Blik 1937, 1. tbl./Skólinn okkar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Blik 1937/Skólinn okkar)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937



SKÓLINN OKKAR


ÉG er nú búinn að stunda nám í gagnfræðaskólanum á annan vetur. Á þeim tíma, sem ég er búinn að vera í skólanun, hef ég lært mikið og einnig haft skemmtun af því.
Kennarar eru viðkunnanlegir og hjálpsamir nemöndum um allt það, er þeir hafa áhuga á. Um skólamenntun er oftast átt við bóklegt nám, en að stunda bóklegt nám og ekkert annað með því, gerir nemandann drungalegan. Við stundum því hollar íþróttir í sambandi við skólann, og fer mjög vel á því, og eru þær iðkaðar á milli kennslustundanna. Aðgerðarleysi unglinga er mikið hér á haustin, og þó eru margir drengir á aldrinum 14—15 ára, sem ekkert gera allan veturinn. Iðjuleysi æskunnar hefir í för með sér óreglusama og óhrausta kynslóð. Til þess nú að bæta úr þessu, hafa verið stofnaðir unglingaskólar víðsvegar um landið, til þess að unglingar eigi kost á að læra gott og gagnlegt, sem mun koma þeim að notum síðar í lífinu.
Á aldrinum 14—17 ára er unglingum hættast við að teymast út í ýmsan félagsskap, sem þeim er hættulegur. Þess vegna ættu foreldrar að hafa sem mest afskipti af uppeldi þeirra. Sækið því gagnfræðaskólann. Sá tími, sem þið stundið nám í honum, hefir ekki verið kastað á glæ.
Kennsla í skólanum er góð. Hún hefir líka sýnt það. Bæði drengir og stúlkur, sem stundað hafa nám í skólanum, hafa sótt upp í æðri skóla, og tekið inntökupróf með ágætiseinkunn, meðan nemendur úr öðrum samskonar skólum, sem eru þekktari, hafa fallið við slík próf. Það sannar okkur, að skólinn hér stendur ekki að baki öðrum samskonar skólum í landinu.

J.V. 2. b.