Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Áminningarræðan

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. ágúst 2015 kl. 21:27 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. ágúst 2015 kl. 21:27 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Áminningarræðan.


Séra Bjarnhéðinn, sonur Guðmundar Eyjólfssonar, bónda og smiðs í Þorlaugargerði, var prestur að Kirkjubæ frá 1792 og þangað til hann andaðist 20. október 1821, 66 ára gamall. Áður en Bjarnhéðinn fékk brauðið, hafði hann um 14 ára skeið verið aðstoðarprestur hjá séra Guðmundi Högnasyni tengdaföður sínum, og fékk Kirkjubæ, þegar hann lét af prestsskap. íðari hluta æfi sinnar átti séra Bjarnhéðinn að stríða við mesta heilsuleysi, og missti sjónina um það leyti, nær algjörlega. Þegar hann gat ekki lengur þjónað brauðinu sjálfur, tók hann sér aðstoðarpresta.
Árin 1807—1816 gegndi þeim störfum fyrir hann séra Högni Stefánsson, sem síðar varð prestur að Hrepphólum og andaðist þar árið 1837, 66 ára að aldri, og síðan séra Stefán Stefánsson, sem þjónaði þangað til séra Páll Jónsson (Páll skáldi) tók við brauðinu árið 1822. Stefán varð síðar prestur að Felli í Mýrdal. Séra Högni varð Vestmannaeyingum lengi minnisstæður.
Þeir hafa jafnan verið miklir sjósóknarar, og stundum hafa sumir þeirra sótt sjóinn meira af kappi en forsjá. Vertíð eina, meðan séra Högni var aðstoðarprestur séra Bjarnhéðins, höfðu tveir af Eyjaformönnum lagt í róður í slæmu útliti og gekk að með veður. Hrepptu þeir útilegu, en náðu þó um síðir landi heilu og höldnu. Blöskraði séra Högna svo ofdirfska þessara manna, að næsta sunnudag hélt hann yfir þeim slíka áminningarræðu í kirkjunni, að hún er enn í minnum höfð.
Segja menn, að formenn þessir hafði verið þeir Guðmundur Jónsson yngri, bóndi á Vilborgarstöðum, og Magnús Bergmann, sem um tíma var verzlunarstjóri í Garðinum. Guðmundur yngri var ofdirfskufullur sjósóknari. Drukknaði hann fyrir ofhleðslu í Þríhamradjúpinu árið 1815 með allri skipshöfn sinni, 13 manns. Voru þeir báðir í kirkju þennan dag, og varð þeim svo við, að annar þeirra gekk út úr kirkjunni í miðri ræðu, en hinn setti upp hatt sinn, og sat með hann meðan á ræðunni stóð. Ekki er þess getið, hvor þeirra fór út. Ræðan fer hér á eftir í heilu lagi, sökum þess að hún er merkileg að mörgu leyti:
Texti: Þakkið þér drottni fyrir hans miskunn og fyrir hans dásemdir við mannanna börn, og offrið þakkarfórn og kunngjörið hans verk með gleðisöng.
Þeir, sem fara á skipum út á hafið og gegna sinni sýslan á þeim stóru vötnunum, þeir sjá drottins verk og hans dásemdir á daginn. Hann talaði og þar kom stormviðri, sem hóf upp hafsins bylgjur. Þær lyftust upp til himins og sigu niður í undirdjúpin og þeim féllst hugur í neyðinni. Þeir hröktust umkring og reikuðu sem drukknir menn, og öll þeirra ráðdeild var þrotin, þeir kölluðu til drottins í angistinni og hann hjálpaði þeim í þeirra nauðum. Hann stöðvaði hinn mikla storm og bylgjurnar þögnuðu, og þeir glöddust þegar lygndi, og hann leiddi þá að landi eftir þeirra ósk.
Þakkið þér drottni fyrir hans miskunn og fyrir hans dásemdir við mannanna börn, og vegsamið hann á fólkssamkomunni og lofið hann á öldungafundinum.
Salm. 107, v. 21.
Þetta ber að sönnu öllum að gjöra, sem fyrir guðs óþreytandi þolinmæði og föðurlega handleiðslu eru komnir fram á þennan dag. En þó vil ég í þetta sinn víkja orðum mínum til yðar, sem fyrir guðs sérstaka handleiðslu eruð lífs af komnir úr þeim háska, sem þér mættuð síðastliðinn þriðjudag. og með þeim orðum ritningarinnar minna yður á, þar svo stendur:
Þú skalt ekki freista drottins guðs þíns.
Hvernig að mennirnir freista drottins var yður, sem öðrum í þessum söfnuði, eftir mínum veikum skilningi, einfaldlega fyrir sjónir sett, síðastliðinn 21. marz. En hvort þér hafið gleymt því af gáleysi, fávizku eða forhertu hjarta, læt ég ósagt í þetta sinn, en því fremur vildi ég rifja upp fyrir yður og öllum þeim, sem orð mín kunna að heyra, að sá drottinn, sem hefur skipað oss að vera forsjálum og aðgætnum, hann hefur einnig skipað oss, að vér skyidum varast hættuna, svo mikið sem í voru valdi stendur, og ávallt brúka þau beztu meðul eftir þeirri greind, sem hann hefur lánað oss til að afstýra vandræðum og yfirvofandi áfalli.
Þegar vér með blindu trúnaðartrausti til guðs umhyggju og varðveizlu, steypum oss í auðsjáanlegan háska að nauðalausu, í þeirri von að guð kunni að varðveita oss, þá freistum vér drottins, því ofdirfskan hefur ekkert fyrirheit um guðs varatekt.
Hvaða nauð dró yður til að kalla fólk út í lítt fært veður og ólgufullan sjó? Alls engin nauð dró yður þar til, því síður sem þér hafið framar öðrum orðið aðnjótandi guðs blessunar af sjónum. Svo er náðarríkri guðs forsjón fyrir þakkandi, að hvorki þér né aðrir hér í plássi hafið enn sem komið er, liðið stóran brest á yðar atvinnu og lífs uppeldi. Yður dró því engin nauð til þessarar sjóferðar, heldur í hennar stað djöfulleg öfund, svívirðileg ofdirfska, skaðleg metorðagirnd og skammarlega fíflsleg og straffsverð kappgirni.
Þessir lestir, sem smána og níða svo yðar sem annara kristilega nafn og rigti, þar sem þeir eru drottnandi. Þessir lestir voru það, sem framdrifu yður sem viltan fénað, sem drífur undan góðu skýli í hörku byl. Hversu fimlega hlupuð þér til þessa hroðalega stórræðis að flýja heimili yðar, hjúskap og land, eins og líflausir sakamenn, eða forflótta þorparar og útstroku þrælar undan hegnandi harðstjóra, þér sem megið þó enn sem komið er, eins og valinkunnir borgarar föðurlandsins, njóta æskilegs friðar og þannig lifa í friði, ánægju og elsku hjá ástfólgnum egtamökum.
Já, þegar hrosspeningurinn, sem er náskyldur asnanum, hamaði sig og leitaði skýlis, hélduð þér með óskelfdri hugprýði því líðilega asnastriki, eftir erfiðan setning um fjöru, að halda undan landi í fiskileitir. En svo illt, sem þetta var, mátti það þó að liði verða, ef þér hefðuð farið kristilega að högum yðar, þegar þér voruð í fiskileitum og höfðuð fengið að njóta guðs blessunar, þó yður þætti hún lítil, þegar guðs forsjón frambauð yður hagstæðan byr og fall til að bjarga skipi, mönnum og afla til lands aftur.
Þessar guðs framboðnu velgjörðir, þessa guðs framboðnu hjálparstund forsmáðuð þér, eins og samvizkulausir níðingar og þrálátir syndaþrælar, án minnstu tilfinningar um skyldu yðar við guð og sjálfa yður og aðra menn. Yðar skylda við guð í þessu tilfelli var þá og er enn sú, að freista hans ekki með ofdirfskunni, við sjálfa yður og háseta yðar, að stofna hvorki yður né þeim í opinberan lífsháska, hvar af bæði þeirra og yðar eftirlifendur kynnu að komast í ýmisleg vandræði, armóð og ólukku. <
Ó, mikið er ansvarið, stórt er pundið, kristnir menn, ef út af ber. En reynslan sýndi næstliðinn þriðjudag, að þér gleymduð þessu, þar sem þér láguð við bölvaðan stjóra ágirndar, metnaðar, fíflsku og kappgirni þangað til að óttalegt náttmyrkur, æðandi sjór og stormur, gjörði tvísýnt um, að þið mættuð keppast um hluti yðar í helvíti og gjalda þar manntal með eilífum kvölum fyrir sjálfa yður og þær sálir, sem yður er til trúað, hefði hinn náðugi guð ekki tilséð og rétt yður sína almáttugu hjálparhönd til að rykkja yður upp úr djúpi neyðar og hörmunga, sem þér sjálfir höfðuð með yðar samvizkulausa og fráleita gapaskap sökkt yður í.
Svo freklega var nú þriðjudagsferðin byrjuð og líðilega fram haldin. Hún var einnig hraklega enduð, því þegar þið voruð orðnir leiðir á að lúra þar fram á nótt yfir hægum reytingi, eins og hraktir hundar yfir litlu æti, þá fyrst fá þeir yðar náðuga leyfi til að reyna að bjarga lífi sínu.
Ó, minnilega nærgætni og meðlíðan góðra formanna! Hvernig þessir vesalingar, nauðhraktir, þreyttir, þyrstir, svangir, syfjaðir og húðlausir hrökkluðust um þann næturtíma heim og náðu lífi og landi, veit guð einn líka. Hann einn veit það, sem í myrkrunum er hulið, og á sínum tíma mun leiða í ljós allar þær gjörðir, orð og athafnir, sem meðal yðar hafa fram farið þessa sömu nótt. Honum einum er og kunnugt, hvað vel þið allir hafið verið búnir við dauðanum í það sinn.
Mér er spurn, hvort þér nú getið neitað því, að þessi yðar sjóferð hafi ekki verið freklega byrjuð, líðilega fram haldin og hraklega enduð. Sannfærir yður ekki um það sama, aukin tilfinning á holdinu útvortis, eruð þér eins hraustir og heilir til að leita yður lífsbjargar af sjónum, eftir sem áður? Þegar guð býður yður betra tækifæri en þér brúkuðuð í þetta sinn, ef þér þá ekki getið þessa fullkomlega neytt, bera þá ekki særindi líkamans yður vitni um vansa syndarinnar og minna yður á skammsýni yðar í því að búa yður undir betri tíðir.
Svo takið nú sinnaskipti, bræður mínir, og snúið yður til guðs af hreinu og iðrandi hjarta með öruggu trúnaðartrausti til Jesú dýrmætu forþénustu og fyrirbónar, varist framvegis að freista drottins, gjörið aldrei gys að þeim heilaga guði, sýnið aldrei framar blygðunarlaust foragt töldum áminningum, sem horfa til yðar sönnu velferðar, með þvermóðskufullu framhaldi í drottnandi syndum, misbrúkið ekki ríkdóm guðs gæzku og langlundargeðs, sem enn nú sparar yður við lífið til endurvitkunar, misbrúkið ekki þann ríkdóm guðs til þess er sízt skyldi, freistið ekki guðs, safnið yður ekki syndum allt til himins.
Vitið, ef þér gjörið það, mun guð einhvern tíma tala til yðar í sinni reiði, sern þá brennur allt til neðsta helvítis og varpa yður í það afgrunn, sem engan útgang hefur, hvaðan engrar endurlausnar er von, og þá munuð fá allt um seinan þekkt, að sá óendanlega góði guð lætur ekki algegnt að freista mín.
Ó, minn guð, gef að vér aldrei gjörum gys að þinni náð, sem þú enn nú frambýður oss, sem oss stendur ennþá til boða, svo vér verðum ekki miðið, sem þín reiði stefnir á.
Leitið heldur drottins meðan hann er að finna, kallið á hann meðan hann er nálægur, sá hinn óguðlegi láti af sínum vegi, og illvirkinn af sinni hugsun og snúi sér til drottins, þá mun hann miskunna honum, og til guðs síns, því hjá honum er mikil fyrirgefning. Leitið fyrst guðs ríkis og hans réttlætis, svo mun yður allt gott veitast. Byrjið allir allar yðar útréttingar til sjós og lands í sönnum guðsótta, með innilegri bæn til guðs kröftugu hjálpar, lukku og blessun til alls góðs. Framfylgið hver yðar vinnu til sjós og lands með skynsamlegri greind, hófsemi og stillingu og skynsamlegri greind til orðs og æðis, í eining og samlyndi og friði, og endið svo hvern dag með auðmjúkri lofgjörð við skaparann fyrir hans föðurlegu vernd og varatekt, hjálp og aðstoð, líf, heilsu, lukku og blessun og allt, sem þér hafið að notið.
Svo fel ég yður að lyktum náðarríkri guðs forsjón um tíma og eilífð. Í Jesú nafni amen, með þeirri játningu:

Allt það ég hefi illa gert,
allt, Jesú, bæta kominn ert,
um allt því ég kvittur er
allt mitt líf skal þjóna þér
þar til bið ég, hjálpa þú mér.

(Almenn sögn, en ræðan eftir afriti Kristins Sigurðssonar, Löndum.)