„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Söluferð til Japans“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
 
(1 millibreyting ekki sýnd frá sama notandanum)
Lína 1: Lína 1:
<br>
<big><center>[[Magnús Kristinsson]]</center></big>>
<big><center>[[Magnús Kristinsson]]</center></big>>


<big><big><center>SÖLUFERÐ TIL JAPANS</center></big></big>
<big><big><center>SÖLUFERÐ TIL JAPANS</center></big></big>


Fisksölumál hafa tekið miklum breytingum í tímans rás. Sérstaklega hefur síðasti áratugur verið tími mikilla breytinga í þessum efnum. Ekki er langt síðan allir bátar voru í föstum viðskiptum við ákveðið frystihús sem tók allan afla, hvaða nafni sem hann nefndist. Jafnframt hefur alltaf tíðkast að senda skipin í siglingar á erlenda markaði, t.d. til Bremerhaven eða Hull.<br>
Fisksölumál hafa tekið miklum breytingum í tímans rás. Sérstaklega hefur síðasti áratugur verið tími mikilla breytinga í þessum efnum. Ekki er langt síðan allir bátar voru í föstum viðskiptum við ákveðið frystihús sem tók allan afla, hvaða nafni sem hann nefndist. Jafnframt hefur alltaf tíðkast að senda skipin í siglingar á erlenda markaði, t.d. til Bremerhaven eða Hull.<br>

Núverandi breyting frá og með 19. apríl 2017 kl. 10:48

Magnús Kristinsson

>

SÖLUFERÐ TIL JAPANS

Fisksölumál hafa tekið miklum breytingum í tímans rás. Sérstaklega hefur síðasti áratugur verið tími mikilla breytinga í þessum efnum. Ekki er langt síðan allir bátar voru í föstum viðskiptum við ákveðið frystihús sem tók allan afla, hvaða nafni sem hann nefndist. Jafnframt hefur alltaf tíðkast að senda skipin í siglingar á erlenda markaði, t.d. til Bremerhaven eða Hull.
Upp úr 1984 varð mikil breyting í þessum málum er okkur stóð allt í einu til boða að senda ferskan fisk með gámum á erlenda markaði. Með tilkomu gámanna varð sprenging í verðlagningu á ferskum fiski þar sem erlendu markaðirnir voru tilbúnir að greiða mjög hátt verð fyrir þennan fisk. Styrkti þessi útflutningur útgerðina verulega og opnaði ýmsa möguleika í framhaldi af því.
Árið 1985 varð enn ein breytingin á útgerðarháttum er fyrstu íslensku frystitogararnir komu. Frystiskipin vinna allan aflann um borð og er þá allur afli, sem í veiðarfærið kemur, frystur. Fljótlega eftir að fyrstu frystitogararnir komu var ákveðið að breyta Vestmannaey VE úr ísfisktogara í frystiskip. Var hafist handa við þær breytingar árið 1986 og lauk breytingunni árið 1988.
Að skipta úr útgerð ísfisktogara yfir í frystitogara kallaði á breytingu á sölu aflans. Ekki var lengur lagt upp í stöð eða sent í gámum á markaði eins og áður heldur fór frystur aflinn til ákveðinna kaupenda úti í heimi. Bein viðskipti við aðila víðs vegar um heim kalla á góð samskipti milli seljenda og kaupenda og því er algengt að seljendur heimsæki kaupendur á nokkurra ára fresti.
Í þessari grein ætla ég að segja frá einni slíkri söluferð sem ég fór ásamt fleirum til Japans á síðasta ári.

Margt spilar inn í hvert fiskurinn er seldur.
Eins og áður segir þá er allur afli frystur um borð í frystitogurum. Þegar veiðarfærið kemur inn fyrir tekur skipstjórinn ákvörðun um á hvaða markaði aflinn skal fara og er hann þá unninn og pakkaður í samræmi við það. Karfi fer í allflestum tilfellum hausskorinn á Japan en þorskur og ýsa fara ýmist til Bandaríkjanna eða Englands. Það er margt sem spilar inn í ákvörðun um fyrir hvaða markað á að vinna aflann. Til dæmis hefur magnið sem veiðist og ástand fisksins mikil áhrif. Þá er einnig tekið talsvert tillit til gengisskráningar.
Allur afli á Bandaríkjamarkað er flakaður, roðrifinn og beinskorinn, roðlaus-beinlaus eins og það er yfirleitt kallað. Aftur á móti er fiskurinn sem fer til Englands yfirleitt með roði og beinum. Er vinna við aflann fyrir Englandsmarkað þar af leiðandi minni en t.d. fyrir Bandaríkjamarkað. Allur flakafiskur er flokkaður í flakastærðir. Karfi sem fer á Japan er fyrst flokkaður eftir lit, það er „rauður“ eða „oranges,“ en síðan er karfinn flokkaður í fjóra flokka: smár, millistór, stór eða extra-stór.

Ferðalög til að vinna markaði.
Það fylgir því að vinna á erlenda markaði að heimsækja kaupendur á nokkurra ára fresti. Það er nauðsynlegt fyrir seljendur að vera í góðu sambandi við kaupendurna, skynja óskir þeirra og þarfir. Þess vegna er farið í heimsóknir til þeirra. Oftast eru ákveðnir kaupendur í hverju landi sem kaupa aflann af ákveðnum skipum. Hver erlendur kaupandi hefur nokkur skip í viðskiptum og gerir hann miklar kröfur um gæði vörunnar sem hann kaupir. Þess vegna fer allur fiskur í gegnum mikið gæðaeftirlit um borð áður en honum er pakkað í öskjur, enda getur farið svo að erlendi kaupandinn hafni vörunni ef gæði hennar eru ekki í samræmi við þær kröfur sem hann setur upp.
Í mars 1996 fórum ég og Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, að heimsækja umboðsmenn okkar og kaupendur í Japan. Með okkur í ferð var einnig innlendi umboðsmaðurinn okkar, Jónas Hallgrímsson, sonur Hallgríms Jónasonar útgerðarmanns á Snæfugli SU frá Reyðarfirði, en hann selur allt fyrir okkur á Japan. Jónas rekur fyrirtækið Nes hf. í Reykjavík, en hann bjó í Japan í sex ár þar sem hann lærði veiðarfæraverkfræði og er þar af leiðandi altalandi á japönsku. Það kom vel í ljós í þessari ferð að það er alveg stórkostlegt að vera með manni sem talar málið en fáir Japanar tala ensku. Eftir að Jónas fluttist til Íslands hefur hann farið að meðaltali tvisvar á ári til Japans vegna starfa sinna við fisksöluna.

12 ½ tíma flug til Japans.
Ferðin til Japans hófst 23. mars 1996, en þann dag komu Jónas og Birgir til London, en ég hafði farið tveim dögum fyrr þar sem ég þurfti að hitta enskan kaupanda og eiga fund með umboðsmanni mínum í Englandi. Við höfðum ákveðið að hittast á flugvellinum í London og þangað kom ég með neðanjarðarlestinni um klukkan 5 í eftirmiðdaginn. Þar fann ég væntanlega ferðafélaga mína, þá Birgi og Jónas eftir smá leit.
Flugfélagið, sem við flugum með til Japans, heitir All Nippon Air, skammstafað ANA. Þegar við ætluðum að sækja flugmiða okkar lentum við í smá vandræðum. Miðarnir áttu að liggja tilbúnir hjá afgreiðslu ANA en fundust ekki þar. Afgreiðslumaðurinn hjá ANA var mjög almennilegur því þegar það kom í ljós að miðana vantaði, en við vorum bókaðir, tók hann strax frá sæti fyrir okkur við neyðarútgang svo við hefðum gott pláss. Endirinn varð sá eftir talsvert vesen að það voru gefnir út nýir miðar fyrir okkur þannig að við komumst út í vél rétt áður en henni var lokað.
Við héldum í loftið, áleiðis til Japans, kl. 19.30 með Boeing B-747, 310 sæta breiðþotu. Þegar í loftið var komið breyttum við klukkunni strax yfir á japanskan tíma, en 9 tíma munur er milli Englands og Japans. Eftir tímabreytinguna var klukkan fimm að morgni 24. mars. Í vélinni, sem við flugum með, er myndavél í trjónunni þannig að við gátum fylgst með flugtaki og lendingu á skjá. Jafnframt voru á leiðinni sýndar bíómyndir á stóru tjaldi en myndasýningin var alltaf stöðvuð annað veifið til að sýna feril vélarinnar, þ.e. leiðina sem við flugum. flughæðina, flughraðann og ýmsar aðrar upplýsingar.
Flogið var til Ósaka sem var fyrsti áfangastaður okkar í ferðinni. Ósaka er borg sem liggur 400 kílómetrum fyrir sunnan höfuðborgina Tókýó. Á leiðinni fengum við nóg að bíta og brenna, þar á meðal tvær heitar máltíðir. Klukkan 17.30, eftir 12 ½ tíma flug, lentum við loks á flugvellinum í Ósaka en flugvöllurinn þar er á uppfyllingu sem gerð er út í sjó og er mikið mannvirki sem tók mörg ár að byggja.

Í baðhús í Ósaka.
Umboðsfyrirtæki okkar í Japan heitir K&T og tók annar aðaleigandi fyrirtækisins, Takahashi, á móti okkur í Ósaka. Eftir að menn höfðu kynnt sig formlega bókuðum við okkur inn á Hótel Nikkon. Þegar við höfðum komið okkur fyrir á hótelinu fórum við í japanskt baðhús, en það er forn hefð í Japan að fara í baðhús. Við vorum allir dauðþreyttir og sveittir eftir langt og erfitt ferðalag og veitti ekki af að komast í bað. Baðhúsið, sem við fórum í, er eitt hið þekktasta í Japan. Byrjað var í sauna. Síðan var farið í nuddpotta, þá í hvíldarherbergi og svo í bað, rakstur, nudd og hárgreiðslu. Að þessu öllu loknu var síðan borðað Sushi sem er japanskur réttur með hráan fisk sem aðaluppistöðu. Var þessi baðhúsferð alveg meiriháttar upplifun fyrir okkur.
Við fórum að sofa um klukkan eitt um nóttina en klukkan sex um morguninn var farið á fætur og haldið á fiskmarkaðinn í Ósaka. Þar hittum við forstjóra markaðarins og einn stóran karfa- og grálúðukaupanda, en hann átti von á einum gámi frá okkur eftir viku. Hjá þeim drukkum við te og síðan var okkur boðið í japanskan morgunmat í mötuneytinu. Morgunmaturinn var talsvert framandi fyrir okkur en hann samanstóð t.d. af ýmsum fisktegundum, þara, tærri súpu og hrísgrjónum. Á fiskmarkaðinum kenndi ýmissa grasa því þar mátti sjá ótal gerðir af fiski og sjávargróðri. Þarna á markaðnum sá maður vel hvað þeir leggja mikið upp úr útliti vörunnar.
Eftir að hafa skoðað markaðinn fórum við í litla vinnslu þar sem var verið að vinna grálúðu frá Vestmannaey. Hún var skorin í 120 gramma bita og pökkuð.

Í Sendai seldist einn gámur út á kvöldverðinn.
Að lokinni skoðunarferð okkar í grálúðuvinnsluna var farið á hótelið og náð í farangurinn því að næsti áfangastaður okkar var borgin Sendai sem liggur 200 kílómetrum norðan Tókýó. Til Sendai var flogið frá flugvelli sem er rétt hjá Kóbe þar sem mikill jarðskjálfti varð fyrir tveimur árum, en ekki frá þeim velli sem við lentum á er við komum til Japans. Flogið var með nýrri Boeing 767 frá JAL, Japan's Airline. Flugið til Sendai tók um eina og hálfa klukkustund og var lent þar klukkan 14.30.
Í Sendai hittum við nokkra kaupendur og einn mann frá stórri verksmiðju sem heitir Minami Food Ltd. Með þeim og tveimur öðrum var haldinn stuttur fundur um fiskneyslu og fleira en því næst var farið á hótelið sem var stórt heilsu-sveita-hótel.
Við fengum allir eitt herbergi og sváfum á gólfinu að japönskum sið. Eftir gott japanskt bað var farið í kvöldverð ásamt fjórum Japönum. Einn nýr maður var kynntur fyrir okkur í kvöldverðinum og var hann svo ánægður með kvöldið að er við komum til Tókýó fréttum við að hann hefði pantað einn gám af karfa frá „b-h brand“ sem er merkið á þeim fiski sem unninn er í Vestmannaey. Hann þakkaði fyrir gott kvöld með því að kaupa fisk frá okkur.
Morguninn eftir var farið af stað klukkan sjö. Byrjað var að skoða fiskverkun sem vinnur nánast eingöngu Kyrrahafsþorsk. Því næst var farið í frystigeymslu þar sem við fengum að sjá framleiðslu frá okkur og mörgum öðrum. Var fróðlegt að sjá hvernig varan lítur út mörgum mánuðum eftir að hún fór frá Íslandi. Næst var stórt fiskvinnsluhús, sem veltir um 12 milljörðum íslenskra króna á ári, skoðað. Þar voru um tuttugu vinnslulínur í gangi og alveg ótrúlegt að sjá 200 til 300 Japana á fullu, hvern í sínu verki. Þarna var ekki bara verið að vinna karfa og þorsk, heldur nánast allt sem úr sjónum kemur.

„Prjónapartý" í Tokyo.
Eftir að hafa skoðað fiskvinnsluhúsið var okkur keyrt á járnbrautastöð þaðan sem hraðlestin til Tókýó var tekin. Lestin er alveg stórkostlegt farartæki og ekur með 250 kílómetra hraða á klukkustund. Við vorum á fyrsta farrými sem er á efri hæð. Komum við til Tókýó seinnipartinn og fór Takahashi með okkur á lúxushótelið Hankyu þar sem við fengum herbergi á 37. hæð. Um klukkan 19 kom maður að nafni Kusa og náði í okkur. Við gengum með honum niður á skrifstofu hjá K&T. Þar hittum við forstjórann, Kurahara, og einn starfsmann þeirra, Suzuki. Með þessum mönnum fórum við í „prjónapartý“ en það orð höfðum við yfir það að fara út að borða í Japan.
Miðvikudagurinn rann upp og var hann frídagur frá K&T. Ég hafði óskað eftir að fá þennan dag fyrir okkur. Við byrjuðum á að heimsækja fyrirtækið Taito Seiko en þar hitti ég gamlan kunningja, Moriguchi. Hann var við smíðina á Vestmannaey í Japan 1972 og er alveg stórkostlegur náungi.
Hjá Taito Seiko vorum við kynntir fyrir yfirmönnum fyrirtækisins. Þar var allt skoðað og Bigga sýnt það nýjasta í veiðarfærum. Eftir að hafa farið í „hádegis-prjónapartý“ tókum við lest og heimsótum Niiagata-verksmiðjurnar en frá þeim er aðalvélin í Vestmannaey. Ég heimsótti þessa menn fyrir tíu árum og svo hef ég hitt þá er þeir hafa verið á ferðinni í Evrópu. Með þeim drukkum við te og þeir sýndu okkur nýjustu vélarnar sem þeir eru að framleiða. Um kvöldið fórum við í „prjónapartý“ og var eingöngu borðaður fiskur, ýmist hrár eða í einhverjum legi.

Fiskmarkaðurinn í Tokyo.
Að morgni næsta dags var farið eldsnemma á fætur, um klukkan fimm, og rölt niður á fiskmarkaðinn í Tókýó, en hann er einn sá stærsti í heimi. Þar fylgdumst við með uppboði á alls konar fiski og öðru sjávarfangi, allt frá túnfiski til þara.
Talið er að um 500 þúsund manns komi á markaðinn daglega enda var mikill hamagangur þarna. Mikið af allskonar sjávarfangi er selt á uppboðinu en um 1300 smáverslanir á svæðinu kaupa aflann og vinna síðan, hver á sinn hátt. Síðan selja þessar smáverslanir vöru sína í litlum básum á markaðnum um klukkan níu.
Frá fiskmarkaðinum var farið að heimsækja einn stóran grálúðukaupanda en það tók rúma tvo tíma að keyra til hans. Á leiðinni keyrðum við framhjá fjallinu Fudi. Gömul hjátrú segir að ef fjallið sjáist þá eigi maður eftir að koma aftur til Japans. Við sáum fjallið vel þannig að ef eitthvað er að marka þessa trú eigum við eftir að heimsækja Japan aftur.
Grálúðuverksmiðjan sem við heimsóttum er ein sú stærsta í Japan og vinnur um 20% af allri lúðu frá Íslandi. Jafnframt er unnið örlítið af laxi og karfa þarna. Þegar við komum í verksmiðjuna var verið að vinna lúðu frá Íslandi. Eftir skoðun í verksmiðjunni var okkur boðið í te og að smakka á grálúðu og þar sá maður hver munurinn er á grálúðu og horlúðu. Í hádegismat var okkur boðið upp á ál sem var mjög góður. Á leiðinni til Tókýó aftur kynntumst við hvernig umferðaröngþveitið getur orðið í Japan. Er við nálguðumst Tókýó var nær samfelld bílaruna, bíll við bíl eins langt og augað eygði. Ferðin til baka tók um fjóra tíma í stað tveggja tíma er við fórum frá Tókýó fyrr um daginn.

Fróðleg og árangursrík ferð.
Daginn eftir var farið snemma á fætur og keyrt í sjávarþorpið Ibakakiken sem er á austurströndinnni. Þar heimsóttum við tvö fyrirtæki sem vinna frosna loðnu. Gaman var að fylgjast með vinnslu loðnunnar en vinnsluferillinn er þannig að fyrst er hún þídd upp í saltvatni. Síðan er karlinn týndur frá og hrygnan síðan þrædd upp á prjóna og þurrkuð þannig í þurrkklefa. Eftir að búið er að þurrka loðnuna er hún stærðarflokkuð og síðan er henni pakkað. Það er mjög fróðlegt að koma í loðnuverksmiðjurnar og sjá alla handavinnuna sem fram fer við vinnsluna.
Um kvöldið var sest niður, farið yfir ferðina í heild og reynt að meta hvaða árangur hefði orðið af heimsókn okkar. Á þessari viku sem við dvöldumst í Japan skoðuðum við margar tegundir af verksmiðjum og sáum okkar eigin framleiðslu komna alla leið til Japans. Það voru allir mjög ánægðir með ferðina og við vorum sammála um að ferðin hafi bæði verið fróðleg fyrir okkur og árangursrík.
Daginn eftir borðuðum við saman hádegismat og fórum síðan í stórmarkað til að sjá hvernig fiskur í matarborði liti út. Eftir þetta kvöddum við félaga okkar, Japanana, sem höfðu fylgt okkur og höfðum eftirmiðdaginn fyrir okkur.
Daginn eftir héldum við frá Japan, heim á leið, eftir þessa fróðlegu og skemmtilegu heimsókn til andfætlinga okkar í Japan.
Magnús Kristinsson.