Blik 1936, 1. tbl./Ferðasaga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Blik 1936/Ferðasaga)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1936



Ferðasaga


ÞÆR eru nú orðnar margar ferðirnar, sem Vestmannaeyingar hafa farið til Reykjavíkur til að keppa þar í knattspyrnu. Þetta var í fyrsta skiptið, sem III. flokkur var sendur til móts við Reykvíkinga, og vissulega fyrsta sannnefnda frægðarförin, sem K.V. hefir farið til Reykjavíkur. Við fórum héðan með „Primula“ 9. júli og fengum fremur vont veður. Morguninn 10. júlí fórum við snemma á fætur, því skyggni var gott, og vorum við á þilfari til að litast um, þangað til við komum til Reykjavíkur. Af hafnarbakkanum var okkur boðið til samdrykkju í K.R.-húsinu. Um daginn skoðuðum við Reykjavík og nágrennið. Meðan við dvöldum í Reykjavík, áttum við því láni að fagna að sjá hina ágætu þýzku knattspyrnumenn leika á móti Reykvíkingum. Kappleikir þessir voru okkur hin mesta skemmtun og lærðum við einnig mikið af þeim. Meðan við dvöldum í Reykjavík, skoðuðum við söfnin, Landsbóka-, Náttúrugripa- og Forngripasafnið, og einnig merkustu og stærstu byggingarnar. Á söfnunum sáum við mikið, svo sem gömul handrit, gamla markverða hluti o.m.fl. Merkasta ritið, sem við sáum, var Guðbrandsbiblía, sem kennd er við Guðbrand biskup Þorláksson.
Okkur furðaði á að sjá allt þetta og hinar stóru byggingar. Eins og fyrr er getið, ferðuðumst við mikið um nágrenni Reykjavíkur. Fyrsta skeimmtiferðin okkar var farin til Þingvalla, hins forna þingstaðar okkar Íslendinga. Á leiðinni þangað komum við við á Álafossi, og sáum þar klæðaverksmiðjuna, sundlaugarnar o.fl. Á meðan við dvöldum þar, var okkur boðið til kaffidrykkju, og síðan sýndi leikfimiflokkur stúlkna okkur leikfimi, sem fór þeim mjög vel úr hendi. Síðan fórum við í laugina og höfðum góða skemmtun af því sem öðru. Eftir að hafa dvalið um stund á Álafossi, lögðum við af stað til Þingvalla, og bar okkur þar margt, markvert fyrir auga, t.d. Almannagjá, Öxará, Peningagjá, og svo hið mikla og stærsta stöðuvatn Íslands, Þingvallavatn. Yfir Peningagjá liggur smá brú. Þegar við fórum yfir hana, skoðuðum við gjána, og sáum peningana í henni. Það merkilega um gjána er, hvað vatnið í henni er kalt, og dettur engum manni í hug að ná sér þar í peninga, þótt honum bráðliggi á þeim.
Á Þingvöllum var margt ferðafólk um þessar mundir, því veðrið var mjög gott, sólskin og blíða. Þar var okkur boðið til kaffidrykkju, og síðan lékum við okkur að ýmsum leikjum og skemmtum okkur vel. Eftir að við höfðum skoðað okkur um, lögðum við af stað til Reykjavíkur, og komum þangað að klukkutíma liðnum. Í Reykjavík vorum við á þönum að skoða bæinn, því tíminn var naumur.
Þann 16. júlí lögðum við af stað frá Reykjavík með e.s. Esju og komum hingað aftur þann 17. Þrátt fyrir góðar viðtökur og skemmtun í Reykjavík var okkur farið að leiðast, og vorum við mjög fegnir að sjá eyjuna okkar aftur.

Hermann Guðmundsson
(14 ára)