Saga Vestmannaeyja I./ VIII. Þjóðlífslýsingar, 2. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. desember 2011 kl. 21:48 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. desember 2011 kl. 21:48 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Tyllidagar og almennar skemmtanir.


Fyrrum hefir það lengi verið siður að veita almenningi í eyjunum glaðning á hreppastefnu eða kirkjustefnu. Í kirkjusamþykkt fyrir Landakirkju 11. okt. 1606, 7. gr., er ákveðið, að kosta megi fyrir peninga kirkjunnar eina tunnu öls til glaðnings handa fólki. Hefir á kirkjustefnunni verið safnað gjöfum handa kirkjunni í sambandi við mannfagnað, sennilega útiskemmtun, er fólki hefir verið haldin á vorin. Sést þessa oft getið fram eftir 17. öldinni og lagt til hátíðarinnar vín og öl ríkulega. Barst kirkjunni á þessum samkomudögum mikið af gjöfum í fiski eða loforðum um fisk frá nær öllum búendum í eyjunum.¹) Í máldaga Kirkjubæjarkirkju frá 13. öld segir, að skylt sé að halda kirkjudag (kirkjuvígsludag) kirknanna að Kirkjubæ og Ofanleiti eins og tíðkaðist í katólskum sið. Kirkjudagurinn hefir verið almennur samkomudagur fólks. Upphafsins til fiskgjafanna til kirkjunnar má ef til vill leita til matgjafa, er tíðkuðust í katólskum sið til kirkjunnar.
Skemmtanir munu hafa verið haldnar í sambandi við kaupstefnur Englendinga á 15. öld og síðar. Kaupstefnurnar sóttu eyjamenn og fjöldi fólks úr nærsýslunum af landi, alla leið austan af Síðu og ef til vill lengra að. Á Englandi var markaðstíminn fyrrum kallaður vaka, og voru það aðalskemmtidagar ársins og vakað nætur og daga. Svipað getur hafa átt sér stað í sambandi við hinar ensku kaupstefnur í Vestmannaeyjum. Í reglunum fyrir kaupsetningunni er talað um vökumerki og landmönnum og eyjamönnum boðið að fara eftir því.²)
Af þjóðlegum skemmtunum, er tíðkazt hafa í eyjunum áður, mun mega telja gleðir eða vikivaka, er iðkaðir hafa verið hér sem annars staðar, mest um jóla- og nýjársleytið og um föstuinngang. Að vísu finnst eigi getið sérstaklega um vikivaka hér, en til hafa samt verið hér, löngu eftir að vikivakarnir voru úr sögunni, kvæði og kvæðabrot frá gömlum vikivakaleikjum, er einstöku menn kunnu.³) Talið er, að fyrst hafi útlendir dansar verið sýndir í Vestmannaeyjum um 1860 í brúðkaupsveizlu. Dansaði eitt par í umgetinni veizlu. Dans eða dansleikir tíðkaðist eigi almennt hér fyrr en eftir 1880. Fólk skemmti sér við gamlar þjóðlegar íþróttir.
Blysfarir og álfadans var siður á seinni tímum að halda á þrettándanum og stórar brennur þá kyntar á fjallahnjúkum, uppi á Helgafelli og víðar. Í blysin var hafður táinn hampur úr gömlum skipsköðlum og sigaböndum eða reiðingstorf smurt í olíu eða lýsi og hrátjöru. Álfadansinn fór fram undir forustu álfakóngsins, er venjulega var hæsti maðurinn á eyjunum, og álfadrottningarinnar, er var næsthæsti karlmaðurinn og bar skautbúning og hvítan kyrtil. Þátttakendur voru allir grímuklæddir, flestir vel búnir, en sumir klæddu sig allafkáralega, sem margýgir og skrímsli. Dans var stiginn og blysin borin og sungið „Nú er glatt í hverjum hól“ o.s.frv. Allir, sem vettlingi gátu valdið, komu til að horfa á álfadansinn, er venjulega fór fram á grundunum undir Stóra-Klifi, Póstflötum svokölluðum. Álfadansinn þótti jafnan bezta skemmtun og var eitthvert mesta tilhlökkunarefni fólks. Eftir álfadansinn var grímudansleikur oftast haldinn heima í samkomuhúsi kaupstaðarins.
Unglingar höfðu brennur stórar á haustin til gamans, af þurrkuðu kartöflugrasi, er fólk viðaði saman. Voru dansaðir hringdansar og farið í leika kringum brennuna.
Margs konar jólaleikir tíðkuðust hér. Á sumum bæjum var það og siður að skrifa upp alla, sem komu á jólaföstunni, bæði karla og konur. Var heimilisfólkið einhvern tíma um jólin látið draga um gestina, piltana og stúlkurnar, sitt í hvoru lagi.
Milli þrettánda og vertíðar tíðkaðist sá siður í Vestmannaeyjum, sem eigi er annars staðar getið hér, að fólk klæddi sig í grímubúninga, karlar og konur, einkum þó unglingar, og fór grímubúið í hópum á vökunni um bæi. Fyrir hópnum fór fylgdarmaður, er eigi bar grímu, og gekk hann á undan og bað leyfis fyrir grímufólkið, að það mætti koma inn og var það oftast auðsótt. Settist grímufólkið inni og fór með alls konar tilburðum og gáska, en heimilisfólkið skoðaði alla í krók og kring og reyndi að þekkja, og varð af hin bezta skemmtun, er oftast endaði með því að grímufólkinu var boðið að taka af sér grímuna og var því svo borið kaffi og aðrar veitingar. Þetta þreifst bezt í fámenninu, meðan hver þekkti annan, en lagðist niður, er fólki tók að fjölga eftir aldamótin síðustu.
Á öskudaginn var ætíð mikið um að vera, einkum hjá börnunum, en fullorðnir tóku og mikinn þátt í öskudagslátunum. Neyttu karlar og konur oft allra bragða til að láta hvort annað bera öskupoka, eða að kvenfólkið þennan dag bæri steina t.d. í heymeisum eða ílátum eða með hverju móti sem var, og karlmennirnir ösku.
Íþróttir og leikir. Bændaglímur háðu sjómenn á vertíðinni landlegudagana og eftir messu á hátíðisdögum. Gengu skipshafnir hvor á móti annarri, eða liði var þannig skipt, að vermenn eða landmenn fóru með sínum heimabónda og eyjamenn með sínum. Kom fjöldi fólks að horfa á glímurnar inn á svokallaðar Flatir. Þóttu þær ætíð bezta skemmtun. Þá iðkuðu menn og höfrungahlaup og ýmsa stökkleiki. Glímuæfingum og kennslu héldu þeir uppi Guðjón Jónsson í Sjólyst og Jón Einarsson í Hlaðbæ, seinna á Hrauni, er báðir voru fræknir glímumenn. Margt var hér um góða glímumenn. Voru flestir ungir menn þaulæfðir í glímum.
Sigamenn sýndu bergsig, einkum lærvaðssig, og léku listir sínar í háa lofti og varð mörgum, sem vonlegt var, starsýnt á. Ein af beztu skemmtunum unglinga var að iðka smásig og spranga. Fjallamenn (bjargmenn) sýndu fræknleik sinn með því að klifra utan í hengiflugum.
Kappróðrar voru algengir og þá heitið á pilta að létta nú lagið. Fóru menn þá stundum svo nærri hver öðrum, að slóst á árar og gat verið hættulegt. Við kappróðrana kom hitinn upp í mönnum bæði að reyna gang bátanna og þol, minntust menn þá einatt ónotaorða og svigurmæla, ef fallið höfðu, sem gat komið fyrir, ef menn voru við öl, en félagsandi var mikill milli skipverja innbyrðis og tóku hásetar upp þústuna hver fyrir annan, og þótti gaman að geta snúið á þá, er bezt þóttust skipaðir, og súrnaði mönnum í skapi, ef skipshöfn þeirra varð undir. Hér voru margir afburðaræðarar og þol og þróttur mikill. Svo hafa kunnugir menn sagt, að stundum hafi menn þreytt kappróðra alla leið frá Súlnaskeri og heim.
Kappsiglingar voru og tíðkaðar, en eigi eins mikið. Vestmannaeyingar þóttu jafnan frábærlega góðir siglingamenn. Gamlir sjómenn voru oft fámálgir og bragðdaufir, er þeir voru í landi, en léku á alsoddi, er þeir komu á sjóinn.
Fólk fór skemmtiferðir í úteyjar á sumrum, á sunnudögum í heimsóknir til veiðimanna, er lágu þar við, og skemmtisiglingar kringum eyjar. Landferðir til að heimsækja kunningja og ættfólk á landi fóru menn helzt á vorin og haustin. Í rúningsferðum á vorin í úteyjar var oft glatt á hjalla, og sóttust unglingar mjög eftir því að fá að vera með í þessum ferðum, fá að sigla, ef byr var, og að smala eyjarnar, er út var komið, um klungur og kletta og að taka þátt í eggjasöfnuninni í fuglabyggðum um leið og smalað var, og eggin soðin handa réttarfólkinu. Réttardagar á Heimalandi voru og almennir samkomudagar fólks.
Útreiðar voru tíðkaðar á sunnudögum á sumrum fram að höfuðdegi. Eyjamenn fengu stundum góða reiðhesta úr nærsveitunum á landi, en fáir voru samt, er héldu reiðhesta.
Sumardagurinn fyrsti var hér jafnan mesti tyllidagur. Margir gáfu sumargjafir og lengi var sá siður og helzt við hjá sumum enn, að konan fékk það, sem maðurinn aflaði á sumardaginn fyrsta eða honum var skipt, t.d. í skipshluti eða hluta af sumardagsaflanum. Sumir glettust með ýmis konar tilsvörum í sumartunglið, og höfðu margir trú á því, að sitthvað mætti af því ráða, hversu manni var svarað í sumartunglið.
Töðugjöld voru haldin í eyjum, eins og siður hefir verið hér á landi, þegar búið var að hirða af túnum, en túnhirðingu átti helzt að vera lokið fyrir fýlaferðir. Margir húsbændur voru og vanir að gefa vinnufólki sínu og börnum smágjafir, þegar búið var að þurrka saltfiskinn og leggja inn í verzlanir.
Hjá allmörgum hélzt sá siður að breyta til um mat á sprengikvöld, en að mest öllu leyti voru horfnar menjar hins gamla siðar að fagna þorra og góu, nema að því leyti, að bóndi skyldi halda upp á fyrsta þorradaginn og húsfreyja upp á góudaginn.
Loks skal þess getið, að fólk, er vann að upp- og útskipun á vörum úr kaupskipunum, vann erfiðisvinnu, er svo var kölluð, hélt sér glaðning saman á haustin, þegar síðasta skipið var farið. Í vinnunni tók og þátt kvenfólk, einnig við kola- og saltuppskipun. Skipin komu hér vor og haust. Kaupmenn gerðu daglaunafólkinu stundum smáglaðninga. Var það kallað góðgerðir.
Stofnun Herfylkingar Vestmannaeyja um miðja 19. öld hleypti miklu fjöri í skemmtana- og félagslíf hér. Skemmtisamkomur voru þá haldnar árlega í Herjólfsdal, svo að ekki eru þær alveg nýjar af nálinni á þessum stað, en sennilega mun frá fornu aðalskemmtistaðurinn hér hafa verið í Herjólfsdal, og líklega munu kirkjudagsskemmtanirnar fyrr á öldum hafa verið haldnar þar.
Um 1855 var ruddur vegur inn í Dal og þangað vagnfært fyrsta vagninum, sem kunnugt er um hér. Ýmislegt var gert til þess að prýða staðinn, komið upp vísi að blómgarði og gróðursett tré, Þórulundur, er stofnandinn Bryde kaupmaður nefndi svo eftir konu sinni. Trjágarður þessi var þó ekki lengi við líði. Hafði fénaður gengið þarna um og eftir nokkurn tíma sáust engar menjar hins fyrirhugaða skrúðgarðs aðrar en garðabrotin lengi eftir.
Þjóðhátíð sína héldu Vestmannaeyingar í Herjólfsdal þjóðhátíðarárið 1874, en í Dalnum höfðu aðalútiskemmtanir verið haldnar lengi. Var mikið um dýrðir í Dalnum 1874. Var meðal annars haft þar sameiginlegt borðhald, og hlaðið upp borð, er enn sér móta fyrir, af torfi og grjóti. Það er nú orðin föst venja frá því um aldamótin síðustu að halda á hverju ári þjóðhátíð Vestmannaeyja í Herjólfsdal, þar sem talið er, að bær fyrsta landnámsmannsins í eyjunum hafi staðið. Þjóðhátíðin var lengi haldin eftir miðjan ágúst og í fyrstu laugardaginn í 16. viku sumars eða viku fyrir Skerdag, er fýlaferðir byrjuðu, og milli heyanna og fýlaferða. Þessu hefir verið breytt nú. Hátíðin stendur yfir 2—3 daga, byrjar á laugardegi eða jafnvel á föstudegi, og er messa haldin á þjóðhátíðarstaðnum á sunnudaginn í staðinn fyrir messu í Landakirkju. Fólkið býr í tjöldum í Dalnum, sem eru reist á afmörkuðu hátíðarsvæði, meðan hátíðin stendur yfir, og flytur með sér matföng að heiman, eldar og matbýr þar. Fjöldi aðkomumanna, einkum úr Reykjavík, sækir þjóðhátíðina.
Á seinni árum hefir tala tjalda í Dalnum komizt upp í 400. Hátíðasvæðið var lengi skreytt með sveigum af lyngi og blómum. Milli Blátinds og Fiskhella í 700—800 feta hæð yfir Dalnum er sett taug með ljóskerum með mislitum ljósum. — Til skemmtunar eru ræðuhöld og söngur, dans, íþróttir alls konar, hlaup, stökk, sund og kappróðrar. Fyrrum voru og sýndar veðreiðar. Ágætri hlaupabraut hefir verið komið upp í Dalnum. Sigamenn sýna sig ofan af Háhánni á Molda, og stundum hafa úrvals fjallamenn sýnt íþrótt sína í því að klifra upp þverhnípta hamra beint á móti hátíðarsvæðinu. Eru þarna hengiflug. Sagt er, að marga bresti kjark til þess að horfa á menn þreyta raun þessa.
Á Fjósakletti er kynt brenna, þegar kvölda fer, og lýsir hún upp dalinn, en fjallahnjúkarnir lykjast dimmum skuggum.
Íþróttafélög eyjanna standa nú fyrir hátíðahöldunum.
Sögulestrar. Þeim var haldið uppi hér á mörgum heimilum frá veturnóttum til vertíðar fram undir lok síðastliðinnar aldar. Lesnar voru einkum fornsögurnar, Íslendinga- og Noregskonungasögur og Fornaldarsögur Norðurlanda, riddarasögur, er ýmsir áttu skrifaðar og gengu manna á milli. Í seinni tíð Þúsund og ein nótt, og fleira. Lestrarfélag var stofnað hér, eins og áður segir, eftir miðja öldina. Útlendar skáldsögur, er fólk eigi gat fest trúnað á sem sannar sögur, vildu fæstir heyra, en mjög lítið var um þær í íslenzkum þýðingum, en fólk las aðeins bækur á íslenzku. Rímnakveðskapur var jafnan töluvert iðkaður og þótti það ætíð góður fengur að fá góðan kvæðamann til að kveða á vökunni. Voru hér ýmsir góðir kvæðamenn, að því er sagt hefir verið, bæði innan héraðs og meðal vermanna af landi. Nefni ég frá seinni tímum Jón Magnússon í Nýjabæ, er kunni mikið af rímum og gömul kvæðalög og mansöngva, að því er virðist úr gömlum víkivakalögum, og Magnús Sigurðsson, er kvað með miklum bassarómi. Sumar gamlar konur kunnu býsnin öll af gömlum kvæðum, andlegum og veraldlegum, útilegumanna- og álfasögum, og að ógleymdum ævintýrunum, og sögðu vel frá. Voru slíkar konur jafnan aufúsugestir á bæjum. Vilborg nokkur Guðmundsdóttir, er deyði gömul nokkuð fyrir aldamótin síðustu, var einkar fróð í þessum efnum og kunni hún æfintýrasögur og sagði frá, svo að aldrei varð þrot á. Gamlar konur komu stundum af landi og gengu milli bæja, þótt eigi teldust þær beinlínis til flökkukerlinga. Sögðu þær fréttir og viðburði, er marga fýsti að heyra, og sögur og þágu fyrir veitingar og góðar gjafir. Á fyrri tímum hafði verið töluvert að því gert, að flökkufólk færi milli lands og eyja. En það mátti heita lagt niður á síðari hluta 19. aldar. Beittu sýslumenn ströngu banni gegn flutningi þessa fólks milli eyja og lands.
Séra Brynjólfur segir í sóknarlýsingu sinni, að manna á milli sé lítils háttar af fornkvæðum: 1) Heimsádeila í 28 erindum, er byrjar svo: „Satt er það, ég seggjum tel“. 2) Geðfró, 70 vers, með upphaf: „Faðir, sonur og friðarandi“. 3) Kvæði, kallað Djöflafæla, er byrjar: „Allt hvað vildir, gjört hefir þú“. 4) Agnesarkvæði í 26 erindum: „Í þann tíma ríkti í Róm“. 5) Veróníkukvæði, 26 erindi: „Kveð ég kvinnu eina“. 6) Antikristskvæði í 39 erindum: „Fjölnirs læt ég fjaðragamm“.
Á hátíðum og tyllidögum var spilað á spil, en mjög sjaldan endranær. Spil þau, er mest tíðkuðust á seinni hluta 19. aldar, voru alkort, bæði tveggja manna alkort og fjögra manna. Þrjú efstu spilin í alkorti voru: Tígulkóngur, hjartatvistur og lauffjarki, eins og vísan bendir til, er kunn mun vera um land allt: „Tígulkóngurinn kæri, kominn vildi ég væri, lagður í lófa mér. Allt að óskum gengi, ef ég tvistinn fengi og fjarkinn fylgdi með.“ Treikort var og algengt. Í þessu spili varð sá páfi, er fékk 13 slagi í þrem spilum. Þrír spiluðu og gefin 9 spil. Hjónasæng, hana gátu spilað allt að tíu manns. Var oft hlegið dátt í þessu spili, er var haft um hönd með jólaleikjum. Sama má segja um laumu, er var eins konar leikjarspil. Var piltunum gefin stúlka, er þeir gátu unnið sér, og stúlkunum piltur. Þetta spil var mesta gaman ungs fólks. Púkk var reglulegt jólaspil, spilað jóladagana og milli jóla og nýjárs. Gátu margir tekið þátt í því samtímis. Í púkki var laufgosinn nefndur pamfíll. Vhist, valvhist, grandvhist eða neyðarnóló. Þrettán aura vhist var spiluð upp á peninga. Kasína, marías, gosi, hundur og köttur, er var peningaspil.
Manntafl kunnu ýmsir, en mun þó eigi hafa verið mikið iðkað. Ýmsir skemmtu sér að teningstafli, kotru, myllu og refskák.
Eitt af því, er menn helzt gerðu sér til gamans, var að kveðast á og geta gátur, einkum er verið var í legum bæði á sjó og í úteyjum. Teygðist æði úr kvæðasópnum, þegar kvæðamennirnir kunnu mikið af vísum. Af gátum var alltaf töluvert uppi meðal almennings. Vísum og kviðlingum höfðu menn mætur á og formannavísur voru ætíð mikið í hefð. Formannavísur frá síðari hluta 19. aldar um: Davíð Ólafsson í Kirkjubæ, Árna Diðriksson í Stakkagerði, Þorstein Jónsson í Nýjabæ, Jón Pétursson í Elínarhúsi, Brynjólf Halldórsson í Norðurgarði, Jón Jónsson lóðs, Guðmund Erlendsson í London, Lárus hreppstjóra Jónsson á Búastöðum, Björn bónda Einarsson í Kirkjubæ.⁴) Suðureyjarbragur eftir Jón Þorgeirsson.⁴) Jón Þorgeirsson orti formannavísur. Eftir Pál Gíslason Thorarensen er slæðingur til hér af vísum frá þeim tíma, er hann átti hér heima. Um sjófarir orti Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson m.a., er var mjög vel skáldmæltur og fróðleiksmaður. Þá má og nefna Ólaf Magnússon og Gísla Engilbertsson. Af fróðleiksmönnum má nefna Árna Einarsson, Árna Þórarinsson og Magnús Bjarnason frá Helgahjalli, er vestur fór. Meðal fróðleiksmanna á forna vísu má telja Jón Jónsson í Gvendarhúsi og Sigurð Vigfússon á Fögruvöllum. Þorsteinn læknir Jónsson vann mikið og merkilegt starf fyrir Náttúrufræðifélagið, sömuleiðis Gísli Lárusson í Stakkagerði. Hann skrásetti fyrstur örnefni í Vestmannaeyjum. Af núlifandi mönnum ber að nefna séra Jes A. Gíslason, Jóhann G. Ólafsson bæjarfógeta og Árna Jónsson.
Séra Páll Jónsson skáldi, er var landsþekkt skáld, var upprunninn og fæddur í eyjum. Eva og Guðrún yngri, dætur hans, voru og vel skáldmæltar. Þeir séra Páll og Jón Jónsson, er kallaður var Torfabróðir og var hagyrðingur góður, áttust við miklar glettingar í ljóðum. Um þessar mundir var og Sigurður skáld Breiðfjörð í Vestmannaeyjum. Séra Jón Austmann var og hagmæltur. Skáldalíf hafði verið fjörugt hér á þessum tímum og kvæði og stökur tíðar manna á meðal.
Meðal gömlu prestanna voru, eins og kunnugt er, eigi allfá góð skáld: Sálmaskáldið alkunna séra Jón Þorsteinsson píslarvottur, séra Grímur Bessason, séra Benedikt Jónsson og séra Guðmundur Högnason. Voru þeir sumir og ágæt latínuskáld.
Af skáldum og rithöfundum, er átt höfðu heima hér á síðustu tímum og sum alllengi, nefni ég Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti, Magnús Stefánsson (Örn Arnarson), Stein Sigurðsson. Þeir Sigurbjörn Sveinsson, hinn landskunni barnabókahöfundur, Loftur Guðmundsson og Magnús Jónsson frá Sólvangi gera nú garðinn frægan, einnig Helgi Sæmundsson, Árni Guðmundsson. Fleiri mætti telja.
Blaðaútgáfu var komið á stofn hér 1917. Hóf þá vikublaðið „Skeggi“ göngu sína. Kom fyrsta blaðið út 27. okt. 1917. Fyrsta prentsmiðjan hér var eign Gísla J. Johnsens kaupmanns. Síðar var ný prentsmiðja fengin. Er hún nú eign h.f. Samkomuhús Vestmannaeyja, og gefur félagið út vikublaðið „Víði“. Var það stofnað 1928 af Ólafi Magnússyni. Hver hinna fjögra stjórnmálaflokka hefir haldið úti sínu eigin vikublaði. Blaðið „Gest“ gaf Páll læknir Kolka út.
Sjónleikir. Leikritið Narfi eftir Sigurð Pétursson var leikið hér nokkru eftir 1860 og mun vera fyrsta leikritið, er hér var sýnt. Síðan var eigi leikið fyrr en um 1889 og þá sýnt leikritið Hrólfur og Narfi aftur. Seinna var sýnt Útsvarið eftir Þorstein Egilsen, Skuggasveinn, er hér hefir verið sýndur mörgum sinnum, og Tólfkóngavitið. Á síðari tímum beitti kvenfélagið sér fyrir því að halda uppi sjónleikjum. Leikfélag hefir verið hér starfandi um 35 ár og leikið hefir verið á hverju ári. Hefir félagið yfir að ráða ágætum leikkröftum.
Þinghúsið var notað áður fyrir almennt skemmtisamkomuhús og Góðtemplarahúsið eftir að það komst upp. Fyrsta góðtemplarastúkan, er hér var stofnuð, var stúkan Bára nr. 2. Stúkan Sunna 1922. Tvær barnastúkur. Samkomuhús seinni tíma eru Alþýðuhúsið og Samkomuhús Vestmannaeyja, er vera mun stærsta samkomuhús landsins utan Reykjavíkur. Þar er rekin veitingastofa. Aðalgistihúsið er Hótel Berg.
Kvikmyndasýningar hafa verið starfræktar hér síðan 1917.
Söngfélög. Sigfús Árnason, er var fyrsti organleikari hér við kirkjuna, eins og áður segir, en þar var í fyrsta sinn leikið á orgel á hvítasunnudag 1879, glæddi mjög sönglíf hér og stofnaði fyrsta söngfélagið og hélt uppi samsöngvum með karlakór, er hann æfði. Brynjólfur Sigfússon tók við organleikarastarfinu eftir föður sinn, og hefir hann um áratugi verið aðalmaðurinn í sönglífi eyjanna, hefir og samið sönglög. Hann er stjórnandi Vestmannakórsins. A.J. Johnson, nú bankagjaldkeri í Reykjavík, æfði söngflokk og hélt uppi samsöngvum með blönduðum kór hér um nokkurt skeið eftir aldamótin síðustu. Árni J. Johnsen æfði söngflokk verkamanna. Karlakór Vestmannaeyja var stofnaður 1941. Stjórnandi Helgi Þorláksson. Lúðrasveit Vestmannaeyja stjórnar Oddgeir Kristjánsson. Hann hefir og samið sönglög. Lúðrasveit var stofnuð hér nokkru eftir aldamótin, en var hætt að starfa fyrir alllöngu.
Um 1870 er komizt svo að orði um hljóðfæra- og söngmennt eyjabúa, að til séu þeir menn, sem leiki á hljóðfæri, svo sem 2 á langspil, 1 á fíólin, 7 á harmóníku. Nokkrir bera skyn á nótnasöng, en eigi getur það heitið, að neinn sé fullnuma í þeim efnum. Sumir gömlu forsöngvararnir voru söngmenn miklir, svo sem Jón Samúelsson, er átti Evu, dóttur séra Páls Jónssonar. Prestarnir margir voru og ágætir söngmenn. Það er í minnum haft um séra Jón Austmann, að hann hafi sungið og tónað með afbrigðum vel. Norðlenzkur maður, er hingað kom meðan þeir voru hér prestar, séra Páll skáldi og séra Jón Austmann, og hlýddi hjá þeim messu í Landakirkju, þá prédikaði séra Páll, en séra Jón var fyrir altari, hafði sagt, að jafnfagra og tilkomumikla messugerð hefði hann aldrei hlýtt á. Eins og áður getur var hljóðfæri í Ofanleitiskirkju um 1500 og mun það hafa verið með elztu hljóðfærum þessarar tegundar hér á landi, og má telja víst, að söngfróður prestur hafi þá verið á Ofanleiti.
Til hinna ungu íslenzku lista hafa eyjarnar lagt sinn skerf. Vestmannaeyingar eru Júlíana Sveinsdóttir málari, Engilbert Gíslason málari, Gunnlaugur Halldórsson húsameistari og Ólafur Kristjánsson. Héðan er ættaður í báðar ættir Pétur Á. Jónsson óperusöngvari. Fleiri mætti telja, ef rúm væri til.
Leikþrautir og leikir. Leikþrautir ýmiss konar tömdu unglingar sér: Að flá kött, fara í gegnum sjálfan sig, ganga heljarbrú, reisa horgemling, rísa upp frá dauðum, reisa mann frá dauðum, hlunna árar, og margt fleira, sem reyndi á fimleik og þol. Í eyjunum tíðkaðist sú list, sem kölluð var að slá svensk, og önnur lítið frábrugðin, að slá dansk. List þessa leika tveir og standa andspænis hvor öðrum.⁵)
Fyndni og orðagaman margs konar höfðu menn að skemmtun: Fagur fiskur í sjó o.s.frv., legg í lófa blinds karls, að geta hve margar árar eru á borð, skipagjöf eða að gefa skip, setja í horn og margt fleira; einnig gestaþrautir og dægradvalir, binda hnúta, sigurhnúta og sigurlykkjur, skjóta sel í auga og ýmiss konar bandlistir. Fara í hnefakaup og í krók, komast í búr, þekktu allir.
Hér skal lýst leikjum barna og unglinga. Útburðsleikur var mjög algengur leikur í Vestmannaeyjum og er sami leikur og annars staðar hefir verið kallaður hafnarleikur.⁶) Í útburðsleiknum voru afmarkaðir tveir hólar á leiksviðinu, í staðinn fyrir borgir eða hafnir í hafnarleiknum. Milli hólanna stendur einn leikmanna og á hann að reyna að ná hinum, sem hlaupa milli hólanna, og eru þeir kallaðir útburðir. Leikurinn var hlaupa- og þolleikur mikill. Í flokkaleik var liði skipt í tvo flokka og átti annar að fela sig, en hinn að leita. Algengir leikir voru og blindingsleikur, útilegumannaleikur, skessuleikur, kisuleikur, stórfiskaleikur, halarófuleikur, fuglaleikur, selningaleikur og saltabrauðsleikur, í sambandi við hann var söngleikur, er börnin sungu meðan verið var að finna út, hver yrði fyrir því að „liggja á“, grúfa sig niður meðan hin börnin földu sig og varna þeim síðan að komast af honum óséð í borg. Boltaleikir voru og iðkaðir, bæði handbolti og í seinni tíð fótbolti, sem nú hefir lengi verið aðalíþróttaleikurinn. Kast eða sláttarleikur, sem kallaður var fransmannaleikur og unglingar höfðu lært af frönskum skipbrotsmönnum, var mikið iðkaður kringum aldamótin síðustu.
Á sumrum iðkuðu unglingar sund eftir að sundkennsla hófst hér 1894. Kennarar voru Guðjón Jónsson í Sjólyst og Hjalti Jónsson. 1895 voru sundæfingar 40, kennarar Guðjón Jónsson og Sigurður Sigurfinnsson, og seinna Gísli J. Johnsen. Kennslan fór fram í sjónum undir Litlu-Löngu aðallega, svo Stóru-Löngu og við Grjótgarðinn norður af Skildingafjöru. Baðstaðir eru hér ágætir í víkum og sjávarlónum víða og skjól ágætt. Sundkennsla hefir verið iðkuð hér nær 50 ár. Nú læra öll börn og unglingar sund. Kennslan fer fram í sundlaug með upphituðum sjó úr sjóveitu eyjanna. Kennari er Friðrik Jesson íþróttakennari.
Unglingar skemmtu sér við smásig og sprang í klettum og við að klifra, róa og sigla á smábátum, smájullum, um Botninn. Á lónum og pollum fleyttu börn skipum sínum. Á vetrum var rennt sér á skautum og leggjum á tjörninni í Herjólfsdal, uppistöðulónum undir Hlíðarbrekkum, í Lyngfellsdal og víðar. Tréskautar voru notaðir og þeir smíðaðir hér. Til ísleggja voru notaðir afturfótaleggir af hrossum og nautum, tilhöggnir í báða enda og tvö göt boruð gegnum legginn og snæri dregið í gegn. Í stað sleða notuðust margir við rúmfjalir til að renna sér á.
Skíðaíþróttir hafa verið iðkaðar lítils háttar í seinni tíð. Snjó festir hér sjaldan, svo að lítt er hægt að iðka þessa íþrótt.
Leikföng eða leiktól barna voru öll af innlendum uppruna. Útlend leikföng sáust engin hér fyrr en á síðustu árum. Hér léku börnin sér eins og annars staðar fyrst og fremst að leggjum, skeljum og kuðungum. Fiskar og fuglar voru búnir til úr fiskbeinum handa börnunum og þeim smíðuð skip með rá og reiða, hús og vagnar, og handa telpunum brúður. Á flestum heimilum var einhver, sem gat leyst þessi vandræði barnanna, svo að eigi þurfti til annarra að sækja. Af leikföngum var einna algengast skopparakringla eða snarkringla, þeytispjald, gafllok og alur. Meðal leikfanga má telja heimagerðar blístrur og hljóðpípur, svo og trélúðra.
Þegar unglingar komu saman, höfðu þeir oft að leikum að skopra, slöngva, fleyta kerlingum og fara með boga og flugdreka. Ganga á „öndrum“ var hér kallað það, sem annars staðar er nefnt að ganga á „stultum“. Unglingar tömdu sér margs konar líkamsiðkanir, svo sem að ganga á ristunum og flá kött og aðrar bitalistir, fara í hryggspennu, járnhatta, taka í bóndabeygju, bera á gullstóli, bera á brúðarstóli, róla og vega salt, standa á höfði og steypa sér kollhnýs, reyna handahlaup o.fl. Höfrungahlaup var mjög algengur íþróttaleikur og háð á flötunum við Brimhóla. Kapphlaup þreyttu unglingar og hlaupið þindarlaust upp og niður brekkur. Við flugfýlaeltingar fengu unglingar að reyna hlaupaþol sitt. Unglingar dáðu hreysti og fræknleik, enda var því óspart haldið að þeim af hinum eldri. Líkamsþjálfun, bæði vegna vinnu og veiðiskapar, var mikil og einnig iðkuð af sjálfsdáðum fyrir áhrif frá Íslendingasögum.
Einn barnaleikurinn, sem hér var algengur, var að hlaða sandgarða í flæðarmáli með aðfallandi sjó, og búa sér til vígi í sjónum. Sá bar sigur úr býtum, sem átti bezta garðinn og sjórinn vann síðast á. Stundum máttu drengirnir flýja með ofboði í land til þess að forða sér undan.
Það er alkunna, að þróttmikið íþróttalíf hefir blómgazt hér í Vestmannaeyjum á síðari tímum. Er ekki hægt að lýsa þessu nánar hér rúmsins vegna, sem þó væri þörf á. Hér starfa tvö íþróttafélög hvort við hliðina á öðru, Þór, sem nú er 30 ára, og Týr. Áður var hér starfandi knattspyrnufélag. Íþróttamenn frá Vestmannaeyjum keppa nú orðið iðulega á landsmótum í höfuðstaðnum og víðar, og koma þá bæði félögin fram undir nafninu Knattspyrnufélag Vestmannaeyja. Hafa félögin getið sér hinn bezta orðstír, oft unnið landsmet og yfirleitt sýnt ágæt íþróttaafrek. Á Ólympíuleikjunum í Berlín 1936 var Sigurður Sigurðsson frá Vestmannaeyjum sá eini af íslenzkum keppendum, er komst í úrslitakeppni. Félögin hafa unnið mikið að því að bæta skilyrði fyrir aukinni íþróttastarfsemi hér í hvívetna. Skátafélagið Faxi, drengjaskátar og kvenskátar, stofnað 1938. Golffélag Vestm.eyja, stofnað 1938, hefir golfvöll í Herjólfsdal.
Söngleikir. Börn og unglingar iðkuðu nokkuð söng- og talleiki. Þótti þetta jafnan bezta skemmtun. Munu söngleikirnir hér gleymdir að mestu.

Heimildir og umfjöllun í þessum kafla:
1) Kirkjubók Landakirkju 1637—1704.
2) Ísl. Fornbr.s. IV, 276—277.
3) Vikivakar eru taldir aldauða hér á landi löngu fyrir 1800, sbr. J.J.: Ísl. þjóðhættir, bls. 43.
4) Eigið handrit.
5) Sjá Ó1. Davíðsson: Ísl. skemmtanir, útg. Khöfn 1888—1892, bls. 165.
6) Ól. Davíðsson: Ísl. skemmtanir.

3. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit