Ritverk Árna Árnasonar/Sveinbjörn Jónsson (Dölum)

From Heimaslóð
Revision as of 18:36, 3 April 2024 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search

Kynning.

Sveinbjörn Jónsson.

Sveinbjörn Jónsson rafstöðvarstjóri frá Dölum fæddist 16. mars 1889 og lést 6. apríl 1930.
Foreldrar hans voru Jón Gunnsteinsson bóndi, útvegsmaður og söðlasmiður í Dölum, f. 10. desember 1844, d. 19. júlí 1924, og kona hans Þorgerður Hjálmarsdóttir húsfreyja, f. 4. júní 1855 að Ketilsstöðum Mýrdal, d. 2. mars 1939.

Kona Sveinbjörns var Tómasína Elín Eiríksdóttir húsfreyja, f. 22. júlí 1889, d. 6. október 1941.
Þau byggðu húsið Fífilgötu 5.
Barn Sveinbjörns og Tómasínu var
Guðrún Vigdís húsfreyja, f. 15. mars 1917, d. 7. janúar 2009, gift Gísla stórkaupmanni Gíslasyni Þórðarsonar, og konu Gísla Þórðarsonar, Rannveigar Vilhjálmsdóttur frá Þrándarstöðum í Vopnafirði.
Meðal systkina Sveinbjörns voru Hjálmar Jónsson, Vilhjálmur Jónsson rafveitustjóri, Matthías Guðlaugur Jónsson klæðskeri, f. 15. nóvember 1892, d. 25. janúar 1977, kvæntur Unni Pálsdóttur forstöðukonu, f. 3. mars 1911, d. 12. maí 2000, og Halla Jónsdóttir húsfreyja.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Sveinbjörn var meir en meðalmaður á hæð, dökkhærður en ljós í andliti. Hann var alla tíð beinaber og frekar magur, en mjög líkamaléttur, snar, leikamaður mikill og mjög fimur, enda afbragðs fjallgöngumaður og kleif hamra þá létt og örugglega, er mönnum fundust lítt göngufærir.
Sigamaður var hann ágætur, enda slíku vanur allt frá æsku sinni í Eyjum, og voru sigaferðir hans ærið margar bæði í Álsey og Dalfjallinu, en þar átti faðir hans leigumála fyrir jörð sína Dali.
Sveinbjörn fór til Ameríku ásamt vini sínum, Magnúsi Eiríkssyni á Vesturhúsum, og komust þeir vestur til Alaska, Clondyke og víðar.
Sveinbjörn varð rafstöðvarstjóri á hinni fyrstu rafstöð bæjarins og gegndi því starfi með snilli til æviloka.
Hann var mesti fjörkálfur og mjög afhaldinn, enda góðmenni og öllum jafn. Nýliðum í útey var Sveinbjörn einlæg hjálparhella og kenndi mörgum fyrstu tökin á háf og fugli. Hann var einn af þeim, sem hélt á lofti heiðursskildi Álseyjar á kappsfullum veiðitímum úteyjanna, og gerði það drengilega.

ctr


Sveinbjörn Jónsson með konu sinni Tómasínu Eiríksdóttur og Guðrúnu dóttur þeirra.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.