Ritverk Árna Árnasonar/Sigurður „Skuggi“ og séra Tumi Eyjatröll

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 12:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. ágúst 2013 kl. 12:30 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Sigurður „Skuggi“ og séra Tumi Eyjatröll“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Sigurður „Skuggi“ og séra Tumi Eyjatröll
Fræðsluerindi flutt í Akóges


Sigurður sýslumaður Sigurðsson er nefndur var „Skuggi“ var sonur séra Sigurðar í Flatey Tómassonar.
Hann lærði undir skóla hjá föður sínum, sigldi síðan til Háskólans í Kaupmannahöfn, þar sem hann svo lauk prófi í lögfræði með þriðju einkunn.
Að prófi loknu hélt hann heim og var honum veitt Vestmannaeyjasýsla. Hér var hann í tvö ár, en fékk þá Ísafjarðarsýslu 1760. Þar var hann í nokkur ár, en átti þar litlum vinsældum að fagna. Lenti hann í miklu málaþrasi og stappi, er lauk svo, að hann hrökklaðist frá sýslunni 1768. Þá var honum aftur veitt Vestmannaeyjasýsla og dvaldi þar til 1786, að hann fékk Borgarfjarðarsýslu. Ekki gekk honum betur þar, en flæktist í hin illvígustu málaferli. Sagði hann svo af sér sýslumennsku 1792, þreyttur og hugsjúkur vegna fjárhagsörðuleika og annarrar armæðu og basls.
Kona Sigurðar var Ásta dóttir Sigurðar prófasts í Holti í Önundarfirði. En sambúð þeirra var stutt, því að hún andaðist hér í Eyjum 1770. Síðast er af Sigurði að segja, að hann flæktist til Kaupmannahafnar og lifði þar í mikilli fátækt, þar til hann andaðist í Friðriksspítala 18. ágúst 1798, saddur lífdaga.
Skal nú nokkuð sagt frá Sigurði sýslumanni.
Þegar hann var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, bjó hann að Mosvöllum í Önundarfirði. Eitt sinn hélt hann þar á heimili sínu sakakonu nokkura. Ekki veit ég, hvaða glæp hún hefir framið, en hitt fullyrt, hún hafi verið um flesta hluti mjög myndarleg og með afburðum dugleg til hverskonar verka, er hún gekk til. Það var að vorlagi, að Sigurður tók stúlku þessa til sín. Hafði hann heitið henni því, að ef hún gengi með dugnaði að heyskapnum um sumarið, skyldi hann gefa henni upp sakir og fullkomið frelsi um haustið. Ekki er að efa það, að þessu boði tók stúlkan feginshendi, og vann hún á við tvo fullgilda kvenmenn um sumarið. En þegar að frelsisdegi stúlkunnar kom, brá Sigurður sýslumaður heiti sínu við hana, og var stúlkan dæmd í þungar refsingar eða til lífláts fyrir afbrot sitt.
Eftir þetta fóru flestir hlutir að ganga sýslumanni verr en áður var, og það í svo ríkum mæli að vart þótti einleikið. Gerðist hann drykkfelldur mjög og tók að sýna ýmiskonar vanrækslu í starfi sínu. Búi hans hrakaði dag frá degi, og óvinsældir hans jukust í héraðinu að sama skapi. Þó skeði og sá einkennilegi atburður, að sýslumaður gerðist með ódæmum lúsugur og fékk ekki við þau ógeðslegheit losnað, hverra ráða, sem leitað var og hverra meðala sem neytt var. Loks kom svo í tilbót, að hann varð að hrökklast burt úr sýslunni og fékk þá aftur Vestmannaeyjar sem fyrr getur. Allt var þá álitið nógu gott fyrir Vestmannaeyinga, enda var álit á Eyjabúum heldur bágborið hjá landsbúum yfirleitt, álitnir hinir mestu óráðsíumenn, fyllibyttur, þjófar, hórdómsmenn, sem allir kvikuðu í lús og óþverra.
Til er bréf frá Magnúsi Stephensen lækni, sem hann skrifaði, meðan hann dvaldi hér í Eyjum. Lýsir hann í bréfi þessu, sem er til landlæknis, mjög nákvæmlega lifnaðarháttum Eyjabúa, sóðaskap þeirra og fleira. Segir t.d., að menn byggi forirnar við bæjardyrnar, beri í þær saur og slor, leggi svo dauninn af þessu inn í kotin, hvar inni sé ekki lifandi fyrir fýlu, skít og lús, og sé hún alin þar sem hvað annað húsdýr. Í hinni kunnu vísu segir meðal annars:

...Þar er fugl og fiskur nógur,
metnaðurinn ærin plógur,
en ærlegur maður ekki neinn.

Sigurður Breiðfjörð lét og illa af veru sinni hér; en hann var hér beykir um tíma og kallaði þó ekki allt ömmu sína, drakk og svallaði óhóflega; – hann álítur Eyjabúa — svo skemmda að jafnvel birtu og yls sé varnað, – segir t.d:

Þegar ég fæ sól að sjá,
svo ég þykist skilja,
hún skín þennan hólma á
af hlíðni, en ekki vilja.

Einstaka menn tóku þá rösklega upp hanskana fyrri þá Eyjabúana í ræðum og ritum, eins og t.d. prestarnir hér og svo Jón Jónsson er nefndur var Torfabróðir eða Jón Skáldi, og reyndu að hrinda áburði þessum af þeim.
Jón Austmann prestur segir um siðferðið hér: „Siðferðinu hér er mikið ábótavant sem annarsstaðar, þó hvergi nærri eins og lærðustu menn landsins vilja vera láta í ræðum og ritum, og er það mikið íhugunarvert að tala svo um sína eigin landa að orsakalausu hans eða fara eftir einberri sögusögn og hleypidómum. Því að hinir siðferðislegu lestir, svo sem þjófnaður, hórdómur, þrætur og fjandskapur er hér engan veginn algengari en í hverri annari sveit á meginlandinu nema síður sé.“
Varast mun hægt að álíta, að lúsin hafi minnkað hér við komu Sigurðar Skugga í seinna skiptið, og hefir hún þó sannarlega getað gripið um sig á þeim átta árum, sem hann var hér þá eða þar til Borgfirðingar fengu hann með þennan ófögnuð. Um Sigurð sýslumann kvað séra Jón á Bægisá:

„Skuggi hingað skaust á hesti fúsum,
Skuggi gisti nótt í Amtmannshúsum,
Skugga blakkur, Skugga hnakkur,
skuggastakkur, — skreið og sprakk í lúsum.“

Þegar Sigurður fór frá Mosvöllum, var farið með búslóð hans niður í svokallað „Arnarbæli“, sem var tangi nokkur, er gengur fram í Vöðin innarlega við Önundarfjörð og má ágætlega lenda þar við á bát. Þegar nú dót Sigurðar hafði verið flutt á Arnarbælistanga, gerði flóð afar mikið, svo að sjór gekk yfir tangann, og allt dót hans tók út og týndist. Varð Sigurður fyrir hinum mesta skaða og mátti heita, að hann færi slyppur og snauður frá Mosvöllum. Flóð þetta þótti með hinum mestu ólíkindum eins og annað, sem fram kom við Sigurð Skugga, því að aldrei, hvorki fyrr né síðar, hefir flætt yfir Arnarbælistanga. Var þetta álitin hefnd æðri máttvalda við Sigurð vegna brigðmælginnar við sakakonuna, og allt ólán hans sett í samband við það atvik.
Sonur Sigurðar Skugga og Ástu konu hans, og fæddur hér í Eyjum 14. maí 1768, var Tómas Sigurðsson, síðar prestur í Flatey á Breiðafirði. Faðir hans átti um þær mundir í margvíslegu málastappi og dvaldi langdvölum erlendis, svo að hann sinnti lítið um drenginn móðurlausan. Naut hann því lítillar umhirðu eða aðhlynningar í uppvextinum, enda sagðist honum svo sjálfum frá síðar, að foreldraleysið hafi verið meginbölvun ævi sinnar. Sést af æviágripi, sem hann hefir innfært í kirkjubækurnar í Flatey og í Holti, að móðurleysið hefir haft mjög djúptæk áhrif á hann, og virðist aðbúð hans sem barns í föðurhúsum hafa verið mjög ömurleg. Segist hann og hafa verið hinn mesti æringi og villingur í æsku, sem ekki hafi hlýtt boðum neins eða banni. Þó segir hann frá atviki, er varð til þess að spekja hann dálítið og lægja í honum óhemjuskapinn, og tek ég það hér orðrétt upp.
Svo bar við eitt sinn, er hann var 12 ára gamall í Eyjum, að hann fór með nokkrum mönnum út í Elliðaey til að rýja fé og taka svartfuglsegg. Meðan mennirnir eru við rúninguna, skipuðu þeir Tómasi að hafa hægt um sig og fara ekki á brott, því að þeir vissu, að hann var sólginn í að klifra í björg og fór þá all glannalega.
En allt um það hvarf Tómas frá rúningunni og hélt upp á hæstu nöf Eyjarinnar, er Hábarð heitir. Þegar þangað kom, sá hann á syllu einni nokkuð niðri í bergi mikið af svartfuglseggjum, sem hann vildi fyrir hvern mun ná í og byrjaði að fikra sig niður í bergið. Aðstaðan var ill, erfitt að fóta sig og gapandi hengiflugið fyrir neðan.
Þegar hann hafði nú klifrað svo langt sem hann komst, lagðist hann flatur og hugðist teygja sig niður á hilluna, þar sem eggin voru. Vissi hann þá ekki fyrr til en hann missti jafnvægið og rann fram af hillunni. Vitanlega hlaut þetta að verða bráður bani hverjum manni, og svo hefði vissulega fyrir Tuma litla farið, ef ekki alveg sérstakt lán hefði fyrirkomið og bjargað lífi hans.
Um morguninn, áður en hann fór að heiman, hafði hann verið færður í nýja peysu yst fata. Hún var húðsterk og skjólfat hið besta. Vildi nú svo einkennilega til að þegar Tumi hafði hrapað spölkorn niður og taldi sér dauðann vísan, festist peysan á klettanibbu og stöðvaði fallið.
Hékk hann þarna dinglandi í lausu lofti langa hríð, veinandi og spriklandi og leið vitanlega skelfingskvalir. Loks heyrðu mennirnir ópin í honum og komu honum til hjálpar, enda voru þeir þá þegar farnir að leita hans.
Var einn maður látinn síga niður til hans með lausan vað, og heppnaðist honum að koma honum á Tómas svo traustlega að hægt var að draga hann upp. Þótti þetta stórfurðuleg björgun, því að venjulega sleppa Vestmannaeyjabjörgin ekki offri sínu lifandi. Þó má í þessu sambandi minnast á hrap Hannesar lóðs í Bjarnarey, sem bjargaðist á óskiljanlegan hátt sumarið 1865, þá 13 ára gamall, hékk lengi dinglandi með höfuðið niður, í lausu lofti, en fastur með fótinn í fuglanetinu, sem festist á klettanös, en rankaði svo við uppi í brekku, nokkuð frá brún.
Ekkert var hirt um að halda Tuma til bóknáms lengi frameftir og ekki fyrr en hann var 15 ára gamall. Þó var honum komið til kennslu hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni, síðar presti í Holti undir Eyjafjöllum, en þá prestur í Fljótshlíðinni, og var Tumi við þangaðkomu sína hvorki læs né skrifandi. Ekki leyst presti sem best á að koma honum framyfir, en þó var Tumi fermdur ári síðar, og þótti það hið mesta afreksverk af séra Þorvaldi og bera vott um góða kennarahæfileika hans. Tumi var mjög tornæmur og óhneigður til bóka, en samt var það ráð tekið að láta hann læra til prests. Hélst sá siður lengi hér á landi að troða heldri manna sonum til náms, — hvort þeir voru til þess hæfir eða ekki, enda voru og margir embættismennirnir heldur lélegir í starfi sínu, t.d. prestar og sýslumenn.
Um þessar mundir hafði Sigurður faðir Tuma fengið Borgarfjarðarsýslu, og fluttist Tumi með honum að Hvanneyri 1786. Var honum þá komið til latínunáms hjá séra Arngrími á Melum Jónssyni. Þar var Tumi í eitt ár, en hljóp þá frá öllu saman heim. Þá tók séra Sigurður Jónsson á Ökrum við honum og bjó hann undir skóla, sem hann komst í 1790, og var það Reykjavíkurskólinn eldri. Tuma sóttist námið treglega, þrátt fyrir ærinn undirbúning og útskrifaðist ekki fyrr en 1796. Var sagt, það hefði verið Ólafi Stephensen stiftamtmanni að þakka, að hann var ekki gerður afturreka þá. Það er sagt, að þegar hann var í skóla, og biskup ætlaði að fara að yfirheyra hann til dimissionar, hafi Tumi lagt smáspýtur, vafðar í pappír, inn í bækur sínar og sett þær svo undir farg. Þetta gerði hann til þess að þær opnuðust helst þar, sem spýturnar höfðu verið, en þar fannst honum, hann helst eitthvað kunna úr þeim. En nú bar biskup svo brátt að, að Tumi hafði ekki tíma til að ná í spýturnar, og komst allt upp.
Spurði biskup hann svo allsstaðar annarsstaðar út úr fræðunum, og kunni hann ekkert. Hætti biskup því þeirri yfirheyrslu, en fór að spyrja hann út úr Úlfarsrímum og um heiti og hæð fjallanna í Vestmannaeyjum, en þar varð Tuma engra svara vant. Aumkvaðist biskup yfir hann og lét hann fá próf vegna þess, hve lengi hann var búinn að vera í skóla, og er það trúlegt, þareð Tumi fékk prestspróf uppá Úlfarsrímur og Vestmannaeyjalýsingu.
Ári síðar vígðist Tumi aðstoðarprestur að Hítarnesþingum til séra Sigurðar Jónssonar. Gekk hann að eiga Guðrúnu dóttir Sigurðar, og tóku þau bú í Hítarnesi. Árið 1799 andaðist séra Sigurður og varð Tómas þá að flytja af kirkjujörðinni, því að annar prestur fékk brauðið. Má segja, að séra Tumi fari allslaus þaðan, því að árið, sem hann skilaði af sér, missti hann 53 kindur, sem flæddu í sjó og týndust.
Næstu sjö árin bjó Tumi á ýmsum eymdarkotum, eignalaus og allslaus og í hinu mesta basli. Vann hann þá hvaða vinnu, sem að höndum bar, réri til fiskjar, bæði vetur og vor í Höskuldsey og víðar, og var það lífið hans, ef eitthvað fiskaðist.
Oft hefur séra Tumi ábyggilega átt erfitt, en þetta tímabil mun hafa verið alverst fyrir hann, enda segir hann það verið hafa voða tíma. Sýndi hann mikinn dugnað í því að hafa að halda lífinu í heimilisfólki sínu í harðindum þeim, er þá yfirgengu. Heldur þótti hann þó hlédrægur við erfiðisvinnu og var ekki álitinn mikill ræðari, þótt hann væri hverjum manni sterkari og úthaldsbetri, ef hann vildi svo við hafa. Ef vont var í sjó og mikils þurfti við, fór öll leti af honum, og tók hann þá svo á að um munaði og til var tekið af styrkum mönnum. Skal og síðar víkja að kröftum hans og líkamsbyggingu nánar.
Geir biskup Vídalín vissi um vesældóm séra Tuma og vorkenndi honum. Veitti hann honum því Flatey á Breiðafirði 1807. Áður höfðu honum verið veitt fjögur prestaköll, en þareð þau voru austur í Múlasýslum treysti Tumi sér ekki að komast þangað austur vegna fátæktar og gat því ekki tekið við neinu þeirra. Tók hann því nú feginshendi veitingu Flateyjarbrauðs og fór þangað. En fátækleg var ferð hans. Fór hann vestur yfir Breiðafjörð á lítilli skekktu, sem hann átti, og var þá allt búfé hans ein kvíga. Flateyingum þótti að vonum fátækleg ferðin prestsins þangað og lítilfjörleg búslóðin. En þeir tóku vel á móti honum og höfðinglega, enda var þá aðalráðamaður í Flatey Eiríkur Kúld kaupmaður.
Tumi segir um för sína sjálfur: „Þar hittum við hjónin, af guði sendan, þann nafnfræga og að mannkærleika, gæsku, dáð og dugnaði, alkunna kaupmann, E.P. Kúld, sem strax sama dag og við komum uppbyrjaði það góða við okkur, sem hann með staðfastri föðurtryggð áframhélt, meðan við þar dvöldum.“
Í Flatey var séra Tumi prestur í sextán ár, og telur hann það besta tímabil ævi sinnar, en fór þaðan 1823 til Garpsdals, mest undan ofríki Guðmundar Schevings kaupmanns, sem sýndi honum yfirgang eins og mörgum fleirum, eftir að hann tók við Flateyjarverslun. Í Garpsdal var Tumi í þrettán ár, en bjó þar alltaf við hina mestu fátækt.
Árið 1836 fékk hann svo veitingu fyrir Holti í Önundarfirði, þar sem afi hans og langafi höfðu verið prestar í áttatíu ár. Þar bjó séra Tumi að Vöðlum sitt fyrsta ár eftir að hann kom í sóknina, og þar tók fyrst að bera á rugli í honum, sem snerist brátt upp í hreina geðbilun. Sigurður sonur hans var um þessar mundir nýorðinn stúdent, og tók Tumi hann sér fyrir aðstoðarprest og sagði svo af sér prestsskap árið 1847. Hann andaðist í Önundarfirði 13. október 1849.
Séra Tumi var með allra stærstu mönnum, þjár álnir og þrjár tommur á hæð og vóg tuttugu og fjóra fjórðunga í hempunni og var þó ýstrulaus, samsvaraði sér mæta vel, og var vegna stærðar nefndur Eyjatröll, Eyjarisi. Hann var herðabreiður en miðmjór, með þreklegar herðar og býsna vöðvastór, hálsdigur og nokkuð stórskorinn í andliti. Hann hafði loðnar augabrýr, svartar og samvaxnar. Háraddaður var hann og digur í málrómi. Augun voru ekki stór, en dökk og hvöss. Hann var gestrisinn vel og greiðugur, en alla tíð fremur fátækur. Og mun drykkjuskapur hans hafa valdið því að miklu leyti. Hann var hrifinn af því að vera kenndur við Eyjar og dáði þær mjög í ræðu og riti. „Svona taka þeir á í Eyjunum,“ sagði hann, ef einhver dáði krafta hans, sem oft var. Hafa býsna margar sögur gengið um séra Tuma, bæði um krafta hans og einkennilega hætti, og skal ég hér nefna nokkrar.
Tumi var matmaður með afbrigðum, og þegar hann var á ferðalögum, hafði hann ávallt nesti með sér, eftir því sem efni stóðu til, t.d. brauð, smjör, kökur, feitt kjöt eða hákarl, allt í frakkavösunum sínum. Greip hann svo til þessa, þegar hann svengdi. Stundum tók hann sneiðar af mat þeim, er fyrir hann var borinn á bæjunum, lét í vasa sína og át á leiðinni frá bæ til hins næsta. Alltaf bauð hann samferðamönnum sínum bita með sér, en fáir þáðu, einkanlega vegna þess að, ef hann var drukkinn eða heitt í veðri, gætti hann ekki svo vel sem skyldi vasa sinna og vista, settist oft á þær, svo að feitin löðraði upp úr vösunum og allt lenti í einni kássu.
Þegar Tumi fór úr Flatey alfarinn og að Garpsdal, var hann á stórum bát, er Skörungur hét. Kom þá upp illhveli mikið og elti bátinn, og urðu menn allhræddir. Tók Tumi þá það ráð að biðja fyrir sér, en ekkert dugði, — hvalurinn elti sem áður. Þá brá séra Tumi bænum sínum, hljóp, stökk aftur í stafnlok og kvað þar með þrumandi rödd:

„Sá ég eina seint um kveld,
sú var að steikja soð á glóð,
byssan, — hryssan blés í eld,
úr báðum rössum vindur stóð.“

Það er sagt, að við þetta yrði hvalnum nóg um og hyrfi hann í djúpið, en prestur hélt hróðugur ferða sinna.
Hvorki var Tumi laghentur né hagur til smíða. Einn vetur hafði hann þó klambrað saman bát, en ekki þótti sú smíði nein fyrirmynd að einu eða neinu leyti, þó að vísu væri bátslag á smíðinni. Bátinn nefndi hann Basla og kvað um hann þessa vísu:

„Basli, farðu að basla af stað,
baslaðu sem þú getur.
Basla, — nafnið barst þér að,
ég baslaði þig í vetur.“

Eitt sinn var Tumi á ferð úti á Skarðsströnd og var við kirkju að Skarði. Hittist þá svo á, að Skúli sýslumaður Magnússon og Kristín Bogadóttir kona hans voru til altaris þar, en þau voru þá bæði orðin gömul og farin að hrörna mjög. Þegar nú þau hjónin krupu við altarið, voru því látnir púðar undir hné þeirra til þess að mýkra yrði undir, sem og til þess að hlífa fötum þeirra. Allt fór vel og venjulega fram í kirkjunni, en að athöfninni lokinni var séra Tuma boðið til stofu á Skarði, ásamt sýslumanni, konu hans og fleira fólki. Tókust þar samræður milli prests og sýslumanns, er hörðnuðu, er á leið, því að ekki voru þeir sammála um eitt eða annað. Fannst Tuma sem sýslumaður sneri á sig í viðræðum, svo að hann varð fokvondur, lamdi borðið í klessu og sagði við Skúla: „Það er von, að þú viljir láta mikið við þig hafa og leita þér hægðar í öllu. Ég sá það í dag, þegar sessan var látin undir hné þér, en þegar herrann var að biðja fyrir skammir þínar, lá hann flatur á jörðinni, og enginn var til að bera sessur undir hann.“ Svona gat séra Tumi verið napur í orðum og tilsvörum og er sagt, að Skúla kammeráði hafi ekkert orðið vel við þetta orðlag og ásökun hans.
Sú er sögn, að einu sinni, þegar séra Tumi var í Holti í Önundarfirði, átti að járna hjá honum fola, lítt taminn, sem hann átti. Var hann orðlagt hestefni og þótti Tuma mjög vænt um folann. Hann lét sem óður væri við járninguna, svo að mennirnir réðu ekkert við hann; var séra Tumi þá sóttur til hjálpar. „Öðruvísi taka þeir á skepnum í Eyjunum,“ sagði Tumi, og dró beislistauminn í hring, sem var í hestasteininum, en smokraði sleikifingri hægri handar í taumlykkjuna, meðan hann seildist eftir legg, sem lá þar hjá, og sem hann ætlaði að smokra í lykkjuna. En í sama bili tók folinn að óskapast sem aldrei fyrr, stökk upp og rykkti svo fast í tauminn að hann nærri skar af fremsta köggul fingursins; hékk hann aðeins við á smá taug. Nú fauk ógurlega í séra Tuma, sló hann með sömu hendi heljarhögg á kjálka folans, svo að kjálkinn brotnaði í mél og varð að drepa folann þegar í stað. Mjög mikið iðraði prest þessa bráðræðis síns og tiltækis, þótt ekki yrði að gert, og mátti hann helst aldrei um folann tala, svo að hann viknaði ekki við. Bar Tumi menjar þessa atviks til dauðadags, því að fremsta köggulinn vantaði á fingurinn.
Sú er og sögn um krafta séra Tuma, að kona nokkur þar í sókninni átti nálapípu eina úr beini, erlenda smíði og hinn mesta kostagrip. Hafði lok pípunnar skrúfast svo fast á að hún varð ekki opnuð hverra manna og ráða, sem leitað var. Höfðu margir reynt krafta sína á pípunni, en allt kom fyrir ekki, — lokið bifaðist ekki. Nú bar séra Tuma þarna eitt sinn að garði og barst nálapípan í tal, sem enginn mannlegur máttur fengi opnað. Tumi bað að sýna sér pípukrýlið, tók við því og skrúfaði lokið af þegar í stað eins og það hefði laust verið, fékk húsbónda það og sagði: „Ekki var það laust, en svona taka þeir á í Eyjunum.“ Þótti mikið til þessa verks koma og hlaut Tumi hróður af.
Sem fyrr getur var báturinn, sem Tumi smíðaði sér og Basli nefndist, engin fegurðarsmíði og efalaust engin léttsmíði, en Basla bar Tumi ávallt einn á stöfnum úr og í naust og þótti frækilega gert.
Þá var það og einu sinni, að Tumi var fullur á efri árum og var að erta og mana í glímu við sig mesta vaskleikamenni Breiðfirðinga, Sigmund, son Magnúsar sýslumanns Ketilssonar. Ruku þeir saman og endaði sú orrahríð þannig, að Sigmundur rak Tuma niður fall mikið á rassinn og bað hann hætta kraftagroppi sínu. — Svona færu Breiðfirðingar með væskilmenni úr Vestmannaeyjum. Nei, svaraði Tumi og stóð upp „heldur ódrukkinn vaskleiksmaður með drukkinn prest, en svona beygja þeir Eyjamenn Breiðfirðinga,“ sagði Tumi, lagði báðar hendur á axlir Sigmunds, rak hné í kvið honum og þrýsti honum í beygju á ferð niður. Þá voru þeir skildir af Schevings-feðgum og fleirum. Sættust þeir Sigmundur síðan heilum sáttum, en orðtaki sínu og Eyjum hélt Tumi í heiðri eftir sem áður. En þótt Tumi lægi þarna, var það ekkert undarlegt, því að Sigmundur var svo lipur og fimur að sögur fóru af, en Tumi stirður, þótt hann hinsvegar væri heljarmenni að burðum.
Ekki var séra Tumi ávallt sem prestlegastur í kirkjunni. Eitt sinn var hann t.d. að fara í hempuna í kórnum í Grapsdalskirkju og kvað þá við raust þessi stef úr Andrarímum:

„ Það var högg, hann Högni gaf,
hann þurfti ekki fleiri, —
sextán gaddar sukku á kaf, —
sú var skeinan meiri.“

Að því búnu sagði hann við meðhjálparann sinn, sem var Þórður á Gránustöðum Jónsson: „Þá í herrans nafni, Þórður minn“, — og tók svo til embættisgjörðar.
Einhverntíma á síðari prestskaparárum séra Tuma, eftir að fór að bera á rugli í honum, var hann að gifta í Holtskirkju í Önundarfirði. Hélt hann þá hina undarlegustu ræðu og endaði á fyrirbæn, þar sem hann sagði meðal annars, „að hann bæði guð að lýsa brúðhjónunum með náðarljósi sínu allt inn í eilífustu myrkur.“
Margt fleira mætti um Tuma prest segja, en hér skal staðar nema. Þótti mér rétt að segja hér frá þessum manni, sem var þó Vestmanneyingur og reyndi ávallt að halda Vestmannaeyjum í heiðri.

Heimildir: Óskar Clausen, Flateyjarpistlar, Ólafur Einarsson o.fl.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit