Saga Vestmannaeyja II./ III. Atvinnuvegir, 2. hluti, framhald

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. mars 2013 kl. 16:57 eftir Víglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. mars 2013 kl. 16:57 eftir Víglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Fuglaveiðar og eggjatekja.
(2. hluti, framhald)


Sig. Við fýlunga- og súlnaveiðar o.fl. nota menn bönd og vaði og fara sigaferðir utan í björgin: súlna- og fýlungasig, einnig svartfugla- og eggjasig. Leiðin í bjarginu, sem sigmaðurinn fer, er kölluð ferð. Farið á sama stað og aðsótt sama svæðið ár frá ári í sömu ferðinni. Vissir staðir í fjöllunum eru kallaðir ferðir, og hafa myndazt af þessu örnefni, sjálfsagt frá gömlum tímum, í fuglabyggðum í Vestmannaeyjum, t.d. Ferðin, Við ferðina o.s.frv., Langa ofanferðin, Vonda ofanferðin, Vítisofanferð o.s.frv., eða ferðin er nefnd eftir siginu: Langi lærvaður í Súlnaskeri og Elliðaey.
Við stórsig, einkum loftsig, er sigamaðurinn „bundinn á báðum“ eins og kallað var. Þá er bandinu brugðið yfir bæði lærin, svo að setið var sem í stól, og síðan bundið yfir aðra öxlina, undir hendinni, og lausu bandi brugðið yfir. Sigaband eða ól sett undir annan handlegginn og gekk sigatrossan undir ólina. Rifhnútur var hafður á bandinu, sem bundið var yfir um. Var mjög mikill vandi að láta sér ekki snúa í loftsigum. Köstuðu menn sér út frá berginu með harðri spyrnu og tóku margra faðma kast til beggja hliða, hliðarrið, til þess að ná með kastinu inn á bekki og syllur, þar sem fuglinn var. Ef manninum snéri á riðinu, gat honum verið bráður bani búinn. Erfiðustu sigin voru svokölluð Stórhellasig í Hellisey, og voru þau ekki annarra meðfæri en albeztu og fræknustu fjalla- og sigamanna. Við stórsig voru 2—3 undirsetumenn, er bjuggu um sig með góðri fótspyrnu uppi á brúninni, og gáfu þeir sigamanninum niður hægt og jafnt, eftir bendingu brúnamannsins, sem lá frammi á brún og hafði gát á sigamanninum, hvað honum leið, og gaf hinum bendingar þar um, hvenær átti að gefa eftir á bandinu, „gefa á“, eða herða á því, „hafa á“. Við stórsigin er sigamaðurinn alveg á valdi undirsetumannanna. Öðru máli gegnir um ýms önnur sig, þar sem sigamaðurinn sjálfur leikur í bandinu, sem að vísu er í höndum undirsetumannanna, rennir sér niður og les sig upp o.s.frv., t.d. á lærvað.
Á lærvað er bandið haft laust og því haldið við lærið og gefið til með hendinni. Fer sigamaðurinn á lærvað þannig niður bergið oft í stórum loftköstum eða riðstökkum og les sig upp bergið með því að feta bandið, bregður endanum á því undir ilina á öðrum fætinum, um leið og hann kreppir sig í hnjáliðunum, heldur bandinu föstu með hinum fætinum og fær þannig viðspyrnu, réttir úr sér og færir sig ofar á bandinu. Svona koll af kolli, unz komið er alla leið upp á brún. Við steinsig svokallað er manninum rennt niður sem kólfi eða sökku. Við þessi sig höfðu menn kröku til að krækja sig inn á bælin.
Loftsigin eru mjög erfið, sérstaklega þar sem smáloft eru og oft þarf að ná sér inn á bæli. Menn hafa riðkastið mjög langt, 15—20 faðma, og innkastið inn á bælin er sums staðar 5—7 faðmar, og eru fáir svo fræknir, að þeir standist þessa áraun. Þegar menn ná sér inn á bæli á riðkasti, verður að hnitmiða niður, þegar sigamaður áætlar, að hann geti náð sér inn, alveg eins og fugl á flugi miðar sig til þess að ná inn á bjarghillur. Með góðri viðspyrnu frá berginu fæst framkastið, því harðara og lengra fram í loftið, sem betur er spyrnt, unz unnt verður að ná inn á bælin og stöðva sig þar með handfestu.
Þungt er að draga mann upp í böndum, einkum ef bandið nemur við bergið, og veitir þá eigi af 3—4 mönnum og jafnvel fleirum, ef margar ofanferðir eru gerðar, svo sem við eggjatöku, 10—20 í sömu eynni. Meðan dregið er upp, reynir sigamaðurinn að halda riðkastinu. Það léttir mikið dráttinn, en ef riðið fer af manninum og hann hangir í lausu lofti og getur eigi veitt viðspyrnu, veitist drátturinn harla erfiður. Hver góður sigamaður forðast þess konar.
Þegar sigamaðurinn við loftsig nær sér inn á bælin, gefur hann undirsetumanninum bendingu um, að hann gefi ekki eftir á bandinu í bili, né dragi að sér, og um leið og hann aftur hendir sér á bandinu út af bælunum, gefur hann merki til undirsetumanna um að þeir taki í, „hafi á“. Verður þetta allt að gerast með stakri nákvæmni, því að ef nokkuð ber út af, getur það kostað manninn lífið. Venjulega er sigið í tvöföldu bandi, og hafa menn annan endann lausan, og lesa sig upp á lausa bandinu, en undirsetumennirnir draga hitt, sem bundið er um manninn, upp jafnóðum. Mjög mikil áraun er að lesa sig upp á bandi, stundum ef til vill með fulla eggjaburu. Að jafnaði lesa menn sig ekki upp, nema þar sem ekki er loft, en bandið fylgir eftir. Við lærvað er mjög mikill vandi að láta sig síga jafnt, er menn fara á riðkasti niður, því að annars er hætta á, að maðurinn steypist í loftköstum og rotist.
Hnoðaburður er notaður víða í fjöllum. Boltarnir eru reknir 4—5 þuml. í bergið og út úr stendur 1½ —2 þuml. Bandið er sett yfir boltann og heldur maðurinn niðri í annan endann, en hinn sígur á lausa endanum.
Á fýlaveiðum er oftast látið nægja, þar sem farið er um grastær og berg, bekki og hvannastóð, að binda aðeins bandið utan um mittið á manninum, og er hann þá frjálsari í öllum vöfum og getur brugðið sér inn í fýlabyggðina og komið víða við, eða tínt upp fýlahreiður, þar sem þau eru á stangli um nef og slakka. Á fýlaveiðum „ganga“, sbr. göngumaður, bjargmaður, venjulega tveir saman, situr annar undir, en hinn sígur ferðirnar. Stundum klifra menn utan í og hafa með sér sigaband til afnota, þar sem með þarf, og er það kallað að styðjast við band. Þar, sem eigi var hægt að koma við böndum utan í, urðu menn að fara lausir.
Vaðarhæð kallaðist sú vegalengd í bergi, er vaður (áður nautuvaður) náði, um 12 faðmar. Nautavaðir voru notaðir fyrrum við sig í Vestmannaeyjum og fram um 1880. Síðasti nautavaðurinn í eyjunum var notaður við sig í Súlnaskeri, og var sagt, að hann hafi slitnað, er hann var dreginn af. Nautavaðir skyldu helzt eigi vera af yngra en þrevetru nauti, þeir voru lýsisbornir, holdrosinn hafður á brúnina og hárramurinn upp. Sigaböndin, sem notuð eru á seinni tímum, eru kaðlar, um 3 þuml. að digurð. Vaðarhæð er nú talin 15 faðmar. Ein trossa er venjulega tvær vaðarhæðir. Fyrir böndin var goldinn festarhlutur, ef sameignarmenn áttu þau ekki sjálfir. Sigamaður fékk sigahlut. Í lengstu sig þarf 90—100 faðma trossu. Einna mest er Stórhellasigið, sem víðfrægt er í Vestmannaeyjum, og sigið ofan af Hellisey, þar sem hún er hæst. Hátt og erfitt sig er og Illanefssigið í Geldungi. Á Molda, í Hánni og Hábarði í Elliðaey eru og há sig. Um sigin í Vestmannaeyjum er gömul vísa:

„Há eru sig í Háubælum* og hættuleg,
Hábrandinn ei hræðist eg,
en Hellisey er ógurleg“. *(Háubæli í Elliðaey)

Hefir löngum verið erfitt að fá menn til þess að síga Stórhellasigin. Þó hafa þau verið sigin fram til þessa, þar til fyrir fáum árum að því er hætt. 1828 sóttu eyjabændur, er áttu Austursóknina í Hellisey, um að fá lækkun á jarðarafgjöldum vegna rýrnunar á súlnatekju, er enginn fengist til að síga Stórhellasigin, 4 vaðarhæðir, sbr. bréf bænda til sýslumanns 24. maí 1828.¹)
Sigum, stórsigum, löngum lærvaðssigum og loftsigum, má jafna við hin djarfmannlegustu og stórfelldustu íþróttaafrek. Góður sigamaður þarf að eiga óbilandi áræði og hug, líkamsþrek og þol í ríkum mæli, frábært snarræði og lipurð. Sjón og heyrn þurfti og að vera í bezta lagi, því að eigi mátti sigamanni skjöplast í neinu.²) Meðal helztu sigamanna og fjallamanna voru: Árni Þórarinsson, d. 1917, Gísli Lárusson kaupfélagsstj., d. 1935. Jón Pétursson, Kristján Ingimundarson, Árni Árnason, Ágúst Gíslason og Jóel Eyjólfsson frá Kirkjubæ. Seinna: Guðni Johnsen útvegsbóndi, d. um þrítugt 1921, Jón Magnússon, Snorri Þórðarson útgerðarmaður, Steini, drukknaði 1926, Sigurgeir Jónsson í Suðurgarði, talinn mestur klettamaður í eyjum, hrapaði í Bjarnarey vorið 1935, Sigurjón Sigurðsson frá Brekkhúsi, Sveinbjörn Einarsson frá Þórlaugargerði, Sveinbjörn Jónsson frá Dölum, Svafar Þórarinsson frá Suðurgarði, Hjálmar Jónsson frá Dölum o.fl. Fjallamenn góðir voru Vilborgarstaðabræður taldir og Magnús Vigfússon.
Lundaveiðar. Í Vestmannaeyjum verpir ógrynni af lunda, bæði í fjöllum og utan í brekkum á Heimaey og í úteyjum. Lundinn er farfugl, kemur í lundabyggðina hér, tekur heima, eins og sagt er venjulega, snemma í maí og fer aftur til suðlægari landa síðla sumars, dvelst lengur, ef vætutíð er, en er þó alfarinn að áliðnum september.
Veiðiaðferðir. Greflaveiðar hafa verið mjög lengi tíðkaðar, og eru það elztu veiðiaðferðirnar, sem menn þekkja nú. Lundagreflar voru tvenns konar, langgrefill, 1½ alin á lengd, og stuttgrefill við stuttar holur, 3/4 úr alin. Framan í grefilskaftið var festur járnkrókur. Veiðimaður, lundamaður, lagði með greflinum inn í holuna, þar sem fuglinn átti hreiður sitt, og teygði handlegginn upp að öxl inn í holuna, unz hann gat krækt í fuglinn og dregið hann út. Lundaholur eru frá 1—3 al. á dýpt venjulega, en stundum hittast fyrir miklu lengri holur og varð þá að stinga holuna upp á einum eða fleiri stöðum. Lundamenn stungu upp með hælunum í stað skóflu, og gerðu til þess hátt tilhlaup. Í hverri lundaholu eru ein lundahjón. Væru þau bæði drepin eða annað hjónanna, kom nýr lundi í holuna í staðinn, og hafa veiðimenn þannig tekið marga lunda, jafnvel 15—20, í sömu holunni með nokkru millibili. Virðist sem seinni fuglarnir komi í holuna til þess að unga út egginu eða hjálpa til þess, þegar búið er að drepa foreldrana. Telja ýmsir, að þetta sé sama fjölskyldan, er að holunni sækir, sbr. og umsögn færeyskra fuglamanna hér um.³) Í Vestmannaeyjum hafa menn t.d. tekið eftir því, er vart hefir orðið við lundaafbrigði, lundakóng eða prins, sem eru auðþekktir, að sami fuglinn hefir ætíð, ár eftir ár, haldið sig á sömu slóðum í sömu úteynni, og styrkir þetta ofangreinda umsögn.
Séra Gissur segir í sóknarlýsingu sinni: „Hænan liggur á egginu, en haninn dregur að smáseyði, 3—4 í senn. Þá hænan verður drepin, leggst haninn á. Verði haninn drepinn, leggst annar á, þriðji og fjórði“ o.s.frv. Í sóknarlýsingunni segir og frá því, að menn hafi sett út veiðibrellur fyrir fuglinn, er leið á sumar. Kölluðust þær hjálmar. Voru það ólar, vel spannarlangar með tveim fingurlöngum hælum, sínum í hverjum enda, og þrennum snörum upp úr ólinni, snúnum af hestahári, á digurð við seglgarn. Hælarnir voru reknir niður í þúfnakolla, en snörurnar látnar standa upp úr. Með þessum hætti var veitt fram undir Þorláksmessu á sumrin. Þessi veiðiaðferð, er lögð er niður fyrir löngu, hefir verið viðhöfð eftir að búið var að fara í holurnar.
Greflaveiðin, er var hin hrottalegasta veiðiaðferð, tíðkaðist mjög lengi í Vestmannaeyjum sem annars staðar hér á landi. Var hún þó lögð niður hér að mestu löngu fyrr en annars staðar á landinu, eða um 1875, er eyjamenn tóku að veiða lunda í háf. Meðan greflaveiðar voru stundaðar þekktist það, að kvenmenn tækju þátt í veiðunum, „færu með grefil“, og lægju við í úteyjum. Annars tóku konur eigi þátt í fuglaveiðum.⁴)
Duglegir greflaveiðimenn stungu lundaholuna upp með hælunum, þannig að fóturinn sökk í upp undir hné, og stukku í háaloft, stundum með raðað á beltið af fugli. Menn, sem tóku mjög þátt í greflaveiðum, fengu vaggandi göngulag, bæði af því að stökkva og bera mikið á belti.
Við greflaveiðar náðu duglegir veiðimenn 4—6 hundruðum á dag,⁵) og dæmi voru til þess, að maður næði 1000 fuglum á dag. Eins og áður segir, var það mest eggfugl, en eigi geldfugl, er drepinn var.
Um miðbik 19. aldar var tekin upp netjaveiði. Sú veiðiaðferð var í því fólgin, að net með líkri möskvastærð og háfsnetið var sett yfir lundaholurnar í lundabyggðinni. Fuglinn festist í netinu, bæði þegar hann kom utan að með síli í nefinu til að færa í hreiðrið, ef honum á annað borð hafði tekizt að sleppa út, og er hann ætlaði að fljúga úr holu sinni út á sjóinn, til þess að leita bjargar. Með þessu móti var nær allur fugl, er við hreiðrin var, drepinn, en unginn svalt til bana inni í holunum, og tók þannig fyrir viðkomuna. Meðan netjaveiðin var stunduð, fóru margir frá jörð og hver maður hafði mörg net. Veiddist fyrstu árin mjög mikið. Yfirdráttarnet voru og notuð, og slegið yfir lundabreiður, þar sem fuglinn sat mjög þétt, einnig uppistöðunet við brúnir, loftnet og hleypinet. Eftir tíundaskýrslum frá þessum tíma komst framtalið af lundaveiði yfir 300,000 fugla á ári í eyjunum, og hafa þó sjálfsagt eigi öll kurl komið hér til grafar. Árið 1856 töldu rúmir 80 manns fram fuglaveiði í eyjunum. Var framtalið af lunda það ár alls 331 þúsund.⁶) Fyrir miðja öldina er framtalið af lunda um 200,000 og 1831 um 80,000. 1839 er heildarframtalið svipað.⁷) Gera mun mega ráð fyrir mun meiri veiði en framtalið að jafnaði greinir. 1892 er framtalið af lunda 74.000.⁸) Um miðja 19. öld var lundinn metinn á 1 sk., fýlungi 2½ sk., súla 6 sk.⁹) Um 1880 er matið á fýl 4 sk. og súlu 16 sk. 1892 er lundinn metinn á 6 aura, fýlunginn á 8 aura, svartfugl á 10 aura og súla á 35 aura. Um aldamótin síðustu var gangverð á fýlunga 10—12 aurar, súlu 36—40 aurar og lunda 8—10 aurar.
1859 gerðu sameignarmenn úteyjanna með sér ýmsar takmarkanir, er miðuðu að því að draga úr netjaveiðinni. Samþykkt fyrir Yztaklett, undirrituð af 10 mönnum, er þar höfðu veiði, 14. júní 1859, um að eigi skyldi þar veitt fyrr en eftir 15. júlí, og eigi nema eitt net haft frá hverjum. Sameignarmenn í Elliðaeyjarleigumála fylgdu eftir 15. júní s.á. og samþykktu, að notuð verði 2 net á jörð og eigi farið fleiri ferðir í eyna, en þetta er mesta veiðieyjan, til þess 13 vikur af sumri. Suðureyjarmenn, þ.e. ábúendur Vilborgarstaða og Kirkjubæjar, samþykktu 1 net frá jörð. Nokkru síðar, 1867, gaf þáverandi sýslumaður eyjanna, Bjarni Magnússon, út auglýsingu um bann gegn því að nota net við lundaveiðar í Vestmannaeyjum. En þarna gekk sýslumaður út fyrir valdsvið sitt, því að það var gömul venja og hefð í eyjunum, að sameignarbændur gætu með samþykktum sín á milli innan vissra takmarkana ráðið veiðitilhöguninni. Og er sýslumaður leitaði til amtsins, til þess að fá samþykki þess til téðrar ráðstöfunar um bann við netjaveiðinni, sem að vísu var mjög þarflegt, neitaði amtið að staðfesta úrskurð sýslumanns, á þeim grundvelli, að hann væri eigi löglegur og kæmi í bága við ákvörðunarrétt bændanna samkvæmt byggingarbréfum þeirra. Höfðu gengið skrif um mál þetta milli téðra aðilja, sýslumanns og amtmanns, og einnig dómsmálaráðuneytisins, og komið til tals að gefa út lög um bann gegn fuglaveiði með netjum. En stjórnin treystist eigi til að setja nein ákvæði, er skertu veiðirétt bænda, sbr. byggingarbréfin. Varð það loks ofan á, að bann við þessari veiðiaðferð var tekið upp í ný byggingarbréf, og samið við þá bændur, er ábúðarrétt höfðu, með því að stjórnin leit svo á, sem nú er sagt, að taka bæri fullt tillit til byggingarbréfa bænda, sbr. bréf dómsmálaráðuneytisins 21. okt. 1868 og 12. maí 1869.¹⁰)
Nokkrum áratugum áður en hér er komið sögu hafði eflzt deila milli jarðabænda og tómthúsmanna, er notfærðu sér fuglaveiði, lundaveiði. Þessa veiðiréttar höfðu tómthúsmenn í eyjunum notið frá fyrri tímum án sérstaks leyfis bænda, en í skjóli umboðsmanns. Er óvíst, hversu lengi þessu hefir verið þannig varið, að úteyjar væru nokkurs konar almenningur, að minnsta kosti hvað lundaveiði snerti. Mun þetta jafnan hafa verið illa séð af bændum, og lúta urðu tómthúsmenn því, að skemma eigi grasrót eða haglendi í úteyjum, sem hætta var alltaf á, meðan greflaveiðar voru stundaðar. Hins vegar máttu tómthúsmenn eigi taka egg, og í fýlungaferðunum, eftir að þær hófust, höfðu tómthúsmennirnir enga hlutdeild. Það er eigi ósennilegt, að umgetin fríðindi um veiði, sem tómthúsmenn nutu, stafi að minnsta kosti að nokkru leyti frá síðari hluta 16. aldar, og að forstöðumaður konungsverzlunarinnar, Símon Surbech, hafi hér haft hönd í bagga, með það fyrir augum, að fá tómthúsmenn til þess að setjast að í eyjunum, er kom sér vel fyrir konungsútgerðina. Á þennan hátt jókst og fiðurinnlegg í konungsverzlunina, en lundafiður var þá ágæt verzlunarvara og seldist góðu verði til Englands og Þýzkalands. Seinna var og lagt blátt bann við því, eins og með fiskinn, að fiður væri flutt burtu úr eyjunum til skaða fyrir konungsverzlunina, og forstöðumanni falið að hafa gætur á þessu.¹¹)
Veiðiafnot tómthúsmanna héldust ennþá, er komið var fram á 19. öld, þrátt fyrir ýfingar bænda, en tómthúsmenn hins vegar rækilega studdir af kaupmönnum. Lundaveiðar hafa verið fremur litlar lengi, unz netjaveiðin var hafin. Vorið 1829 gáfu bændur, er höfðu byggingu fyrir Álfseyjar- og Elliðaeyjarjörðum, út bann við veiði tómthúsmanna í nefndum eyjum. Bannið var lesið upp eftir messu við Landakirkju tvo sunnudaga í röð: 24. og 31. maí.¹²) Sýslumaður úrskurðaði, að tómthúsmenn mættu veiða lunda, eins og verið hefði, en eigi taka egg, né veiða fýlunga, og sat hér við um hríð. Nokkrum árum síðar, á manntalsþingi 1832, kærði Eyjólfur hreppstjóri Þorbjarnarson á Búastöðum yfir því til sýslumanns, að grasnytjar í Elliðaey lægju undir stórskemmdum fyrir ágangssemi manna við veiðar í eynni. Bar hreppstjóri fyrir sig byggingarbréf bænda um að þeir þurfi eigi að líða þetta, og var því eigi mótmælt. Dró nú úr veiði tómthúsmanna. Leið nú eigi á löngu þar til kaupmenn létu til sín heyra um þessi mál. Þannig kærði Knudtson kaupmaður í eyjunum til stjórnarvaldanna yfir téðu banni bænda gegn veiði tómthúsmanna, er væri til stórhnekkis fyrir verzlun hans, vegna þess hve fiðurinnlegg rýrni hjá mönnum, sbr. rentuk.br. 7. maí 1836. Eigi vildi stjórnin samt taka afstöðu til þessara mála, er hún taldi bændur eyjanna ráða eina um og væri hinna að semja við þá. Í Yztakletti voru seld svokölluð lundaboð, þ.e. réttur fyrir einn mann til að stunda þar lundaveiði sumarlangt, og kostaði 1 rd. fyrir manninn. Fýlaboð kostaði 7 rd.
Frá þessum tímum hafa tómthúsmenn stundað veiðarnar í skjóli bænda, eða með leyfi þeirra, en ennþá voru engar takmarkanir gerðar á því, hversu margir menn mættu stunda veiðar frá hverri jörð. 1856, er var hið mesta veiðiár, var lundaveiði tómthúsmanna einna um 74,000 fuglar og húsmanna 18,700, samanlagt um 1/4 af allri veiði þess árs. Mest veiði hjá einum bónda var 18,000 fuglar og hjá tómthúsmanni rúmir 9,000 fuglar.¹³)
Síðan um 1875 hefir lundaveiði í Vestmannaeyjum verið stunduð með háf og framan af jafnhliða stunduð greflaveiði. Talið er, að J.P.T. Bryde kaupmaður hafi útvegað Árna bónda Diðrikssyni í Stakkagerði fyrsta háfinn frá Færeyjum vorið 1875, og veiðiaðferðin tekin upp eftir Færeyingum. Háfsskaftið er um 6 álnir á lengd, nokkuð mjórra að framan. Fram af því eru háfsspækurnar festar á skaftið með spækarlásnum, sem er úr látúni og gengur utan um skaftið, ca. 4 cm. fyrir neðan hölgdina. Lásinn er og til prýði, en þyngir dálítið háfinn. Ef eigi var hafður lás á háfnum, er gerði háfinn dálítið dýrari, var höfð hölgd úr eik og fest við endann á skaftinu. Á henni eru þrjú göt, eitt fyrir skaftið, tvö fyrir spækurnar og síðan margvafið um snæri. Háfsspækur skyldu vera úr álmvið, nál. 2 álnir að lengd. Milli spækanna var háfsnetið fest. Það er riðið úr seglgarni, möskvarnir um 2 þuml. Netið er haft það vítt, að það lafir um 1/2 alin milli spækanna, þegar háfurinn er borinn. Snæri er bundið um háfsspækurnar að framan og þær beygðar svolítið saman. Í háfinn tekur veiðimaðurinn fuglinn á flugi, og þarf maðurinn því að vera vel á varðbergi og reynir allmikið á skjótleik, afl og snarræði þess, er með háfinn fer og þarf einnig mikla æfingu til þess að geta snúið háfnum, sem er allþungur, eins og snarkringlu í kringum sig, og tekið fuglinn, hversu sem við snýr, oft á tæpum snösum eða bergbrúnum, eins fyrir aftan sig, en þetta leika að vísu ekki nema hinir færustu fuglamenn, veiðimenn. Veiðimaðurinn velur sér stað frammi á brún eða við nef og slakka og leggur út háfinn, oft þannig, að skaftið ber nokkuð fram af brúninni. Reynir maðurinn að láta sem minnst á sér bera, bregður háfnum snöggt, ef fugl kemur í færi, og missi veiðimaður ekki marks, lendir lundinn í háfsnetinu og festist þar. Aðstaðan til veiðanna fer mjög eftir því, hvernig vindstaðan er. Sömu veiðistaðirnir eru ræktir ár frá ári, og hefir svo gengið frá ómunatíð. Það, sem veiðist í háf, er mest geldfugl, er flýgur fyrir brúnum. Inni í sjálfri lundabyggðinni er sjaldnar veitt, veiða í byggð, enda er hreiðurlundinn, sílislundinn, mjög styggur og erfitt að festa tak á honum, en eins og áður segir var aðalveiðin í lundabyggðinni sjálfri áður, meðan netja- og greflaveiðin var stunduð. Mjög mikið kapp hefir jafnan verið hjá veiðimönnunum um að ná í beztu veiðistaðina og sátu duglegustu veiðimennirnir að úrvalsstöðunum, en sá, er fyrstur kom „í stað“ að morgni, hélt honum allan daginn.¹⁴) Ágæt veiði þótti 2—3 hundruð fuglar á dag, en það kom fyrir, að einn maður veiddi 7—8 hundruð,¹⁵) en mjög var sú veiði fágæt. Á síðari árum hefir minnkað mjög lundaveiðin í Vestmannaeyjum, eins og önnur fuglaveiði, enda miklu minna gefið sig að veiðinni með hverju ári sem líður. Veiðina í úteyjum stunda nú fáir menn og stundum aðeins nokkuð af fuglatímanum, svo að sóknin er nú lítil samanborið við það, er fyrst var tekin upp veiði með háf, en þá hafði sú takmörkun verið gerð, að aðeins færi einn maður með háf frá jörð, en til þess tíma hafði, eins og getið hefir verið, lítt verið settar skorður um tölu fuglamannanna. Veiðin hefir minnkað af skiljanlegum ástæðum, en eigi af því, að fuglinum hafi fækkað mjög verulega, en margir telja, að nú sé erfiðara að ná í fuglinn í háfinn, sökum þess að hann fælist háfsskaftið, er hann sé farinn að venjast, líkt og allur fugl fælist byssu.¹⁶) Búið var nær fyrrum að eyðileggja alla veiði á Heimalandinu með gegndarlausri aðsókn, meðan gömlu aðferðirnar voru viðhafðar. Síðan var Heimalandið friðað um alllangt skeið, en veiði þar tekin upp aftur, er fuglinum tók að fjölga, og veiddist þar nú drjúgum. Lundinn verpir eins og áður segir í grastóm utan í fjöllum og uppi á graslendi eyjanna, en einnig nokkuð í urðum og grjótskriðum. Lundaunginn, sem í Vestmannaeyjum kallast pysja, sama orðið og notað er í Færeyjum, er eigi drepinn. Á fýlaferðum taka fýlamenn stundum pysju á beltið, „hlaða á belti“ og hafa að óskiptu það, er þeir þannig komast yfir. Á beltið má raða allt að 60 fullorðnum fuglum í senn. Kallast það beltislundi. Í Færeyjum heitir og beltislundi, sem veiðimaður hefir á beltinu, og fær sums staðar að óskiptu.¹⁷) Ungir lundar kallast hér kolapiltar, áður en nefrætur fá rauða litinn.
Rottur hafa eigi skemmt fuglabyggðir í Vestmannaeyjum ennþá, eins og t.d. sums staðar í Færeyjum, enda eru rottur fyrir fáum árum komnar til eyjanna, Heimaeyjar, en hafa eigi sézt í úteyjum. Í úteyjum hafa aldrei verið mýs.
Um miðja 19. öld voru bönnuð skot við fuglabyggðir, bæði á Heimalandi og í úteyjum, og friðhelgi við fuglabyggðir lýst á manntalsþingum.¹⁸)
Lundaveiði hefir verið stunduð í Vestmannaeyjum frá því fyrst er sögur hófust þaðan. Munu landmenn, áður en eyjarnar byggðust, hafa dregið þaðan aðföng til búa sinna í fugli, lunda aðallega.¹⁹)
Áður fyrrum og það alllengi fram eftir tímum hafa lundaveiðar hér verið stundaðar á vorin, eða skömmu eftir að fuglinn kom í fjöllin, fyrir eggjatímann, en nú er fyrir löngu hætt að veiða lundann fyrr en eftir að öllu varpi er lokið og unginn skriðinn úr eggi. Í umboðsreikningum frá Vestmannaeyjum frá lokum 16. aldar sést, að farnar hafa verið margar sóknarferðir eftir lunda í úteyjar á konungsbátunum. Þessar ferðir byrja um miðjan maí og er haldið áfram fram í miðjan júlí. Á þessum tíma hljóta því lundaveiðar að hafa verið stundaðar í úteyjum, áður en lundinn byrjaði að verpa og um varptímann, og egg þá ef til vill einnig tekin, en lundinn með greflum. Þetta sést og af máldaga Steinakirkju undir Eyjafjöllum frá 1371, er átti hálfsmánaðar veiði í Elliðaey milli þings og fardaga.²⁰) Sama tíðkaðist í Færeyjum fyrrum.²¹) Þar var lundi veiddur um hálfsmánaðartíma með greflum á hverju ári frá byrjun maí til maíloka, en síðan veitt í háf. Nú byrjar lundaveiði í Færeyjum árlega um júnímánaðarlok.²²)
Til forna, meðan landmenn stunduðu lundaveiðar í Vestmannaeyjum, munu þeir hafa farið til veiða í maí og júní og einnig tekið egg. Um viðlegur í úteyjum, eins og nú tíðkast fram á slátt, mun hafa verið minna.


Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Sýsluskjöl V.E., XXX, III, Þjóðskj.s.
2) Sig í þeirri mynd, er hér er lýst, mun ekki vera til eða mjög fátítt með öðrum þjóðum.
3) Sjá rit um fuglalíf í Færeyjum: Alvin Pedersen: Myggenæs, Khavn 1935.
4) Síðustu fuglveiðikonurnar munu hafa verið Þorgerður Gísladóttir frá Görðum í Vestmannaeyjum, f. 1840, atgerfiskona, fyrri kona Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar, og Guðlaug nokkur.
5) Afburða greflaveiðimaður var Samúel Bjarnason í Kirkjubæ, er fór til Ameríku 1854.
6) Af fýlunga var framtalið um 25,000.
7) Fuglatíundaskýrslur V.E., sýsluskjöl, Þjóðskj.s.
8) O.G. í Ísafold 1893.
9) Sýsluskj. V.E., Þjóðskj.s.
10) Isl. Copieb. 1868 og 1869, nr. 849; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, 563—565 og 622—623, nr. 426; Lovs. XX, 102 og 156—158.
11) Sjá erindisbréf Pauls Pedersens, dags. 14. nóv. 1590, Rentek. Brevb. 1584—1592, 488—489.
12) Sýsluskj. V.E., Þjóðskj.s.
13) Hreppsreikningar V.E., Þjóðskj.s.
14) Sums staðar á Heimalandi hefir verið svo mikið kapp um staðina, t.d. í Stórhöfða, að veiðimennirnir hafa haldið vörð um þá um nætur.
15) Mesta veiði, sem heyrðist talað um, var um 1200 fuglar á dag, en þess munu fá dæmi.
16) Væri líklega ráðlegast að hverfa frá þessari veiðiaðferð og taka upp aðra um stundarsakir.
17) I.C. Svabo: Föroyaferðin 1781—82, bls. 20.
18) Sjá tilskipun um veiði 20. júní 1849.
19) Alkunn er gamla víkivakavísan: Loftur er í eyjum, | bítur lundabein, | Sæmundur at heiðum | ok etr berin ein. Flýði Loftur biskupsson (Páls Jónssonar) út í eyjar 1222, en Sæmundur frændi hans til fjalla fyrir Gissuri Þorvaldssyni (Oddaverjaannáll, Ísl. annálar, bls. 66.
20) Ísl. fornbr.s. III, 212.
21) Föroyaferdin.
22) Myggenæs, Alvin Pedersen.

Framhald 2

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit