Blik 1937, 1. tbl./Fram til sigurs

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Blik 1937/Fram til sigurs)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937


FRAM TIL SIGURS


I.


ALLIR menn eiga sínar margvíslegu manndómsþrár. Æskudraumar unglingsins hafa þroskazt og glæðzt, hugsunin hefir hækkað, hugsjónir skapast, viljinn eflist og áhuginn fest varanlegri rætur. Þráin að sigra hlýtur snemma öndvegið hjá framsækna ungmenninu. Fyrir sigurþrána hafa menn barizt með orðum og verkum. Hún hefir orðið helgust allra takmarka í sókn og vörn.
Orsök þess að Ísland varð byggt á nokkrum árum af hinum glæstustu sonum Noregs, var einmitt frelsisþráin sem efalaust er drottning allra manndómsþráa. Þeir vildu ekki lúta harðstjórn einræðisins. Þeir yfirgáfu heldur land sitt og þjóð, eignir og mannaforráð og leituðu hins nýja lands, sem bauð þeim ný gæði; og helstu gæðin voru: landkostir góðir og frelsi.
Fornsögur vorar segja frá mörgum mönnum og konum, sem áttu hinar göfugustu manndómsþrár í hjörtum. En þær segja einnig frá öðrum, sem því miður áttu ekki þessa kosti til brunns að bera, heldur helguðu líf sitt lélegum og skaðlegum hvötum, og það eru einmitt þessir menn, sem eru réttnefndir „skuggar fortíðarinnar.“
Það voru þessar illu hvatir, sem urðu þess valdandi, að íslenska þjóðin missti sjálfstæði sitt árið 1262—1264. Metorðagirnd og ódrenglyndi voru þau öfl, sem þar voru að verki.
Síðan hófust hinar 5 myrku aldir, niðurlægingartímabil þjóðarinnar. Kynslóðirnar eru hnepptar í fjötra, og þær eru of magnþrota til að geta reist rönd við harðstjórn þeirri, sem hélt þeim í heljargreipum.
En að lokum fara nokkrir menn að vakna til nýrrar meðvitundar, frelsisþráin er að brjótast til valda og ný barátta frelsis og manndóms er hafin, þjóðin er vöknuð til vitundar um kall sitt.
Við minnumst öll með þakklæti og stolti þeirra mætu manna, sem helguðu líf sitt sjálfstæðisbaráttu þjóðar vorrar. Hin góðu öfl, sem þar voru að verki, eru „óskasteinar fortíðarinnar.“ Hugsjónin var hrein og voldug. Það var hugsjón sigursins, sem var að verki, sem nam nýtt land í hjörtum manna, sem barðist nýrri baráttu — og sigraði.


II.


Vér nútímamennirnir megum margt af fortíðinni læra. Vér getum gjört hið góða í fari forfeðra vorra að fyrirmynd, og vér getum einnig varast hið illa. En vér eigum einnig að nema hugsjónum vorum og þrám ný lönd í hjörtum okkar og annarra. Vér eigum að þroska okkar manndómsþrár og starfa í þeirra þágu. Vér eigum að gefa niðjum vorum, sem eiga að erfa landið, nýjar fyrirmyndir siðgæðis og sóma.
Vér æskumenn, sem nú stöndum við hálf opnar dyr hins komandi tíma, eigum að gera frelsið og frægðina, dáðirnar og drenglyndið að okkar hagsmuna- og áhugamálum.
Vér eigum að vera það þroskuð og það skynsöm að skilja þörf þessara nauðsynja.
Vér eigum að helga allt okkar líf, hvar sem erum vér og hvað sem störfum vér, heima á heimilum vorum, í skólum vorum, við verk vor, þeim manndómsþrám, sem eru okkur sjálfum, samtíð vorri og framtíð til góðs.
Þér fullorðna fólk, sem eigið að skila landinu í hendur okkar, barna ykkar, kappkostið að kenna okkur góða siði til munns og handa, því alveg eins og fortíðin átti skyldur við ykkur, þannig eigið þér engu að síður skyldur við framtíðina.
Allar stéttir á Íslandi verða að sameinast um merki manndómsins. Vér verðum að vinna afrek í þágu hans og forðast allt sundurlyndi í því sambandi. Deilur eru óþarfar og aðeins til hins verra, þegar slík þjóðarmál eru á dagskrá.
Vér verðum að stefna að því marki, að framtíðin verði fullkomnari en fortíðin var. Og það er á valdi hinnar íslensku æsku með samstarfi og aðstoð fullorðna fólksins, hvort því marki verður náð eða ekki.
Stefnum öll að því takmarki, að manndómurinn megi sigra, og það er trúa mín, að yfir hinni komandi framtíð Íslands muni ríkja heiðríkja frelsis og dáða.

H.S. 1. bekk.
____________________


Drengur: Ég fékk þrenn verðlaun í skólanum í vetur, sem leið. Ein fyrir framúrskarandi gott minni, en ég er nú búinn að gleyma, fyrir hvað ég fékk hin.