Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Drukknaður maður vísar til sín í draumi

From Heimaslóð
Revision as of 17:43, 15 September 2013 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search


Drukknaður maður vísar til sín í draumi.


Það bar við 12. marz 1906, að Magnúsi Þórðarsyni í Sjólyst hlekktist á á heimleið úr fiskiróðri. Vindur var hvass á norðan, og hafði hann verið á sjó fyrir sunnan Heimaey, og átti því barning í land. Fékk hann botnvörpung til þess að draga bátinn upp undir, en út af Flúðinni fyllti bátinn, vegna þess að botnvörpungurinn fór of hart. Var hann á áttrónum bát með tíu manna skipshöfn, og drukknuðu þarna fjórir hásetanna. Þessir menn drukknuðu: Sigurður Sigurðsson vinnumaður í Túni, faðir Guðlaugs á Rafnseyri, Ísleifur Jónsson, vinnumaður í Skálholti, Högni Árnason, vinnumaður frá Görðum í Mýrdal, og Ólafur Jónsson, bóndi að Nesi í Norðfirði. Meðal þeirra, sem björguðust var Högni sálugi Sigurðsson í Baldurshaga, og var það í annað sinn, sem hann bjargaðist af skipreika. Árið 1903 bjargaðist hann, þegar Þorvaldur Jónsson frá Jómsborg drukknaði með tveimur hásetum sínum út af Klettsnefi á heimróðri úr fiskiferð.
Nóttina eftir að slysið vildi til, að þeir Sigurður drukknuðu, dreymdi Ingimund Árnason í Götu, að Sigurður kæmi til hans og bæði hann um að leita sín, því að hann væri rekinn í Björnsurð. Bað hann Ingimund að hafa hraðann á, er dagaði, því að sig mundi annars taka út aftur með flóðinu. Skyldi hann fara til Friðriks Benónýssonar í Gröf og biðja hann að koma með sér, því að hann vissi hvar Björnsurð væri. Hvarf Sigurður síðan burt. Snemma morguninn eftir fór Ingimundur austur að Gröf til Friðriks, en hann var þá ekki heima, og var honum sagt, að hann mundi vera niður í Miðbúð. Fór Ingimundur þangað. Hitti hann þar Friðrik og sagði honum draum sinn, en Friðrik sagðist ekki vita hvar Björnsurð væri. Í Miðbúðinni var þá staddur Ólafur Sigurðsson á Strönd. Heyrði hann á tal þeirra Friðriks, og sagði þeim þegar, að Björnsurð væri á Urðunum norðan við Vilborgarstaðatanga, og furðaði hann á því, að Ingimundur skyldi ekki vita hvar hún væri, þar sem hann var borinn og barnfæddur í Eyjum. Lögðu þeir síðan allir af stað til þess að leita Sigurðar og fundu þeir hann þar, sem hann hafði til tekið í draumnum. Mátti ekki tæpara standa að þeir kæmu, því að sjór var flæddur upp að líkinu, þar sem það lá í urðinni.
(Sögn Ólafs Sigurðssonar, Strönd).