Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Álfhólar (JGÓ)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 19:51 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. júní 2012 kl. 19:51 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Álfhólar (JGÓ) færð á Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Álfhólar (JGÓ))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Álfhólar.


Það var trú manna fyrrum, að huldufólk og álfar hefði byggð sína í nálega hverjum hól. Þannig er sagt, að huldufólk hafi átt heima í Bússu við Vilborgarstaðaveg og Bússu vestan við Vesturhús, grjóthólum tveim, en litlar sögur fara af því huldufólki.
Þar sem traðirnar heim að Miðhúsum byrjuðu, var grasi vaxinn hóll, sem huldufólk hafði byggt um langan aldur. Var það fáskiptið af mönnum og urðu Miðhúsamenn sjaldan við það varir. Þó var það einhverju sinni, að heimafólk á Miðhúsum varð vart við það, að eftir túninu fór huldufólkslíkfylgd að kvöldlagi, og heyrðist sálmasöngur meðan að líkfylgdin var að fara fram hjá, en það tók nokkra stund. Ekki er þess getið, hvort jarðað var í Landakirkjugarði eða annars staðar.
Á gamalárskvöld hafði huldufólkið bústaðaskipti, og var þá bezt að vera sem minnst á ferli úti við.
(Sögn Guðlaugs Vigfússonar).