Ritverk Árna Árnasonar/Friðrik Gíslason (Hlíðarhúsi)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Kynning.

Anna Petrea og Friðrik Gísli.

Friðrik Gísli Gíslason ljósmyndari frá Hlíðarhúsi fæddist 11. maí 1870 og lést 15. janúar 1906.
Foreldrar hans voru Gísl Stefánsson kaupmaður, f. 28. ágúst 1842 d. 25. september 1903, og kona hans Soffía Lisbeth Andersdóttir húsfreyja, f. 8. október 1847, d. 10. júní 1936.

Kona Friðriks var Anna Thomsen (Anna Jesdóttir Gíslason á mt. 1910), f. 9. maí 1871 í Eyjum, d. 3. maí 1937, hálfsystir Guðmundar Thomsen Jessonar á Litlu-Grund, f. 13. nóvember 1867, d. 19. apríl 1931.

Börn Friðriks og Önnu voru:
1. Jóhanna Júlíana Friðriksdóttir, f. 4. júlí 1895 í Reykjavík, d. 20. júní 1979, gift Daníel Kr. Oddssyni loftskeytamanni, er fórst á Reykjaborg af styrjaldaraðgerðum. Hann var um tíma símastjóri í Eyjum.
2. Olga Friðriksdóttir, f. 14. júní 1898 í Reykjavík, d. 30. júlí 1944.
3. Soffía Friðriksdóttir, f. 22. júlí 1900 í Reykjavík, d. 12. ágúst 1968. Maður hennar Jón Jónsson málarameistari.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Friðrik var hinn mesti léttleikamaður, kátur og skemmtilegur. Hann var mikið við fuglaveiðar og telur Jón Jónsson frá Dölum, að hann hafi verið efni í góðan bjargveiðimann, en sneri sér að öðru.
Hann var alinn upp hjá foreldrum sínum að Hlíðarhúsum og tók mikinn og virkan þátt í nýtingu þeirra leigumála, er faðir hans nytjaði.
En Friðrik fór snemma héðan og gerðist ljósmyndasmiður í Reykjavík og víðar og þótti prýðisgóður sem slíkur. Sundkennari var hann hér með þeim fyrstu og kenndi mörgum unglingum sund.
Hafði einu sinni rétt sleppt sér, er hann fór á lærvað suður af „Skerinu“ sem venjulega var farið, ef sjór var dauður, um 15 faðma sig. Vildi ekki láta binda sig, en var ekki útbúinn að veiðimannasið, t.d. í fjallamannabuxum. Þótti víst minnkun í að láta binda sig, sem er þó siður nær ævinlega.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Friðrik Gíslason (Hlíðarhúsi)


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.