Blik 1936, 3. tbl./Þjóðsagnir úr eyjum
EINHVERJU sinni var það fyrir löngu, að bóndinn, sem þá bjó á Eystri-Gjábakka í Vestmannaeyjum, bað vinnumann sinn, sem var búinn til kirkjugöngu á jóladaginn, að fara austur á Urðir og bjarga upp tré, sem rekið væri í Rekabás.
Vinnumaður tók illa undir þetta, og varð þeim bónda mjög sundurorða út af förinni. Þó lauk viðureign þeirra, fyrir harðfylgi bónda, á þá lund, að vinnumaður hafði fataskipti og fór á rekann, en annað heimilisfólk fór til Landakirkju að hlýða messu.
Vinnumaður drukknaði þarna í básnum, er hann var að eiga við tréð, og gekk hann aftur, eins og títt var um menn, sem létust með heiftarhug til einhvers. Þegar kirkjufólkið kom aftur heim frá messu, sá það vinnumann á bæjardyrabitanum, þar sem hann skemmti sér við að flá kött. Af afturgöngu þessari urðu svo mikil brögð að reimleikum á Eystri-Gjábakka, að bóndi flúði af bænum með skyldulið sitt, því að honum var þar ekki við vært. Eftir það var þar ekki búið um nokkurn tíma, þar til Abel sýslumaður flutti þangað.
Telja menn, að draugurinn hafi aðallega haft hæli sitt í móanum austur af Eystri-Gjábakka, en einnig í Landahelli. Áttu einhver undirgöng að liggja á milli þessara staða.
Abel sýslumaður var mikill búsýslumaður, og hóf, skömmu eftir að hann kom að Gjábakka, tilraunir til akuryrkju í móanum austan við bæinn, þar sem draugurinn átti að hafa hæli sitt, og síðan hefir verið nefnt Akur.
Lét sýslumaður Svein Hjaltason vinnumann sinn starfa að landbrotinu. Draugurinn tók þetta illa upp, og urðu ásóknir hans við Svein svo magnaðar, að hana sturlaðist á geði.
Ekki heppnuðust akuryrkjutilraunir sýslumanns og var draugnum kennt um það.
Áður fyrr var svo háttað um allan reka í Vestmannaeyjum, að sá, sem fyrstur fann, hlaut happið. Var því mikið kapp um rekagöngur. Venjulega var farið í þær fyrir dögun, svo aðrir yrðu ekki fyrri á rekann. Ofanbyggjarar gengu á reka í Klaufinni, Víkinni og Brimurð.
Einhverju sinni fór bóndi nokkur af einhverjum bænum fyrir ofan Hraun fyrir dag á reka suður eftir, eins og venja var. Hann kom ekki heim aftur um daginn og var þá farið að leita hans. Fannst hann meðvitundarlítill og máttlaus, liggjandi fyrir ofan Klaufarskálina. Dó hann skömmu síðar, og fékk ekki málið fyrir andlátið, nema hvað menn þóttust heyra, að hann segði, þegar reynt var að spyrja hann þess, hvernig hann hefði orðið svo á sig kominn; „Það eru ekki allt selir, sem sýnast.“