„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Hrognkelsi“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: <big><big>Texti Kristján Egilsson - Myndskreyting Logi Jes Kristjánsson</big></big><br> '''Hrognkelsi'''<br> Það er ekki langt í komu vorsins, þegar hrognkelsisgöngurnar ...) |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 33: | Lína 33: | ||
Í fyrstu eru nokkrir tugir seiða á stjái, en allt í einu eins og hendi veifað, eru þúsundir glærra lífvera um allt kerið, ýmist syndandi eða sjúgandi sig föst á föður sinn, veggi og gler. Þegar þau sitja á gleri kersins, má sjá hjartað slá í þessum litlu 5 mm vel þroskuðu lífverum.<br> | Í fyrstu eru nokkrir tugir seiða á stjái, en allt í einu eins og hendi veifað, eru þúsundir glærra lífvera um allt kerið, ýmist syndandi eða sjúgandi sig föst á föður sinn, veggi og gler. Þegar þau sitja á gleri kersins, má sjá hjartað slá í þessum litlu 5 mm vel þroskuðu lífverum.<br> | ||
{{Sjómannadagsblað | {{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} |
Útgáfa síðunnar 2. september 2015 kl. 10:39
Texti Kristján Egilsson - Myndskreyting Logi Jes Kristjánsson
Hrognkelsi
Það er ekki langt í komu vorsins, þegar hrognkelsisgöngurnar hver eftir aðra fara að nálgast landið til hrygningar. Merkingar hér við land á vegum Hafrannsóknarstofnunar Íslands, sýna að þau halda tryggð við sömu uppeldis- og hrygningarstöðvar og koma ár eftir ár á þá staði til að hrygna, þar sem þau ólust upp.
Hrognkelsi eru klunnalegir fiskar, alsettir smá beinkörtum og þykja mörgum fremur ófrýnilegir.
Kviðuggarnir hafa ummyndast í sogskálar, sem þau nota til að halda sér föstum á steinum og öðru undirlagi. Þarf töluvert til að losa þau af steinum, er jafnvel hægt að lyfta hrognkelsi upp með áföstum 30 kg. þungum steini, án þess að þau sleppi.
Ytri einkenni kynjana eru mikil. Hrygnan, grásleppan, getur orðið allt að 60 cm að lengd. Er hún mun stærri en hængurinn-rauðmaginn, sem er 25-40 cm langur. Annar áberandi kynjamunur er liturinn, einkum um hrygningartímann. Grásleppan heldur sínum dökkgráa lit, en rauðmaginn fær hinn rauða lit ástarinnar.
Hrognkelsin eiga sér marga óvini auk mannsins. Eru þau aðalfæða búrhvala og selir elta þau uppi og rífa þau í sig, eins skötur og hákarlar. Sést hefur til máfa bíta í bakuggann á þeim og stýra á land upp til átu.
Í Fiska- og Náttúrugripasafni Vestmannaeyja, hafa auk ýmissa lindýra og krabba, margar fisktegundir hrygnt. T.d. þorskur, loðna, hlýri, blágóma, steinbítur o.fl.
Á hverju vori færa sjómenn safninu lifandi rauðmaga og grásleppu. Gefst þá einstakt tækifæri til að fylgjast með hrygningu, atferli og tilhugalífi hrognkelsisins. Barátta rauðmaganna um hylli grásleppunnar minnir á margt í fari manna.
Ef tveir rauðmagar eru í sama keri hjá einni hrognafullri grásleppu slást þeir um athygli hennar og helga sér stað í botni kersins, helst þar sem grýtt er, og með ýmsum tilburðum reyna þeir að fá hrygnuna til að velja stað til að hrygna í. Þeir ýta og stanga í síðu hrygnunnar og reyna að króa hana af, gengur svo langt stundum að hængurinn sýgur sig fastan á bak hrygnunnar með sogflögunum og stýrir henni með valdi inn á yfirráðasvæði sitt. Meðan á þessu brölti rauðmaganna stendur og þeir verða blóðrauðir af ást, heldur grásleppan ró sinni, þó svo að þessi hamagangur taki nokkra daga.
Enda er hún orðin þung á sér og langt á veg komin með hrognin, og lítur út eins og útblásinn bolti. Skamman tíma fyrir got stækkar gotraufin og er hún hnefastór og blóðlita. Nokkrum klukkustundum fyrir hrygningu velur grásleppan sér maka, ef hægt er að tala um að velja, fremur en að láta undan þrýstingi. Því að rauðmaginn sem frekastur er og aðgangsharðastur, verður fyrir valinu, og þiggur hún hans hreiður, sem er aðeins smá steinahrúga, og hverki betri né verri en aðrir staðir sem í boði eru til að hrygna í.
Þegar hrygnan er komin í "hreiðrið", lætur rauðmaginn vel að henni, strýkur með kvið og eyruggunum eftir bakinu á henni, og með smá hléum þrýstir hann hausnum ofan á hausinn á grásleppunni og um rauðmagann fer sæluhrollur, svo þau titra bæði í nokkrar sek. Þegar dregur enn nær hrygningunni, verður grásleppan óróleg, og snýr sér sitt á hvað og öðru hvoru tekur hún sig upp og syndir frá hreiðrinu, en rauðmaginn fer á eftir henni og lokkar hana til baka með því að synda með hausinn niður við botn og sýnir hrygnunni undir kviðinn á sér.
Það tekur hrygnuna örfá andartök að losa sig við hrognin. Þau skjótast út í einni gusu af miklum krafti. Hrognin límast saman í einn kökk, jafnharðan og þeim er gotið.
Örskömmu áður en hún hrygnir bíður rauðmaginn spenntur skammt frá, og um leið og hún hefur lokið sér af, hverfur hún af svæðinu og kemur ekki meira við sögu að sinni. Þá fyrst kemur til kasta rauðmagans. Með miklum bægslagangi þrýstir hann hrognunum á milli steina með hausnum og mjólkurlitað ský af svili leggst yfir hrognakökkinn. Jafnframt gerir rauðmaginn nokkrar dældir og göt í hrognamassann, svo súrefni geti leikið um öll eggin. Tekur það rauðmagann 5-10 mín. að ganga frá hrognunum.
Eggin eru 2,5 mm að stærð, 80-150 þús., gul eða ljósrauð á lit. Fjöldinn fer eftir stærð hrygnunnar. Rauðmaginn ber mikla umhyggju fyrir hrognunum, vaktar þau dag og nótt og sér um að þeim berist nægilegt súrefni. Eykur strauminn að hrognakekkinum með því að tifa eyruggunum og einnig púar hann, dregur sjó öfugt í gegnum tálknin og blæs á hrognin. Ef óboðinn gestur nálgast „búið", er hann tafarlaust rekinn frá. Grásleppan sem hann var svo ástfanginn og upptekinn af, fær engu betri móttökur ef hún reynir að nálgast hrognin sín.
Hængurinn sem slóst um hylli hrygnunnar, ber óttablandna virðingu fyrir sigurvegaranum og er fljótur að flýja ef hann snýr sér að honum. En hann fær annað tækifæri, þegar grásleppan hrygnir í annað sinn, oftast 10-15 dögum eftir fyrra got, en þá hrygnir hún mun færri hrognum, þó getur hann ekki verið alveg öruggur um að sitja einn að frjóvgun eggjanna, þó svo að hrygnan velji nú hans stað til að hrygna í.
Rauðmaginn, sem nú er yfir hrognunum frá fyrra goti, gefur sér tíma frá gæslunni til að fylgjast með úr fjarlægð þegar grásleppan hrygnir aftur, og tekur ófeiminn þátt í frjóvgun hrognanna með hinum rauðmaganum og saman festa þeir hrognin á milli steina og losa báðir út svil yfir hrognakökkinn. Að því loknu fer hann aftur til síns heima, til að sinna sínum hrognum.
Ef hrygnan hefur ekki völ á öðrum hæng en þeim sem er yfir hrognunum út öðru goti, þá hrygnir hún þegar hennar tími er kominn, við hliðina á hrognamassanum sem fyrir er. Hefur þannig sami hængur í Fiskasafninu frjóvgað og gætt hrogna frá þremur hrygnum, sem hrygndu hver á eftir annarri, og tók gæslan 114 daga og nætur án hvíldar og matar.
Ef öll afkvæmi hans hefðu lifað og náð kynþroskaaldri, 5-6 ára, hefðu þau orðið, mælt í tonnum, um 900 tonn af hrognkelsi. En því er ekki til að dreifa, þar sem talið er að í náttúrulegu umhverfi við bestu skilyrði lifi aðeins örfá seiði úr hverju klaki.
Hingað til hafa mestu erfiðleikarnir við að halda lífi í og ala upp seiði sjávarfiska í tilbúnum kerjum verið fóðrun fyrst eftir klak. Þá nærast þau á lifandi örverum í sjónum og þurfa því að hafa náð nokkrum þroska til þess að geta étið tilbúið fóður. Í safninu í Vestmannaeyjum hefur tekist að halda seiðum á lífi í þrjú ár frá klaki.
Klak hrognkelsanna í fiskasafninu, hefur tekið frá 15 dögum og allt upp í 55 daga, en algengast er að það taki um 36 daga. Allan þennan tíma hefur rauðmaginn verið svo upptekinn við gæslu-og uppeldisstörfin, að hann gefur sér ekki tíma til að matast og verður að lokum grár og gugginn.
Á miðju klaktímabilinu, eru hrognin, sem áður voru ljós á lit, orðin dökkgrá, og þegar betur er að gáð, stafar þessi litabreyting af tugþúsundum smá augna, sem horfa á þig í gegnum eggjahimnuna.
Rauðmaginn finnur á sér, þegar stóra stundin nálgast og fyrstu seiðin koma út úr eggjunum. Rétt áður er eins og rauðmaginn tvíeflist. Hann "púar" og blakar af meiri krafti en nokkru sinni fyrr og linnir ekki látum fyrr en hrognakökkurinn leysist í sundur og seiðin eitt af öðru synda úr eggjunum. Sum seiðin virðast kraftmeiri en önnur. Þau sprengja utan af sér himnuna á örskammri stundu, en önnur seiði hafa meira fyrir þessu og getur tekið allt að hálftíma að komast út úr egginu.
Í fyrstu eru nokkrir tugir seiða á stjái, en allt í einu eins og hendi veifað, eru þúsundir glærra lífvera um allt kerið, ýmist syndandi eða sjúgandi sig föst á föður sinn, veggi og gler. Þegar þau sitja á gleri kersins, má sjá hjartað slá í þessum litlu 5 mm vel þroskuðu lífverum.