Surtsey

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Surtsey er syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum og jafnframt sú næst stærsta, um 2.5 km2. Hún myndaðist við neðansjávargos sem hófst í nóvember 1963. Eyjan er friðlýst og til þess að fara þangað þarf að sækja um sérstakt leyfi til yfirvalda.

14. nóv.1963, kl.10:30

Surtsey var friðuð árið 1965 meðan gosvirkni var enn í gangi og var friðunin bundin við eldfjallið ofansjávar. Í tengslum við tilnefningu Surtseyjar árið 2006 var friðlandið stækkað verulega. Í dag er friðlandið um 65 ferkílómetrar að stærð og nær yfir alla eldstöðina, ofansjávar og neðansjávar, þ.e. Surtsey, Jólnir, Syrtling og Surtlu, ásamt hafsvæðinu umhverfis. Með friðlýsingunni 1965 var tekið fyrir umferð manna út í eyna og gildir það enn þann dag í dag, nema með fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Var þetta gert fyrst og fremst til að forðast aðflutning lífvera af mannavöldum, til að vernda viðkvæma náttúru og til að stuðla þannig að því að eyjan fengi að þróast eftir lögmálum náttúrunnar án áhrifa eða afskipta mannsins.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur frá upphafi Surtseyjargossins séð um rannsóknir og reglubundna vöktun út í eynni í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Surtseyjarfélagið.

Upphaf eldgossins

Það voru skipverjar á Ísleifi II sem tilkynntu um neðansjávareldgos að morgni 14. nóvember 1963. Þá mældu þeir sjávarhita í hálfrar mílu (um 900 metra) fjarlægð í um 10°C.

Gosið magnaðist hratt og fjórum tímum eftir að tilkynnt var um gosið hafði gosmökkurinn náð 3.500 metra hæð. Strax daginn eftir var gosmökkurinn kominn í rúmlega 9.000 metra hæð og uppa hafði hlaðist gjóskubunki sem náði 10 metra upp fyrir sjávarmál þar sem áður var 130 metra sjávardýpi og því er líklegt að gosið hafi hafist nokkrum dögum áður en þess varð fyrst vart. Í suðvestan átt þann 12. nóvember fannst brennisteinslykt í lofti við Vík í Mýrdal en engra jarðhræringa hafði orðið vart dagana fyrir uppkomu gossins. Gosið stóð með hléum fram til 5. júní 1967 eða í um það bil þrjú og hálft ár. Eyjan er um 20 km suðvestur af Heimaey, eða um 30 km suðvestur af Landeyjasandi á meginlandi Íslands.

Við gosið varð til syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, og jafnframt á Íslandi, en miðpunktur hennar er 63°18'N, 20°36'W. Hún er jafnframt eina eyjan sem hefur myndast á sögulegum tíma við Ísland og myndaðist hún í mesta neðansjávareldgosi sem sögur fara af.

Eyjan fékk nafnið Surtsey og er nafnið tekið úr norrænni goðafræði. Minnst er á Surt hinn svarta í Völuspá: „Surtr ferr sunnan; með sviga lævi“. Strax þegar eyjan myndaðist sáu vísindamenn hversu frábært tækifæri þeir höfðu til þess að rannsaka nýja eyju og landnám lífs á eynni. Surtsey var því friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd (lög 44/1999). Vísindamenn hafa því tækifæri til að fylgjast með hvernig líf tekur land og þróast á nýjum stað. Umferð í Surtsey er aðeins leyfð í vísindaskyni og þarf leyfi Surtseyjarfélagsins til að heimsækja eyjuna.

 
Jólnir og Surtsey

Nokkrar gossprungur opnuðust við Surtsey á meðan á gosinu stóð. Mánuði eftir upphaf gossins opnaðist sprunga norðaustan við Surtsey sem gefið var nafnið Surtla en engin eyja myndaðist. Árið 1965 mynduðust tvær eyjar, Syrtlingur austnorðaustan við Surtsey og Jólnir suðvestan Surtseyjar. Báðar eyjarnar létu undan ágangi Norður-Atlantshafsins og hurfu í hafið.

Þróun Surtseyjar

Surtsey hefur ekki farið varhluta af ágangi sjávar og sést það vel á breytingum á stærð hennar. Þegar gosinu lauk var stærð Surtseyjar 2,7 km². 40 árum eftir lok gossins hefur eyjan minnkað um tæpan helming. Eyjan var mæld 1,5 km² árið 2002. Ætla má að sjávarrofið haldi áfram þar til að aðeins móbergskjarninn verður eftir og mun þá eyjan ef til vill líkjast Bjarnarey.

Lífríkið er orðið fjölbreytt neðansjávar og er flóran mikil. Þörungar, hrúðurkarlar, krossfiskar og öll algengustu sjávardýr hafa fundist við Surtsey. Selir nota Surtsey sem hvíldarstað og hafa kæpt þar reglulega síðustu ár. Ýmsar tegundir fléttna, mosa og háplantna hafa numið land. Fjörukál og melgresi eru elstu landnemarnir. Nýjustu plönturnar eru friggjargras, gulmura og gulvíðir. Minnst 8 tegundir varpfugla hafa tekið sér bólfestu í Surtsey. Fyrstur til að verpa var fýllinn og var það árið 1970. Teista hóf svo varp ári seinna. Ýmiss konar skordýr hafa fundið sér leið til Surtseyjar, m.a. köngulær, fiðrildi og bjöllur.

Að undanförnu hafa vaknað upp spurningar um framtíð Surtseyjar. Sumir vilja opna Surtsey fyrir ferðamönnum og leyfa ótakmarkaðan aðgang í eyjuna. Embættismenn og Surtseyjarfélagið taka þó fyrir það og segja að um óákveðinn tíma muni eyjan verða notuð til rannsókna og þar af leiðandi takmarkaður aðgangur. Tíminn mun leiða í ljós hlutverk Surtseyjar á komandi tímum.

Surtseyjarfélagið

 
Frímerki af Surtsey.

Þegar Surtsey varð til og ljóst að hún væri komin til að vera var stofnað áhugafélag um skipulag rannsókna í eynni. Tilgangur Surtseyjarfélagsins er, orðrétt úr lögum þess: ,,Að efla rannsóknir í jarðvísindum og líffræði í sambandi við Surtsey og á Íslandi almennt.” Þrátt fyrir að stunda ekki sjálft rannsóknarstörf hefur félagið gefið út margar skýrslur með niðurstöðum rannsókna. Félagið hefur staðið að byggingu tveggja kofa í eynni, þar sem vísindamenn hafa haft aðsetur við rannsóknir. Formaður Surtseyjarfélagsins er Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Surtseyjarfélagið hefur aðsetur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og er samstarf milli þessara tveggja stofnana mjög gott. Surtseyjarfélagið hefur unnið frábært starf varðandi verndun eyjarinnar og hefur séð til þess að lífríkið fái að blómstra nánast óáreitt.

Surtseyjargosið

 
Fyrstu dagar gossins.

Gosið hófst með miklum krafti. Strax fyrsta daginn, 14. nóvember 1963, var gosmökkurinn kominn upp í 6 km hæð. Þetta fyrsta neðansjávareldgos á sögulegum tíma, hér við land, hófst á 65 faðma dýpi 3 sjómílur vestur af Geirfuglaskeri. Strax við upphaf gossins urðu vísindamenn spenntir og fyrsta gosdaginn sveimuðu flugvélar og bátar um svæðið. Voru þar á ferðinni farþega-, her- og rannsóknarflugvélar.

Tveimur dögum fyrir sjáanlegt upphaf gossins fannst brennisteinsfnykur austur í Vík í Mýrdal. Sú lykt var frekar tengd við hugsanlegt gos úr jökli en neðansjávareldgos. Nokkrir smáskjálftar höfðu mælst í nánd við verðandi gossvæði en á Íslandi eru stöðugar jarðhræringar, svo mælingamenn sáu ekkert varhugavert við framvindu mála suður af Heimaey. Ekkert annað var frábrugðið venjulegum vetrardegi þarna um slóðir. Fiskibátarnir sigldu um svæðið, fuglarnir steyptu sér í sjóinn og veðrið var kalt en milt. Vísindamenn voru hræddir um að sprenging gæti orðið í gosinu. Ef ný sprunga opnaðist þá myndi sjór falla í hana og gífurleg sprenging yrði. Bátar voru því varaðir við að fara of nærri vegna hættunnar.

Annan dag gossins myndaðist eyjan. Eyja þessi var þá einungis vikurhaugur. Eyjuna kölluðu vísindamenn Séstey, en sumir kölluðu hana Séstei sökum hversu illa sást í hana fyrir gosmekkinum. Eyjan stækkaði jafnt og þétt út gostímann en háði jafnframt baráttu um tilvist sína við veðurguðina og bárur hafsins.

Fyrstu Íslendingarnir sem stigu fæti í Surtsey voru Kristján Guðmundsson, sjómaður, en með honum í för voru bræðurnir Kristján Egilsson, fyrrverandi safnvörður Náttúrugripasafnsins í Eyjum og Egill Egilsson, smiður.

Aðal hraungígur Surtseyjar er Surtur. Hraunrennsli í eynni var mjög stöðugt. Örfá hlé urðu á rennslinu og í þeim hléum myndaði sjórinn hamra Surtseyjar. Nokkrar spungur opnuðust á eynni á næstu árum. Þann 19. ágúst 1966 opnaðist síðasta spungan og var hún 200 m löng. Síðast sást til hraunrennslis í Surtsey 5. júní 1967.

Frakkarnir mæta

Stuttu eftir fæðingu eyjarinnar komu franskir blaðamenn í heimsókn. Það var þann 6. desember 1963. Þeir fóru í land en eftir 15 mínútna dvöl urðu miklar sprengingar og hraunflóð til þess að þeir forðuðu sér á burt. Þetta atvik náði heimsfrægð þegar blaðamennirnir rituðu um það í blaði sínu, Paris Match.

Jarðfræði

 
Gígar Surtseyjar.

Margvíslegar jarðfræðilegar rannsóknir hafa verið gerðar í Surtsey, bæði meðan á gosi stóð og ekki síður eftir að því lauk. Má þar telja rannsóknir á bergfræði gjósku og hrauns, steindafræði frum- og síðsteinda, efnasamsetningu lofttegunda úr bergkvikunni og sjávar- og vindrofi. Af jarðeðlisfræðilegum athugunum má nefna jarðskjálftamælingar, flugsegulmælingar, þyngdarmælingar og GPS-mælingar.

Bergfræði gosefna

Gjóskan og hraunið í Surtsey er alkalíólivínbasalt, en þessi gerð basalts finnst í Vestmannaeyjum og á Snæfellsnesi. Gjóskan er að mestu brúnt basaltgler sem myndaðist við snöggkælingu heitrar bergkvikunnar í sjó, en hraunið er yfirleitt alkristallað vegna mun hægari kólnunar. Í berginu eru allstórir kristallar af ólivín og plagíóklas.

Framtíð eyjunnar

 
Surtsey árið 1999.
 
Surtsey árið 2006.
 
Surtsey árið 2006.

Spurningar um framtíð Surtseyjar vakna reglulega upp. Sumir vilja opna Surtsey fyrir ferðamönnum og leyfa ótakmarkaðan aðgang í eyjuna. Embættismenn og Surtseyjarfélagið taka þó fyrir það og segja að um óákveðinn tíma muni eyjan verða notuð til rannsókna og þar af leiðandi takmarkaður aðgangur. Tíminn mun leiða í ljós hlutverk Surtseyjar á komandi tímum. Ennþá eru nýjar plöntur að finnast í eynni og dýra- og fuglalíf er að dafna. Hægt er að segja að lífið í eynni sé farið að líkjast öðrum eyjum Vestmannaeyja þar sem lundinn er farinn að sýna sig í eynni. Sást hann í fyrsta skipti árið 2004 og var hann þá að koma með síli handa ungum sínum. Surtsey gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki varðandi rannsóknir og vitneskju manna á því hvernig líf á landi verður til.

Heimsminjaskrá UNESCO

Þann 7. júlí 2008 var Surtsey og friðlandið umhverfis skráð á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna (UNESCO)[1] sem einstakur staður náttúruminja á heimsmælikvarða. Eyjan hefur verið verndað friðland frá því að hún myndaðist í eldgosi og því einstök rannsóknarstöð en það skipaði sérstöðu eyjunnar að því að fram kemur í rökstuðningi heimsminjanefndar UNESCO.

Skýrslu Náttúrufræðistofnunar um tilnefningu Surtseyjar má nálgast hér (10,5 mb)

Myndasafn

Hér má sjá fjölda mynda sem Sigurjón Einarsson frá Oddsstöðum tók í gosinu. Smellið á myndina til að sjá stærri mynd og ítarlega lýsingu.

Myndir Brynjúlfs Jónatanssonar

Myndir sem að Brynjúlfur Jónatansson frá Breiðholti tók:

Tenglar


Heimildir

  • Sturla Friðriksson. 1994. Surtsey, lífríki í mótun. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag – Surtseyjarfélagið.
  • Hallgrímur D. Indriðason (umsjónarmaður vefsíðu). 2005. Vefur Surtseyjarfélagsins. www.surtsey.is.
  • 50. árg. 1963. 15. nóvember. Neðansjávargos SV af Eyjum. Morgunblaðið. bls. 23-24.
  • Sveinn Jakobsson. 2005. Surtsey-jarðfræði. Sótt 22. júní 2005 af: http://www.surtsey.is/pp_isl/jar_1.htm
  • Grein um Surtsey á http://en.wikipedia.org/wiki/Surtsey
  • www.ust.is

Saga:     JarðsagaTyrkjarániðSurtseyjargosiðHeimaeyjargosiðLandnámÚtgerðVerslunHerfylkingin