Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Skipavísur og bitavísur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Skipavísur og bitavísur)
Fara í flakk Fara í leit


Skipavísur og bitavísur.


Það var forn siður, að grafa vísur eða vísu á bitafjölina í skipum þeim, sem gengu til fiskveiða. Að jafnaði var efni vísunnar bæn til guðs um farsæld fyrir skip og skipshöfn til lands og sjávar. Fátt er nú orðið til af þessum vísum og munu þær hafa farið forgörðum með opnu skipunum. Vísur þessar voru, eins og gjörist og gengur, ærið misjafn kveðskapur. Séra Páll skáldi orti bitavísurnar í áttæringunum, Vestmannaey og Lukkureyni:

Vænti ég fleyið Vestmannaey að heiti,
vogar- skundi, er líður stund að -reiti,
eignar beimi
aflann teymi
upp úr geimi
og heilum heim að fleyti.
Höppum stýri á hnísu mýra flóði,
hættumein og slys ei nein ofbjóði
lægis hreini,
Lukkureyni,
guð, sá eini góði.

Séra Páll orti einnig bitavísurnar í julunum Skrauta og Gæfu og sexæringnum Pétursbáti:

Trúar búin trausti á Krist,
trássar afli kára,
Gæfa í sævarlánið list,
litla gimblan ára.
Drottins máttur, höndin há
happafengjum sjóa
auðgi Skrauta, og annist þá,
sem á honum kunna að róa.
Aflakjör í fiskaför
fyrðum vel svo láti,
kjósum fyrstan formann Krist
fyrir Pétursbáti.

Ókunnugt er, hver hefur ort bitavísurnar í eftirtalin skip:

Gideon.

Milding heiti menn, sem veiti
á mastra dýri,
lukku veiti á laxa mýri,
ljóssins anda kóngur stýri.

Enok.

Enok leiði áls um heiði
og auki gæðunum,
veginn greiði, grandi sneyði,
guð á hæðunum.

Mýrdælingur.

Ljúfi guð um landahring
leiði í miskunn sinni
menn og skipið Mýrdæling,
mein svo ekkert finni.

Friður.

Árblíðu fær Friður
för, gæfu kjör hreppi,
góðgjarni guð stjórni,
geim lægi, beim vægi,
mild höndin sæld sendi,
sið blessi, geð hressi,
lífs föður lof lýðir
láð virstu í náð Kristí.

Séra Jón Austmann orti bitavísuna í áttæringinn Langvinn:

Langvinnur þig lukkan styðji á laxa polli,
hann, sem býr á himna palli,
hallardrottinn, yfir þig stalli.