Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1971/ Frá fyrsta sjómannadeginum í Vestmannaeyjum í júní 1940

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Frá fyrsta sjómannadeginum í Vestmannaeyjum í júní 1940


Hinn 6. júní árið 1938 héldu sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði fyrst hátíðlegan sjómannadag á Íslandi. Tókust hátíðahöldin sérlega vel vegna almennrar þátttöku og myndarbrags, og nú er sjómannadagurinn fastur hátíðisdagur landsmanna.
Í Vestmannaeyjum var fyrst haldinn hátíðlegur sjómannadagur vorið 1940. Hér fer á eftir stutt frásögn Páls Schevings af undirbúningi við þennan fyrsta sjómannadag hér í Eyjum.
Þetta vor aflaðist vel í maí, og gæftir voru góðar. Nefndarmenn í sjómannadagsráði, sem margir hverjir voru sjómenn, áttu því óhægt um vik að vinna að störfum við undirbúning hátíðahaldsins. Það kom því að verulegu leyti í hlut okkar formanna félaganna, en formaður Verðanda var þá Árni Þórarinsson og formaður Jötuns Guðmundur Helgason, að annast allan nauðsynlegan undirbúning. Okkur kom saman um að leita til Ársæls Sveinssonar og fá hann til að vera framkvæmdastjóra hátíðarinnar, en Ársæll hafði þá ráð á Samkomuhúsinu. Tók Ársæll það að sér. Var ákveðið að hátíðahöldin skyldu fara hér fram á svipaðan hátt og þar sem sjómannadagurinn hafði verið haldinn hátíðlegur árið áður.
Þegar líða tók að sjómannadeginum, fóru að koma kröfur frá félagsmönnum um, að vínveitingar yrðu hafðar á hátíðinni hér eins og í Reykjavík. Varð úr, að það var samþykkt.
Þegar við komum svo á fund með Ársæli og tjáðum honum þessa ákvörðun, tók hann því mjög fjarri og sagðist ekki koma nálægt neinum vínveitingum. Var honum þá bent á, að við værum að framkvæma vilja félaganna. Þá svaraði Ársæll, að við gætum náttúrlega gert þetta, en hann mundi fá af því óþægindin og skömmina. Var hann þar sannspár eins og svo oft bæði fyrr og síðar, því að fyrir þetta var deilt á hann opinberlega í blöðum.
Þá var næst að fá nauðsynleg leyfi og panta vínið. Var það Guðmundur Helgason, sem hringdi í Áfengisverzlunina og bað um að fá að tala við forstjórann, sem þá var Guðbrandur Magnússon. Þeir sátu samhliða við borðið Guðmundur og Ársæll, og þegar Guðbrandur svarar í símann, þá lætur Guðmundur heyrnartólið að eyranu á Ársæli og segir: „Þú talar við Guðbrand, þú ert framkvæmdastjórinn.“ Það kom svolítið hik á Ársæl, en eftir að þeir höfðu heilsazt, en þeir Guðbrandur voru áður málkunnugir, segir Ársæll: „Já þér finnst nú víst skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar Ársæll er farinn að biðja um vín. Ég vil ekkert vín, en það eru aðrir, sem ráða.“ Ársæll lauk viðtalinu með því að fara fram á, að hann mætti endursenda allan afgang, sem yrði af víni.
Guðbrandur hélt sér mundi vera óhætt að lofa því; afgangurinn yrði ekki svo mikill. Varð það víst orð að sönnu, þó að allt færi vel fram. Guðbrandur kom svo hingað til Vestmannaeyja á sjómannadaginn 1940. Er mér það minnisstætt, að hann færði mér þakkar- og hvatningarorð fyrir ávarp það, sem ég flutti og sagði, að allir, sem gætu, ættu að leggja skólamáli vélstjóra lið.

Tveir „gamlir og góðir“ hjá Friðriki Jenssyni á Náttúrugripasafni Vestmannaeyja.
Á trolli. Ljósm.- A. Podolok - Engey s.l. sumar.

Guðbrandur var hér vel kunnugur, og Matthildur kona hans var hér fyrsta afgreiðslustúlka landsímans, sem héðan lá upp í Landeyjasand. Ég hitti Guðbrand á förnum vegi í Reykjavík nýlega. Minntumst við þá á þennan sjómannadag. Hann sagðist hafa víða farið bæði erlendis og hér um landið „en ég held mér sé óhætt að fullyrða, að ég hefi hvergi komið á stað, sem hefir upp á meiri fegurð að bjóða en Vestmannaeyjar.“ Ég þakkaði Guðbrandi og sagði, að svona orð yljuðu Eyjabúum. Guðbrandur hélt svo áfram og sagði, að Eyjabúar hefðu búið þá sögu til, að hann hefði trúlofazt konu sinni í gegnum símann (Guðbrandur var stöðvarstjóri í Hallgeirsey). „En það var tómur tilbúningur, ég var þá í Holti, en sagan var góð, hver sem hana bjó til.“ Þetta rabb við Guðbrand varð svo til þess, að ég fór að rifja upp ýmislegt af því, sem ég hefi sagt hér.
Páll Scbeving