Katrín Gísladóttir (Goðasteini)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Katrín Gísladóttir húsfreyja á Krossi í Mjóafirði eystra, síðar í dvöl í Eyjum, fæddist 2. október 1862 á Krossi og lést 30. október 1950 í Goðasteini.
Faðir hennar var Gísli bóndi á Krossi og Reykjum í Mjóafirði eystra, f. 20. mars 1832 á Karlsskála í Reyðarfirði, d. 5. mars 1904 á Krossi, Eyjólfsson bónda, síðast í Stóru-Breiðavík í Reyðarfirði, f. 1796 í Þingmúlasókn á Héraði, d. 10. október 1842, Guðmundssonar bónda, síðast á Berunesi í Reyðarfirði, f. 1768 á Klúku í Fljótsdal, d. 1834 á Berunesi, Bárðarsonar Guðmundssonar (Bárðarætt á Austurlandi), og konu Guðmundar Bárðarsonar, Sigríðar „eldri“ húsfreyju, f. 1777 í Fossárdal í Berufirði, d. 3. janúar 1852 á Berunesi, Eyjólfsdóttur bónda og hreppstjóra í Fossárdal Jónssonar.
Móðir Gísla á Reykjum og kona Eyjólfs í Stóru-Breiðavík var Katrín húsfreyja, f. 5. október 1798 í Austdal í Seyðisfirði, d. 6. júlí 1862, Árbjartsdóttir (Galdra-Árbjarts) bónda víða, en lengst á afbýlinu Ingveldarstöðum í Austdal í Seyðisfirði 1802-1818, f. um 1765 í Jórvíkurhjáleigu í Útmannasveit í Hjaltastaðaþinghá, d. 30. mars 1844 í Stóru-Breiðavík, Tómassonar (Galdra-Tóma), og konu Árbjarts, Guðrúnar (systir „Bjarna-Dísu“) húsfreyju, f. 1763 á Miðfjarðarnesi í Bakkafirði, d. um 1817, Þorgeirsdóttur Erlendssonar.

Katrín Gísladóttir.

Móðir Katrínar í Goðasteini og kona Gísla Eyjólfssonar var Halldóra húsfreyja og ljósmóðir, f. 27. júlí 1837 í Hólmasókn í Reyðarfirði, d. 3. janúar 1927 í Neskaupstað, Eyjólfsdóttir bónda í Stóru-Breiðavíkurhjáleigu í Reyðarfirði, f. 1804 í Vallanessókn á Héraði, d. 25. desember 1854, Péturssonar Bárðarsonar Guðmundssonar (Bárðarætt), og konu Péturs Bárðarsonar, Önnu húsfreyju, f. um 1768, Oddsdóttur Pálssonar, en móðir Odds var Anna dóttir Þórðar skólameistara og náttúrufræðings Vídalíns.
Þau Gísli og Halldóra, foreldrar Katrínar voru því þremenningar frá Bárði.
Móðir Halldóru húsfreyju og ljósmóður á Krossi og Reykjum og kona Eyjólfs í Stóru-Breiðavík var Sigríður „yngri“ húsfreyja, f. 12. maí 1815 á Berunesi við Reyðarfjörð, Guðmundsdóttir bónda, síðast á Berunesi, f. 1768 á Klúku í Fljótsdal, d. 1834 á Berunesi, Bárðarsonar Guðmundssonar (Bárðarætt á Austurlandi), og konu Guðmundar Bárðarsonar, Sigríðar „eldri“ húsfreyju, f. 1777í Fossárdal í Berufirði, d. 3. janúar 1852 á Berunesi, Eyjólfsdóttur bónda í Fossárdal Jónssonar.
Þau hjón Sigríður og Eyjólfur í Stóru-Breiðavík voru því systkinabörn.

Maður Katrínar Gísladóttur í Goðasteini, (9. október 1887), var Jóhann bóndi á Reykjum og Krossi í Mjóafirði, f. 21. september 1860 í Sandvík í Norðfjarðarhreppi, d. 3. maí 1924 á Eskifirði, Marteinsson bónda og formanns í Sandvík, f. 13. september 1824 þar, d. 12. maí 1861 þar, Magnússonar bónda í Sandvík, f. 17. október 1796, d. 3. maí 1861, Marteinssonar bónda í (Barðsnes)–Gerði í Norðfirði 1801, f. um 1756, d. fyrir mt. 1816, Jónssonar, og konu Marteins Jónssonar, Önnu húsfreyju, f. um 1758 á Nesi í Norðfirði, d. 24. desember 1829, Jónsdóttur „yngri“ á Nesbakka, Torfasonar.
Móðir Marteins í Sandvík og kona Magnúsar í Sandvík var Helga húsfreyja, f. um 1798 í Sandvík, d. 9. maí 1841, Hjörleifsdóttir bónda í Nesi og víðar í Norðfirði, f. 1764 á Geirólfsstöðum í Skriðdal á Héraði, d. 1820, Gunnarssonar, og konu Hjörleifs, Guðnýjar húsfreyju, f. 1773 á Bakka í Norðfirði, á lífi 1816, Einarsdóttur.

Móðir Jóhanns Marteinssonar og bústýra Marteins í Sandvík var Dagbjört, f. 14. apríl 1819 í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði, d. 13. mars 1904 á Krossi í Mjóafirði, Eyjólfsdóttir bónda í Keldudal og ráðsmanns á Reynistað í Skagafirði, f. um 1741 á Litlu-Seylu á Langholti þar, d. 5. des. 1821, Gunnlaugssonar bónda í Keldudal, f. um 1700, Eyjólfssonar, og konu Gunnlaugs, Herdísar húsfreyju, f. um 1712, d. 17. ágúst 1779, Einarsdóttur.
Móðir Dagbjartar og síðari kona Eyjólfs bónda í Keldudal var Þóranna húsfreyja, f. 1781 í Litlu-Hlíð í Goðdalasókn í Skagafirði, Magnúsdóttir bónda á Starrastöðum í Fremri-Byggð, en síðast í Garði í Hegranesi, skírður 15. september 1759, d. 22. september 1813, Magnússonar, og konu Magnúsar á Starrastöðum, Guðrúnar húsfreyju, f. 1762, d. 8. maí 1826, Stefánsdóttur Stefánssonar og konu Stefáns, Sólborgar húsfreyju Bjarnadóttur „gamla“ á Skjaldarstöðum í Öxnadal, Rafnssonar.

Æviferill

Í umsögn Þorvaldar Thoroddsen jarðfræðings
í bókinni „Árferði á Íslandi í þúsund ár“ segir m.a. um árið 1866 (bls. 275 til 278):

„Eitt af mestu harðindaárum á 19. öld og mikið ísaár. Þá lágu hafþök af ísi fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum og kom ísinn þegar í janúar að Sljettu og Langanesi, í febrúar rak hann inn að landi og í marzmánuði var hver vík og fjörður orðinn fullur af hafís og hvergi sást út yfir ísbreiðurnar af háfjöllum; fylgdu ísunum hörkufrost um allt land, svo víðast mátti fara þvert og endilangt yfir firði og víkur á lagnaðarísum, sem oft voru samfrosta við hafísinn, sem víðast lá fram undir maílok, en sumsstaðar fram í ágúst.

Vitnað skal í dagbók Sigmundar Long (samkv. Sigurði Helgasyni), þegar rætt er um veturinn og vorið 1867. Þar segir:

„Veturinn frá nýári var mjög harður með frostheljum og jarðbönnum. Gekk það jafnt yfir Hérað og fjörðu ... Vorið var að sínu leyti eins bágt, þrákalt og grasrýrt ... Fellir var mjög mikill um vorið. Í sumum sveitum urðu nokkrir nær sauðlausir, aðrir misstu helming og allir eitthvað.“

Katrín, sem fædd var 1862, var í fóstri frá 5-10 ára á miklum harðindaárum á Austurlandi, grasleysi og skepnufelli. Foreldrar hennar, sem voru vel bjargálna urðu að bregða búi og fara í vinnumennsku.
Börnunum var komið fyrir hjá nágrönnum. Katrín var hjá frænku sinni á Seyðisfirði um skeið. Þegar hagur batnaði komst hún aftur til foreldra sinna.
Hún fermdist 12 ára 1874. Þau Jóhann giftu sig í kirkju 9. október 1887, sem var „8. dagur eftir Trinitatis“.
Katrín og Jóhann fengu ekki jarðnæði í Mjóafirði eftir giftingu sína. Þau bjuggu í húsmennsku hjá foreldrum Katrínar á Reykjum í Mjóafirði, uns þau fengu inni sem þriðju bændur á Krossi þar.
Á Krossi bjuggu þau meðan Jóhann lifði, en eftir lát hans 1924 dvaldi Katrín hjá börnum sínum í Mjóafirði og í Neskaupstað, en 1935 fluttist hún til dóttur sinnar Ingigerðar Jóhannsdóttur og dvaldi með fjölskyldu hennar til dd. 1950.
Katrín var frekar lágvaxin, létt á fæti fram á síðustu stundir, stálminnug, kvæðasafn, söngvin með afbrigðum og steig þá oft létt dansspor með prjónana á óræðum hraða. Hún var mikil hannyrðakona, átti sér fasta viðskiptavini meðal vertíðarmanna í Eyjum, sem keyptu af henni sjóvettlinga.

Börn Katrínar og Jóhanns voru:
1. Eyjólfur Jóhannsson, sjúklingur, f. 23. apríl 1886, d. 3. okt. 1954.
2. Sigurður Jóhannsson bóndi og verkamaður, f. 7. des. 1887, d. 5. nóv. 1976, faðir Önnu Pálínu húsfreyju, konu Guðlaugs Guðjónssonar forstjóra frá Oddsstöðum.
3. Gísli Jóhannsson verkamaður og sjómaður, f. 11. febr. 1889, d. 19. júlí 1955, faðir
a) Maríu Gísladóttur, (Maju) húsfreyju á Burstafelli, konu Vilhjálms Árnasonar.
b) Páls Ólafs Gíslasonar bifreiðastjóra á Bólstað, síðar stöðvarstjóra í Reykjavík, manns Báru Sigurðardóttur húsfreyju.
4) Guðmundur, f. 25. jan. 1894, d. 12. júní 1894.
5) Helgi, verkamaður, f. 18. marz 1895, d. 16. marz 1964.
6) Halldór, f. 15. ágúst 1896, d. 11. sept. 1896.
7) Halldór trésmíðameistari í Heiðarbýli í Neskaupstað, f. 2. apríl 1900, d. 24. jan. 1976, kvæntur Lilju systur Þorsteins Víglundssonar skólastjóra og sparisjóðsstjóra, en þau Halldór og Lilja voru m.a. foreldrar
a) Ingu Jóhönnu húsfreyju, konu Hjörleifs Guðnasonar múrarameistara og húsvarðar í Gagnfræðaskólanum.
8) Ingigerður Jóhannsdóttir húsfreyja í Goðasteini, f. 6. sept. 1902, d. 10. des. 1993, kona Þorsteins Víglundssonar.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Ingigerður Jóhannsdóttir, munnl. heimild.
  • Prestþj.bækur.
  • Skagfirskar æviskrár – Tímabilið 1850-1890. Margir höfundar, en aðalhöfundur: Guðmundur Sigurður Jóhannsson. Umsjón og ritstjórn: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga, Sauðárkróki 1981-1999.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.
  • Mjófirðingasögur. Vilhjálmur Hjálmarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1987-1990.
  • Árferði á Íslandi í þúsund ár. Þorvaldar Thoroddsen safnaði og samdi. Hið íslenzka fræðafélag í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1916-17.
  • Sigurður Helgason frá Grund í Mjóafirði. Handrit unnið fyrir Ingigerði Jóhannsdóttur og Þorstein Þ. Víglundsson: Nokkrir afkomendur Hinriks Sigurðssonar bónda á Viðborði á Mýrum í Hornafirði árið 1703 og Guðrúnar Arngrímsdóttur konu hans.
  • Manntöl.
  • Íslendingabók.is.
  • Pers.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.