Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Draumbæjar-Móri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. nóvember 2011 kl. 19:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. nóvember 2011 kl. 19:30 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit


Draumbæjar-Móri.


Um miðja síðustu öld bjó bóndi að Draumbæ, sem hét Runólfur Magnússon, en kona hans hét Ingiríður Björnsdóttir. Um þessar mundir tíðkuðust uppnefningar mikið í héraðinu, og var Runólfur venjulega manna á milli nefndur barkrókur. Tvo syni áttu þau hjón, Björn og Runólf, sem síðar fékk viðurnefnið mormóni, vegna þess að hann snérist um tíma til Mormónatrúar og flutti til Utah í Bandaríkjum, og dvaldi þar um nokkurt skeið. Hjá þeim hjónum var niðursetningur, ungur piltur, sem þeim þótti mjög baldinn og erfiður, og var þeim lítt að skapi. Piltur þessi hrapaði til bana fyrir Ofanleitishamar, en þrennum sögnum fer um atvik að því. Sumir segja, að Ingiríður hafi hrakið hann fram af Hamrinum, en aðrir að Runólfur hafi hrint honum fram af hengifluginu. Einhverju sinni, þegar Runólfur og pilturinn voru nýkomnir neðan úr Sandi, fóru þeir einhverra erinda vestur á Hamar, en hann er skammt frá Draumbæ. Niðaþoka var á. Í þessari ferð hrapaði pilturinn, og er talið fullvíst, að Runólfur hafi hrint honum fram fyrir brúnina. Þegar þetta gjörðist, var Ragnhildur Ingimundardóttir vinnukona hjá þeim hjónum. Er haft eftir henni, að skömmu áður en Runólfur barkrókur kom heim úr þessari för, hafi hún séð einhvern slæðing koma inn í bæinn. Kvaðst hún hafa stuggað honum fram bæinn með sófli, og hefði hann horfið undir pilsfald húsfreyju, sem stóð við kökubakstur í eldhúsi. „Og var hún vel að því komin,“ sagði Ragnhildur, „því að hún átti víst upptökin að illvirkinu.“ Ragnhildur þessi dó niðursetningur í Stakkagerði árið 1888. Loks hafa aðrir sagt, að það hafi verið Helga í Gerði, amma Runka mormóna, sem gjörði út af við piltinn, og hafi hann sótt ákaflega að henni undir útsynning, og fekk hún þá geysileg flogaköst með froðufalli.
Strákur þessi gekk aftur, og fylgdi þaðan í frá Runólfi og konu hans og öðrum börnum þeirra. Var draugur þessi í mórauðum lörfum, með húfupottlok á höfði og var skarð upp í það í öðrum vanga. Hafði pilturinn verið þannig búinn, er hann lézt. Ekki gjörði draugur þessi af sér verulegan óskunda, svo menn viti, en þeim ættmönnum og öðrum, sem urðu hans varir, þótti hann leiðinleg fylgja og óhugnanleg. Lagði af honum megnasta ódaun, svo að þeim mönnum sló fyrir brjóst, er urðu á vegi hans. Varð hans víða vart og var hann venjulega í för með Runólfi og hyski hans, eða gjörði vart við sig þar, sem þetta fólk ætlaði að koma. Eftir þetta bjuggu þau Runólfur og Ingiríður aðeins skamma hríð í Draumbæ. Dó Ingiríður 1870, aðeins fimmtíu og tveggja ára að aldri. Runólfur barkrókur, maður hennar, lifði miklu lengur. Var hann niðursetningur í Koti hjá Ólafi Einarssyni, um nokkurt skeið. Þegar gekk að með útsynningsveður, fekk hann flog og froðufall, og taldi hann, að draugurinn sækti þá að sér og formælti mjög konu sinni, sem hann sagði, að hefði fyrir komið drengnum. Bað hann heimilisfólkið, þegar hann fann flogin koma yfir sig, að vera viðbúið með spón til þess að stinga upp í sig, „því djöfullinn væri að koma.“ Runólfur andaðist árið 1893, 77 ára gamall.
Fara hér á eftir nokkrar frásagnir af því, er menn urðu Móra varir: Svo bar við nótt eina í Svaðkoti, nálægt 1880, að Ragnheiður Gísladóttir, húsfreyja, vaknaði við ódaun mikinn í baðstofunni. Þótti henni þetta firnum sæta, og vakti því Bjarna Ólafsson, mann sinn. Reis hann þegar upp og sá þá fylgju Runka mormóna standa við rúmgafl Guðríðar dóttur þeirra hjóna, og horfði hún á hana. Þaut Bjarni upp úr rúminu, og rak fylgjuna út úr bænum með bannfæringum og formælingum. Morguninn eftir kom Runki að Svaðkoti, og bað Bjarni hann aldrei koma í sín hús meðan ódráttur þessi fylgdi honum. — Það var eitt sinn, þegar Guðjón Björnsson, bóndi á Kirkjubæ var á leið inn göngin í Ólafsbæ á Kirkjubæ, að hann mætti Móra, en svo var ættarfylgja þessi oftast kölluð. Sá hann drauginn mjög greinilega, þegar hann gekk fram hjá honum út göngin. Er lýsingin hér að framan á draugnum eftir umsögn Guðjóns. Lagði megnustu hrælykt og ódaun af draugnum fyrir vit hans. Þegar Guðjón kom inn í baðstofuna sá hann, að þar sat annar þeirra Runólfssona.
Ólöfu Lárusdóttur, konu Guðjóns, segist svo frá: Það var siður í ungdæmi mínu, að fólk var mikið í heimboðum um jólaleytið. Þegar eftirfarandi atburður gjörðist, voru foreldrar mínir, Lárus Jónsson, bóndi á Búastöðum og Kristín, kona hans, að jólaboði hjá kunningjum sínum. Við, sem heima vorum, skemmtum okkar eftir föngum og var glatt á Hjalla. Allt í einu urðum við vör við megna ólykt og einkennilega í baðstofunni. Varð einhverjum að orði, að ekki leyndi sér, að nú væri Móri á ferðinni. Einskis urðum við þó frekar vör, að því sinni. Um þessar mundir var Björn Runólfsson til heimilis í Nýjabæ. Á þeim árum höfðu sumir menn sér það til gamans, að ganga á milli bæjanna og gægjast á gluggana, ef eitthvað var um að vera. Seinna fréttum við, að þetta kvöld hafði Björn, ásamt öðrum manni, gægzt á gluggana hjá okkur, um það leyti, er við fundum ódauninn.
Þeim Runólfssonum þótti Móri leið fylgja, og vildu um fram allt losna við hann, því komið hafði fyrir, að Móri sótti að mönnum með veikindum og óhöppum, nokkru áður en þeir bræður komu til bæja. Urðu þeir bræður þess vegna lítt þokkaðir. Einhverju sinni tepptist Runki mormóni uppi í Landeyjum. Hann hafði heyrt getið Ögmundar í Auraseli, og margt sagt frá kunnáttu hans. Hugðist hann nú nota tækifærið og losna við fylgifisk sinn. Fór hann því upp að Auraseli og leitaði ráða hjá Ögmundi. Kenndi hann Runka nokkrar bænir og sagði honum að koma draugnum fyrir í Landakirkjugarði, og festa hann við leiði Ingiríðar móður sinnar. Er sögn manna, að ófagrar væri þær bænir, sem Ögmundur kenndi Runka, og hefði hann meðal annars átt að snúa faðirvorinu upp á fjandann. Fyrir ráðleggingarnar galt Runki eina alin af rullu. —
Skömmu eftir að Runki kom aftur út í Eyjar, fór hann upp í Landakirkjugarð, og var hann heila nótt að koma draugnum fyrir og festa hann við leiði Ingiríðar. Fór hann að öllu eftir ráðleggingum Ögmundar. Eftir þetta sagðist Runki oft hafa séð Móra, sitjandi á leiðinu, er hann átti leið fram hjá kirkjugarðinum. Síðan hefur aldrei orðið vart við draug þennan. Nokkru síðar fór Runki til Ameríku, enda hafði Ögmundur ráðlagt honum að dvelja sem skemmst í Eyjum þaðan í frá, ef hann vildi losna við fylgjuna fyrir fullt og allt, því skeð gæti, að draugurinn losnaði af leiðinu, er frá liði, og mundi hann þá fylgja honum upp frá því til æfiloka. Um það leyti fór Björn bróðir hans einnig til Ameríku. Löngu seinna kom Runki mormóni aftur til Íslands, en ekki þorði hann þá að koma í land í Vestmannaeyjum af ótta við Móra. Settist hann að í Reykjavík og stundaði þar lækningar sem hómópati. Seinna varð hann prestur í Gaulverjabæ hjá fríkirkjusöfnuði, sem þar var stofnaður, þegar leggja átti niður prestsetrið á þeim kirkjustað, og þar mun hann hafa verið í sjö ár. Árið 1909 sótti hann til Alþingis um tvö hundruð króna árlegan styrk úr ríkissjóði, þangað til honum auðnaðist að fá prestakall. Hann flutti aftur til Ameríku til barna sinna, og andaðist þar fyrir fáum árum.
(Eftir sögnum Guðríðar Bjarnadóttur, Hannesar Jónssonar, Kjartans Jónssonar og Páls Bjarnasonar)