„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Kafli úr sögu eftir Ásgeir Þorvaldsson“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
 
Lína 1: Lína 1:
<big><big><center>'''Kafli úr sögu'''</center><br>
<big><big><center>'''Kafli úr sögu'''</center></big></big><br>


<center>'''eftir [[Ásgeir Þorvaldsson]]'''</center><br>
<center>'''eftir [[Ásgeir Þorvaldsson]]'''</center><br>

Núverandi breyting frá og með 11. september 2019 kl. 14:44

Kafli úr sögu


eftir Ásgeir Þorvaldsson


Ásgeir Þorvaldsson

Ég heiti Jón Michael Barr og fæddist vestur í Kaliforníu fyrir 33 árum.
Móðir mín var íslensk en hún lést í bílslysi þegar ég var níu ára.
Á þessum fyrstu árum ævinnar gekk ég í gegnum ýmislegt sem börn ættu ekki að þurfa að upplifa. Báðir foreldrar mínir voru áfengissjúklingar og mikið gekk á þegar þeir voru báðir útúrdrukknir og alls konar vinir þeirra í neyslunni gengu út og inn á heimilinu í misjöfnu ástandi.
Ég man eftir því að oft faldi ég mig í kofanum sem pabbi haföi smíðað handa mér einhvern tíma þegar allt lék í lyndi því að slík tímabil komu alltaf inn á milli og þá var allt látið eftir stráknum.
Þarna var ég einn að dunda meðan óveðrið geisaði inni í húsinu.
Eg vissi seinna að skömmu áður en mamma dó, var nánast búið að ákveða af yfirvöldum að svipta þau forræði yfir mér og koma mér fyrir á hæli fyrir vanrækt börn svo að ég yrði ekki fyrir meiri andlegum skaða en orðið var.
Pabbi heitir John og var á þessum árum byggingaverkamaður og gekk vel á milli drykkjutúranna, dugnaðarforkur og vann mikið þess vegna fékk hann alltaf vinnu þegar rann af honum.
Mamma mín hét Margrét og fluttist til Bandaríkjanna tveimur árum áður en ég fæddist. Þetta átti bara að vera sumarlangt au per hjá hjónum sem vantaði aðstoð við barnagæslu en þar kynntist hún ástinni og var skömmu seinna búin að gifta sig og stofna heimili í bænum Hillsborough í San Mateo skammt sunnan við alþjóðaflugvöllinn í San Francisco.
Mamma hvorki drakk né reykti og var eins og hver önnur myndarleg húsmóðir, ljóshærð með blá augu, falleg ung kona. Ljósa hárið og bláu augun hef ég frá henni en pabbi er mjög dökkur yfirlitum með svart hár.
Þessi ungu og myndarlegu hjón réðust í það að kaupa sér einbýlishús og unnu bæði úti og allt virtist ætla að ganga þeim í haginn. En svo fæddist ég og um svipað leyti varð pabbi fyrir því óláni að fótbrotna og var frá vinnu í nokkra mánuði.
Hann fór smám saman að halla sér að flöskunni og seinna fór mamma að gera slíkt hið sama og einhvern veginn fór allt niður á við, skuldirnar hlóðust upp, ekki tókst að standa í skilum með veðlánið af húsinu og þau virtust bara gefast upp og allt látið reka á reiðanum.
Þetta frétti ég seinna þegar ég var kominn til afa og ömmu á Íslandi.
Mamma var drukkin á gamla picup bílnum sem þau áttu þegar hún ók í veg fyrir flutningabíl í febrúar árið 1981 og lést samstundis aðeins 28 ára gömul.
Pabbi var orðinn langt leiddur af drykkjuskap og annarri óreglu þegar þetta gerðist og hann hafði samband við afa og ömmu á Íslandi og lét þau vita af láti mömmu og þau flugu samstundis út til að vera við útför dóttur sinnar. Ég talaði ekki stakt orð í íslensku og þekkti ekki þetta ókunnuga fólk en það varð úr að ég fór með því til Íslands að lokinni jarðarförinni og hér hef ég verið síðan.
Samband mitt við pabba hefur verið um síma og með bréfum og alltaf fékk ég jólapakka frá Ameríku sem vinir mínir öfunduðu mig mikið af. Ég var náttúrulega öðruvísi, hét útlensku nafni þó að Jónsnafnið væri með og talaði vægast sagt bjagaða íslensku til að byrja með.
Pabbi varð fyrir miklu áfalli þegar mamma dó en tveimur árum seinna frelsaðist hann í einhverjum trúarsöfnuði sem varð til þess að hann hætti allri óreglu og kynntist konu í söfnuðinum og kvæntist aftur. Þau eignuðust einn son, Jeff hálfbróður minn, sem síðar á eftir að koma við sögu í þessari frásögn minni.
Afi minn heitir Jón Jónsson og amma heitir Guðrún Bjarnadóttir svo að íslenskara getur það varla orðið.
Það voru mikil viðbrigði fyrir þau bæði, komin á sextugsaldur, að taka við níu ára gömlum dóttursyni sem kunni ekki stakt orð í íslensku og eiga að fara að sjá um barnauppeldi á nýjan leik.
Afi var þó betur settur en amma því hann hafði farið í stýrimannaskóla, ungur maður, og því lært þó nokkuð í ensku . Afi var skipstjóri á fiskibáti sem hann átti í félagi við Bjarna bróður hennar ömmu og beir fóru venjulega í siglingu með afla einu sinni eða tvisvar á ári, oftast var landað í Hull eða Grimsby á Englandi. Þá var verslað til heimilisins og tekinn tollur. Oft fékkst mjög gott verð fyrir aflann. Afi gat því talað við snáða og byrjaði strax að kenna mér íslensku.
Viðbrigðin hjá mér voru eðlilega mikil því þó mamma hafi verið orðin mikill sjúklingur vegna drykkjunnar, saknaði ég hennar óskaplega og þótt afi væri mér góður, var hann alla tíð svolítið kaldur og fráhrindandi í framkomu við mig.
Ég hugsa að það hafi stafað af því að þegar hann frétti af óreglunni á foreldrum mínum, urðu þeir hreinlega ekki til í hans augum lengur. Hann hefur alla tíð verið mjög áreiðanlegur og þolir ekkert sem heitir óregla hvort sem um er að ræða í fjármálum, áfengi eða einhverju öðru.
Hans eini löstur er neftóbakið sem honum finnst vera sjálfsagður hlutur en þeir sem reykja, eru í hans augum aumingjar sem brenna upp peningana sína.
Eg fann strax skjól hjá ömmu Gunnu enda held satt að segja að hún sé best hér á jörðu. Þó að amma skildi mig ekki í fyrstu, fann hún hvernig mér leið og ég var henni sem himnasending, sonur, einkadótturinnar, og hún hafði aldrei séð hann áður. Þótt amma stjórnaði heimilinu, hafði hún aldrei haggað afa í sambandi við vandræði mömmu og ekki getað á nokkurn hátt fengið að fylgjast með högum okkar eftir að óreglan og öll óreiðan var komin á það stig að afi sagði stopp.
Ég efast um að afi hefði farið út þegar mamma dó ef amma hefði ekki hótað öllu illu og sagðist hreinlega yfirgefa hann ef hann léti ekki af stórlæti sínu. Þótt það væri hennar síðasta, ætlaði hún að vera við útför dóttur sinnar.
Það var árið 1981 sem ég kom heim til Vestmannaeyja þar sem afi og amma búa. Uppbyggingu eftir gosið var að mestu lokið og mikið um að vera fyrir níu ára stráka. Fljótlega var ég kominn á fótboltaæfingar hjá Tý enda bæði afi og amma gamlir Týrarar og mamma hafði æft handbolta hjá félaginu þegar hún var stelpa að alast upp í Eyjum. Þetta sumar fór ég á mína fyrstu Þjóðhátíð og ég held að hún verði mér alla tíð ógleymanleg svo gaman þótti mér.
Afi og amma áttu sitt Þjóðhátíðartjald og ævinlega var tjaldað við Týsgötu.
Amma var búin að vera að undirbúa alla vikuna og ég fékk að hjálpa til við baksturinn og þrífa koffortið, græna stóra kistu, sem átti að geyma allar kræsingarnar.
Á fimmtudeginum fór ég og Siggi, frændi, sem er árinu eldri en ég, með afa og Bjarna, frænda, með tjaldsúlurnar inn í Dal á útgerðarbílnum.
Þegar við komum inneftir var nú aldeilis á að líta, allt fullt af bílum og menn á hlaupum með tjaldsúlur til bess að fá nú nógu gott stæði fyrir tjaldið. „Það er alltaf sama sagan,“ sagði afi „aldrei hægt að stóla á að menn virði tímann sem má byrja að setja súlurnar niður. Það er meiri andskotans frekjugangurinn í þessu liði, réttast væri að sleppa þessu bara og koma sér heim aftur, djöfullinn hafi það bara.“
„Svona, vertu hægur, Nonni minn,“ sagði Bjarni frændi „þessu breytir enginn en þú trúir því aldrei að þetta gerist að nokkrum manni detti það í hug að þjófstarta, svona komdu nú það eru áreiðanlega eftir einhver stæði í Dalnum.“„ Ef ég fæ ekki tjaldstæði við Týsgötu þá tjalda ég ekki, svo einfalt er það nú bara,“ svarar afi.
„Þarna er Gunnar frændi, ég ætla að tala við hann,"segir Bjarni og snarar sér út úr bílnum og það stóð heima, Gunnar hélt fyrir okkur stæði við hliðina á sínu og allt féll í ljúfa löð hjá afa, hann fékk stæði við Týsgötu.
Þetta er nú kannski ekki alveg rétt með farið hjá mér um þessa fyrstu Þjóðhátíð mína því enn skildi ég lítið í málinu en þess konar uppákomur urðu árlegur viðburður eftir því sem árin liðu og enn skilur afi ekkert í ósvífninni í þessu andskotans liði að virða ekki tímasetninguna á tjölduninni.
Það var mikill samgangur milli heimilanna hjá afa og ömmu og Bjarna bróður hennar enda áttu þeir Sædísina í sameiningu og svo hitt að Bjarni var tólf árum yngri en amma svo að henni fannst alltaf hún bera ábyrgð á honum enda flutti hann alfarið heim til hennar og afa skömmu eftir að þau giftu sig því að foreldrar þeirra dóu með aðeins fimm mánaða millibili þegar Bjarni var 11 ára.
Bjarni fór í Vélskólann og eftir að hann kláraði námið, gerði afi hann að meðeiganda í bátnum enda leit hann alltaf á Bjarna sem son sinn sem að mestu var alinn upp á heimili hans. Bjarni og Sigga, konan hans, eignuðust tvö börn, Sigga árinu eldri en ég og Stínu sem er á sama ári og ég.
Á sama máta og Bjarni og mamma ólust upp saman að miklu leyti, voru Siggi og Stína systkini mín þó að við byggjum ekki í sama húsi.

Teikning eftir Ásgeir Þorvaldsson


Árin eftir að ég flutti til afa og ömmu liðu ótrúlega hratt við alls konar leiki og áhyggjuleysi. Ég eignaðist marga vini og bráðlega þekkti ég flesta krakka á mínu reki í bænum..Mér var stundum strítt vegna málfarsins og útlenska nafnsins en þá var Sigga frænda að mæta og enginn komst upp með múður hjá honum því í hans augum var ég orðinn litli bróðir sem enginn komst upp með að hrekkja átakalaust.
Svona leið æskan og brátt vorum við orðin unglingar og farin að vinna niðri í stöð í aflahrotum og að slíta humar á sumrin og fengum kaup fyrir sem kom sér vel því ekki dugðu vasapeningarnir frá afa lengi. „Þetta dugar þér alveg,“ sagði hann ævinlega, „farðu bara sparlega með.“ Amma hljóp þá oft undir bagga en það mátti afi ekki frétta. „Eyddu nú ekki öllu í sælgæti Nonni minn,“ sagði hún og strauk mér um vangann.
Ég ákvað að feta í fótspor afa og gerast skipstjóri og suðaði í afa að fá að koma með í róður en ævinlega fékk ég sama svarið: „Þegar þú verður stærri góði.“ Ég upplifði aldrei að fara í róður með afa því nú kom svolítið fyrir sem afi átti aldrei eftir að fyrirgefa sínum gömlu flokksfélögum í Framsóknarflokknum.
Það var settur aflakvóti á hvert fiskiskip. Það þoldi hann ekki. Hann vildi hafa allt frjálst eins og verið hafði alla hans sjómannstíð. Það var sama hvað Bjarni frændi sagði til þess að tjónka við afa. „Við seljum allt draslið, bátinn, veiðafærahúsið og bílinn og láttu þér ekki koma til hugar, Bjarni, að ég selji þér minn hlut, ég ætla bara ekki að gera þér þá skráveifu, Bjarni, nei og aftur nei, þessir andskotans andskotar geta bara hirt allt draslið og ekki orð um það meira.“
Og þar við sat og við Siggi horfðum á eftir bátnum sem við höfðum ætlað að kaupa í fyllingu tímans, tárvotum augum, hverfa austur á milli garða og svo fyrir Klettsnefið, horfinn að eilífu. Já, það var erfitt fyrir unga drengi að ganga heim af Nausthamarsbryggjunni þennan dag.
Afi fékk vinnu í Gúanóinu en Bjarni fór að róa á loðnubáti en ekkert varð eins og áður.
„Þessir andskotans andskotar,“,, sagði afi og aldrei hefur þessi mikli framsóknarmaður farið í kjörklefa síðan. „Það er sama rassgatið undir þeim öllum þessum andskotum,“ og þar með var málið útrætt. Þetta breytti þó engu um fyrirætlanir okkar Sigga um framtíðina, við ætluðum á sjóinn og gerast hafsins hetjur þegar við yrðum stærri, sjómennirnir voru okkar hetjur og mikið öfunduðum við stærri strákana sem komnir voru í skipspláss og voru alltaf með fullar hendur fjár að okkar mati.
Um vorið sem ég varð sextán ára, rættist draumurinn um að komast á sjóinn sem fullgildur háseti á fimmtíu tonna trollpung, við vorum sex á og ég náttúrulega langyngstur.
Karlarnir voru mér góðir og kenndu mér handtökin og bráðlega var ég farinn að taka í kríulöpp í trollinu og gekk bara vel að læra allt sem gera þurfti.
Í fyrsta róðurinn var farið í byrjun júní í blíðskaparveðri, báturinn nýkominn úr slipp, nýmálaður og fínn. Ekki var farið langt því trollið var látið fara austur í Háfadýpi, aðeins þriggja kortera stím. Við hífðum um kvöldmatarleytið og sáralítill afli svo að karlinn sagði okkur að taka trollið inn fyrir og fara bara að leggja okkur eftir að við værum búnir að éta því að á sjónum fá menn sér að éta ekki að borða. Ég var nú ekki neitt syfjaður svo að ég fór aftur í stýrishús eftir matinn til að fylgjast með.
„Ætlarðu ekki að fara að leggja þig, gæskur?“ sagði Már skipstjóri „við förum eitthvað austur á bóginn svo það verður ekkert kastað strax.“
„Ég er ekkert syfjaður, mig langar bara aðeins að fylgjast með,“ svara ég.
„Allt í lægi gæskur,“ en það var orðatiltæki sem hann notaði enda Austfirðingur að ætt og uppruna. „Þú ættir nú samt að reyna að fá þér kríu hann fer að kalda begar líður á kvöldið,“ sagði Már og tróð í pípuna sína.
Skömmu seinna fór mér að verða hálf ómótt, það er ábyggilega tóbaksreykurinn hugsaði ég því ekki datt mér í hug að ég yrði sjóveikur í svona blíðu.
Ég fór fram í lúkar og lagði mig í kojuna mína.
„Já, það var rétt hjá þér Nonni minn,“ sagði Steini kokkur, „leggðu þig bara þetta verður langt stím ef ég þekki karlinn rétt.“
Þetta fannst mér nú dálítið skrýtið því Már var ábyggilega helmingi yngri en Steini kokkur sem var elstur okkar, kominn á sjötugsaldur.
Um borð í fiskibáti er bara einn sem er kallaður karlinn og það er skipstjórinn.
Bráðlega sofnaði ég í hitanum í lúkarnum, glaður og ánægður. Ég var kominn til sjós.
Afi samþykkti strax þegar ég sagði honum frá því að ég hefði fengið pláss á Erninum hjá Má. „Það er í góðu lagi,“ sagði hann „Már er góður formaður og gætinn en ég set þér eitt skilyrði, þú ferð í skólann í haust.“
Þetta var nú ekki alveg það sem ég hafði ætlað mér en vissi að ekki þýddi að þræta við gamla manninn um framtíð mína, hún var kristaltær í hans augum.
„Læra skaltu drengur minn. Það er alltaf gott að hafa lærdóminn ef aðstæður þínar breytast og þú hættir á sjó. Mér er svo sem sama og er í rauninni ánægður með að þú viljir á sjóinn til að afla tekna fyrir veturinn, það hefur aldrei skaðað neinn að taka til hendinni til sjós en þar við situr, þú ferð í skólann púnktur og basta.“
Amma Gunna var ekki alveg jafn róleg vegna ætlunar minnar. Hún hélt verndarhendi yfir mér og var sífellt að biðja mig nú að fara varlega eins og hún óttaðist sífellt að eitthvað illt henti mig. “Þú lofar mér því, Nonni minn, að fara gætilega á sjónum ég vil ekki missa þig eins og hana mömmu þína, þú lofar nú henni örnmu gömlu að fara varlega yndið mitt.“
„Já, amma mín, ég passa mig,“ sagði ég og kyssti hana í útidyrunum en afi beið í bílnum.
„Jæja, drengur, komdu nú, þú mátt ekki verða of seinn, áttuð þið ekki að mæta klukkan eitt?“ kallaði afi. Ég leit á klukkuna og sá að hún var ekki orðin hálf eitt „hann afi með sína stundvís," sagði ég brosandi til ömmu og lagði af stað með sjópokann minn sem afi gaf mér „enda nota ég hann ekki meir,“ sagði hann.
Afi var að hlusta á fréttirnar í útvarpinu þegar ég kom út í bíl.
„Við förum smá rúnt áður en við förum niður eftir,“ sagði afi og keyrði upp á milli Fella og lagði mér lífsreglurnar á leiðinni. „Vertu alltaf fljótur til þegar eitthvað þarf að gera, ekki láta alltaf þurfa að segja þér hvað þú átt að gera, reyndu að vera fyrri til.
Það er fátt leiðinlegra en þurfa alltaf að vera að skammast eitthvað í glugganum. Reyndu að vera fljótur að tileinka þér handbrögðin við aðgerðina en engan göslaragang samt, það vinnst ekkert með því og vertu fljótur í gallann og upp á dekk þegar karlinn kallar hífopp. Passaðu þig vel begar þið hífið í fyrstu skiptin og fylgstu vel með þá lærir þú handtökin fljótt, um að gera að vera vel vakandi og vera ekki fyrir fyrr en menn kunna til verka.“ Svona lagði sá gamli mér lífsreglurnar meðan á bíltúrnum stóð og það var svo sem í lagi, hann vissi nokk hvað hann var að tala um, búinn að vera á sjó í fjörutíu ár og þar af formaður í rúm þrjátíu.
„Og vertu nú sæll góði,“ sagði hann þegar hann stöðvaði Toyotuna á Básaskersbryggjunni þar sem Örninn lá. Afi var aldrei neitt með vinarhót eða kossaflens, það næsta sem hann komst í þeim efnum var létt stroka með handarbakinu og „jæja góði.“ Ég snaraðist út úr bílnum og náði í sjópokann sem var í skottinu. „Vertu nú ekkert að hlífa stráknum, Mási min,“ heyrði ég afa segja út um opinn bílgluggann.
Már skipstjóri stóð úti á brúarvæng og heilsaði mér kumpánlega.
„Ætli ég verði nokkuð harðari við hann en þú varst við mig þegar ég var hjá þér á Sædísinni, Nonni minn,“ svarar Már, „helvítis vitleysan í þér að selja bátinn, þennan líka fína bát, vitleysa af mér að kaupa hann ekki af þér.“ „Þú hefðir ekkert fengið að kaup hann, ég vil ekki sjá hann hér í Eyjum,“ svarar afi stuttur í spuna „ætli þessi sé nú ekki nógu stór handa þér til að rjátla inn þessum fáu tonnum sem þú mátt veiða“ og þar með var hann rokinn. „Hann hefur nú alltaf verið þrjóskur, hann afi þinn Nonni, en helvíti fínn karl.
Farðu fram í með draslið þitt og hjálpaðu svo Steina gamla þegar að kosturinn kemur, ég held að bíllinn sé að leggja af stað.“
Allt í einu hrökk ég upp við einhvern slink og áttaði mig ekkert á því hvar ég var. Það hafði greinilega eitthvað breyst, báturinn tók miklar dýfur og valt mikið. Ég staulaðist fram úr kojunni, líklega var ég orðinn sjóveikur. Mig sundlaði og ég var rennandi sveittur. Steini gamli sat við borðið og lagði kapal. „Ertu vaknaður væni ? farðu upp í lúkarskappann og fáðu þér frískt loft, það er svo mollulegt hérna niðri núna, ég varð að loka skellektinu, það er farið að pusa dálítið, held hann hafi snúið sér meira í austrið en hann sagði í spánni í tíufréttunum, passaðu þig samt að fara ekki út á dekk þú verður rennblautur væni.“
„Hvað er skellekti,“ spurði ég?
„O, það er nú bara loftglugginn sá arna, þeir kölluðu þetta sky light, tjallarnir á togurunum, og við breyttum því bara í skellekti þegar við snerum því upp á íslensku, þeir voru nú ekki eins klárir og þú í enskunni, gömlu togarajaxlarnir okkar, þú átt eftir að heyra fleiri skrítin orð á sjónum væni.“
Nú var ógleðin komin upp í kok svo að ég flýtti mér upp stigann og rétt slapp áður en gusan kom út úr mér og langt aftur á dekk. Mér leið ögn skár en sjálfsvirðingin hafði beðið hnekki því ég var staðráðinn í að verða ekki sjóveikur og þarna stóð ég í lúkarskappanum og ældi eins og múkki. Ég treysti mér ekki út á dekk því gusurnar gengu yfir bátinn og frussuðust á stýrishúsið. Ég grillti í landið, bakborðsmegin og sá að við vorum ekki langt frá landi en vegna misturs sá ekki til fjalla svo að ég vissi ekkert hvað við vorum komnir langt.
Ætli við séum á Víkinni hugsaði ég með mér því eitthvað höfðu karlarnir nefnt það við borðið um kvöldmatinn, það hlýtur að vera hugsaði ég, klukkan var orðin tvö um nóttina. Afi hafði oft talað um Víkina en svo kallast miðin út af Vík í Mýrdal. Ég held að það hafi verið uppáhaldsbleyðan hans að minnsta kosti á sumrin þegar þeir voru á trolli en hann stundaði alltaf netaveiðar á vertíðinni og svo var skipt yfir á troll á vorin. Mér var orðið skítkalt að standa þarna en veigraði mér við að fara aftur niður í hitamolluna í lúkarnum þegar allt í einu var slegið af og báturinn hægði ferðina.
„Komdu aftur í, vinur,“ heyrði ég kallað úr brúarglugganum „en vertu fljótur svo þú blotnir ekki.“ Ég hljóp aftur með bakborðslunningunni og var varla kominn upp stigann á stýrishúsinu þegar sett var á fulla ferð aftur.
„Vertu bara hérna aftur í og haltu mér selskap,“ sagði Óli stýrimaður þegar ég var kominn inn. „Sestu í stólinn þarna bakborðsmegin.“ Þar var kollur á fæti sem hægt var að kippa upp þegar með þurfti enda stýrishúsið á fimmtíu tonna pung ekki stórt.
Það var svolítill munur á því og loðnubátnum sem Siggi, frændi, var búinn að fá pláss á.
Bjarni, frændi, var vélstjóri á stærsta loðnubátnum í Eyjum og hafði keypt sig inn í útgerðina þegar hann og afi seldu Sædísina svo það voru hæg heimatökin að redda Sigga um sumarafleysingar þar enda tóku alltaf einhverjir sér frí á sumrin. Þeir voru fjórtán í áhöfn þar, við bara sex. Annars höfðu karlarnir frammi í verið að segja mér að hér áður fyrr hafi bara verið fjórir eða fimm karlar á svona pungum. „Það er ekkert orðið að gera nema éta og sofa,“ sagði Geiri halti en viðurnefhið fékk hann eftir slæmt fótbrot, hann hafði víst klemmst svona illa af hlera begar þeir voru að hífa inn trollið á togara í vitlausu veðri og löppin farið í mask.
„Ég sá að þú varst að fóðra múkkann, vinur,“ sagði Óli. „Það var ekkert ég er skárri núna," svara ég borubrattur. „Hvar er karlinn?“
„Hann lagði sig, ég tek stímið austur eftir, hann sefur nú ekki svo mikið eftir að við byrjum að toga, hafðu bara rifu á bakborðsglugganum,“ segir Óli og kveikir sér í sígarettu. „Ertu byrjaður að reykja?" spyr hann og réttir að mér pakkann.
„Nei, takk," svara ég , „hvar erum við annars?“
„Við erum að verða komnir að Merkjunum,við förum bara eftir fjörunni það er bræluskítur utar.“ Ég sem hélt að þetta væri bræla.
„Þetta er bara vindbára, það frussast yfir, hann er það hvass, annars er marslétt við fjöruna, við förum alla leið austur að Höfða, verðum þar með morgninum.“
„Höfða?" segi ég spyrjandi. „Ingólfshöfða,“ segir Óli, „karlinn sækir mikið hér austur í Bugtina og Ingólfshöfðinn er í miklu uppáhaldi hjá honum enda gefur oft vel þar, yfirleitt stór og góður fiskur.“ Nú var ælan aftur komin upp í kok og ég galopnaði gluggann og lét múkkann hafa sitt. „Þetta líður hjá vinur, við höfum nú flestir gengið í gegnum þetta þegar ég byrjaði til sjós, var ég sjóveikur af og til allt sumarið.“
Ekki voru þetta nú upplífgandi upplýsingar því þótt líðanin skánaði ögn eftir að ég ældi, byrjaði ógleðin og vanlíðanin fljótlega aftur.
„Minnkaðu aðeins rifuna á glugganum, vinur, svo að pusi ekki inn en þú getur líka lagt þig á bekkinn í bestykkinu.“
Aftan við niðurganginn í vélarrúmið var örlítill klefi þar sem stóra talstöðin hékk uppi á vegg, þar var borð sem á var sjókort með plexígleri yfir og örmjór bekkur til að sitja á við borðið. Stjórnborðsmegin var svo skipstjóraklefinn. Bekkurinn var svo stuttur að ég þurfti að liggja þar með lappirnar bognar og spyrnti í þilið á vélarhúsniðurganginum.
Þessi nótt var svo ömurleg að ég hét sjálfum mér því að koma mér í land hið snarasta að loknum þessum túr. Þetta var ekki það ljúfa líf sem sjómennskan hafði alltaf verið í huga mér. Ég náði að blunda undir morgun en hrökk upp við mannamál og fór fram. „Jæja, þarna ertu þá gæskur,“ sagði Már sem stóð aftan við stólinn hjá Óla á hvítum síðum nærbuxum. Báturinn valt ekki nálægt því eins mikið og um nóttina og úti var glaðasólskin. „Farið þið nú fram í, strákar mínir, við erum bráðlega komnir á miðin, varstu búinn að ræsa Steina?“
„Já já,“ segir Óli „grauturinn er ábyggilega tilbúinn, ég ræsti hann fyrir hálftíma síðan. „Heyrðu, Nonni minn, náðu í kaffi í könnuna mína, ég sé að Óli er búinn úr brúsanum, Steini veit hvernig ég vil hafa kaffið og segðu honum að ræsa strákana.“
Mér leið miklu betur núna en um nóttina og allar fyrirætlanir um að gefast upp á sjónum voru roknar út í veður og vind.
Ég fylgdist vel með þegar trollið var látið fara og svo var byrjað að toga. Við fórum svo allir niður í kaffi nema karlinn og svo fór Óli í koju enda búinn að vaka alla nóttina. Karlarnir spjölluðu um heima og geima og sjóveikin alveg horfin. Eftir tæplega þrjá klukkutíma var kallað hífopp og þegar pokinn kom inn fyrir voru rúmlega þrjú tonn af boltaþorski og stórri ýsu í. „Þetta ætlar bara að byrja vel,“ sögðu karlarnir og karlinn í brúarglugganum virtist ánægður með halið.
Ég var a.m.k. ánægður, nú líkaði mér lífið.