„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Hálfrar aldar atvinnurekstur í Vestmannaeyjum“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 1: | Lína 1: | ||
Hálfrar aldar atvinnurekstur í Vestmannaeyjum | <big><big>Hálfrar aldar atvinnurekstur í Vestmannaeyjum</big></big> | ||
Hinn 20. nóvember s. 1. haust hélt [[Einar Sigurðsson]] útgerðarmaður og frystihúsaeigandi upp á 50 ára atvinnurekstur sinn, en Einar hóf verzlunarrekstur í Vestmannaeyjum 20. nóvember 1924 í gömlu brauðsölubúðinni Boston, sem lengi stóð á horni Njarðarstígs og Formannabrautar. Hann var þá átján ára gamall.<br> | Hinn 20. nóvember s. 1. haust hélt [[Einar Sigurðsson]] útgerðarmaður og frystihúsaeigandi upp á 50 ára atvinnurekstur sinn, en Einar hóf verzlunarrekstur í Vestmannaeyjum 20. nóvember 1924 í gömlu brauðsölubúðinni Boston, sem lengi stóð á horni Njarðarstígs og Formannabrautar. Hann var þá átján ára gamall.<br> |
Útgáfa síðunnar 25. ágúst 2015 kl. 14:43
Hálfrar aldar atvinnurekstur í Vestmannaeyjum
Hinn 20. nóvember s. 1. haust hélt Einar Sigurðsson útgerðarmaður og frystihúsaeigandi upp á 50 ára atvinnurekstur sinn, en Einar hóf verzlunarrekstur í Vestmannaeyjum 20. nóvember 1924 í gömlu brauðsölubúðinni Boston, sem lengi stóð á horni Njarðarstígs og Formannabrautar. Hann var þá átján ára gamall.
Einar Sigurðsson er sem kunnugt er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur og hefur verið einn af svipmestu atvinnurekendum landsins undanfarna þrjá áratugi. Hann er fæddur að Heiði 7. febrúar 1906 og voru foreldrar hans hjónin Guðríður Jónsdóttir og Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, framámaður sinnar tíðar í Vestmannaeyjum. Mikill sjómaður og einn af upphafsmönnum vélbátaútgerðar í Eyjum, framfarasinni og vel ritfær.
Einar Sigurðsson hefur ekki aðeins verið umsvifamikill atvinnurekandi í fæðingarbæ sínum heldur hefur hann haslað sér víðar völl, því að maðurinn er stórhuga og ætlar sér stundum ekki af.
Um tíma rak hann auk fyrirtækja og útgerðar í Vestmannaeyjum útgerð og fiskvinnslu á Flateyri, Gerðum. Keflavík og Reykjavík. Í Reykjavík rekur Einar enn stórt frystihús og togara.
Það hefur oft gustað um Einar og hefur maður svo stór í sniðum sem hann er, að sjálfsögðu sína kosti og galla eins og aðrir. En hann hefur með framúrskarandi dugnaði sínum, hugmyndaflugi og óvenjulegri framkvæmdaþrá markað spor í atvinnusögu Íslendinga á þessari öld, sem vert er að minnast í fæðingarbæ hans, þar sem hann hefur alla tíð haft umfangsmestan atvinnurekstur og útgerð á sínum vegum.
Einar Sigurðsson er í senn framkvæmda- og viðskiptajöfur, hugmyndasmiður, rithöfundur og skáld, sem lætur hugann reika með hugsjónaeldi og reisir sér hallir framtíðar. Mörgu hefur hann í verk komið af hugmyndum sínum og lengi ritstýrði hann vikublaðinu Víði í Vestmannaeyjum með fylgiritinu Gamalt og nýtt, auk þess ritaði hann lengi í Morgunblaðið þættina „Úr verinu" og sagði meistara Þórbergi fyrir þriggja binda ævisögu sína.
Einar Sigurðsson hefur verið nefndur hinn ríki og hefur staðið með sóma undir þeirri nafngift, þó að til annars væri ætlast í fyrstu af þeim sem gáfu.
Ásamt Gustavsson, forstjóra Sænska frystihússins um 1930 er Einar Sigurðsson brautryðjandi í hraðfrystingu sjávarafurða hér á landi fyrir erlendan markað og árið 1942 frumkvöðull að stofnun S.H. sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. En þessi sölusamtök frystihúsa á Íslandi eru nú eitt meginaflið í fiskiðnaði Íslendinga hér heima og í harðri samkeppni á mörkuðum erlendis.
Í sambandi við þetta er fróðlegt að rifja upp þætti í sögu hraðfrystiiðnaðar í Vestmannaeyjum, sem nú er allsráðandi í verkun aflans og hefur svo verið síðustu 30 árin.
Hinn 23. febrúar 1937 er á vegum Einars gerð tilraun með hraðfrystingu á fiski í Vestmannaeyjum, var það pækilfrysting. Nokkru síðar eða hinn 6. marz 1937 voru fyrstu pakkarnir með fiskflökum hraðfrystir í Vestmannaeyjum. Tilraunir þessar fóru fram í Vöruhúsinu. Vorið 1939 var byrjað að flaka og frysta fisk þarna í stórum stíl á sama hátt og gert er í dag, nema vélflökun var að sjálfsögðu ekki komin til sögunnar. Flökunarsalurinn var í syðsta hluta af pakkhúsi Vöruhússins, sem var áfast við frystihúsið, en klefarnir, sem tóku 50 smálestir af frosnum fiski og 40 smálestir af ísfiski, voru kældar með Sabroe-kælivélum, er Einar keypti 1932 og 1934. Voru þetta kolsýrufrystivélar.
Í árslok 1939 keypti Einar Garðs- og Godthåbseignirnar, sem höfðu að mestu verið í reiðileysi og staðið auðar á dýrmætasta athafnasvæði Eyanna frá því Gísli J. Johnsen hrökklaðist frá Eyjum um 1930, til stórtjóns fyrir byggðarlagið.
Hófst Einar þegar handa með sínu alkunna kappi og ákafa að koma þarna upp frystihúsi, byggja og móta Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Þetta gekk svo vel, að vetrarvertíðina 1940 unnu hjá fyrirtækinu um 100 manns karlar og konur. Einar gekk frá afsali á eignunum daginn fyrir Þorláksmessu, 22. desember 1939, en 10. febrúar 1940 voru vélar Hraðfrystistöðvarinnar settar í gang; 14. febrúar hófst flökun og frysting. Afköst frystihússins voru um það bil 50 smálestir af fiski á sólarhring, og um 20 bátar voru í viðskiptum við fyrirtækið. Þarna var svo hraðfrysting og önnur fiskverkun allt fram til eldgossins, en 27. marz 1973 brann Hraðfrystistöðin til kaldra kola og fór að nokkru undir hraun, sem síðar var hreinsað burtu.
Rekstur Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja var á þessum árum um margt á undan öðrum fyrirtækjum á þeirri tíð. Á fyrsta ári fyrirtækisins, árið 1940, starfaði á vegum þess matstofa, samkomustaður og finnsk baðstofa, einnig var gerður handboltavöllur á lóð fyrirtækisins og gróðursett tré. Þá rak fyrirtækið kvöldskóla, þar sem kennd var íslenzka og erlend tungumál og Íslandssaga og næstu 10 árin átti fyrirtækið 3000 binda bókasafn, sem var undir umsjá Haraldar Guðnasonar bókavarðar. Sérstakur fimleikaflokkur starfsmanna æfði reglulega leikfimi.
Á þessum tíma var þetta bylting á kjörum og aðbúnaði verkafólks, sem fram til þessa hafði víðast hvar verið lélegur og til skammar.
Starfsfólkið fór í skemmtiferðir upp á fastalandið á kostnað fyrirtækisins og á góðviðrisdögum var gefið vinnuhlé og farið inn í Herjólfsdal eða undir Löngu í sólbað og sund. Innri höfnin var þá svo til hrein og ómenguð og alltaf á góðviðrisdögum var fjöldi bæjarbúa undir Löngu. Einnig fengu starfsmenn fyrirtækisins hálfsmánaðar sumarfrí á fullu kaupi.
Því miður lagðist margt af þessum ágætu og sjálfsögðu þáttum í sambandi atvinnurekanda og verkafólks af. En hér var um að ræða velferðarstarf, sem víða um lönd og nú í vaxandi mæli hér á landi er hlúð að af mætti og nefnist á Norðurlöndunum „Velfærd" eða velferð. Einar getur þess í ævisögu sinni að hann líti á fyrstu árin í rekstri Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja sem ánægjulegasta tímabil í löngum atvinnurekstri, svo að segja má, að þetta gefi báðum aðilum talsvert í aðra hönd.
Grunur minn er hins vegar sá, að enn í dag eigi íslenzk fyrirtæki langt í land með að rækja þessa hluti eins og skyldi - einnig Einar Sigurðsson. En í ævisögu sinni kemst hann svo að orði um þetta:
„Og eftir því sem viðfangsefnin urðu fleiri, leyfði minna af starfskröftum mínum handa hverju einstöku. Þannig fækkaði þeim stundum, sem ég hafði aflögu handa Hraðfrystistöðinni í Eyjum, og þetta bitnaði meðal annars á hinum sósíölu umbótum sem ég var að burðast við að láta verkafólkinu í té. Það er ekki heldur loku fyrir það skorið að ég hafi spillzt í þessum efnum við að komast í kynni við pólitíkina og þröng eiginhagsmunasjónarmið í röðum atvinnurekenda."
Í sínum fjölþætta atvinnurekstri hefur Einar Sigurðsson ávallt haft mikla ánægju af að fást við útgerð. Hann hóf útgerð árið 1939; en árið 1934 var honum harðbannað að kaupa 42ja tonna sænskan bát til Vestmannaeyja. Gott dæmi um skammsýnina oft á tíðum. Endurtók sig þetta í útgerðarrekstri Einars, er hann keypti aflaskipið Sigurð. Mér sem þessar línur ritar er minnisstæð skammsýnin og svartnættisrausið í blöðum og fjölmiðlum í Reykjavík árið 1961 um þetta glæsilega skip. Ég var þá nýkominn heim eftir langa dvöl erlendis og hreifst af þessu myndarlega skipi. Ég skildi alls ekki menn, sem þá býsnuðust yfir útgerð og eyðslu hennar í veiðarfæri, olíur o.s.frv. og sögðu að eina bjargráð Íslendinga væri að snúa sér að ferðamönnum. Menn með þessa hugsun hafa ávallt verið háværir á Íslandi, en alltaf jafn óskiljanlegir venjulegu fólki.
Fyrsti bátur Einars var Sæbjörg VE 244, 12 tonna bátur. Árið 1940 keypti Einar fleiri báta og skírði þá alla goða-nöfnuum. Báta þessa seldi hann svo skömmu eftir stríðið, árið 1947. Síðan hefur Einar átt fjölda báta, sem hafa verið þekkt aflaskip undanförnum árum undir stjórn afburðaskipstjóra og aflamanna. Má hér nefna Akurey, Engey, Hannes lóðs, Kára, Kóp, Jón Stefánsson o.fl.
Stuttu eftir 1970 endurnýjaði Einar alveg bátaflota sinn og lét smíða fjölda glæsilegra fiskiskipa í Slippstöðinni á Akureyri.
Einar lét smíða flesta þessa báta í félagi við unga og dugmikla skipstjóra í Vestmannaeyjum. Auk bátanna á Einar tvo stóra togara annar þeirra er Sigurður, sem mörg undanfarin ár hefur verið aflasælasti togari Íslendinga undir skipstjórn Arinbjörns Sigurðssonar. Fyrir loðnuvertíðina 1974 var togaranum breytt í nótaveiðiskip. Þótti þetta djarft fyrirtæki og hlaut nýbreytnin eins og oft áður misjafna dóma, en á loðnuvertíðinni 1975 varð Sigurður aflahæsta skip flotans með 14.353 tonn, undir skipstjórn Kristbjörns Arnasonar.
Í apríl 1974 kom nýr skuttogari Einars, Enget RE 1 til landsins. Þetta er myndarlegt skip, 725 rúmtonn að stærð. Í tilefni þessara tímamóta í atvinnusögu Einars Sigurðssonar, sem hefur komið mikið við sögu útgerðar og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum s.l. 45 ár, birtir Sjómannadagsblað Vestmannaeyja gamlar og nýjar myndir af nokkrum skipa hans um dagana. Við sendum Einari Sigurðssyni og fjölskyldu, meðeigendum Einars, starfsmönnum fyrirtækja hans og áhöfnum skipa, beztu kveðjur og árnaðaróskir með ósk um, að þau haldi áfram, hér eftir sem hingað til, að flytja þjóðinni auð, og breyta gulli sjávar í enn verðmætari framleiðsluvöru fyrir erlenda markaði.