„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Aflakóngur á vetrarvertíð 1977“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 22: | Lína 22: | ||
Sjómannadagsblaðið óskar þeim öllum á Þórunni Sveinsdóttur til hamingju með vertíðina, þó aflabrögð yrðu með rýrara móti. Þess væri óskandi, að ráðamenn þjóðarinnar bæru gæfu til að gera skynsamlegar ráðstafanir til verndunar fiskstofnunum við strendur landsins, og að öðru leyti að hlutast til um viðunandi kjör til handa sjómannastéttinni, a. m. k. miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins, svo að menn, eins og til dæmis Matthías Sveinsson, tolli við þetta eitthvað ennþá.<br> | Sjómannadagsblaðið óskar þeim öllum á Þórunni Sveinsdóttur til hamingju með vertíðina, þó aflabrögð yrðu með rýrara móti. Þess væri óskandi, að ráðamenn þjóðarinnar bæru gæfu til að gera skynsamlegar ráðstafanir til verndunar fiskstofnunum við strendur landsins, og að öðru leyti að hlutast til um viðunandi kjör til handa sjómannastéttinni, a. m. k. miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins, svo að menn, eins og til dæmis Matthías Sveinsson, tolli við þetta eitthvað ennþá.<br> | ||
[[Mynd:Screen Shot 2017-06-27 at 10.58.55.png|500px|thumb|Skipshöfnin á Þórunni Sveinsdóttur: Fremri röð frá vinstri: Birgir Sæmundsson, Þorlákshöfn, háseti; Böðvar Sverrisson, Eyrarbakka matsveinn; Sigurjón Óskarsson, skipstjóri; Sævar Sveinsson, stýrimaður; Matthías Sveinsson, vélstjóri. — Aftari röð frá vinstri: Hugi Magnússon, Hvammi V-Eyjafjöllum, háseti; Einar Ragnarsson, Núpi V-Eyjafjöllum, háseti; Páll V. Einarsson, Ysta-Skála, V-Eyjafjöllum, háseti; Óskar Óskarsson, Álftahóli, A-Landeyjum, 2. vélstjóri; Ólafur Kristinsson, Dísukoti, Þykkvabæ, háseti.]] | [[Mynd:Screen Shot 2017-06-27 at 10.58.55.png|500px|center|thumb|Skipshöfnin á Þórunni Sveinsdóttur: Fremri röð frá vinstri: Birgir Sæmundsson, Þorlákshöfn, háseti; Böðvar Sverrisson, Eyrarbakka matsveinn; Sigurjón Óskarsson, skipstjóri; Sævar Sveinsson, stýrimaður; Matthías Sveinsson, vélstjóri. — Aftari röð frá vinstri: Hugi Magnússon, Hvammi V-Eyjafjöllum, háseti; Einar Ragnarsson, Núpi V-Eyjafjöllum, háseti; Páll V. Einarsson, Ysta-Skála, V-Eyjafjöllum, háseti; Óskar Óskarsson, Álftahóli, A-Landeyjum, 2. vélstjóri; Ólafur Kristinsson, Dísukoti, Þykkvabæ, háseti.]] | ||
{{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} | {{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} |
Núverandi breyting frá og með 27. júní 2017 kl. 11:25
Aflakóngur á vetrarvertíð 1977
Aflahæsta skip á hinni hefðbundnu vetrarvertíð í Vestmannaeyjum 1977 varð Þórunn Sveinsdóttir VE 401. Skipstjórinn á Þórunni, nú sem fyrr, Sigurjón Óskarsson, hlýtur því enn einu sinni til varðveislu víkingaskipið, sem afkomendur Hannesar lóðs gáfu á sínum tíma til verðlaunaveitingar á sjómannadegi ár hvert, fyrir þetta afrek.
Vegna þess hve oft Sigurjón Óskarsson hefur áður verið kynntur í Sjómannadagsblaðinu, og ekki síður til áminningar um að skipstjóri rær ekki einn – slær engin aflamet einn á skipi, snérum við okkur að þessu sinni til vélstjórans, Matthíasar Sveinssonar, Illugagötu 37 hér í bæ, og báðum um smáviðtal til birtingar. Það var auðsótt mál:
Æi ég veit það ekki. Ég fylgist ekki svo með því. Síðast þegar ég vissi vorum við búnir að fá eitthvað milli 670 og 680 tonn, en eitthvað bættist við eftir það. Þetta er nú fjórða vertíðin sem við erum aflahæstir á Þórunni — við vorum það líka vertíðirnar 1973, 1975 og 1976. Og þetta er í fimmta sinn, sem ég lendi í að vera á hæsta vertíðarbátnum. Eina vertíðina, sem ég var á Leó með Óskari, urðum við hæstir, og þá á Leó með Óskari, urðum við hæstir, og þá fengum við líka Ingólfsstöngina fyrir árið á undan. Nei, þetta er ekkert nýnæmi fyrir mér, en alltaf er samt gaman, þegar gengur svona vel.
Ég held að við höfum fyrst landað fiski núna 24. janúar. Við tókum svo netin upp 3. maí, og erum nú (15. maí) búnir að fara einu sinni út með trollið. Við vorum með þetta 12 og 13 trossur og yfirleitt alltaf austurfrá með netin, — í vesturkantinum á Síðugrunninu aðallega og svo við Skaftárósana. Reyndar vorum við í vikutíma í febrúar að reyna hérna heima, vestan við Surtinn og víðar, en það var ekkert að hafa.
Það mætti segja mér að það hafi verið töluverður fiskur í sjónum þarna austurfrá í vetur. Hann gaf sig bara svo sjaldan og illa til, — það hefur sjálfsagt gert þessi sífellda landátt. Þessi netavertíð einkennist af einmunagóðri tíð og aflaleysi.
Ég var nú ekki gamall, þegar ég byrjaði að róa — fyrst á skaki á gamla Tanga-Ingólfi með Sigurði Ólafssyni. Svo fór ég á mótornámskeið 1959, þá 15 ára. Ég fékk svo II. mótoristapláss strax á vertíðinni 1960 hjá Rikka í Ási á Erlingi IV. Boggi í Hvammi var I. mótoristi.
Svo ætlaði ég nú eiginlega á stýrimannaskóla seinna. En sjónin er ekki góð, svo það var ekki um að tala.
Framanaf var maður nú svona á ýmsum stöðum í vél. Það má segja að maður hafi fest ráð sitt 1966. Varð þá I. vélstjóri á Leó, og er þar stöðugt þar til um áramótin 1970—1971, að Þórunn Sveinsdóttir fór á flot hjá Stálvík. Síðan hef ég verið þar.
Og svona til að segja eitthvað meira má geta þess, að ég fór út til Noregs í desember 1963 — rétt þegar Surturinn var byrjaður að gjósa, og siglt með Norðmönnum í eitt ár. Við fórum út tveir félagar saman, mest af stráksskap. Ég var allan tímann á sama skipinu, 8 þús. tonna flutningaskipi. Það var gott að vera með Norðmönnum. Ég kunni vel við þá.
Jú, jú, mér hefur dottið í hug að fara í útgerð. Ég þori bara ekki í útgerð með hverjum sem er. Svo hef ég alltaf haft það gott á Þórunni. Kann vel við Sigurjón frænda minn. Ætli ég fari nokkuð að breyta til á næstunni, nema maður verði þá rekinn.
Matthías Sveinsson er Vestmannaeyingur í húð og hár; sonur Sveins Matthíassonar sjómanns og útgerðarmanns frá Byggðarenda og konu hans Maríu Pétursdóttur, sem ættuð er frá Norðfirði. Hann er kvæntur Kristjönu Björnsdóttur Kristjánssonar vélstjóra, og eiga þau einn son, Svein, 11 ára.
Þegar ég var á heimleið eftir að hafa hitt Matthías að máli, leit ég við hjá Sigurjóni skipstjóra, til að spyrjast fyrir um það, sem Matthías vissi ekki, þ. e. endanlega aflamagnið á vertíðinni (það var 691 tonn), þá sagði Sigurjón: -- Komstu niðrí mótorhús hjá honum Matta? — Nei, ég fór heim til hans. — Þú ættir að líta niðrí mótorhúsið, þú gætir lagt þig þar í smóking án þess að skíta þig út. Samt er hann alla daga við vinnu úti á dekki með öðrum.
Sjómannadagsblaðið óskar þeim öllum á Þórunni Sveinsdóttur til hamingju með vertíðina, þó aflabrögð yrðu með rýrara móti. Þess væri óskandi, að ráðamenn þjóðarinnar bæru gæfu til að gera skynsamlegar ráðstafanir til verndunar fiskstofnunum við strendur landsins, og að öðru leyti að hlutast til um viðunandi kjör til handa sjómannastéttinni, a. m. k. miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins, svo að menn, eins og til dæmis Matthías Sveinsson, tolli við þetta eitthvað ennþá.