Blik 1937, 3. tbl./Á gægjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937


Á GÆGJUM.

Greinin í „Víði“ á dögunum um gagnfr.skólann hér vakti forvitni mína, svo að ég ásetti mér að njósna dálítið um skólalífið svona „innvortis“ og hefi því verið á gægjum þar, þótt lítið hafi á mér borið. Ég hefi þannig tínt saman nokkur frétta„spörð,“ sem mér hefir hugkvæmst að biðja „Blik“ fyrir.
Í skólanum starfa nú 60 nemendur. Það er fríður hópur. Og mörg er þar sálin bæði gáfuð og góð.
Nemendur hvö hafa með sér málfundafélag, til þess að búa sig undir væntanleg bæjarstjórnarstörf og hugsanlega þingmennsku o.s.frv.
Formaður er skáld skólans, Helgi frá Brimvíkurströnd. Hann er bæði langorður og hagorður, og hrærast nemendur ýmist til hláturs eða hryggðar undir ræðum hans. Með honum er í stjórninni Leifur nokkur, lítill drengur, þéttur á velli og þéttur í lund, stundvís og skyldurækinn og þessvegna hefir skólastjóri skipað hann bókavörð skólans. Þriðji stjórnandinn er Guðfinna, ég held Stefánsdóttir. Hún er þar fyrst og fremst fulltrúi yndisþokka og æsku. Einnig þótti ráðlegt að hafa í stjórninni eina námsmeyna, til þess að formaðurinn hafi frekar hóflegt orðbragð á stjórnarfundum.
Þá er nýstofnað í skólanum félag, sem kallast Menningarmálafélagið. Það hvö vera í senn bæði bindindis- íþrótta-fyrirlestra- góðrabókalestrar-og yfirleitt „Allehaande“ félag, eftir því sem Þ.E. skýrði frá á fundi þess 14. nóv., þegar kosið var í stjórn þess. Þá stóð ég á hleri; (hafið ekki hátt). Þ.Þ.V. kvaddi sér hljóðs: „Ég vil biðja ykkur, börn, (það er gæluyrði hans) að velja þá bestu starfskrafta, sem þið vitið meðal ykkar í stjórn þessa félags. Við kjósum þá fyrst formanninn. Tillögur!“ „Ólöf! Ólöf!“ gall við um allan sal. Ólöf var kosin formaður þessa margþætta félagsskapar einum rómi. Hver er þessi Ólöf? Hún hvö vera Árnesingur, komin af merku klerkakyni, enda er hún kyrlát og háttprúð í fasi eins og gömul og ráðsett prestsmaddama. — Þá voru það meðstjórnendurnir. „Magnea! Magnea!“ „Baldur! Baldur!“ Bæði kosin. Baldur hvö vera ritarinn, því að hann skrifar svo vel nafnið sitt, að það er með öllu ólæsilegt, eins og títt er með skriffinnum.
Í skólanum er Reykdal nokkur Skagfirðingur. Hann er kraftajötunn mikill, enda þrjár álnir danskar og þrjú kvartel um herðarnar, eins og Leitis-Bjarna Grettir. Hann iðkar líka mjög kúlukast. Eru vöðvar hans sem hnyklar og sinarnar sem stálstrengir. Hann hefir glímt við hvítabirni í Fljótum norður og sálgað tveim með lensu.
Þá er starfrækt taflfélag í skólanum. Formaður þess er nafni Rafns Sveinbjarnarsonar á Eyri, hins mæta manns, og afkomandi hans, og sannast þar að erfast mannkostir. Rafn er taflmaður mikill. Hann hugsar áður en hann talar og mega skólasystkini hans það af honum læra, ef þau kunna það eigi fyr.
Meira næst.

Snerrir Styrmisson.
                         ————————————————————
Ábyrg ritstjórn:
Stjórn Málfundafélags Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum.
Eyjaprentsmiðjan h.f.