Ritverk Árna Árnasonar/Jón Magnússon (formaður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. september 2013 kl. 18:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. september 2013 kl. 18:19 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Jón, Hólmfríður kona hans og Sigrún dóttir þeirra.

Kynning.

Jón Magnússon bóndi og formaður á Kirkjubæ, (Staðarbænum), síðan í Vallartúni, fæddist 10. október 1889 og lést 3. desember 1964.
Foreldrar hans voru Magnús Eyjólfsson frá Ystabæli undir Eyjafjöllum, smiður á Kirkjubæ, f. 17. mars 1860, d. 24. júlí 1940, og kona hans Guðlaug Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 27. maí 1855, d. 20. nóvember 1931.

Kona Jóns var Hólmfríður, f. 24. september 1894 á Hesti í Borgarfirði, d. 9. desember 1968.
Barn Hólmfríðar og Jóns hér:
Sigrún, f. 23. október 1913, d. 9. desember 2002.
Maður hennar var Guðjón Jónsson rakari í Reykjavík og Húsavík, f. 23. janúar 1912, d. 16. janúar 1998. Faðir hans var Jón lögregluþjónn, síðar skósmiður á Akureyri, f. 5. maí 1872, d. 6. nóvember 1967, Guðlaugsson bónda í Hallgeirsey í A-Landeyjum Nikulássonar.
Móðir Guðjóns var Guðrún Guðný Jónsdóttir, f. 10. janúar 1873, d. 9. september 1957, systir Steinvarar í Nýjabæ og Ingibjargar í Suðurgarði; - Jónsdætur Brandssonar formanns í Hallgeirsey og konu hans Guðrúnar Bergsdóttur.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Þau Hólmfríður og Jón Magnússon skildu samvistir nokkru eftir að þau fluttu úr Eyjum til Reykjavíkur og var sagt, að skilnaðurinn hefði orsakast af hernaðarlegum ástæðum. Jón hefir síðan verið við ýmis störf í Reykjavík, t.d. hjá nefnd setuliðseigna ríkisins. Þá hefir hann og verið fyrir norðan land við lundaveiðar, t.d. í Lundey utan við Húsavík.
Jón Magnússon var meðalmaður á hæð, svarthærður og liðlega vaxinn, hvítur í andliti.
Hann ólst upp í föðurhúsum og vandist þar fljótt við bjargferðir, eggja- og fuglatekju. Fór hann um allar úteyjar og heimalandið og er sagt, að hann hafi verið einn þeirra, er virtust klífa allt, fært og ófært, enda var hann liðugur eins og slanga og snar eins og pardus. Sigamaður var hann ágætur, prýðis félagi, en til baka – nærri feiminn. Hollvinur og ráðsnjall, reifur í sínum hóp og þá ræðinn og fróður. Eftirsjá er að honum úr Eyjum og hollt er heima hvað, sem óhollt er á öðrum stað.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Jón Magnússon (formaður)


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.