það hljóta að vera mun minni líkur fyrir því að óhapp hendi þann sem hefur Iært og veit hvernig hlutirnir eiga að vera.
Svo eru það launin. Þau verða að vera góð og verulega betri heldur en hjá þeim sem starfa í landi. Sjómenn á íslenskum fiskiskipum afla langmestra útflutningsverðmæta þjóðarinnar þrátt fyrir það að þeir séu ekki stór hluti þjóðarinnar að fjölda til.
Til þess að leysa hluta vandans hefur Vélskólinn í Reykjavík auglýst námskeið fyrir vélstjóra með undanþágu. Inntökuskilyrði eru 25 ára aldur og lágmarksskráningartími sem vélstjóri á skipi tvö ár.
Ekki hefur enn verið ákveðið að halda slíkt námskeið hér í Eyjum, en það væri vel mögulegt ef fjármagn fæst til þess.
Það getur verið erfitt, fjárhagslega, fyrir fjölskyldumenn að hætta vinnu og fara í skóla og finnst mér að það ætti að aðstoða þá við það, t.d. með því að þeir þurfi ekki að borga skatta og útsvar á meðan námið er stundað. Einnig hefur verið rætt um það að undanþágusjóður Vélstjórafélagsins létti undir með þeim sem fara í skólann.
Í von um að þessi mál leysist á farsælan hátt sendi ég sjómönnum bestu kveðjur.
Kristján Jóhannesson.