Landnám

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Elstu heimildir um Vestmannaeyjar eru í Landnámu, þar sem segir frá Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum. Þegar hann kom til landsins dvaldist hann einn vetur á Ingólfshöfða, og hélt svo suður með landinu í vesturátt í leit að öndvegissúlum sínum. Þá fann hann bæ Hjörleifs, fóstbróður síns, og var hann þar nýlátinn. Úti af Hjörleifshöfða sá hann báta með hinum írsku þrælum Hjörleifs, en bátarnir stefndu að eyjaklasa suður af Landeyjum. Eyjarnar voru þá nefndar eftir þrælunum, en Írar voru kallaðir Vestmenn á þessum tíma. Ingólfur elti þrælana uppi og drap þá, og eru mörg örnefni á eyjunum gefin eftir þrælunum, til dæmis er Helgafell nefnt eftir Helga sem var veginn þar, og Dufþekja í Heimakletti er nefnd eftir Dufþaki, sem sagður er hafa stokkið þar niður til þess að komast hjá því að falla fyrir sverði Ingólfs.

Um Vestmannaeyjar segir í Landnámubók (Sturlubók):

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er Duftþakur lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Fyrsti landnámsmaðurinn

Fyrsti landnámsmaður Eyjanna er sagður vera Herjólfur Bárðarson, en hann bjó í Herjólfsdal. Hann átti dótturina Vilborgu, sem eftir grjóthrun, sem lagði bæ Herjólfs í eyði, fluttist á Vilborgarstaði hjá Vilpu. Sögunni samkvæmt varaði hrafn Vilborgu við skriðunni og bjargaði þannig lífi hennar.

Föst búseta í Vestmannaeyjum hófst seint á landnámsöld, um 920, en eins og segir í Sturlubók (Landnáma eftir handriti Sturlu Þórðarsonar) „var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engin“ fyrir þann tíma. Fram á miðja 12. öld voru eyjarnar í eign bænda. Á árunum 1130-1148 keypti Magnús Einarsson, biskup í Skálholti, nær allar eyjarnar til Skálholtsstaðar.

Landnámsbærinn

Sjá aðalgrein:Landnámsbærinn

Fornleifar

Fornleifar í Vestmannaeyjum eru nokkrar.

Saga:     JarðsagaTyrkjarániðSurtseyjargosiðHeimaeyjargosiðLandnámÚtgerðVerslunHerfylkingin