Blik 1936, 3. tbl./1. Desember
Nú í nokkur ár hafa nemendur gagnfræðaskólans hér haldið ársfagnað sinn 1. desember. Sá dagur er ekki valinn af handahófi. Að baki þess sögulega atburðar, sem átti sér stað 1. des. 1918, felst allt hið bezta og dýrmætasta, sem finnst í íslenzku gáfnafari, skapgerð og þjóðlífi.
Við glötuðum sjálfstæði okkar 1262.
Orsök þess sorglega atburðar voru íslenzkir skapgerðarbrestir. Eigingirnin og valdasýkin, heiftin og grimmdin samfara hroka annarsvegar og undirlægjuhætti hinsvegar, voru þeir skapbrestir forustumanna þjóðarinnar, sem skópu henni hin þungu örlög. Manngæzkan þokaði fyrir mannvonzkunni. Hið forsjála mannvit var ofurliði borið af heift og heimsku. Íslendingar misstu stjórn á sjálfum sér og glötuðu gæfu fjölmargra kynslóða.
Af þessari sögulegu staðreynd mættum við mikið læra.