Ritverk Árna Árnasonar/Bjargveiðimannafélag Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. október 2013 kl. 12:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. október 2013 kl. 12:23 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Bjargveiðimannafélag Vestmannaeyja

Nýr félagsskapur

Nokkrir áhugamenn um fuglaveiði efndu til fundar með sér í Samkomuhúsinu s.l. fimmtudagskvöld og varð að samkomulagi að stofna til félagsskapar meðal fuglaveiðimanna í Vestmannaeyjum. Stofnfundur félagsins var ákveðinn n.k. fimmtudagskvöld 19. þ.m. kl. 8,30 í samkomuhúsinu.
Þangað er boðið öllum, sem ætla sér að stunda lundaveiði á komandi sumri.
Mikill áhugi ríkti meðal fundarmanna og mörg mál rædd. Meðal annars var rætt um verð á fugli svo og ágengni skotmanna við björg. Breytingu á veiðitíma þannig, að hann miðist við mánaðardag, en ekki vikudag, eins og verið hefur. Skipuð var fimm manna nefnd til að sjá um undirbúning að stofnun félagsins og sjá um framkvæmd þeirra mála, er fyrir fundinum lágu. (Frétt í Víði í júní 1952).


Stofnfundur félagsins

Bjargveiðimannafélag Vestmannaeyja var stofnað þann 19. júní 1952, en fréttaklausan hér að neðan birtist í blaðinu Fylki daginn eftir, þann 20. júní sama ár. Eins og fram kemur þar voru stofnfélagar 26 talsins, en allmargir munu hafa bæst við á árinu.
Eins og skýrt var frá í síðasta blaði var í fyrri viku hafinn undirbúningur að stofnun félags hér í bænum fyrir menn, sem stunda fuglaveiði, eggjatekju og aðrar nytjar af fiðurfé.
Í gærkveldi var svo lokið við stofnun félagsins og voru mættir á fundinum 26 menn, en vitað var um fleiri, sem gerast vildu stofnendur, en höfðu ekki aðstöðu til að mæta. Nefnd, sem skipuð var á fyrri fundi, lagði fram lög fyrir félagið, og voru þau samþykkt.
Í stjórn félagsins voru kosnir:
Árni Árnason, formaður,
Ágúst Ólafsson, gjaldkeri,
Hlöðver Johnsen, ritari.
Meðstjórnendur Gísli Stefánsson og Kristófer Guðjónsson.

Tilgangur félagsins er að efla samtök með þeim mönnum, sem áhuga hafa á fuglaveiði og bjargferðum yfirleitt, svo og til að auka samvinnu við jarðabændur og fylgjast með hag beggja aðila. Þá er það og hugmyndin að halda uppi minningu látinna fjallamanna og þá einkum þeirra er hrapað hafa.
Einnig er það og hugmynd félagsmanna að huga sem bezt að öllum uppgönguleiðum í úteyjar og fjöll, þar sem svo hagar til, og einnig gera fuglum auðveldara með bólfestu í varplöndum.
Í því sambandi kom skýrt í ljós óbeit félagsmanna á þeim „byssuvörgum“, sem í lögleysu og leyfisleysi drepa fugl á eggjum sínum í berginu, og heitir félagið á lögregluna að fylgja fast eftir banni því, sem hér er um meðferð skotvopna.
Á fundinum voru fimm af elztu fuglaveiðimönnum Eyjanna kosnir heiðursfélagar, þeir
Kristján Ingimundarson, Klöpp,
Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum,
Jón Jónsson, Brautarholti,
Guðjón Jónsson, Oddsstöðum
og Stefán Gíslason, Sigríðarstöðum.
Á fundinum var ákveðið fast verð á lunda í útsölu kr. 3,25.
Þá komu og í ljós ákveðin tilmæli til umsjónarmanns Heimalandsins og jarðabænda, að aðrir fengju ekki veiðileyfi en þeir, sem í félaginu eru, og hétu félagsmenn því að koma upp um veiðiþjófa og þar með koma betra skipulagi á fuglaveiðina hér.
Félagsmenn heita því á alla þá, sem unna fuglaveiðum, að gerast meðlimir félagsins og vinna þar með að áhugamálum sínum.

———


Fuglaveiðimenn og bjarggöngumenn hafa frá fyrstu tíð raunverulega verið sérstök stétt manna, sem talið hefir hreint ekki svo fáa meðlimi. Þó var enginn sérstakur félagsskapur til innan þessarar stéttar manna. Afskipti þeirra, hver af öðrum, voru ekki mjög mikil utan veiðitímans. Hvert úteyjafélag hélt sínar úteyjaveizlur og minntust þá skemmtilegra samverustunda á veiðitímabilinu. Þær veislur voru fyrrum rómaðar fyrir gleðskap og samverunnar minnst með mat og drykkjarföngum í ríkum mæli. Héldust þær veizlur allt fram til síðustu áratuga.
En árið 1952 stofnuðu bjargveiðimenn með sér félag, er þeir nefndu „Bjargveiðimannafélag Vestmannaeyja“ og urðu félagsmenn á fyrsta árinu 130 menn á öllum aldri. Lifnaði þá mjög mikið yfir samveru fuglaveiðimanna, er varð til þess, að félagið beitti sér fyrir ýmsu því, er til heilla mátti verða fyrir þessa stétt manna.
Áhugamál félagsins urðu bæði mikil og margvísleg.
Eitt með því fyrsta, er það beitti sér fyrir, var að fá leigðar hjá Landssíma Íslands litlar talstöðvar til þess að hafa í úteyjum til hægðarauka og öryggis. Þetta heppnaðist, og voru leigðar talstöðvar til eftirtalinna úteyja: Elliðaeyjar, Bjarnareyjar, Suðureyjar, Brands, Álseyjar og Helliseyjar, og höfðu úteyjarnar dagleg viðskipti við loftskeytastöðina á Heimaey.
Urðu strax miklar umbætur á úteyjalífinu með aukningu á daglegu sambandi innbyrðis milli úteyjanna. Eftir þetta þurfti ekki að setja upp veifur á háeyju í þeirri von, að hún sæist að heiman, ef eitthvað var að, annaðhvort veikindi, meiðsli eða einhver atriði varðandi sókningsbátinn o.m.fl.
Þá beitti félagið sér fyrir breytingum á gildandi veiðilöggjöf, t.d. gagnvart svartfugli, að ekki mætti skjóta hann innan þriggja kílómetra frá landi og vitanlega aldrei skjóta í og við svartfuglabyggðir og byggðir annarra fugla. Sömuleiðis var svartfugl þá friðaður fyrir öllum öðrum veiðitækjum en háfi. Meðferð svartfugls var þá orðin svo mannvonskuleg vegna sífelldrar skothríðar að hörmulegt var á að líta, ef menn fóru um byggðir fuglsins. Stærstu bælin voru lögð í eyði, og svartfugl sást helst ekki nema langt frá Eyjum, ¬- aðeins á einstaka stað í úteyjunum. Menn skutu fuglinn á bælum, hvar sem þeir gátu, en helmingur þess, er skotið var á, lá helsært eða dautt í bælunum.

Hugsaðir meðlimir í Bjargveiðimannafélaginu:
1. Gísli Stefánsson, Sigríðarstöðum,
2. Bjarni Helgason, Heimagötu 30,
3. Ólafur Þórðarson, Suðurgarði,
4. Sigurjón Sigurðsson, Vallargötu,
5. Húnbogi Þorkelsson, Sandprýði,
6. Leifur Ársælsson, Fögrubrekku,
7. Jón Jónsson, Brautarholti, heiðursfélagi,
8. Sveinn Ársælsson,
9. Ársæll Ársælsson,
10. Kristinn Kristinsson, Miðhúsum,
11. Tryggvi Kristinsson,
12. Ragnar Helgason,
13. Jens Kristinsson, Miðhúsum,
14. Örn Einarsson, Brekku,
15. Magnús Magnússon, Kornhóli,
16. Guðjón Ólafsson, Gíslholti,
17. Bergþór Guðjónsson, Hlíðardal,
18. Magnús Bjarnason, Garðshorni,
19. Björn Finnbogason, Kirkjulandi, heiðursfélagi,
20. Sigurður Jóelsson, Kirkjubæjarbraut,
21. Ágúst Bergsson, Skólavegi 10,
22. Guðlaugur Gíslason, Geysi,
23. Snorri Ólafsson, Boðaslóð 3,
24. Bjarni Guðmundsson, Háagarði,
25. Gylfi Sigurjónsson, Austurvegi,
26. Guðbjartur Herjólfsson, Einlandi,
27. Viktor Sigurjónsson, Vallargötu,
28. Árni Stefánsson frá Sigríðarstöðum,
29. Magnús Magnússon, Ásavegi 27,
30. Helgi Magnússon,
31. Jónas Sigurðsson, Skuld,
32. Sigurgeir Jónasson, Grænuhlíð,
33. Jóhannes Gíslason, Hásteinsvegi,
34. Hjálmar Jónsson, Kirkjubæjarbraut, heiðursfélagi,
35. Árni Árnason, Ásgarði,
36. Hjálmar Guðnason, Vegamótum
37. Bárður Auðunsson,
38. Skúli Theódórsson,
39. Hlöðver Johnsen,
40. Sigfús Johnsen,
41. Lárus Árnason,
42. Pétur Guðjónsson,
43. Kristófer Guðjónsson,
44. Guðlaugur Guðjónsson,
45. Þórarinn Guðjónsson,
46. Guðmundur Guðjónsson,
47. Hávarður B. Sigurðsson,
48. Ingólfur Guðjónsson, Oddsstöðum,
49. Jón Bryngeirsson,
50. Gísli Bryngeirsson,
51. Gísli Eyjólfsson, Bessastöðum,
52. Hjörleifur Guðnason,
53. Ármann Eyjólfsson, Bessastöðum,
54. Eyjólfur Gíslason, Bessastöðum,
55. Einar Ólafsson, Víðivöllum,
56. Eggert Gunnarsson,
57. Eyjólfur Martinsson, Laugarbraut 1,
58. Ólafur Björnsson, Skólavegi,
59. Gísli Þór Sigurðsson,
60. Júlíus Snorrason,
61. Reynir Másson,
62. Óskar Johnson,
63. Guðjón Guðlaugsson, Ásavegi,
64. Garðar Arason, Þorlaugargerði,

Eins og sjá má af framanrituðu hafði félagið æði margt að starfa fyrir.
Félagslögin voru ekki margbrotin, en um stofnun félagsins segir svo í fyrstu málsgrein 2. greinar þeirra:
Tilgangur félagsins er:
„Að efla kynningu og samstarf meðal bjarg- og fuglaveiðimanna í Vestmannaeyjum,
að efla sem bezta samvinnu milli bjarg- og fuglaveiðimanna einsvegar og jarðabændafélagsins annarsvegar um hin ýmsu áhugamál nefndra aðila, svo sem um veiðar, veiðilönd, öryggisaðgerðir á fjallvegum úteyja, sbr. 4. gr.
Að hlynna á viðeigandi hátt að minningu hrapaðra og látinna samstarfsmanna, sbr. 9. gr. o.s.frv.“
Eftir stofnun félagsins 1952 var farið að halda eitt allsherjar veiðimannahóf, þar sem allar úteyjarnar og veiðimenn Heimalandsins tóku þátt í, en hóf einstakra úteyjafélaga lögðust að mestu niður. Þessi allsherjar hóf hafa þótt skemmtileg og vel heppnuð, þar sem veiðimenn skemmtu sjálfir með allskonar skemmtiatriðum. Hafa hóf þessi verið svo afhaldin og eftirsótt að miklu færri hafa komizt að en vildu og takmarka varð mjög tölu boðsgesta. Voru þess dæmi, að yfir 200 manns sátu hóf þessi, og allir skemmtu sér mjög vel. Voru það orð lögreglu bæjarins að „svona ættu menn að skemmta sér“.
Fyrsti formaður Félags Bjargveiðimanna var kjörinn Árni Árnason frá Grund og er það ennþá. Í forföllum hans, vegna veikinda, hefir Hlöðver Johnsen stjórnað félaginu.
Þótt félagið hafi margt vel gert og fengið afrekað í starfsemi sinni, tel ég tvímælalaust mesta velferðamálið að hafa fengið talstöðvarnar í úteyjar. Skapa þær svo mikið hagræði og öryggi að það verður ekki metið til fjár. Ný þykir það svo sjálfsagt að hafa talstöðvar í úteyjunum. Árið 1962 var farið fram á að fá stöðvarnar leigðar frá 15. maí til 1. september með tilliti til vorferða í úteyjar með fé, eggjatöku o.fl. Fékkst það leyfi og var veitt til 10 ára. Má það góður árangur heita og þakkarverður skilningur á þessum hættuferðum, sem úteyjaferðirnar eru, af Landssíma Íslands.
Það eitt er víst, að fyrsta lið 2. gr. félagslaganna hafa félagsmenn vel haldið og dyggilega þannig, að bæði kynning veiðimanna og gott samstarf hefir aukizst mjög mikið, samvera og samgleði aukizt að miklum mun. Hefir það best komið í ljós á afmælishófum félagsins og fundum þess. Skemmtifundir hafa verið haldnir og þar samanspjallað, hlustað á úteyjafrásagnir, og kvikmyndir sýndar úr úteyjalífi og starfi. Að sjálfsögðu er til orðinn einn allsherjar úteyjasöngur, lag, sem Oddgeir Kristjánsson tónskáld gerði við ljóð, sem Á.Á. formaður félagsins gerði. Var það fyrst sungið á þjóðhátíðinni 1957 og nefnist úteyjavalsinn. Ljóðið er þannig:

Þá lagt skal upp til lunda
í langa veiðiför,
til fjalla frjálsra stunda
er fleyi ýtt úr vör.
Oss útilífið lokkar,
þá ljómar ey og sær.
Og innst í hugum okkar
er endurminning kær.
Háfur til handar
hafinn er skjótt.
Árgolan andar,
útrunnin nótt.


Það er oft kátt í kofa
um kvöld við sólarlag,
þá lífsins sorgir sofa
og sveinar taka lag.
Það streymir hlýja um hjarta
við hægan öldunið,
er haf og himinn skarta
í hljóðrar næturfrið.
Háfur til handar
hafinn er skjótt.
Árgolan andar,
útrunnin nótt.


Þetta hefir verið mikið sungið, ásamt gömlum veiðivísum, á skemmtunum félagsins, auk sérljóða hverrar úteyjar, sem eru í mjög miklu afhaldi meðal veiðimanna. Þá hafa og eftirfarandi gleðisöngvar verið mikið sungnir á skemmtunum félagsins, t.d.

Veiðimannasöngur
Ljóð eftir Á.Á.
Lag : Heyrið morgunsöng á sænum.
Veiðimannalistin ljómi
lengi, - hennar skál.
Halir söng af heilum rómi
hefji af lífi og sál.
Ljóðin okkur liggja á tungu,
ljúf við gleðiföng.
Lund er hress og líf þeim ungu
létt með kæti og söng.
Lund er hress og líf þeim ungu,
létt með kæti dans og söng.


Fjallagarpa leiknin lifi,
lyftum glasi, - skál.
Hrópi allir: Húrra, lifi,
húrra af lífi og sál.
Félagsmerkið hæst að húni,
heiðrum þessa menn.
Heilsum fögru föðurtúni,
fegurst byggðin enn.
Heilsum fögru föðurtúni,
fegurst byggðin lands vors enn.


Þá má minnast gamansöngs, er höfundur nefnir:

Undir morgun.
Höf. Á.Á.
Lag: Gamli Jón í Gvendarhúsi...
Félag vort á margan mætan
mann í þessum hóp
og meyjafjöldann mest ágætan,
meistarinn, er skóp.
Yndi svanna heiðrum hátt
og hyllum veiðimenn.
Saman gleðjumst, dönsum dátt,
því dagur ljómar senn.


Fundir í bjargveiðimannafélaginu
Auglýsing um skemmtifund í Félagi bjargveiðimanna:

(Líklega hefur fundurinn verið haldinn árið 1953, en það kemur ekki fram í auglýsingunni).

Skemmtifundur.

Félag bjargveiðimanna heldur skemmtifund 9. febr. n.k. í Akógeshúsinu kl. 4 e.h.
Skemmtiskrá:
1. Fundarspjall.
2. Skemmtiatriði frá síðasta fundi.
3. Kaffi.
4. Gamanvísur:

Daglegt líf í Álsey.
Heimsókn í Bjarnarey.

5. Erindi um fuglaveiðar fyrrum.
6. Annað, er til fellur.

Stjórnin


Góðir félagar.
Að afloknum síðasta skemmtifundi var, samkvæmt fjölda áskorana, ákveðið að reyna að halda annan spjallfund og skemmtifund, ef atvinnuhættir manna leyfðu þann lúxus. Það hefur ekki verið vani í þessu félagi að halda skemmtifundi um þennan tíma, en raunin virðist ætla að verða sú, að það gefist vel.
Það er vitanlegt, að frumskilyrði hvers félagslífs eru fundahöld og lausnir ákveðinna stefnuskrármála. Með fundahöldum og viðræðum kynnumst við bæði perónulega og hugsjónum hvers annars á vettvangi félagsskaparins og utan hans.
Bjargveiðimenn eru ekki fjölmenn stétt, svo að ekkert er eðlilegra en þeir séu samstilltir vinir og velunnarar hvers annars. Ég hef líka orðið þess var, að þetta eru eiginleikar, sem prýða þennan unga félagsskap mun meira en flestra annarra. Mér finnst ávallt anda vinhlýju milli veiðimanna í orði og verki. Milli þeirra eru einhver þau vináttubönd, sem aðrir landsbúar hafa talið auðsæ milli Eyjamanna, meiri almenn vinátta en á sér stað annarsstaðar á landinu. Þessir eiginleikar eru þó enn auðsærri og ríkulegri milli fyglinga. Af hverju þetta er, veit ég ekki, en það er staðreynd að það er. Samkomur eða spjallfundir eins og þessi vona ég, að verði til þess að glæða enn meir félagsþroska vorn og sannkallað eyjamanna bræðralag.
Að öðru leyti liggur ekkert sérstakt mál til umræðu á fundinum, heldur komum við sumir til að gleyma dagsins önnum og erjum, skemmta okkur lítillega á heilbrigðan hátt yfir góðum kaffisopa, hlustum á gleðisöngva, sem í hugmyndaflugi hafa átt að eiga sér stað á meðal veiðimanna.


Fundur, líklega árið 1955 eða 1956


Góðir félagar. Loksins erum við mættir til fundar, já loksins.
Ég býst við, að sumum félagsmönnum finnist sjálfsagt, að hér um ráði einskær slóðaskapur, að ekki hefir verið hafizt handa fyrr um fund, og hafa jafnvel sumir hampað því, bæði í glensi og alvöru, að við þyrðum ekki að halda fund vegna þess að við værum hræddir við skammirnar sem við, — ja, helst ég persónulega, ættum von á. — „O, já, ég er nú ekkert sérlega hræddur við þá góflu,“ sagði einn búandinn í Steinum undir Fjöllunum, þegar honum var sagt, að Steinalækur myndi brátt leggja þorpið í rúst. Nei, ég er alls óhræddur við allar skammir. Ef einhver hefir slíkt í pokahorninu, mun ég reyna að svara fyrir mig eftir beztu sannfæringu. — Ég held, að bezt sé að byrja með því að bera eitthvert blak af okkur, sem í stjórn hafa verið og þá mér persónulega líka; tel rétt að gefa félagsmönnum eitthvert innsæi inn á vettvang stjórnaraðgerða, síðan fundur var síðast haldinn.
Stjórnarstörf eru ekki ávallt léttur leikur, í hvaða mynd, sem þau annars eru, eða opnar leiðir til framkvæmda, sem hægt er að hlaupa hindrunarlaust, þ.e.a.s., að ekkert þurfi annað en muldra í barm sér, að svona eigi þetta að vera, og þetta og hitt sé samþykkt í félaginu og þessvegna sjálfsagt, að það sé tekið til greina orðalaust sem um konungs úrskurð sé að ræða. Ég tek þetta fram vegna ummæla eins félagans, sem þótti lítið og löðurmannlegt að stjórna þessum fáu bjálfum, sem félagið samanstæði af. Það eru hans óbreytt orð. Já, margur heldur mann af sér...
Nóg um það. — En ég get sagt þeim, sem ef til vill hafa þær skoðanir, að hægt sé að hafa fundi, hvenær sem er; — það er er nú eitthvað annað. Og, ef um eitthvað smáatriði, sem félagið varðar, er að ræða, er ég hræddur um, að oft yrði langt að bíða, ef allir í stjórn ættu að geta mætt og fjallað um atriðið. Slík störf hljóta því ávallt að koma á hina, sem einhvern tíma hafa aflögu. Þannig hefir og þessu verið varið í þessu félagi. Og vissulega verður það formaðurinn, sem verður að taka ákvarðanir í ýmsum málum f.h. stjórnarinnar á ýmsum tímum. Læt ég svo útrætt um þetta, enda hefi ég að nokkru svarað þessum félagsbróður vorum.
Ákveðið hafði verið, að með þessu sumri skyldu festar upp steyptar koparplötur, sem félagið hafði samþykkt að helga minningu Kristjáns í Klöpp, Guðmundar Þórarinnssonar á Vesturhúsum, uppi í Heimakletti og úti í Álsey, og Svavars Þórarinnssonar frá Suðurgarði austur í Bjarnarey.
Ég átti tal um þetta við Málmsteypuna í Reykjavík, en hitti svo á, að ekki væri hægt að taka endanlega ákvörðun um þetta þá þegar, og báðu þeir um frest í málinu.
Í millitíð átti ég svo tal við Ólaf St. Ólafsson í Magna og kom okkur saman um, að þeir skyldu steypa plötur þessar fyrir félagið fyrir mjög sanngjarnt verð.
Var pöntun hjá Málmsteypunni afturkölluð.
Nú átti Magni ekki í fórum sínum nauðsynlegar tilfæringar og varð að panta þær frá Kaupmannahöfn. Þetta var gert og kom steypuletrið innan skamms. Hélt ég þá, að strax yrði hafist handa, en svo var þó ekki og er þessu ekki lokið enn, þrátt fyrir mörg viðtöl og áherzlufyrirspurnir. Andvirði þessarra platna liggur hjá mér, en plötum þessum lofað innan skamms. Getur því eftirmaður minn gengið að þessum plötum og komið þeim fyrir innan tíðar. Vinnst honum máske betur en mér á þessu sviði.
Viðvíkjandi fráfalli einstakra félaga, vil ég taka fram, að þeim hefir verið sýndur tilhlýðilegur sómi; á ég þar við fráfall Magnúsar Guðmundssonar á Vesturhúsum, en þangað sendum við laglegan blómakrans og vottuðum honum þakklæti vort og virðingu sem og ættingjum hans.
Þá var og áttræðisafmælis Guðjóns á Oddsstöðum minnzt af félagsins hálfu með árnaðaróskum og honum færð smá afmælisgjöf frá félaginu, gjöf sem hvorki mölur né ryð fengi grandað, þ.e. ein koníaksflaska. Var þetta gert aðeins til þess að sýna honum, að við minntumst hans á þessum merku tímamótum, minntumst hans sem hollvinar, heiðursfélaga og eins af þeim stærstu á sviði fuglaveiðanna.

———


Þá var formanni falið s.l. haust að gera skrá yfir veiðimenn í Vestmannaeyjum frá aldamótum eða þar um bil og allt fram á þennan dag, stutt æviágrip og upplýsingar um manninn á sviði fuglaveiða. Þessu stórverki er nú lokið að öðru leyti en því, að ógengið er frá veiðimönnum í Heimakletti og Yztakletti.
Þetta er mikið verk og sennilega vanþakkað af sumum, þareð erfitt er að lýsa einum manni í stuttu máli og þannig, að einhverjum kunni ekki að þykja vansagt eða ofsagt. Þetta var seinunnið, þareð erfiðlega hefir gengið að fá upplýsingar um suma hina eldri menn, sem gistu úteyjarnar fyrir aldamótin. Næsta verk verður svo að vélrita æviágrip þessi og ganga frá í lausblaðabók.
Eins og þið munið var ákveðið, að staðhættir o.fl. yrði athugað í sambandi við eitt allsherjar minnismerki látinna veiðimanna, þareð styttan uppi við kirkjuna myndi aldrei verða annað en merki sjódrukknaðra manna. Var Hásteinn skoðaður sem sjálfgerður stöpull fyrir minnismerki, en þótti að ýmsu leyti óheppilegur og of kostnaðarsamt að setja þar upp minnismerki. Fleiri staðir voru og athugaðir.
En meðan þessar athuganir fóru fram, voru ákveðnar víðtækar breytingar á Landakirkju. Setti ég mig þá í samband við formann sóknarnefndar og spurði um möguleika fyrir plássi þar innan dyra fyrir einhverskonar minnismerki fyglinga. Tók hann þessu mæta vel. Síðan fór þetta fyrir sóknarnefndina, og hefir hún samþykkt þetta. Nú hefir verið ákveðið og ráðstafanir gerðar af teiknimeistara kirkjuturnsins nýja, Ólafi Kristjánssyni, að okkur verður úthlutað afbragðs góðu plássi á fyrsta lofti turnsins, norðan megin í herberginu, sem er stórt, útsýnisgott og án efa bjart og skemmtilegt. Þar verður komið fyrir fótstalli fyrir einhverskonar minnismerki og þar svo geymd veiðimannaskráin í fallegri bók og fyrirkomið á skemmtilegan hátt. Er fullvíst, að þetta ætti að geta orðið kirkjunni til prýði, félaginu og Eyjamönnum til ánægju og gleði og föllnum bjargveiðimönnum til verðugs sóma og virðingar. Innan tíðar mun pláss þetta upp komast og þá sjást greinilegar á hvern hátt merkinu muni haganlegast upp komið að gerð og staðháttum. Ólafi Kristjánssyni þótti hugmynd okkar mjög góð og frumleg og lýsti ánægju sinni yfir henni. Staðfesti hann einnig sem fjöldi manna, að styttan við kirkjuna yrði aldrei annað í augum almennings en minnismerki drukknaðra Eyjamanna, en þeirra, er hrapað hefðu, sára sjaldan eða aldrei minnzt í sambandi við hana.
Þessu máli er þá þannig á veg komið og vonum við, að eftirmenn okkar stjórnarmanna taki upp framkvæmdir, þegar hægt er, í samvinnu við Ólaf Kristjánsson og sóknarnefndina. Þetta verður fyrst og fremst að verða fagurt, frumlegt og félaginu til sóma.
Þá get ég skýrt frá því, að forstjóri Radioverkstæðisins í Reykjavík hafði orð um það í símtali, að óvíst yrði um leigu á talstöðvum í úteyjarnar og taldi þar til, að óvíst yrði um leigu á talstöðvum við notkun þeirra í viðskiptum. Viðskipti eyjanna tefðu fyrir afgreiðslu á bylgjunni, sem notuð væri, þ.e. 2484 vinnubylgjan VM Radío, því að viðskiptin hefðu farið fram úr áætlaðri frumhugmynd, þ.e., að þau væru ekki beinlínis neyðarviðskipti. Vildi hann leggja til, að vinnubylgjan yrði færð yfir á annað svið og viðskiptin takmörkuð að mun. Ég benti honum á, að vitanlega væru talstöðvarnar fyrst og fremst sem öryggistæki, og þau leigð okkur til 5 ára á þeim grundvelli, enda komið að góðum notum sem slíkar; læknissamtöl, björgun á vélbiluðum trillum í fiskiróðrum nálægt úteyjunum o.fl. Sagði ég honum, að tilfærsla á bylgjusviði gæti vitanlega ekki komið til greina, þareð við yrðum að geta kallað Vm radío á vinnubylgju hennar, og þó að stöðinni yrðu falin viðskipti á öðrum bylgjum við úteyjarnar, mundi það allt fara út um þúfur, og öryggisviðskipti gerð óvirk. Eftir nokkurt þras um þetta, gengust þeir inn á að hafa þetta óbreytt og leigja eina talstöð í viðbót til þeirra í Hellisey fyrir sömu gjöld og verið hafa. Benti ég þeim og á það, að önnur viðkipti en bein neyðarviðskipti hlytu óhjákvæmilega að koma til greina, til dæmis pöntun á matvælum, ráðstafanir vegna sókningsbátsins sem og óhjákvæmileg innbyrðis viðskipti, sem að sjálfsögðu færu fram á þeim tímum, sem vinnubylgjan væri ekki upptekin og reynt að haga viðskiptum svo, að ekki yrðu til trafala.

Ræða formanns, Árna Árnasonar, á fundi í Félagi bjargveiðimanna, sennilega árið 1955

Góðir fundarmenn.
Ykkur finnst nú kannske það hafa dregizt nokkuð að halda fund aftur í félaginu og langt síðan við komum saman. En það er oft eitthvað, sem orsakar tafir. Helzt var það í þetta skipti, að ég vildi fá fréttir utan frá, hvort tilraunum með lunda yrði haldið áfram á þessu sumri, en það svar barst nú um helgina. Það, sem ég get sagt ykkur um þetta mál, er þó ekki sérlega mikið fram yfir það, að tilraunum mun verða haldið áfram og fugl sendur út til prufu.
Annars liggur þetta þannig fyrir. Eins og ykkur var kunnugt var þetta reynt í fyrra við firmað Kuzler/Beyer. Leit allt vel út um árangur, þótt ekki lægju fyrir endanlegar ákvarðanir.
Umboðsmaður firmans í Reykjavík varð Páll Oddgeirsson, sem skyldi hafa með þetta að gera. Það var allt í lagi, og virtist hann hafa mikinn áhuga. Fuglinn var svo sendur út, og virtist allt ganga vel. En þá gerir Páll þá reginskissu að fá mataruppskriftir frá Helgu Sigurðardóttur í Reykjavík, sem ég er viss um, að kann andskotans ekkert til matreiðslu lunda á þann hátt, sem við t.d. nýtum hann. Uppskriftirnar reyndust líka þannig, að sumar kerlingarnar í Þýskalandi urðu veikar af honum, hafa sennilega fengið í magann og fordæmdu fuglinn til átu. Aðrar voru mjög hrifnar af kjötinu og gáfu því mestu meðmæli eins og gengur. Þá skyldi senda viðbótarfugl, en þá var veiðitíminn búinn og ekki hægt að fá neinn lunda, sem talizt gat fyrsta flokks vara. Hvað fiðurtilraunum viðvíkur, yrðu þær ekki eins jákvæðar og í fyrstu leit út fyrir, en annars mun það þó ekki enn fullrannsakað.
Til þess nú að fá einhverja vitneskju skrifaði ég deildarstjóra Erlander við firma þetta í apríl, hvað gera skyldi frekara um sendingu fugls. Hann sendi svo skeyti og lagði til frekari tilraunir með sölu þar. Mun ég senda það í júlí og ágúst og reyna að fá sem beztan fugl og hef þá þegar pantað hann hjá Óla í Suðurgarði, sem þekkir umbúðir fuglsins frá í fyrra. Það er ekki von um, að árangur verði hægt að segja af þessu í fljótu bragði; það tekur langan tíma, þegar um eitthvað nýtt er að ræða, en vonandi verður þetta jákvæður árangur, þegar tilraunum líkur.
Ég hef átt tal við fógeta um slysatryggingar á veiðimönnum í úteyjum, hvort hægt væri að tryggja, t.d. einhverja tvo af hverju úteyjafélagi fyrir slysum hverskonar. Hann ræddi þessi mál við þá í Reykjavík, en þeir vilja ekki tryggja á þann hátt til svo langs tíma, heldur aðeins tryggja á nafn. Þetta er hægt í nokkra klukkutíma, en ekki, þegar um svo langan tíma er að ræða sem veiðitíminn er. Hann taldi hinsvegar sjálfsagt, að hvert úteyjafélag tryggði menn sína á nafn, sem kostar 24 kr. á viku fyrir hvern mann. Þetta er í sjálfu sér ekki mikið fé, og vitanlega ætti hver maður að vera tryggður; annars á hver það við sjálfan sig, hvað hann vill í þessu gera. Ég talaði líka við Almennar tryggingar, en þeir vilja ekki tryggja nema upp á sérstakt nafn, og iðgjöld þeirra eru miklu hærri eða um 150 kr. fyrir hvern veiðimann í ca. 4 vikur.
Allar talstöðvarnar eru pantaðar, þ.e.a.s. fjórar handa Elliðaey, Bjarnarey, Brandi og Álsey. Suðurey gekk aftur úr skaftinu og ætlar ekki að notfæra sér leyfi á þessu sumri. Mesti hörgull er á 90 volta batteríum, en þau áttu að koma með Gullfossi, og hefir Rútur Snorrason lofað að taka frá eina seríu handa hverri eyju, þ.e. 45 volta batterí og eina seríu 90 volta batterí. Annars munu eyjarnar eiga batterí frá sl. sumri, og munu þau varast vera fullnotuð enn, svo að þau gætu komið að góðum notum sem byrjunar batterí eða varabatterí.
Það var einu sinni ákveðið, að félagið minntist Guðmundar sáluga á Vesturhúsum með málmplötu á minnismerki Álseyinga þar. Þetta er nú loks að komast í kring hjá Magna, ásamt fleiru, sem hann hefir lofað að steypa fyrir félagið í framtíðinni, t.d. ætluðum við að setja plötu á steininn hans Kidda gamla í Klöpp á Kleifum, og hefir Magni nú lofað verki þessu, þegar síldarbátarnir eru farnir, en þeir yfirtaka alla vinnu vélsmiðjunnar.
Mesta mál félagsins álít ég alltaf vera, ef okkur auðnaðist að koma upp kapellunni í Landakirkju. Hefir nokkuð verið um það mál rætt, og bíður plássið eftir, að við getum hafist handa. Þetta er mikið framkvæmdarverk, sem ekki er hægt að koma af stað með litla eða enga peninga. Öllum finnst hugmynd okkar mjög falleg og væri okkur til mikils sóma, ef við hefðum að koma kapellunni upp. Ólafur Kristjánsson mun verða okkur innan handar og hefir gefið okkur ýmislegar upplýsingar þessu varðandi, sem munu verða vel athugaðar. Hann taldi líklegt, að við gætum hafið verkið með 35 þúsund krónum, þareð stóra styttan utan kirkjunnar kostaði aðeins 80 þúsund krónur með öllu.

————


Fuglaveiðifrumvarpið

Mörgum fannst einkennilegt að lengja lundaveiðitímann til 17. viku af sumri, en þeirri tímabreytingu fylgdi eftirfarandi greinargerð frá félagi bjargveiðimanna, sem var tekin til greina og veiðitíminn samrýmdur þeim tilögum félagsins:

Viðvíkjandi breytingu þeirri, er 1. grein lundaveiðisamþykktarinnar felur í sér á lundaveiðitímanum, þ.e. að framvegis verði leyft að veiða lunda í háf frá því að 11 vikur eru liðnar af sumri þar til 17 vikur eru af sumri ár hvert, í stað frá 1. júlí til og með 10. ágúst eins og verið hefir undanfarið, skal upplýst:
Samkv. reynslu tveggja síðastliðinna ára, þykir sannað, að of snemmt er að hefja lundaveiðar 1. júlí, þareð fuglinn hefir þá varast og jafnvel ekki ungað út eggi sínu og liggur sem fastast á því. Að þessu er þó sennileg áraskipti, eftir því, hve snemma fuglinn verpir.
Um þennan tíma er þessutan ekkert komið af yngri árgöngum lundans, svo að sá fugl, sem veiðist, er að langmestu leyti gamall fugl, egglægjur – varpfugl og gamall geldfugl, sem skapar litla veiðimöguleika yfirleitt.
Tíminn, 11 vikur af sumri, hefir þessutan um áraraðir verið gildandi sem byrjunartími lundaveiða og sannprófaður sem heppilegastur, allra aðstæðna vegna.
Þá er það og reynsla margra undangenginna ára, að fyrsta vika lundaveiðitímans af ágústmánuði fellur algjörlega niður vegna þjóðhátíðar Vestmannaeyja, sem haldin er fyrsta föstudag í mánuðinum og varir til eftirfylgjandi sunnudags, jafnvel mánudags, - sem kunnugt er. Lundaveiðimenn í úteyjunum verða þess vegna að hætta veiðum, ekki síðar en að kvöldi þriðjudags, og fara heim til undirbúnings hátíðarinnar, sem er mjög mikill eins og allir þekkja. Menn eru svo ekki aftur komnir til veiða í úteyjunum fyrr en á þriðjudeginum eða miðvikudegi, ef veður leyfir. Hefir þannig fallið heil vika niður af lundaveiðitímanum – þjóðhátíðarvikan – og lundaveiðitíminn þessvegna aðeins verið 4 vikur í stað 5 vikur.
Þykir þessvegna réttmætt að bæta einni veiðiviku aftan við fyrrverandi lundaveiðitíma þannig, að leyfð verði lundaveiði á Heimalandi og í úteyjum frá 11 vikur af sumri til 17 vikur af sumri ár hvert, í stað 16 vikur áður fyrri og nú síðast til 10. ágúst, verður þá hinn raunverulegi veiðitími aðeins 5 vikur, sem samkv. fyrri samþykktum hefir verið í gildi að tímalengd til.
Á annan hátt verður ekki hægt að fá hina töpuðu veiðiviku bætta. Það skal svo að síðustu fram tekið, að samkv. margra ára reynslu er ágústmánuður mikið betri til veiða en júlímánuður vegna þess, m.a., að þá eru yngri árgangar lundanna farnir að sækja upp að lundabyggðunum, en koma þeirra skapar mun betri veiðimöguleika hvarvetna.
Að öllu þessu athuguðu sem og því, að eðlilegra virðist að veiða yngri árganga lundans, sem samkv. venju kemur til Eyja seinnipart veiðitímans, og eldri fuglinn skömmu áður en hann fer til vetrarheimkynna sinna, virðist réttlætanlegt að hafa veiðitímann frá 11 vikur eru af sumri til 17 vikur af sumri ár hvert og mælum við eindregið með þeirri breytingu.

Í Vestmannaeyjum er nú stundað eitthvert hið viðbjóðslegasta svartfugladráp, sem um getur í sögu Eyjanna. Fara menn á trillum strax og fuglinn fer að sækja upp í fuglabjörgin, sem liggja flest afskekkt, og svo úteyjarnar, og skjóta þar svartfuglinn í hundraðatali upp á varpbæli þeirra. Aðeins örlítið af skotna fuglinum fellur niður í sjó, en meginið liggur uppi á bælunum, annað hvort dautt, hálfdautt eða mjög illa sært. Blóðið vellur um bælin og hamirnir liggja þar í tugatali og maðka hálfdauðir og dauðir. Maðkurinn skríður svo í dún ungans lifandi, og geta allir hugsað sér, hvernig það gengur til og endar fyrir ósjálfbjarga unganum og helsærðum fuglinum í bælunum.
Um þetta segja menn þeir, sem um fuglabyggðir Eyjanna ferðast á sumrum, að þar sé að sjá hörumlegustu hryggðarmynd mannvonzkunnar í garð fuglanna. Um varptímann liggi þarna sem sagt dauðir, hálfdauðir eða mjög illa særðir fuglar, brotin egg, blóð og til dauða maðkétnar pysjur, útatað í blóði og skít, særðu fuglarnir reyni að hjúfra sig yfir afkvæmi sitt, en geti annars enga björg því veitt, hvorki til varnar aðkomandi ránfugla né sótt unganum fæðu í sjó niður. Eggin fúlna undir dauðum fuglinum og svartfuglabyggðin leggist í auðn, hver af annarri. Segja þeir ástand þetta svo viðurstyggilegt hér í Eyjunum að ekki sé hægt að lýsa því svo sem það sé raunverulega. Blasir þessi hörmulega mynd við augum manna í öllum björgum Vestmannaeyja meir og minna, þó vitanlega sé ástandið verst í úteyjunum og t.d. Yszakletti.
En trillurnar koma í land með fleiri hundruð (dæmi til 400-500 stk.) dag eftir dag yfir sumartímann, og geta þá allir gert sér í hugarlund, hvernig muni vera umhorfs á orustuvellinum, þ.e. uppi á svartfuglabælunum.
Hin síðustu árin hafa undantekningarlaust öll svartfuglabæli, sem næst eru sjó, lagzt í auðn vegna ofannefndrar rányrkju, og þannig mun öll svartfuglabyggðin í Vestmannaeyjum eyðast á næstu árum, ef ekkert er að gert og tekið rösklega í taumana. Virðist einasta ráðið, sem að nokkru gagni geti komið, vera að alfriða svartfuglinn gegn skotum á nefndu tímabili hér í Eyjunum sérstaklega, þ.e. frá og með 15. apríl til og með 1. september ár hvert með nefndum undantekningum.
Er það þess vegna, og af framangreindum ástæðum, að félag bjargveiðimanna hér skorar á nefnd þá, er um fuglaveiðifrumvarpið fjallar, bæði á þingi og utan þings, sem og ráðandi menn í Eyjum, að taka til rækilegrar athugunar þessar nauðsynlegu breytingartillögur okkar og viðbæti og koma þeim inn í frumvarpið. Vonum við, að þeir fylgi þeim vel eftir með greinargóðum upplýsingum og skýringum til hins háa alþingis, sem þeir ættu að geta fengið frá ofangreindum staðreyndum um fugladráp í Vestmannaeyjum. Greinargerð þessa vil ég svo enda með því að endurtaka, að það er ekki hægt með orðum að gefa raunverulega mynd af því viðbjóðslega ástandi, sem hér á sér stað í svartfugladrápinu, og þessvegna skorar félagið á alla aðila, sem um frumvarpið fjalla, að alfriða hér í Vestmannaeyjum svartfuglinn fyrir öðrum veiðitækjum en háf og viðtaka hér skotbann frá 15. apríl til og með 1. september ár hvert nema til nauðsynlegra aðgerða.

22. grein. 3. málsgrein ....

orðin „eða þeirra sé vitjað a.m.k. tvisvar á dag“ falli alveg burt, en í greininni lesist þannig:
„og fuglinn hirtur úr þeim jafnóðum, enda sé yfir netunum legið eða sem allra næst þeim til þess að firra fuglinn óþarfa kvölum. Þá skal og heimilt að nota háf o.s.frv.“

Greinargerð fyrir þessu:

Það er staðreynd, að fuglinn kvelst mjög mikið og særist, þegar hann er ánetjaður í yfirlagningsnetunum og streitist við að losa sig, máske 6 til 8 tíma. Við þessi átök hans að losna úr netinu skerast þræðir netjanna inn úr húð hans víða, t.d. á lærum, hálsi, vængjum og víðar, enda hefir sézt hér í Eyjum, að fuglinn er oft dauður í netunum eftir að hafa þvælzt í þeim 4 til 5 tíma, dauður, annaðhvort af áreynslunni eða blætt út vegna sára. Netjaveiði ætti þessvegna alls ekki að leyfa nema að netanna sé vitjað með mjög stuttu millibili, máske á klst. fresti.

23. grein

Inn í upptalningu bannfærðra veiðitækja til fuglaveiði bætist „svartfuglasnaran“.
Hún var fyrr meir notuð mjög mikið hér í Eyjunum, en hefir nú fyrir löngu verið bannfærð til svartfugladráps. Þótti hún bæði ómannúðlegt veiðitæki, þareð með henni var aðallega drepin egglægjan, og við að hún var snöruð, féll eggið eða unginn óhjákvæmilega fyrir björg fram og tortímdist þar. Þótti þetta líka ganga mjög svo nærri fuglstofninum og tilheyra rányrkju.
Svartfuglasnara sést hér því ekki lengur til veiði. En til skamms tíma, og ef til vill enn þann dag í dag, er svartfuglasnaran notuð vestanlands og leggjum við eindregið til, að hún verði algjörlega bönnuð til fuglaveiða um landa allt.

Þetta er það helsta, sem félag bjargveiðimanna álítur að athuga þurfi og fá breytt með tilliti til fuglaveiða í Vestmannaeyjum, er hið nýja fuglaveiðifrumvarp verður tekið til umræðu á Alþingi.

Vestmannaeyjar jan. 1953
F.h. Félags bjargveiðimanna, Vestmannaeyjum


Fundargerð frá fundi í Félagi bjargveiðimanna

Fundargerðir frá fyrstu árum félagsins hafa glatast. Ein fundargerð er þó í safni Árna Árnasonar, og kemur til af því, að ritari mætti ekki á mikinn hitafund í félaginu sumarið 1955, og tók því formaðurinn að sér að skrifa fundargerð á laus blöð:

Laugardaginn 2. júlí `55.
Fundur haldinn í Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja og settur kl. 21:00 í Akógeshúsinu við Hilmisgötu. Vegna fjarveru ritara var ekki hægt að lesa upp fundargjörð síðasta fundar.
Formaður afsakaði fjarveru hans og bað Sigfús Johnsen að vera fundarstjóra, en tók sjálfur að sér fundarritarastörf.
Pétur Guðjónsson harmaði mjög, að ekki var hægt að lesa upp fundargjörð síðasta fundar og kvaðst mundi vissulega þurfa að gagnrýna gerðir og samþykktir nefnds fundar viðkomandi veiði á Heimalandi, sem og því að fella úr gildi þær gerðar félagssamþykktir, sem miðuðu að því að útiloka leyniveiði og skipuleggja Heimalandsveiðina betur en verið hafði, en þetta beinlínis orsökaði það, að á fundinum hefði verið samþykkt, að þeir, sem fengju veiðileyfi þyrftu ekki að vera í bjargveiðimannafélaginu.
Formaður taldi, að Pétur misskildi (fundargerðina) fundarsamþykktina, þar eð samkvæmt upplýsingum bænda, mættu þeir senda menn, hver fyrir sína jörð, til Heimalandsveiða og ekki væri hægt að skylda þá til þess að ganga í félagið; – þeir mættu nytja sín hlunnindi óbundnir af bjargveiðimannafélaginu og gætu þannig orðið 24 menn til veiða eða einn fyrir hvern völl (2 jarðir), auk þeirra, sem væru í bjargveiðimannafélaginu og keyptu sín veiðileyfi.
Nú væri hins vegar reyndin, að einmitt þarna yrðu árekstrar, þ.e. milli þeirra frá jörðunum og félaga bjargveiðimanna. Báðir hefðu rétt til veiða, jarðamenn, passalausir og gjaldfríir, en hinir með keypt veiðileyfi og félagsbundnir, hvorugur vildi fyrir öðrum víkja, og allt lenti í báli og rifrildi.
Dæmi væru til, að Pétur og Páll segðust vera frá hinni og þessari jörðinni og stunduðu veiðar af kappi, þó að þar væri um leyniveiðimenn að ræða, sem veiddu í algjöru leyfisleysi, segðust engan passa þurfa og hinum félagsbundna manni varðaði ekkert um sínar veiðigerðir, og gæti hann farið fjandans til, ásamt bjargveiðimannafélaginu.
Þá benti formaður líka á, að sumir bændur virtust leyfa 2-3 mönnum samtímis veiði, og bændur væru að leigja veiðirétt til þeirra, algjörlega utan við starfssvið umboðsmanns síns og án hans vitundar, sbr. veiðileyfi Heima-, Mið- og Yztakletts. Allt ylli þetta miklum árekstrum, sem mjög erfitt væri að laga, nema með góðri stjórn jarðabændafélagsins og samvinnu við þá. Sagðist formaður hafa átt tal um allt þetta við formann jarðabændafélagsins, Helga Benónýsson, og hefði hann lofað að taka mál þetta til rækilegrar meðferðar á fundi jarðabænda sunnudaginn 3. júlí (á morgun).
Miklar umræður og æði fjörmiklar urðu um þetta, og tóku til máls Guðmundur Guðjónsson, Þórarinn Guðjónsson, Sigfús Johnsen, Jón Runólfsson, Guðjón Jónsson, Pétur Guðjónsson, töluðu margir þeirra oft um málið fram og til baka.
Pétur upplýsti þá, að samkv. fundarsamþykkt jarðabændafélagsins hefðu bændur engan rétt til að senda menn frá sér til veiða á heimalandinu; þeir mættu fara sjálfir, en ekki senda neina menn aðra. Það væri umboðsmanns bænda að úthluta veiðileyfi og sjá um, að ekki væri ofsetið og réttilega með farið, og vitanlega algjörlega óleyfilegt að senda marga menn til veiða dag hvern. Hvikaði hann því alls ekki frá sinni tillögu um, að veiðileyfi fengju aðeins þeir, sem væru í bjargveiðimannafélaginu.
Guðjón Jónsson áleit þetta rangt, taldi, að hver bóndi hefði fullkominn rétt til þess, t.d. að senda vinnumann sinn til veiða, og kæmi sú nytjun á leigumála hans félaginu ekkert við. Urðu nú allharðar umræður um stund um réttmæti þessa sem og hitt, hvort fundarsamþykkt jarðabændafélagsins um þetta væri lögmæt, þar eð ekki hefði hver og einn bóndi undirskrifað samþykktina, en svo virtist vera nauðsynlegt til þess hún gæti tekið ráðstöfunarrétt einstaklingsbænda á veiðiréttinum hans af þeim og lagt í hendur umboðsmanns stjórnar jarðabændafélagsins. Sigfús Johnsen vildi framfylgja samþykkt síðasta fundar um það, að þeir sem veiðileyfi fengju, væru ekki skyldaðir til að ganga í bjargveiðimannafélagið, taldi að það ætti ekkert við suma og flesta þeirra manna að gera í félagið og best að vera laus við þá; – þeir væru eins og loftbólur, belgdu sig upp um veiðitímann, en hjöðnuðu síðan niður í ekki neitt og væri félaginu enginn styrkur að þeim.
Til þess að binda enda á mál þetta lagði svo formaður til, að Pétur Guðjónsson drægi tillögu sína um það, að enginn fengi veiðileyfi, nema að gerast meðlimur í bjargveiðimannafélaginu, til baka, en sama fyrirkomulag yrði látið gilda í sumar um veiðileyfi og fyrirkomulag og gilt hefði síðastliðið sumar, en stjórn félagsins ynni svo að þessu í haust, ásamt stjórn jarðabændafélagsins, þar eð ekki ynnist tími til að ganga frá þessu á viðunandi hátt, áður en veiðar hæfust þetta árið.
Ekki varð þetta að samkomulagi, og eftir nokkurt þras var tillaga Péturs borin upp og samþykkt með 10 gegn 5, en hún var um það, að fara þess á leit við jarðabændafélagið, að enginn fengi veiðileyfi hjá umboðsmanni þeirra, nema hann væri skilyrðislaust góður og gildur félagi í bjargveiðimannafélaginu. Var, sem sagt, samþykkt þessari beint til jarðabændafélagsins og umboðsmanns þeirra, Guðjóns bónda á Oddstöðum Jónssonar, er sat fundinn. Þá ræddi formaður nokkuð samvinnu jarðabændafélagsins og bjargveiðimannafélagsins og kvað skorta nokkuð á, að hún væri svo góð sem æskilegt væri, og hvergi nægjanleg til þess að koma þessum málum á góðan grundvöll. Fleiri mæltu og á þá leið, og tóku til máls Guðmundur Guðjónsson, Sigfús Johnsen, Þórarinn Guðjónsson - oft -, Jón Runólfsson, Ágúst Ólafsson, Pétur Guðjónsson o.fl.
Þessu næst upplýsti formaður, að veiðilöggjöf bæjarins væri nú loks umdirrituð og staðfest af viðkomandi ráðuneyti; birtist hún í Lögbirtingablaðinu, (sennilega í dag) eða mánudag.
Þá skýrði hann og frá því, að talstöðvarnar hefðu komið flugleiðis í kvöld og mundu prófaðar og afhentar á mánudag, en hver eyja yrði að fá sér rafhlöður hjá H. Eir. og co. eftir þörfum, og hefði firmað lofað að hafa tilbúna 2 ganga pr. úteyjafélag. Þá minntist hann á, að úteyjamenn hittust í Elliðaey á veiðitímanum og stilltu vali samkomudags á sem heppilegastan hátt og ekki mjög seint á veiðitíma. Varð Guðmundur Guðjónsson fyrir svörum og kvað allt til reiðu myndi verða, en hann fengi þó leyfi til útkomu, ef hann væri heima um þær mundir.
Þá kom til umræðu verð á lunda í sumar. Lagði formaður eindregið til, að það yrði óbreytt frá fyrra ári, þ.e. 2.25 pr. stk. út úr bænum, 2.50- í kipputali (heildsölu) og 3.00 kr. í lausasölu. Voru allir þessu sammála og tillaga formanns samþykkt einróma.
Pétur Guðjónsson óskaði svo öllum góðrar veiði og áminnti menn um að fara ávallt sem varlegast við veiðarnar. Einnig talaði Þórarinn Guðjónsson um sama efni og beindi tali sínu einkum til ungu mannanna.
Þar eð fleira lá ekki fyrir fundi af sérstökum málum, las formaður upp lýsingu á viðlegu í Súlnaskeri sumarið 1940, sem varð söguleg vegna fárviðris, er skall yfir og olli viðlegumönnum miklum erfiðleikum.
Þá minntist hann og á slysahættur við fuglaveiðarnar og hvatti menn til varúðar og gætni. Las hann upp gamla bjargmannabæn, sem notuð var fyrr á tímum, en mundi nú vera fáum kunn í sínu rétta formi. Var góður rómur að þessu gerður.
Síðast gerði Jón Bryngeirsson fyrirspurn, hvort ekki væri gerlegt, að félagið beitti sér fyrir einni allsherjarsölu lundans í stað þess að hver og einn úteyjarflokkur væri að leita sér kaupenda hingað og þangað. Þessu svaraði formaður, að slík sameiginleg sala myndi ýmsum örðugleikum háð, t.d. yrði magnið allt of ofviða, þar eð fæstir vildu kaupa meir en 2 til 5 þús. stykki, sbr. kaupendur hér í bænum, sem væru fáir og smátækir. Benti formaður Jóni á „ORA“ í Rvík, sem hér keypti fugl til niðursuðu, en umboðsmaður þess væri Sigurður Gunnsteinsson. Annars kvað formaður, að hugsanlegt væri, að félagið aðstoðaði, t.d. næsta sumar, við sölu fugls, með því að auglýsa í blöðum í Rvík og hér, að það gæti útvegað væntanlegum kaupendum lunda, og gætu þeir þá snúið sér til félagsins, sem gæfi allar upplýsingar og tengdi saman seljanda og kaupanda. Vart kæmi þessi fyrirgreiðsla að notum nú, þar eð svo stuttur tími væri til stefnu, enda vel flestir búnir að ráðstafa veiði sinni. Mæltist þetta vel fyrir meðal fundarmanna.
Hávarður Sigurðsson, gjaldkeri félagsins, kom með þá tillögu að Gísli Bryngeirsson, Búastöðum yrði gerður að gjaldfríum félagsmanni. Var tillagan borin upp og samþykkt með lófataki.
Að lokum minntist formaður og las upp óprentuð eftirmæli um Svavar Þórarinsson frá Suðurgarði, er lést 1950, talinn hafa drukknað af skipi á leið frá Rvík, en Svavar var á hérvistartímum sínum einn af færustu siga- og bjargveiðimönnum Eyjanna. Hafði hans aldrei verið minnzt neitt innan félagsins, en þótti vel viðeigandi að svo væri gert.
Voru fundarmenn ánægðir með upplestur og gerð eftirmælanna og þökkuðu formanni lesturinn.
Fleira ekki mælt eða fyrirtekið. Fundi slitið kl. 24:00. Á. Árnason.


Eitt af lokaerindum Árna Árnasonar, flutt á fundi í Félagi bjargveiðimanna, líklega árið 1957 eða 1958

Af þessu erindi má ráða, að Árni er að láta af störfum sem formaður í félaginu. Ekki voru allir félagsmenn, sem kunnu að meta störf hans, eins og kemur fram í máli hans hér, brigzluðu honum og öðrum stjórnarmönnum um leti og ódugnað. Finna má, að Árna hefur sárnað þetta, enda vann hann félaginu af miklum heilindum og dugnaði öll þau ár, sem hann gegndi þar formennsku. Reyndar kunnu flestir bjargveiðimenn honum miklar þakkir fyrir óeigingjarnt starf og sýnt var, að erfitt yrði að feta í fótspor hans sem formanns. Eitt af aðalmálum þessa félags voru ráðstafanir gegn ágangi manna á svartfuglinn og skot upp í fuglabjörgin. Þetta hef ég nokkuð skýrt fyrir ykkur áður, svo að ekki er ástæða til að fara að rifja það upp.
Bæjarstjórnin samþykkti þó ályktun um þetta, að banna skot og dráp svartfugls, en ekki fékkst þó staðfesting á því í þinginu eða á viðkomandi veiðitímabili. Þá skrifaði ég til þings og stjórnar í sambandi við hin nýju veiðilög og tók þar inn í friðunarákvæði á svarfugli á takmörkuðum svæðum fyrir skotum, snöru og svartfuglafleka; einnig bann við skotum hér í Eyjum frá miðjum apríl til 1. september.
Tók Karl Guðjónsson að sér flutning þessa máls og gekk allt vel og voru tillögurnar héðan allar samþykktar við fyrstu og aðra umræðu. En við þriðju umræðu og í sameinuðu þingi, breyttist þetta mjög, þareð þá komu þeir til skjalanna sérfræðingar milliþinganefndar, Þorsteinn Einarsson og Finnur Guðmundsson.
Breyttu þeir tillögum okkar og misþyrmdu þeim þannig, að engu var líkara en þar væru hálfbjánar að verki. Reyndin varð sú, að snara var bönnuð og flekinn, en þó leyfðar undanþágur á takmörkuðum svæðum, ef samþykki menntamálaráðuneytisins kæmi til. Þó var algjörlega bannað að nota bandingja á flekunum við Grímsey. Lundann friðuðu þeir vitringarnir frá 19. maí til 15. ágúst, ásamt svartfugli, en á takmörkuðum svæðum, þar sem fuglaveiðar teljast til jarðarnytja, skal heimilt að veiða sem áður, en þó skal leyfi ráðuneytisins til hverskonar innanhéraðasamþykkta um lunda- og svartfuglaveiði. Hversvegna lundafriðunin þótti nauðsynleg, veit ég ekki, en hún var þó samþykkt samkv. tillögum fuglasérfræðinganna Þorsteins og Finns.
Nú lá fyrir að útbúa nýja veiðilöggjöf fyrir Vestmannaeyjar í samræmi við hin nýju fuglafriðunarlög og staðhætti hér, þareð nýju lögin gengu í gildi 1. jan sl. Var það vitanlega jarðarbænda að útbúa veiðilöggjöfina fyrir nytjar sínar í samráði við bæjarvöldin. En þetta dróst nú vegna annríkis ráðandi manna mánuð eftir mánuð. Átti ég oft og mörgum sinnum tal um þetta við formann jarðabændafélagsins og lagði að honum að hefja störf tímanlega, en allt kom fyrir ekki. Hann var tímalaus.
Tókum við þá höndum saman, Guðjón á Oddsstöðum og ég, og gerðum atlögu að bæjarfógetafulltrúa og bæjarstjóra, sem lofuðu góðu, en þar við sat. Ég ræddi þá við bæjarstjóra og kom okkur saman um, að ég skyldi útbúa frumdrög að veiðilöggjöf, sem svo bæjarstjórnin umfjallaði og útbyggi til samþykktar menntamálaráðuneytisins. Þetta gerði ég, og var hin nýja veiðilöggjöf samþykkt hér og send til Reykjavíkur. Og þar er hún enn undirrituð af bæjarstjórn hér, en vantar staðfestingu ráðherra.
Þrátt fyrir margar tilraunir, samtöl við ráðuneytið um afgreiðslu strax, hefir enn ekkert gengið. Fyrst týndu þeir bréfinu og var þá sent annað; bæjarstjóri hefir hringt 2-3 sinnum, formaður jarðabænda félagsins 2-3 og ég tvisvar og hert á svarinu, en það er enn ókomið. Af þessum ástæðum þótti okkur ekki ráðlegt að halda fund, fyrr en eitthvað fréttist um leyfi til veiðanna. Gústaf Sveinsson sagði þó á laugardaginn, að við skyldum bara ganga út frá jákvæðu svari og hefja allan undirbúning samkv. venju til sumarveiðanna. Og hið sama sagði bæjarstjóri, bæjarstjórnin hefði samþykkt frumvarpið og við skyldum hefja undirbúning eins og venjulega.
Þetta stagl og stapp hefir töluverða snúninga í för með sér, og get ég ekki meint, að setið hafi verið auðum höndum í málinu, þótt hinsvegar væri ekki í þann tíma hægt að ná stjórninni allri saman til starfa, þareð 3 af þeim standa stöðugt í fiskveiðastörfum og sá fjórði við skyldustörf allan daginn, en við útgerðarstörf í frítímum sínum og yfirhlaðinn á því sviði. Þetta hlaut því að lenda á mér, og hef ég gert eins og mér var bezt. Ég tek þetta allt fram til þess að svara fyrrnefndum félgsmanni – um ónytjungshátt okkar stjórnarmanna. Ég skal þá líka benda á, að í haust var það samkv beiðni gjaldkera að fresta fundi um óákveðinn tíma vegna óinnheimtra félagsgjalda, sem von var um, að greiddust síðla hausts og vetrarmánuðina, vonir, sem þó að mestu brugðust. En að halda fund meðan á vertíð stendur, yrði aldrei vinsælt eða heppilegt.
Ég vil nú lesa fyrir ykkur hina nýju veiðilöggjöf eins og frá henni var gengið til ráðuneytisins og skal fram taka, að það sem FYLKIR birti, var ekki hin rétta löggjöf, heldur uppkast, sem tók miklum breytingum, t.d. hvað svartfuglaveiði snertir.
Eins og ykkur er kunnugt var kvöldvaka haldin í útvarpinu fyrir nokkru, kvöldvaka frá Eyjum, sem fékk prýðilega dóma fyrir efni og flutning. Ég var feginn að geta komið þar fram sem fulltrúi veiðimanna, og held ég, að lýsing veiðimanna hafi tekizt allvel, þótt fljótt yrði yfir sögu að fara vegna takmörkunar á tíma. Væri ekki ósennilegt, að fleiri slíkar mundu á eftir fara, þareð allir leystu verk sín af hendi með ágætum og þá yrðu tekin fyrir atriði, sem snerta einhverja aðra strengi, t.d. létt hjal o.fl.
Og í sambandi við þetta komum við þá að kaupum segulbandstækjanna, sem við höfðum samskot fyrir í haust, sem leið. Þar sem því máli var ekki vísað til framkvæmdastjórnarinnar, þarf ég ekki annað að segja en, að Sigfús Johnsen mun gefa skýrslu þar um. En vissulega væri gott að geta sjálfur tekið upp á spólurnar og valið efni, sem svo væri sent til flutnings í útvarpi. Og þess utan upptekið allan þann fróðleik, sem fellur í gleymsku við fráfall elstu núlifandi fuglamanna.
Ég hygg, að ég sé nú búinn að gefa fullnaðarskýrslu yfir störf, sem mig sem formann varðar. Er þetta nokkuð langt mál, en ég kaus að hafa það ýtarlegt, þar sem um síðustu formannsskýrslu mína er að ræða, og til þess að menn fengju rétt innsæi á vettvang málanna.
Ágúst Ólafsson mun svo ábyggilega þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum, og eitthvað mun hann hafa á könnunni, þó að ekki sé það eins kröftugt og Suðureyjarölið, eitthvað um gjöld, innheimtu og ráðstafanir veiðileyfa í sambandi við innheimtuna. Ég læt hann um það.
Og Hlöðver Johnsen, — það væri synd að sleppa honum alveg, enda hefir hann lofað að gefa félagsmönnum lýsingu á hinum nýja vegi upp á Geldunginn, sem þeir lagfærðu fyrir nokkru.
Ég man þá ekki eftir meira í bili, sem ég þarf að standa skil á. — Ég þakka það traust, sem ég hefi notið hjá ykkur öllum og heiti ykkur og félaginu því, að vinna að málum þess með ráðum og dáð, hvar svo sem mér kann að verða skipað innan félagsins. — Það má ávallt finna eitthvað að mönnum og málefnum, en þær aðfinnslur eiga ekki að vera á þann hátt að leggja góðan félagsskap í rúst.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit