Ritverk Árna Árnasonar/Magnús Guðmundsson (Vesturhúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. ágúst 2015 kl. 15:31 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. ágúst 2015 kl. 15:31 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit


Magnús Guðmundsson.

Kynning.

Magnús Guðmundsson formaður og útgerðarmaður á Vesturhúsum fæddist 27. júní 1872 og lést 24. apríl 1955.
Foreldrar hans voru Guðmundur Þórarinsson bóndi á Vesturhúsum, f. 28. desember 1850, d. 13. mars 1916, og kona hans Guðrúnar Erlendsdóttir húsfreyja, f. 1. febrúar 1841, d. 14. júní 1921.

Kona Magnúsar var Jórunn Hannesdóttir húsfreyja, f. 30. september 1879, d. 24. janúar 1962.
Börn Magnúsar og Jórunnar voru:
1. Hansína Árný, f. 12. janúar 1904, d. 16. september 1980, kona Ársæls Grímssonar bónda.
2. Magnús húsasmíðameistari, f. 12. september 1905, d. 26. maí 1978, kvæntur Kristínu Ásmundsdóttur húsfreyju.
3. Nanna húsfreyja, f. 12. september 1905, d. 9. september 1975, gift Helga Benónýssyni búfræðingi.
4. Guðmundur, f. 20. september 1916, d. 18. ágúst 1936.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Magnús byrjaði snemma fuglaveiðar eins og tíðkaðist á þeim tímum, og alls konar bjarggöngur vegna nytjunar á jörð föður síns. Voru nytjarnar miklar bæði í Álsey, Heimalandinu, Smáeyjum, Súlnaskeri og víðar.
Magnús gerðist því brátt slyngur í fjöllum og við veiðar allar svo að orð fór af. Er vitanlegt, að Magnús taldist til þeirra stóru í þessari íþróttagrein og voru þó engir meðalmenn við að keppa. Allar úteyjarnar hefur Magnús gist til bjargveiða, en þó verið lengst af í Suðurey, Álsey og Bjarnarey.
Ein mesta fjallaferð hans mun þó hafa verið, þegar hann og Gísli sálugi Lárusson lögðu veginn upp á Geldung árið 1897, enda varð sú för landfræg.
Magnús stundaði lundaveiðar allt til ársins 1951; þá var hann í Álsey það sumar, en þá fann hann sig ekki nógu styrkan til þess að fara oftar. Ekki er að efa, að Magnús hefir unað sér vel við veiðar, bæði fugl og fisk, enda mjög aflasæll formaður bæði á stórskipum og vélbátunum.
Hann er heiðursfélagi í bjargveiðimannafélaginu.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Magnús Guðmundsson (Vesturhúsum)


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.