Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2009/Ný Þórunn Sveinsdóttir í smíðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
HRAFN SÆVALDSSON SKRIFAR


Ný Þórunn Sveinsdóttir VE 401 í smíðum


Ós ehf. í Vestmannaeyjum, útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE 401, er að láta smíða fyrir sig glæsilegt nýtt togskip í Danmörku. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja ræddi við Sigurjón Óskarsson, útgerðarmann skipsins, um nýsmiðina.
Nýsmíðin er þriðja skipið sem útgerðin lætur byggja fyrir sig. En eigendur útgerðarinnar hófu rekstur hennar fyrir 38 árum, árið 1971. Þegar hinu nýja skipi verður skilað verða liðin nærri 40 ár frá því að útgerðin hófst. Skipið er 39,95 m. á lengd og 11,2 m. á breidd. Skipið getur því veitt upp að fjögurra mílna landhelgi Íslands. Skipið er hannað af Karstensens Skibsværft A/S og Skipasýn ehf. í Reykjavík. Guðmundur Guðlaugsson verður skipstjóri, ásamt Viðari og Gylfa Sigurjónssonum á hinu nýja skipi. Markús Björgvinsson verður yfirvélstjóri. Gert er ráð fyrir að 13 - 14 manns verði í áhöfn skipsins. Lest skipsins rúmar 410 kör, sem hvert er 460 lítrar. Áætlað er að skipið geti borið um 130 tonn af fiski.

Þórunn Sveinsdóttir nr. 2 í Faxasundi. Annað skipið smíðað hjá Slippstöðinni á Akureyri VE 12. Í rekstri útgerðarinnar í 16 ár frá 1992 - 2007.

Skipið verður mjög vel útbúið. Það getur dregið tvö troll á sama tíma. Sex grandaravindur verða um borð og því er hægt að hafa þrjú troll undirslegin í einu. Skipið er það fyrsta í heiminum sem er búið rafmagnstogvindum frá Rapp Hydema vinduframleiðandanum, en allur vindubúnaður í skipið kemur frá þeim framleiðanda. MAK, MaK8M20, aðalvél verður í skipinu. Skipið er útbúið vaktfríu vélarrúmi. Nýja skipið mun brenna svartolíu, en talið er að með því móti sé hægt að ná miklum sparnaði í rekstri. Búið er að kaupa allan búnað í skipið, utan siglingatækja, því verður lokið sumarið 2009.
Upphaflega var það ætlun útgerðarinnar að kaupa notað skip, en síðar þróuðust mál þannig að farið var út í að kanna kosti þess að smíða nýtt skip. Veturinn 2007 hófst hönnunarvinna á nýju skipi, auk þess sem kostnaður var kannaður. Það leiddi til þess að í apríl sama ár var skrifað undir smíðasamning við Karstensen Skibsværft A/S í Skagen í Danmörku. Skipið er nýsmíði stöðvarinnar nr. 409. Nýsmíðin fer þó ekki öll fram í Danmörku. Smíði skrokksins fer fram hjá Odys skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi. Þaðan verður skrokkurinn dreginn til Danmerkur, þar sem smíði skipsins verður lokið. Gert er ráð fyrir að skrokkurinn verði kominn til Skagen 20. ágúst 2009, þá munu Danirnir hefja sína vinnu. Danska skipasmíðastöðin hefur yfirumsjón með allri smíði skipsins.

Sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Löndun úr fyrstu Þórunni. F.v Ómar Sveinsson, Gylfi Sigurjónsson, Matthías Sveinsson, Sigurjón Óskarsson, skipstjóri og útgerðarmaður, Viðar Sigurjónsson, Sveinn Matthíasson og fyrir framan eru Þóra Sigurjónsdóttir og Björn Matthíasson. Fyrsta skipið var smíðað hjá Stálvík í Garðabæ árið 1971. Í rekstri útgerðarinnar í 22 ár, frá 1971 - 1992. Núverandi nafn er Arnarberg ÁR 150, gert út frá Þórlákshöfn. Skipið hefur m.a. verið lengt í tvígang auk þess sem byggt hefur verið yfir það.


Upphaflegar áætlanir sögðu til um að nýju skipi yrði skilað 20. september 2009, en þær áætlanir áttu eftir að breytast töluvert. Stærsti áhrifavaldur þess voru þær þrengingar sem gengu yfir heimsbyggöina, haustið 2008, oft nefnt bankakreppa. Fjármögnunaraðili nýsmíðinnar, Glitnir, var tekinn yfir af íslenska ríkinu. Útgerðin stöðvaði í kjölfarið smíði skipsins í tvo mánuði vegna þeirrar óvissu sem ríkti á Íslandi og hjá bankanum.
Fljótlega eftir ákvörðun var tekin um nýsmíði veturinn 2007, barst tilboð frá Ísfélagi Vestmannaeyja um að kaupa skip útgerðarinnar sem var í rekstri. Utgerðin tók tilboðinu, þar sem verðið þótti hagstætt, auk þess sem allri áhöfn skipsins var boðin vinna hjá Ísfélaginu. Skipið fékk nafnið Suðurey VE 12.

Teikning af nýja skipinu.


Ós ehf. er sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Báðir synir Sigurjóns, Viðar og Gylfi, byrjuðu ungir að vinna hjá útgerðinni og starfa enn, auk þess vinnur Þóra Hrönn, dóttir Sigurjóns, fyrir útgerðina. Barnabörn Sigurjóns og Sigurlaugar konu hans eru nú farin að vinna hjá útgerðinni. Matthías Sveinsson, frændi Sigurjóns og fyrrverandi vélstjóri á Þórunni, hefur starfað að framgangi nýsmíðinnar. Hann hefur starfað fyrir útgerðina og á öðrum bát í eigu fjölskyldunnar, Leó VE 400, í tæp 50 ár, eða um líkt leyti og Sigurjón hóf sinn sjómannsferil. Sonur Matthíasar, Sveinn, starfar í dag sem vélstjóri hjá útgerðinni. Ægir Sigurðsson, matsveinn á Þórunni hefur starfað á Þórunni og Leó í rúm 40 ár. Fjölmargir sjómenn eiga langan starfsaldur hjá útgerðinni. Sigurjón segir útgerðina hafa verið einstaklega heppna með skip og áhöfn alla sína tíð og fyrir það beri að þakka.

Hér má sjá ítarlega teikningu af nýja skipinu. Eins og sjá má verður það afar glæsilegt og vel útbúið tækjum og aðstaða áhafnarinnar verður glæsileg. Skrokkurinn er smíðaður í Gdansk í Póllandi en þaðan er hann svo dreginn til dönsku skipasmíðastöðvarinnar Karstensen skibsværft A/S í Skagen. Gert er ráð fyrir að skipið komi til heimahafnar í febrúar eða mars 2010.



Heimsókn um borð í Herjólf