Sveinfríður Ágústa Guðmundsdóttir
Sveinfríður Ágústa Guðmundsdóttir fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 1. ágúst 1896. Hún var sett í fóstur fárra mánaða gömul til hjónanna í Hólakoti í Mýrasókn við norðanverðan Dýrafjörð og ólst þar upp til fullorðinsára.
Árið 1920 var tekið manntal og var hún þá skráð bústýra Gunnars Ingimundarsonar (sem var sonur Ingimundar Árnasonar í Götu) á Framnesvegi 39b í Reykjavík. Þau áttu þá tvær dætur óskírðar, sem síðar fengu nöfnin Sigurveig Munda (Veiga) og Jónína Eyja (Jóna).
Árið 1922 slitnaði upp úr sambandi þeirra Sveinfríðar og Gunnars og fór hún þá með dæturnar tvær og ófrísk að þeirri þriðju til Vestmannaeyja og settist að hjá Ingimundi og Pálínu, sambýliskonu hans. Fyrst var hún þó líklega á Vilborgarstöðum. Þar fæddist þriðja dóttir þeirra Gunnars, Einarína Pálína Valgerður (Palla).
Sveinfríður tók upp sambúð með Pálma Ingimundarsyni, hálfbróður Gunnars og bjuggu þau á Herjólfsgötu 12A (Götu). Þau eignuðust 5 börn, sem voru þessi:
1. Alda Særós 1924, (Alda, giftist til Bandaríkjanna)
2. Ólafur Bertel 1929, (Óli)
3. Eygló Bára 1931
4. Þórunn Kristín 1932, (Tóta)
5. Jóhanna Ragna 1935.
Sveinfríður og Pálína, tengdamóðir hennar, voru báðar í hópi þeirra þrjátíu og tveggja sem stofnuðu Aðventistasöfnuðinn í Vestmannaeyjum.
Sveinfríður og Pálmi fluttust til Reykjavíkur ásamt börnum sínum og Pálínu 1940 eða 1941. Þar bjuggu þau um hríð en fluttust svo til Grundarfjarðar og bjuggu þar þangað til Pálmi dó 1963. Síðustu ár sín bjó Sveinfríður í Reykjavík og lést 10. apríl 1979.