Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Skröltið á kirkjuloftinu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 17:04 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 17:04 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Skröltið á kirkjuloftinu færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Skröltið á kirkjuloftinu)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Skröltið á kirkjuloftinu.


Í fyrra heftinu af Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum voru tvær sögur: Sýnir og Feigðarboði (bls. 94—97) sagðar eftir Magnúsi Ísleifssyni trésmið o.fl. Mér var þá ókunnugt, að Þorsteinn Jónsson læknir hafði nokkru eftir að annar atburðurinn varð birt frásögn um hann í Þjóðviljanum. Eftir að Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi gaf út Dulrænar smásögur skrifaði Þorsteinn Brynjólfi athugasemdir við aðra af þessum sögum. Bréf Þorsteins er skrifað í aprílmánuði 1908, og er það geymt í handritasafni Landsbókasafnsins (Lbs. 1760, 4to). Fara athugasemdir Þorsteins hér á eftir vegna þess að frásögn hans er fyllri:
Guðmundur Ísleifsson hafði eitt grasbýlanna á Vilborgarstöðum, átti þar heima, en var fyrir jól 1903 við járnsmíði í annars manns smiðju niðri í kaupstað. Þar greip veikin hann hastarlega, og var þá um sinn borinn eða studdur í næsta hús og lagður þar í autt rúm uppi á lofti, en svo svíaði honum svo mikið, að honum var komið heim til sín og andaðist þar í rúmi sínu á jólanóttina, eftir miðnætti, eftir fjögra sólarhringa legu í mjög ákafri lungnabólgu.
Guðmundur Ísleifsson var mjög mikill drykkjumaður. Hann var og hringjari við Landakirkju. Það lá enginn fósturson húsráðanda í því rúmi, er Guðmundur Ísleifsson var fyrst lagður í, er veikin greip hann, heldur var það autt rúm á móti rúmi hjónanna, og lá köttur í því. Sagði húsbóndi mér, að nóttina áður en Guðmundur Ísleifsson veiktist, hefði kisa rokið upp um miðja nótt með miklum ólátum, skyrpum og andfælum, og stokkið burt úr rúminu. Einnig gat hann þess, að hann hefði á nóttum heyrt smíðahljóð, högg m.m. frá bát, sem Guðmundur Ísleifsson var að gjöra við rétt hjá húsi húsráðanda, en hvort það var rétt áður en Guðmundur Ísleifsson lagðist, eða næturnar, sem hann lá banaleguna, man ég nú ekki lengur.
Það var að venju haldinn kvöldsöngur í Vestmannaeyjum á aðfangadagskvöld 1903 kl. 6—7. Kl. 9 um kvöldið kom maður rúmlega tvítugur (Helgi Halldórsson Magnússonar frá Horni, rétt hjá Miðbælisbökkum, í Eyjafjallahreppi eystra, nú til heimilis í Hafnarfirði) heim til sín að timburhúsi, sem liggur um 150—200 faðma fyrir neðan Landakirkju. Heyrir hann þá um stund glögga hringingu ofan frá kirkju. Fer svo inn og segir frá þessu, en fólkið fortekur að þetta geti átt sér stað, þar sem klukkan sé orðin níu. Hann fer þá út aftur til að hlera eftir hringingunni, sem hann var viss um að hafa heyrt, en þá var öllu slegið í þögn. Um jólanóttina (eftir miðnótt) dó hringjarinn Guðmundur Ísleifsson, svo sem áður er sagt.
Frásögn Þorsteins læknis um draum Þorsteins Sigurðssonar og skröltið á kirkjuloftinu er á þessa leið:
„Maður nokkur á þrítugsaldri andaðist hér í Eyjunum úr lungnabólgu 12. des. s.l. Síðustu vikuna, er hann lifði, svaf hann mjög lítið, en morgun einn fáum dögum fyrir andlátið, svaf hann í nálega tvær klukkustundir, og mælti hann þá er hann vaknaði: „Nú held ég að ég hafi sofið, því að ég þóttist vera nakinn uppi á kirkjulofti og vera að leita þar að fötum mínum.“ Sama morguninn, er veika manninn dreymdi þetta, kom yfirsmiðurinn, er staðið hafði fyrir aðgerðinni á kirkjunni, fyrstur manna upp í kirkjuna og skömmu eftir það, er hann var þangað kominn, fór hann að heyra skrölt uppi í kirkjuhvelfingunni, svo sem verið væri að kasta þar til borðum eða skrani. Datt honum þá í hug, að vera mætti að járnplata hefði losnað á þakinu, og gekk því út, ásamt öðrum manni, til þess að gá að þessu, og síðan upp í kirkjuturninn, til þess að líta eftir, hvort ekki væri illa lokað hlera, en í báðum stöðum var allt með felldu. Skröltið, segir yfirsmiðurinn, að haldið hafi áfram í nærfellt tvær klukkustundir, og hefir svefn veika mannsins og skröltið í kirkjunni verið samtímis, að því er næst verður komizt. Þenna sama morgun var yfirsmiðurinn við smíðar sínar á kirkjugólfinu, þar sem vant er að láta lík standa við jarðarfarir, og finnur hann þá allt í einu, er skröltið var hætt, mjög sterka nálykt, og spyr því hina smiðina, hvort þeir verði nokkurrar lyktar varir. Smiðirnir neituðu því, og segir hann þeim þá að koma til sín, og finna þeir þá allir sömu nályktina. Fimm lík hafa síðan verið sett á þennan stað.
(Þjóðviljinn 8. febr. 1904, bls. 19—20. Héraðslæknir Þorsteinn Jónsson í Vestmannaeyjum hefir 17. jan. 1904 skýrt ritstjóra Þjóðviljans frá atburði þessum).