Sveinn Jónsson (Enda)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Sveinn Jónsson frá Enda, (Vesturvegi 34), vélstjóri, forstjóri í Reykjavík fæddist 8. febrúar 1917 á Hlíðarenda í Ölfusi og lést 3. apríl 1999.
Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi, bátsformaður og trésmiður, f. 19. október 1885, d. 8. desember 1955, og kona hans Þorbjörg Sveinbjörnsdóttir húsfreyja, f. 10. apríl 1885, d. 24. júlí 1962.

Börn Jóns og Þorbjargar voru:
1. Guðrún Jónsdóttir, f. 21. febrúar 1916, d. 12. júlí 1930.
2. Sveinn Jónsson vélstjóri, forstjóri í Reykjavík, f. 8. febrúar 1917, d. 3. apríl 1999. Kona hans var Ester Lovísa Sigbjörnsdóttir húsfreyja, f. 6. maí 1924.
3. Jón Jónsson flugstjóri, f. 23. janúar 1918, d. 14. apríl 1963. Kona hans var Hjálmfríður Hallgrímsdóttir húsfreyja, f. 10. maí 1927.
4. Vémundur Jónsson netagerðarmaður, vélstjóri í Eyjum, f. 23. maí 1920, d. 11. mars 1984. Kona hans var Guðný Sigurleif Stefánsdóttir húsfreyja.
5. Þórunn Jónsdóttir saumakona í Eyjum, f. 23. maí 1920, d. 27. júlí 2002.
6. Hjálmar Jónsson skipstjóri í Eyjum, f. 26. júní 1921, d. 16. febrúar 1978.

Sveinn var með foreldrum sínum í æsku og fluttist með þeim úr Ölfusi til Eyja 1930.
Hann bjó með þeim á Brekku, (Faxastíg 4) í lok árs, á Skildingavegi 8 1934, síðan á Vesturvegi 34, (Enda).
Sveinn tók hið minna vélstjórapróf hjá Fiskifélagi Íslands í Eyjum 1937 og meira prófið í Reykjavík 1940. Hann var vélstjóri á ýmsum bátum í Eyjum að loknu minna prófinu, en vann síðan í Vélsmiðjunni Magna og smiðju Þorsteins Steinssonar í Eyjum.
Hann var starfsmaður í Vélsmiðjunni Héðni h.f. og vélstjóri á m.s. Reykjanesi, áður Venusi, 1940-1942 í Heimstyrjöldinni, en það sigldi með aflann á Bretland. Skipið sökk síðar.
Eftir það hóf Sveinn störf hjá Vélaverkstæði Björgvins Frederiksen, sem var einn af frumherjum í kælitækni hérlendis. Þar vann hann til ársins 1945 og hjá Jóni Sigurðssyni járnsmið til 1946, en stofnaði eigið fyrirtæki á þessu sviði og bar það nafn hans lengi framan af, en síðan varð það hlutafélag og nefndist þá Kælismiðjan Frost hf.
Þá kenndi hann við Vélskóla Íslands og stundaði rannsóknir á sviði kælitækni.
Hann var einn af stofnendum Kælitæknifélags Íslands 1987.
Sveinn gegndi mörgum trúnaðarstörfum. Má til nefna:
1. Hann var fulltrúi vélstjóra í óson-nefnd iðnaðarráðuneytis 1988 og síðar umhverfisráðuneytis 1991.
2. Formaður mótorvélstjórafélags Íslands 1942-1946.
3. Hann var fulltrúi vélstjóra í Sjómannadagsráði og í skólanefnd Vélskóla Íslands 1970-1978.
Sveinn kvæntist Ester Lovísu 1949. Þau eignuðust 4 börn.
Sveinn lést 1999.

Kona Sveins, (8. febrúar 1949), var Ester Lovísa Sigbjörnsdóttir húsfreyja, f. 6. maí 1924. Foreldrar hennar voru Sigbjörn Jónsson sjómaður frá Krossalandi í Lóni, A-Skaft., f. 17. júní 1878, d. 8. júlí 1929, og kona hans Þórunn Bjarnadóttir húsfreyja, f. 18. október 1884, d. 12. ágúst 1985.
Börn þeirra :
1. Ólafía Þórunn Sigurbjörg Sveinsdóttir húsfreyja, B.A. í dönsku og frönsku, menntaskólakennari, deildarstjóri á Ferðaskrifstofunni Atlantik, f. 19. júní 1946. Maður hennar er Friðrik Daníel Stefánsson viðskiptafræðingur, framkvæmdastjóri, f. 7. nóvember 1932.
2. Haukur Þorgeir Sveinsson íþróttakennari, þjálfari, f. 20. janúar 1949. Kona: Ingibjörg Bára Sveinsdóttir fil. kand., blaðamaður, f. 5. ágúst 1948.
3) Jón Árni Sveinsson vélstjóri, umsjónarmaður í Reykjavík, f. 2. júní 1957, ókvæntur og barnlaus.
4) Trausti Sveinsson vélstjóri á Grund í V.Hún., f. 11. maí 1959, ¬ drukknaði í Þýskalandi 23. mars 1981.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Bergsætt II. útgáfa. Guðni Jónsson 1966.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vélstjóratal 1911-1972. Óskar Ingimarsson. Reykjavík. Vélstjórafélag Íslands 1974.
  • Ölfusingar - búendatal Ölfushrepps 1703-1980. Eiríkur Einarsson. Reykjavík. Sögusteinn 1985.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.